Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2007 Gleráreyrar

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 69/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 13. júní 2007 um að veita leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á lóðinni nr. 1 við  Gleráreyrar á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 13. júní 2007 að veita leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1.  Bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 19. júní 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kæruna til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu. 

Málsatvik og rök:  Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10 á Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1.  Eru umdeildar framkvæmdir innan skipulagssvæðisins.  Tók skipulagið gildi með gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl.  Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum.  Er það kærumál nú til meðferðar hjá nefndinni.

Meðal fyrirhugaðra mannvirkja á umræddu skipulagssvæði er viðbygging við Glerártorg, Gleráreyrum 1, Akureyri.  Áður en hin kærða ákvörðun var tekin höfðu bæjaryfirvöld veitt leyfi til jarðvegsskipta vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda á nefndri lóð.  Kærandi skaut m.a. þeirri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði þeirri kæru frá sökum aðildarskorts með úrskurði uppkveðnum hinn 14. júní sl.  Hin kærða ákvörðun var tekin í framhaldi af umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Glerártorg.  Bókun skipulags- og byggingarfulltrúa við hina kærðu ákvörðun hljóðaði svo:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi gefur heimild fyrir útmælingu og gerð sökkla.  Endanlegt byggingarleyfi verður ekki gefið út fyrr en endanleg brunahönnun hússins liggur fyrir.“

Skírskotar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun byggi á skipulagi sem hann hafi kært til úrskurðarnefndarinnar og telja verði ólögmætt og vísar til þeirra sjónarmiða er hann tefli fram í skipulagskærunni.  Þar að auki fari það í bága við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að heimila umdeildar framkvæmdar án þess að fyrir liggi fullgilt byggingarleyfi fyrir mannvirki því sem rísa eigi á heimiluðum sökklum að Gleráreyrum 1.  Kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu þar sem hann eigi fasteign á skipulagssvæðinu.  Skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir aðkomu eigenda mannvirkja á skipulagsreit við skipulagsgerð, svo sem skv. 7. mgr. 43. gr. laganna um grenndarkynningu.  Af því megi ráða að fasteignareigendur á skipulagsreitnum teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta um nýtingu og uppbyggingu viðkomandi skipulagsreits bæði við skipulagsgerð og við ákvarðanir um einstakar byggingarframkvæmdir á skipulagssvæðinu.

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um frávísun málsins.  Deiliskipulagið að baki hinni kærðu ákvörðun sé í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eins og fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. mars 2007.  Hin kærða ákvörðun byggi á staðfestu skipulagi og gr. 13.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á að umdeildar framkvæmdir snerti lögvarða hagsmuni hans en skírskoti einungis til atriða í skipulagskæru er snúi að skiptingu lóða á svæðinu og gatnatengingu. 

Niðurstaða:  Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð.  Ekki verður fallist á þá túlkun kæranda að kæruaðild einstaklinga að skipulagsákvörðun feli sjálfkrafa í sér kæruaðild að ákvörðunum um mannvirkjagerð á tilteknum skipulagsreit.  Einstök mannvirki sem kunna að verða heimiluð á skipulagsreit geta haft mismikil áhrif á hagsmuni fasteignaeigenda á reitnum og verður kæruaðild því ætið háð mati á hagsmunum hverju sinni.  Hið kærða leyfi felur aðeins í sér heimild til útmælingar og gerðar sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1 en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. 

Með hliðsjón af eðli hins kærða leyfis, sem heimilar einungis gerð sökkla, sbr. 2. mgr.  44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, verður ekki talið að gengið sé gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild um þá ákvörðun.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

  ___________________________
  Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson