Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2002 Þúfukot

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2002, kæra eiganda jarðarinnar Þúfukots, Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar Kjósarhrepps við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2002, framsendir Skipulagsstofnun kæru Þuríðar I. Jónsdóttur hdl., f.h. Ó, eiganda jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots. 

Kærandi krefst þess að vegurinn verði lagður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 31. maí 2002, gerir lögmaður kæranda máls þessa athugasemdir við vegarlagningu sveitarstjórnar á landareign hans.  Kvað hann kæranda aldrei hafa veitt samþykki sitt fyrir framkvæmdunum og að um þær hafi ekki verið samið.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar, dags. 19. júní 2002, til lögmanns kæranda kemur fram að hreppsnefnd telji sig vera í fullum rétti vegna framkvæmdarinnar.  Með bréfi lögmanns kæranda til Kjósarhrepps, dags. 28. júní 2002, var óskað svara við því hvers vegna vegstæðið væri ekki í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Frekari bréfaskriftir áttu sér stað milli aðila vegna málsins en sættir tókust ekki og var málinu af þeim sökum vísað til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi heldur því fram að framkvæmdir sveitarstjórnar á landi hans séu í ósamræmi við staðfest skipulag svæðisins.  Allar götur frá því í maí árið 2002 hafi kærandi reynt að ná samkomulagi við sveitarstjórn um vegstæðið en án árangurs.  Því kæri hann málið til úrskurðarnefndarinnar og krefjist þess að vegurinn verði gerður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð vegar í landi jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vegarins voru hafnar í maí árið 2002.  Kæran er dagsett hinn 23. desember 2002 og barst hún úrskurðarnefndinni með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2002. 

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda er kunnugt um hina kærðu ákvörðun. 

Eins og áður segir voru hinar umdeildu framkvæmdir hafnar í maí árið 2002 en þá leitaði kærandi upplýsinga um verkið hjá hreppsnefnd Kjósarhrepps.  Allt að einu setti hann ekki fram kæru í málinu fyrr en a.m.k. um hálfu ári eftir að framkvæmdir hófust.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi byrjað að líða hinn 31. maí 2002, eða þann dag er kærandi sett fram skriflega fyrirspurn vegna framkvæmdarinnar. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

________________________________
Ásgeir Magnússon

 

____________________________            ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir