Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2014 Naustabrekka

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 68/2014, kæra á  álagningu umhverfisgjalds fyrir árið 2014 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. mars 2014, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, ákvörðun Vesturbyggðar frá 29. janúar 2014 um álagningu umhverfisgjalds fyrir Naustabrekku á Rauðasandi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Kæranda, sem er eigandi sumarhúss að Naustabrekku, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð kr. 25.000 samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2014. Kærandi hafði fengið umhverfisgjald fyrir 2012 fellt niður í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 17/2012. Í síðari samskiptum við úrskurðarnefndina kom fram að kærandi teldi að ágreiningur væri enn til staðar og krafðist hann þess með tölvupósti 2. mars 2014 að gjald þetta yrði „strikað út“ og í tölvupósti dags. 3. s.m. ítrekaði hann þá kröfu. Var kærumál þetta stofnað hjá úrskurðarnefndinni en jafnframt var kæranda leiðbeint um að undirrituð kæra yrði að berast úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., var kæranda gefinn frestur til 22. s.m. til að koma að undirritaðri kæru í málinu og var jafnframt bent á að ellegar liti nefndin svo á að kæran væri ekki í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Eins og lýst er í málavöxtum gaf kærandi til kynna með tölvupóstum að hann vildi kæra álagningu umhverfisgjalds. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að eitt af skilyrðum fyrir lögmæti kæru væri skrifleg og undirrituð kæra hefur slíkt skjal ekki borist frá kæranda. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir