Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95/2021 Hleinar

Árið 2021, mánudaginn 19. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir.

Mál nr. 95/2021, kæra á afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs á fundi 21. júní 2021 um að grenndarkynna byggingaráform í landi Hleina 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hleinum, Múlaþingi, þá afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs frá 21. júní 2021 að grenndarkynna byggingaráform þeirra. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi og byggingarleyfi verði veitt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 9. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Kærendur, eigendur jarðarinnar Hleinar 1, sóttu um byggingarleyfi fyrir 95 m2 skemmu hinn 12. maí 2021. Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings leitaði umsagna  Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Brunavarna á Austurlandi, Minjastofnunar Íslands, og HEF veitna 19 s.m. og bárust umsagnir  frá Brunavörnum 21. s.m. og Minjastofnun 22. júní s.á. Brunavarnir gerðu engar athugasemdir en Minjastofnun gerði athugasemdir við að framkvæmdir hefðu hafist áður en álit stofnunarinnar lægi fyrir. Á fundi heima­stjórnar Fljótsdalshéraðs 21. júní s.á. var samþykkt tillaga umhverfis- og framkvæmda­ráðs Múlaþings frá 16. s.m. um að grenndar­kynna áformin í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindið var grenndarkynnt 22. júní s.m. og var veittur frestur til að koma að athugasemdum til 23. júlí 2021.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að umrædd skemma sé innan byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2017 þegar byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi hafi verið gefið út án þess að fram færi grenndarkynning eða deiliskipulag væri gert. Byggingaráform hafi því legið fyrir frá þeim tíma og tilvísanir umhverfis- og framkvæmdaráðs eigi ekki við. Þá séu Hleinar 1 lögbýli sem teljist vera landbúnaðarland samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, en samkvæmt aðalskipulaginu sé heimilt að reisa mannvirki sem tengist landbúnaðarnotkun án þess að gert sé sérstakt deiliskipulag. Hönnun skemmunnar sé aukinheldur með þeim hætti að hún falli vel inn í landslagið og að íbúðarhúsinu sem þegar sé á jörðinni. Þá sé skemman ekki í sjónlínu við neinn þeirra nágranna sem grenndarkynnt var fyrir.

Af hálfu Múlaþings kemur fram að sveitarfélagið telji umrædd byggingaráform falla að skilmálum Aðalskipulags Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og að þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið hafi umsókn um byggingaráform verið vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings til ákvörðunar um grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar því við hina kærðu afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, en það fellur utan valdheimilda nefndarinnar að veita kærendum byggingarleyfi.

Með hinni kærðu afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs var staðfest afgreiðsla umhverfis- og framkvæmda­ráðs Múlaþings þess efnis að grenndarkynning á byggingarleyfisumsókn kærenda skyldi fara fram. Ákvörðun um grenndarkynningu er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar, en endanleg afgreiðsla slíkrar umsóknar og útgáfa byggingarleyfis er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Gögn málsins bera með sér að grenndarkynningu er ekki lokið og er því ljóst að ekki liggur fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiti byggingarfulltrúi ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá málsmeðferð við ákvörðunartökuna í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.