Árið 2019, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 71/2019, kæra vegna einkaafnotaréttar á hluta lóðar framan við íbúðir á neðstu hæð við Skógarsel 41-43.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, óskar íbúi og eigandi, Skógarseli 41, Reykjavík, þess að úrskurðarnefndin kveði á um að fimm metra einkaafnotaréttarflötur fylgi íbúðum neðstu hæða Skógarsels 41-43 í samræmi við skilmála deiliskipulags Alaskareits, Skógarsels, og að rétt sé að mörk umræddra flata verði sýnd á aðalteikningum arkitekta.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2019.
Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Alaskareits, Skógarsels, sem samþykkt var 12. júlí 2002 og tók gildi 7. janúar 2003. Í skilmálum deiliskipulagsins fyrir fjölbýlishúsin á lóðunum við Skógarsel 41-43 er m.a. tekið fram að íbúðir á neðstu hæðum hafi einkaafnotarétt á lóð sem nemi fimm metrum til suðurs frá húsvegg.
Kærandi tekur fram að láðst hafi að merkja einkaafnotaréttarfleti sem áskildir séu í deiliskipulagsskilmálum á aðalteikningar sem samþykktar hafi verið í byggingarnefnd í júlí 2003. Arkitektar hafi unnið reyndarteikningar árið 2008 sem hafi sýnt einkaafnotafletina og voru þær teikningar samþykktar í byggingarnefnd í mars 2008 og júní 2009. Við stöðuúttekt byggingarfulltrúa vegna lokaúttektar á húsnæðinu í mars 2014 hafi verið taldir annmarkar á eignaskiptayfirlýsingu og byggingarnefndarteikningum. Í framhaldi af því hafi arkitektar unnið reyndarteikningar á ný þar sem umræddir fimm metra einkaafnotafletir hafi verið sýndir. Þær teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa í maí 2015 með athugasemd um að lokaúttekt væri áskilin, en í framhaldi af því hafi verið gerð ný eignaskiptayfirlýsing. Ekki hafi verið unnt að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu frá 2015 þar sem eigendur tveggja íbúða af þrjátíu í fjölbýlishússinu hafi ekki viljað samþykkja að fimm metra einkaafnotafletir yrðu sýndir á reyndarteikningum sem fylgdu yfirlýsingunni, þrátt fyrir ákvæði deiliskipulagsskilmála. Brýnt sé að fá úr deilumálinu skorið þar sem ekki hafi verið unnt að framkvæma lokaúttekt á byggingunni sökum þess að ekki liggi fyrir leiðrétt eignaskiptayfirlýsing, með tilheyrandi reyndarteikningum, sem hefur fengist þinglýst.
Borgaryfirvöld benda á að ekki verði séð að um sé að ræða neina kæranlega stjórnvaldsákvörðun í málinu skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Svo virðist sem kærandi sé að óska eftir staðfestingu nefndarinnar á deiliskipulagsskilmálum vegna einkaréttarlegs ágreinings um eignaskiptayfirlýsingu og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Það er því hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til lögmætis kæranlegra ákvarðana tiltekinna stjórnvalda, en það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að taka stjórnvaldsákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna sem einstökum stjórnvöldum er falið í lögum. Í máli þessu liggur hvorki fyrir erindi kæranda til borgaryfirvalda né ákvörðun þeirra vegna umræddra sérafnotaflata sem borin verður undir úrskurðarnefndina.
Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.