Ár 2009, miðvikudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 70/2007, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir J, Dísarási 7, Reykjavík, lóðarhafi í Hamrabrekkum, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 4. júlí 2007 á beiðni um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðar í Hamrabrekkum, Mosfellsbæ.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Gildandi deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í Hamrabrekkum er frá árinu 1985 þar sem gert var ráð fyrir 30 lóðum, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð. Í skilmálum deiliskipulagsins segir eftirfarandi um stærð og gerð húsa: „Hús skulu ekki vera stærri en 50 m² að gólfflatarmáli, einnar hæðar en hugsanlega með lofti undir hæsta hluta þaks. Þök skulu vera söðulþök eða þök með hallandi flötum í tvær gagnstæðar áttir þótt ekki mætist í mæni og skal stefna mænis eða brotlína þakflata vera austur–vestur eða norður–suður.“ Fyrir liggur að byggt hefur verið á nokkrum lóðum í Hamrabrekkum.
Með erindi, dags. 15. mars 2004, óskuðu eigendur 27 lóða í Hamrabrekkum eftir því að framangreindu deiliskipulagi fyrir Hamrabrekkur yrði breytt. Þar sagði m.a: „Við undirritaðir eigendur að lóðum í Hamrabrekkum, deiliskipulagi úr landi Miðdals 2 í Mosfellsbæ, óskum eftir breytingum á deiliskipulagi því sem nú gildir á svæðinu. Óskum við eftir því að grein nr. 6, sem fjallar um stærð og gerð húsa, verði breytt skv. breyttum lögum í byggingarreglugerð nr. 115 eins og hér segir: Stærð húsa sem samkvæmt núverandi deiliskipulagi er takmörkuð við 50 m² gólfflatarmál verði breytt og takmörkuð við 160 m² gólfflatarmál. Í ljósi þess að jarðskjálftar á síðustu árum hafa farið illa með hús og stefnt fólki í hættu þar sem léttar undirstöður hafi verið notaðar, þá verði leyft að steypa undirbyggingu húsa. Leyft verði að nýta undirbyggingu húsa (kjallara) sé húsið í halla eða þar sem húsið rís ekki hærra en ella vegna nýtingu kjallara.“ Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. mars 2004. Þar kom fram neikvæð afstaða nefndarinnar gagnvart erindinu.
Með erindi, dags. 30. apríl 2004, var óskað eftir því að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. maí 2004 var erindið tekið fyrir og kom fram í fundargerð að nefndin væri neikvæð gagnvart erindinu og var ítrekuð sú afstaða nefndarinnar að ekki yrði heimilt að reisa hús sem væru stærri að heildargrunnfleti en 110 m² og geymslu sem væri að hámarki 20 m². Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. júlí 2004 ákvað nefndin að leggja til við bæjarstjórn að tillaga þessa efnis yrði samþykkt til kynningar í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þessi ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs 22. júlí s.á. Var breytingartillaga deiliskipulagsins auglýst og kynnt. Þegar frestur til athugasemda var liðinn fjallaði sveitarstjórn um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Athugasemd vegna skipulagstillögunnar barst frá einum aðila þar sem þess var krafist að bæjarstjórn hafnaði henni, m.a. með vísan til þess að aukið byggingarmagn sumarhúsa myndi leiða til varanlegrar búsetu á svæði sem væri óhentugt til íbúðarbyggðar. Með því væri verið að heimila nýtt íbúðarhverfi í bænum þar sem aðrir og slakari skilmálar giltu en almennt í íbúðarhverfum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. september 2004 var fjallað um málið að nýju að loknum athugasemdafresti. Í fundargerð var vísað til fram kominna athugasemda og umhverfisdeild falið að kanna hvort og í hvaða mæli heilsársbúseta væri á svæðinu ásamt aðkomu að því. Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar lögð fyrir bæjarstjórn 29. september 2004. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. október 2004 var eftirfarandi fært til bókar: „Nefndin féllst á þá athugasemd sem barst á kynningartíma að hætta á heilsársbúsetu á svæðinu aukist til muna með heimild til stækkunar á frístundahúsum sérstaklega með tilliti til legu svæðisins við Nesjavallaveg. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði ekki samþykkt.“ Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. október 2004.
Á árinu 2006 fjallaði skipulags- og byggingarnefnd að nýju um mögulegar breytingar á deiliskipulagi í Hamrabrekkum og var bókað á fundi nefndarinnar hinn 1. ágúst 2006 eftirfarandi: „Nefndin getur fallist á að leyfileg stærð frístundahúsa á svæðinu verði aukin í 60 fermetra auk 10 fermetra geymslu.“
Með bréfi, dags. 16. apríl 2007, sendi kærandi eftirfarandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar: „Á árinu 2004 var lagt inn erindi til skipulags- og byggingarnefndar, sem varðaði breytingar á deiliskipulagi við Hamrabrekkur. Þessar breytingar fólu í sér að heimilt yrði að reisa stærri hús en upphaflegt skipulag svæðisins gerði ráð fyrir. Ástæða umsóknarinnar var, að úr gildi voru fallin ákvæði um hámarksstærð frístundahúsa og viðtekin venja orðin í skipulagsákvörðunum sveitarfélaga, að heimila stærri byggingar. Tillaga þessi var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 22. júlí 2004 en síðan hafnað á 124. fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. október 2004. Samkvæmt viðtölum við hr. Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúa, og með tilvísun í fundargerð 195. fundar skipulags- og byggingarnefndar virðast breytt viðhorf nú ríkjandi. Í samræmi við það viljum við fara fram á það, að fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði endurskoðuð og málið tekið fyrir á nýjan leik. Vísað er í áður innsend gögn.“ Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og var starfsmönnum nefndarinnar falið að skoða málið nánar. Á fundi nefndarinnar 26. júní 2007 var erindi kæranda enn tekið fyrir og svohljóðandi bókun gerð: „Nefndin ítrekar afstöðu sína frá júlí 2006, þar sem fallist var á að auka hámarksstærð húsanna í 60 + 10 m².“ Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 4. júlí 2007.
Hefur kærandi kært framangreint til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður getur.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í nágrenni svæðis þess er um ræði hafi bæjaryfirvöld veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og farið sé fram á í máli þessu og sé spurt hvort slíkt standist 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá velti kærandi fyrir sér hvort synjunin standist 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hún leiði til rýrara verðgildis eignar hans en á öðrum svæðum þar sem veitt hafi verið heimild til byggingar húsa af þeirri stærð er kærandi hafi farið fram á. Með þessu sé líklega verið að ganga á stjórnarskrárvarinn rétt kæranda. Þá gerir kærandi athugasemdir við rökstuðning ákvarðana þeirra er teknar hafi verið í málinu allt frá upphafi þess, en hann hafi enginn verið og hafi skipulagsyfirvöld fyrirfram tekið ákvörðun um að synja beiðni kæranda án rökstuðnings.
Þá gerir kærandi athugasemdir við að honum hafi ekki borist afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar þegar hann hafi skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er bent á að kærandi vísi í kæru sinni til þess að öðrum í næsta nágrenni hafi verið veitt heimild til byggingar sambærilegra húsa og hann hafi farið fram á og því hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin. Eigi kærandi við deiliskipulagsbreytingu vegna lóða í Hamrabrekku austan Miðdals, suð- austan Hafravatns, telji Mosfellsbær að það mál sé alls ekki sambærilegt máli kæranda. Í tilvitnuðu máli hafi verið um að ræða mun stærri lóðir eða 1,0 – 1,9 ha að flatarmáli, þar sé í gildi mun yngra deiliskipulag og þar hafi ekki verið byggt í samræmi við eldra skipulag. Í máli kæranda sé hins vegar um að ræða 0,29 – 0,58 ha lóðir, deiliskipulag sé í gildi frá 1985 ásamt því að byggt hafi verið á 7 – 8 lóðum í samræmi við það skipulag. Vegna þess sé því hafnað að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár.
Mosfellsbær hafni því einnig að ákvarðanir bæjarins hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar eins og kærandi haldi fram. Deiliskipulag sveitarstjórnar, sem takmarki ráðstöfun eignarréttinda, byggi á almennum hlutlægum sjónarmiðum þar sem stefnt sé að lögmætum markmiðum og fari því ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi sé minnt á ákvæði 1. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga sem mæli fyrir um að sá sem telji að skipulagsaðgerðir leiði til verðrýrnunar fasteignar eigi rétt á bótum úr sveitarsjóði, að því gefnu að sýnt sé fram á tjón.
Mosfellsbær telji að málsmeðferð á erindi kæranda hafi ekki brotið í bága við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga. Að sama skapi telji Mosfellsbær að málsmeðferðin hafi ekki farið gegn ákvæði 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.
———–
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að krafist sé ógildingar allra ákvarðana bæjarstjórnar er teknar hafi verið varðandi málaleitan hans allar götur frá árinu 2004. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun er kæran lýtur að. Eina afgreiðslan sem var innan þessara tímamarka þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 23. júlí 2007 var afgreiðsla bæjarstjórnar frá 4. júlí 2007, en kærufrestur vegna annarra og eldri ákvarðana í málinu var þá löngu liðinn. Kemur því ekki hér til skoðunar annað en afgreiðslan frá 4. júlí 2007.
Eins og að framan er rakið varðar hin kærða afgreiðsla beiðni um endurskoðun á fyrri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um breytt deiliskipulag sumarhúsabyggðarinnar í Hamrabrekkum. Er deiliskipulagið frá árinu 1985 þar sem skipulagðar eru 30 lóðir, frá 0,29 upp í 0,58 ha að stærð og er heimilt að byggja 50 m² sumarhús á hverri lóð. Beiðni kæranda laut á sínum tíma að því að gildandi deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að reisa stærri hús á svæðinu en skipulagið gerði ráð fyrir, án þess þó að sérstaklega væri getið um stærðir húsa, en vísað var í fyrri erindi vegna sama máls.
Skipulags- og byggingarnefnd hafði áður haft erindi um stækkun húsa á svæðinu til umfjöllunar, m.a. á fundi árið 2006. Var erindið þá afgreitt með þeim hætti að nefndin gæti fallist á að frístundahús á svæðinu yrðu 60 m² auk 10 m² geymslu. Í hinni kærðu afgreiðslu 4. júlí 2007 var eingöngu vísað til afgreiðslunnar frá árinu 2006 án þess að erindinu væri sérstaklega synjað. Er það mat úrskurðarnefndarinnar að framangreint verði ekki talið fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og beri því samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá nefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson