Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2003 Hlíðarás

Ár 2003, mánudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2003, kæra eigenda fasteignarinnar nr. 7 við Hlíðarás í Mosfellsbæ á ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 11. október 2002 að synja erindi kærenda varðandi skipulagsgjald af fasteigninni Hlíðarási 7, Mosfellsbæ.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, framsendir fjármálaráðuneytið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála kæru G f.h. K og K, þar sem kærð er að hluta ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 11. október 2002 varðandi innheimtu skipulagsgjalds af fasteigninni Hlíðarási 7 í Mosfellsbæ. 

Málavextir:  Með kaupsamningi, dags. 22. febrúar 2001, keyptu kærendur íbúðarhús að Hlíðarási 7 í Mosfellsbæ.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun húsið hafa verið byggt á árinu 1997, en fyrst virt til brunabóta með skoðunargerð hinn 23. janúar 2001.  Í kjölfar brunabótavirðingar hússins var skipulagsgjald lagt á eignina og reikningur sendur þáverandi eigendum og viðsemjendum kærenda um eignina.  Var gjalddagi reiknings þessa 1. febrúar 2001 og eindagi 1. mars s.á.

Ekki verður séð að upplýst hafi verið um álagningu gjalds þessa við kaup kærenda á eigninni.  Er ekkert að gjaldinu vikið í kaupsamningi og virðist kærendum hafa verið ókunnugt um tilvist þess og það lögveð, sem fyrir því hafði stofnast í eigninni.

Með samhljóða bréfum tollstjórans í Reykjavík, dags. 9. september 2002, var kröfum um greiðslu gjaldsins, ásamt áföllnum dráttarvöxtum, beint að kærendum og var þeim veittur 10 daga frestur til þess að greiða skuldina ef komast ætti hjá frekari innheimtuaðgerðum.  Í tilefni af bréfum þessum ritaði umboðsmaður kærenda ódagsett bréf til tollstjórans í Reykjavík, þar sem á það var bent að embættið væri að krefja ranga aðila um greiðslu gjaldsins, enda væru fyrri eigendur eignarinnar réttir greiðendur þess. 

Erindi þessu svaraði tollstjóri með bréfi, dags. 19. september 2002, þar sem upplýst var að fyrri eigendum hefði verið sendur reikningur fyrir gjaldinu með gjalddaga 1. febrúar 2001 og eindaga 1. mars sama ár og væru þeir með réttu skuldarar samkvæmt umræddum reikningi.  Gjaldið hefði hins vegar ekki verið greitt og þar sem það nyti lögveðs í fasteigninni að Hlíðarási 7 væri nauðsynlegt að beina innheimtunni að kærendum, enda yrði fasteign þeirra seld nauðungarsölu fyrir skuldinni yrði hún ekki greidd.

Umboðsmaður kærenda ritaði tollstjóra bréf að nýju hinn 27. september 2002.  Benti hann á að kærendur hefðu aldrei fengið reikning fyrir gjaldinu eða vitneskju um tilvist þess og væri óviðunandi að þeim væri gert að greiða dráttarvexti af gjaldinu í ljósi forsögu málsins.  Krafðist hann þess f.h. kærenda að þeim yrði sendur reikningur og að dráttarvextir yrðu felldir niður.  Jafnframt að gjaldfrestur yrði veittur meðan málið væri í kærufarvegi.

Erindi þessu hafnaði tollstjóri með bréfi, dags. 11. október 2002.  Var þar áréttað að lögveð væri fyrir gjaldinu í fasteign kærenda.  Var í lok bréfsins á það bent að ef kærendur vildu ekki una ákvörðun tollstjóra í málinu væri unnt að skjóta henni til fjármálaráðuneytisins, sem tæki endanlega ákvörðun um afgreiðslu tollstjórans í Reykjavík, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 15. október 2002, vísaði umboðsmaður kærenda málinu til fjármálaráðuneytisins og krafðist þess að kröfu um dráttarvexti af gjaldinu yrði beint að fyrri eigendum eignarinnar eða að vextirnir yrðu felldir niður.  Af málsgögnum verður ráðið að fjármálaráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð í máli kærenda hinn 12. nóvember 2002, en ekki liggur fyrir hvert hafi verið efni þess úrskurðar.  Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, tilkynnti fjármálaráðuneytið að það afturkallaði úrskurð sinn í málinu með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á þeim grundvelli að ráðuneytið hafi ekki verið bært stjórnvald til að úrskurða í málinu og að málið yrði, með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga, framsent til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Vísaði ráðuneytið til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald til stuðnings þessari ákvörðun.  Var erindi kærenda samhliða þessu framsent úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 24. janúar 2003, svo sem að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda var upphaflega á því byggt að kröfu innheimtumanns vegna skipulagsgjalds af eign þeirra að Hlíðarási 7 væri beint að röngum aðila og væru fyrri eigendur réttir skuldarar að gjaldinu. 

Eftir að hafa fengið upplýsingar um að lögveð sé fyrir gjaldinu í fasteigninni mótmæla kærendur því ekki lengur að innheimtu þess sé beint að sér en krefjast þess einungis að lagt verði fyrir innheimtumann að hann snúi sér beint að fyrri eigendum varðandi greiðslu dráttarvaxta af gjaldinu eða felli þá niður, enda sé það, með hliðsjón af atvikum málsins, mannréttindabrot að krefja kærendur um vextina.

Málsrök innheimtumanns ríkissjóðs:  Af hálfu innheimtumanns hefur verið vísað til þess að margnefnt skipulagsgjald njóti lögveðréttar í fasteign kærenda og að krefjast megi nauðungarsölu á eigninni til heimtu gjaldsins að undangenginni greiðsluáskorun, sbr. 9. og 6. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.  Krafan um dráttarvexti hefur ekki verið rökstudd sérstaklega svo séð verði.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni, en einnig að innheimta megi gjaldið með fjárnámi.

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi kærenda tekið til efnisúrlausnar í nefndinni með vísan til þessa ákvæðis. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var fasteignin að Hlíðarási 7 virt til brunabóta með skoðunargerð er fram fór hinn 23. janúar 2001.  Í framhaldi af virðingargjörðinni var skipulagsgjald að fjárhæð kr. 24.387,- lagt á eignina og þáverandi eigendum sendur reikningur fyrir gjaldinu með gjalddaga 1. febrúar 2001 og eindaga 1. mars sama ár.  Við álagningu gjaldsins stofnaðist lögveðréttur í fasteigninni til tryggingar gjaldinu.  Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 er heimilt að krefjast nauðungarsölu til fullnustu lögveðkröfu af því tagi sem hér um ræðir og nær fullnusturétturinn jafnframt til dráttarvaxta og kostnaðar sem hlýst af greiðsludrætti eða vanskilum skuldarinnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Var innheimtumanni rétt, með heimild í 9. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987, að krefja um dráttarvexti af skuldinni þegar greiðsludráttur var orðinn og stóð lögveðið til tryggingar áföllnum og áfallandi vöxtum jafnt sem höfuðstól skuldarinnar.  Þykir ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um eftirgjöf eða niðurfellingu  dráttarvaxta af  umræddu skipulagsgjaldi gagnvart þeim, þrátt fyrir að þeim hafi fyrst orðið kunnugt um lögveðkröfuna svo seint sem raun ber vitni, enda nýtur ekki ákvæða í lögum um fyrningu lögveðréttar fyrir skipulagsgjaldi eða um aðrar sérstakar takmarkanir á skyldum veðþola umfram aðalskuldara gjaldsins.

Hvað varðar áfall vaxta eftir þann tíma er kærendum varð kunnugt um lögveðkröfuna verður að telja það á ábyrgð kærenda, enda var þeim unnt að afstýra frekara vaxtaáfalli með því að greiða hina umkröfðu skuld, eftir atvikum með fyrirvara um endurgreiðslu í samræmi við niðurstöðu æðra stjórnvalds um greiðsluskyldu þeirra.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu kann að vera að kærendur eigi endurkröfu fyrir gjaldinu á hendur fyrri eigendum.  Álitaefni um rétt kærenda til endurgreiðslu eða skaðabóta eru hins vegar einkaréttarlegs eðlis og ráðast af samningum aðila og reglum og venjum í fasteignakaupum og um ábyrgð fasteignasala.  Fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um þessi álitaefni.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður kröfu kærenda hafnað og skal álagning og innheimta hinna umdeildu dráttarvaxta standa óröskuð gagnvart þeim.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Hlíðaráss 7, Mosfellsbæ um að innheimtu dráttarvaxta vegna skipulagsgjalds af fasteign þeirra verði beint að fyrri eigendum eða að vextirnir verði felldir niður.

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir