Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2002 Öldugata

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2002, kæra eiganda fasteignarinnar að Öldugötu 1b Flateyri, á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 23. október 2002 um að gera honum að fjarlægja öll mannvirki af lóðinni sem reist hafi verið án tilskilinna byggingarleyfa. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2002, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir G, fyrir hönd S, eiganda fasteignarinnar nr. 1b við Öldugötu, Flateyri, þá ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 23. október 2002 að gera honum að fjarlægja öll mannnvirki af lóðinni sem reist hafa verið án tilskilinna byggingarleyfa.

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hinn 14. nóvember 2002. 

Málsatvik:  Kærandi keypti tvær íbúðir í fasteigninni að Öldugötu 1b á Flateyri í marsmánuði árið 1997.  Í kjölfar kaupanna var húsinu breytt í einbýlishús en áður höfðu verið í húsinu fyrrnefndar tvær íbúðir.  Húsið mun hafi verið í mikilli niðurníðslu.

Deiliskipulag, er tekur m.a. til umrædds svæðis, var samþykkt í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hinn 29. janúar 1998.  Í því deiliskipulagi er gert ráð fyrir að húsið á lóðinni nr. 1b við Öldugötu verði fjarlægt og lóðinni skipt upp í tvær einbýlishúsalóðir.

Sumarið 1999 hóf kærandi framkvæmdir við hús sitt að Öldugötu 1b og af því tilefni sendu bæjaryfirvöld honum bréf, dags 3. júní 1999, þar sem bent var á að leyfi þyrfti fyrir framkvæmdunum og farið fram á að þær yrðu stöðvaðar og tilskilinna leyfa aflað.  Svar barst við því bréfi hinn 5. júlí sama ár þar sem upplýst var að framkvæmdirnar væru nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir og þess óskað að leyfi yrði veitt til þess að ljúka þeim.  Byggingarfulltrúi bæjarins sendi kæranda síðan bréf, dags. 23. júlí 2000, þar sem bent var á reglur sem giltu um byggingarleyfi og nauðsynleg fylgigögn með byggingarleyfisumsókn.  Ekki virðist hafa verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum með formlegum hætti eða verður séð að bæjaryfirvöld hafi haft frekari afskipti af málinu.

Á haustmánuðum árið 2000 hóf kærandi að reisa bílskúr á lóð sinni að Öldugötu 1b.  Byggingarfulltrúi sendi kæranda af því tilefni bréf, dags. 2. október 2000, þar sem gerð var grein fyrir að sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir öllum byggingum, hvort sem um væri að ræða nýbyggingar eða stækkun eldri húsa.  Í bréfinu var bent á að óheimilt væri að hefja framkvæmdir áður en leyfi fyrir þeim væri veitt og ennfremur gerð grein fyrir þeim gögnum sem fylgja þyrftu byggingarleyfisumsókn.  Hinn 10. október 2000sótti kærandi um leyfi fyrir byggingu bílskúrsins.  Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar tók umsóknina fyrir á fundi hinn 11. sama mánaðar og afgreiddi hana með svofelldri bókun:  „Umhverfisnefnd leggur til að heimilað verði að byggja bílskúr á lóðinni, þó svo það samrýmist ekki gildandi skipulagi á svæðinu en samkvæmt því á íbúðarhúsið að Öldugötu 1b að víkja og lóðin að verða að tveimur einbýlishúsalóðum.”  Þessi afgreiðsla umhverfisnefndar var felld á fundi bæjarstjórnar hinn 26. október 2000.

Kærandi undi ekki málalyktum og kærði ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði hinn 17. október 2002 komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skyldu framkvæmdir, sem byggingarleyfi heimilar, vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Hin umdeilda byggingarleyfisumsókn kæranda samrýmdist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins og því yrði hinni kærðu ákvörðun bæjarstjórnar ekki hnekkt.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumálinu var eftirfarandi samþykkt gerð á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar hinn 23. október 2002:  „Í ljósi úrskurðarins er húseiganda gert að fjarlægja öll mannvirki af lóðinni sem hafa verið reist án tilskilinna leyfa.” 

Framangreindri ákvörðun umhverfisnefndar skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi keypt fasteignina að Öldugötu 1b af bæjarsjóði Ísafjarðarbæjar og í afsali hafi í engu verið getið um kvaðir um nýtingu lóðarinnar eða fyrirhugað nýtt deiliskipulag er takmarka myndi nýtingarmöguleika á lóðinni.  Þá komi fram í afsali að fasteigninni fylgdu tilheyrandi lóðarréttindi og engar kvaðir hvíldu á eigninni.

Kærandi heldur því fram að við kaup hans á fasteigninni hafi hún verið í mikilli niðurníðslu og hafi hann ráðist í nauðsynlegar úrbætur á húsinu.  Inngangur í það hafi verið handónýtur og nærri fokinn burt, en í hans stað hafi kærandi byggt fallegan og vel byggðan glerskála sem myndi inngang í íbúðarhúsið.  Þá sé bakatil á lóðinni frístandandi plastgróðurhús á trégrind.  Sé það ætlan bæjaryfirvalda á Ísafirði að þessi mannvirki skuli burt þá verði það vart gert bótalaust. 

Á grundvelli greindra sjónarmiða beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar styður ákvörðun sína um að kærandi skuli fjarlægja öll mannvirki af lóðinni nr. 1b við Öldugötu þeim rökum að aldrei hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þeim og þau reist í óleyfi. 

Það hafi verið sumarið 1999 sem byggingarfulltrúi hafi orðið var við að hafnar væru framkvæmdir við viðbyggingu húss kæranda að Öldugötu 1b.  Af því tilefni hafi kæranda verið send bréf, sem þýdd hafi verið á pólsku.  Hafi hann verið upplýstur um þörf á byggingarleyfi fyrir framkvæmdum og hvaða gögn ættu að fylgja slíkri umsókn. 

Ekkert hafi frekar verið hreyft við málinu fyrr en í október 2000 þegar kæranda hafi verið sent bréf, dags. 2. október, en þá hafi verið hafnar framkvæmdir við bílskúrsbyggingu á lóðinni.

Þrátt fyrir bréflegar ábendingar um framgangsmáta vegna byggingarleyfisumsókna á árunum 1999 og 2000 hafi aldrei verið sótt formlega um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum við nýjan inngang í húsið.  Umhverfisnefnd og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi því ekki haft tækifæri til að vega og meta hvort heimilað skuli að byggja anddyri/gróðurskála við norðurhlið hússins eins og gert hafi verið.  Ekki sé lagt mat á það hvort slík umsókn yrði samþykkt en forsenda þess yrði að breyta deiliskipulaginu.  Eðlilegast væri að ósk um slíka breytingu kæmi frá þeim sem hagsmuna eigi að gæta, þ.e. kæranda. 

Af hálfu Ísafjarðarbæjar er á það bent að byggingarreglugerð sé nokkuð skýr hvað varði framgangsmáta varðandi nýbyggingar og stækkun eldri húsa.  Byggt skuli í samræmi við gildandi skipulag.  Falli fyrirhuguð bygging að skipulagi skuli teikningar unnar af viðurkenndum hönnuði, verkið framkvæmt af iðnmeisturum með viðurkennd réttindi og í samræmi við samþykktar teikningar.  Frá öllum þessum atriðum hafi verið vikið í máli kæranda.  Við aðstæður sem þessar beri sveitarstjórn að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og jarðrask afmáð.  Sjálfsagt megi gagnrýna sveitarstjórn fyrir að hafa ekki brugðist skjótar við og rifið mannvirkið strax og vitneskja hafi fengist um það en í málum sem þessum sé reynt að sýna sanngirni og réttsýni, sérstaklega þegar ekki sé gengið á hagsmuni annarra að því er séð verði. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér að kæranda var gert að fjarlægja af lóðinni öll mannvirki sem reist höfðu verið án tilskilinna byggingarleyfa.  Í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða eru án leyfis og í 5. mgr. segir að byggingarnefnd geti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta. 

Af málsgögnum verður ráðið að ákvörðun umhverfisnefndar um að gera kæranda skylt að fjarlægja öll mannvirki af lóðinni hafi verið tekin í tilefni af úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Af sömu gögnum verður aftur á móti hvorki séð að kæranda hafi gefist kostur á að tjá sig um ætlan umhverfisráðs í framhaldi úrskurðarins, né að umhverfisráð hafi rannsakað ástand mannvirkjanna sem krafist er að fjarlægð verði, með tilliti til þess hvort unnt væri að grípa til vægari úrræða. 

Ljóst er að hin kærða ákvörðun er töluvert íþyngjandi fyrir kæranda.  Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að umhverfisráði Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið unnt að taka svo íþyngjandi ákvörðun með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt kæranda og 10. gr. sömu laga um rannsóknarskyldu stjórnvalds. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 23. október 2002 er felld úr gildi.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________         ______________________
Þorsteinn Þorsteinsson                   Ingibjörg Ingvadóttir