Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2006 Sómatún

Ár 2006, þriðjudaginn 3. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 70/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K handhafa lóðar að Sómatúni 4 og H og E handhafa lóðar nr. 8 við Sómatún, þá ákvörðun skipulags- og  byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006 að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn er málið varða, sjónarmið bæjaryfirvalda vegna kærunnar og athugasemdir byggingarleyfishafa.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Á svæði því sem lóðir kærenda og byggingarleyfishafa tilheyra er í gildi deiliskipulag Naustahverfis, 2. áfangi, frá árinu 2005. 

Hinn 24. maí 2006 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Sómatúni 6 sem skyldi að hluta til vera á tveimur hæðum.  Er lóðarhafa að Sómatúni 4 var kunnugt um útgáfu leyfisins kom hann hinn 31. júlí 2006 á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld þess efnis að samkvæmt gildandi skipulagi ætti einungis að vera einnar hæðar hús á umræddri lóð. 

Málið var tekið fyrir á fundi umhverfisráðs Akureyrar 16. ágúst 2006 þar sem athugasemdum kærenda var hafnað með vísan til þess að nægjanlegt svigrúm væri til þess í skilmálum skipulagsins að heimila byggingu tveggja hæða húss að Sómatúni 6.  Kærendur voru ekki sáttir við þær málalyktir og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærendur byggja kröfu sína á því að umdeilt byggingarleyfi víki frá gildandi deiliskipulagi.  Á skipulagsuppdrætti og mæliblaði komi skýrt fram að á umræddri lóð skuli byggja einnar hæðar hús.  Bygging tveggja hæða húss myndi rýra verðmæti fasteigna kærenda og með leyfinu sé brotið gegn jafnræði lóðarhafa á svæðinu. 

Bæjaryfirvöld taka fram að eftir gaumgæfilega skoðun á landhalla lóðarinnar og texta greinargerðar skipulagsins með skipulagshönnuðum hafi verið samdóma álit allra þeirra, sem að málinu hafi komið, að heimila umsótta stöllun umrædds húss ásamt því að byggja á tveimur hæðum eins og skilmálasneiðingar sýndu miðað við hús ofan götu.  Á skipulagsuppdrætti séu gefnar upp leiðbeinandi hæðartölur, s.s. 1h við sum einbýlishúsin.  Í umræddu tilviki hafi verið taldar forsendur fyrir tveggja hæða húsi innan þess svigrúms er skipulagsskilmálar hafi gefið. 

Byggingarleyfishafi tekur undir sjónarmið bæjaryfirvalda og telur umdeilt byggingarleyfi í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í raun snúist málið um innra skipulag húss byggingarleyfishafa þar sem gert sé ráð fyrir milligólfi.  Húsið sé þrátt fyrir það innan hæðarmarka skipulagsins og verði ekki séð að kærendur eigi hagsmuna að gæta vegna stöllunar hússins enda hafi þeir ekki borið fyrir sig röskun á grenndarhagsmunum.  Þá sé ástæða til að ætla að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar með tilliti til niðurstöðu málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 6 við Sómatún.  Ákvörðunin var lögð fram til kynningar á fundi umhverfisráðs Akureyrar hinn 28. júní 2006 en fundargerð þess fundar var lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar hinn 15. ágúst 2006. 

Afgreiðslumáti hinnar kærðu ákvörðunar mun byggja á heimild í samþykkt um afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa, er bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hinn 6. apríl 2004, en þar er skipulags- og byggingarfulltrúa falin afgreiðsla mála er falla undir 4. kafla skipulags- og byggingarlaga án staðfestingar umhverfisráðs og bæjarstjórnar.  Segir í samþykktinni að hún sé sett með stoð í 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, er heimilar sveitarstjórn að ákveða að fela aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála í samþykkt sveitarfélags, sbr. 10. gr. laganna.  Framangreind samþykkt um afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa mun hvorki hafa verið staðfest af ráðherra né birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af umhverfisráðherra, sem fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála skv. lögunum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Telja verður að sérákvæði 4. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga gangi framar almennu ákvæði 44. gr. sveitarstjórnarlaga hvað varðar heimild og skilyrði fyrir því að víkja frá ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um meðferð byggingarleyfisumsókna og um verksvið byggingarfulltrúa.  
 
Í ljós er leitt að sérstök staðfest og birt samþykkt skv. nefndri 4. mgr. 40 gr. skipulags- og byggingarlaga liggur ekki fyrir og er því, að mati úrskurðarnefndarinnar, ekki fyrir hendi viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum.

Af hálfu Akureyrarbæjar hefur í máli þessu verið vísað til samþykktar um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 895/2003, er félagsmálaráðuneytið hefur staðfest og birt hefur verið í B-deild Stjórnartíðinda.  Í 55. gr. þeirrar samþykktar er bæjarstjórn veitt heimild til að fela skipulags- og byggingarfulltrúa fullnaðarafgreiðslu mála skv. skipulags- og byggingarlögum í umboði umhverfisráðs sem jafnframt er heimiluð lokaafgreiðsla mála, er undir ráðið heyra, skv. 54. gr. samþykktarinnar.  Er tilvitnað ákvæði 55. gr. samþykktarinnar í raun óþörf endurtekning á heimildum sem fyrir eru í lögum og þykir, hvað sem öðru líður, ekki koma til álita að meta þessa samþykkt sem fullnægjandi stoð fyrir framsali valds til skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem engin ákvörðun er um slíkt framsal í samþykktinni sjálfri svo sem áskilið er í 44. gr., sbr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga.
 
Af framangreindum ástæðum hefur hið kærða byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna staðfestingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfisins. 

Vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þykir rétt að taka fram að það er á verksviði byggingaryfirvalda bæjarins að gæta þess að ekki sé ráðist í byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eða þeim fram haldið án gilds byggingarleyfis, sbr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

   ___________________________         
                      Hjalti Steinþórsson                        

 

 

_____________________________        ____________________________
           Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson