Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2009 Háaberg

Ár 2011, föstudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2009, kæra á synjun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. september 2009 á beitingu þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. september 2009, er barst nefndinni hinn 1. október s.á., kæra A og E, Háabergi 1, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. september 2009 á beiðni um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu synjunar. 

Málavextir:  Kærendur máls þessa eru eigendur íbúðar í tvíbýlishúsinu að Háabergi 1 í Hafnarfirði.  Íbúðin er á tveimur hæðum en önnur íbúð er á neðri hæð hússins. 

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. júlí 2008 var lögð fram beiðni kærenda um leyfi til að byggja sólpall á þeim hluta lóðarinnar nr. 1 við Háaberg sem væri í þeirra eigu.  Þá fóru og kærendur fram á að eigandi hluta neðri hæðar hússins yrði gert að lagfæra sólpall í hans eigu að íbúðarmörkum, lækka skjólvegg og honum jafnframt bannað að staðsetja heitan pott á pallinum.  Með bréfi kærenda til skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar, dags. 7. ágúst 2008, féllu kærendur frá áformum sínum um byggingu sólpalls en óskuðu eftir því að skipulags- og byggingarfulltrúi beitti sér fyrir því að timburpallur og heitur pottur við íbúð neðri hæðar hússins yrði fjarlægðir og lóð komið í það horf sem þinglýst eignaskiptayfirlýsing kvæði á um. 

Í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til eigenda neðri hæðar hússins, dags. 27. maí 2009, var m.a. bent á að framkvæmdir á lóðinni væru andstæðar gr. 67.1 í byggingarreglugerð, að tafarlaust bæri að fjarlægja vegg við sólpall og setlaug og að leita yrði samþykkis kærenda fyrir sólpallinum.  Jafnframt voru boðaðar aðgerðir með vísan til þágildandi 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með bréfi lögmanns eigenda íbúðar á neðri hæð hússins til skipulags- og byggingarsviðs bæjarins, dags. 15. júlí 2009, var því m.a. haldið fram að fyrri eigendur að íbúð kærenda hefðu samþykkt smíði pallsins á árinu 1997, heiti potturinn á pallinum væri ekki tengdur lagnakerfi hússins og að veggur sólpallsins væri hæstur 1,80 m. 

Málið var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarráðs 11. ágúst 2009 er fól skipulags- og byggingarfulltrúa að ljúka málinu í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. 

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 var bókað:  „Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur staðfest að skjólveggur við pall er yfir leyfilegri hæð og gerir eiganda skylt að færa hann í rétta hæð.  Ennfremur telur skipulags- og byggingarfulltrúi að setlaugar séu byggingarleyfisskyldar skv. 69. grein byggingarreglugerðar, þar sem öryggisþættir eru þeir sömu og við fastar setlaugar, og áhrif á umhverfið og nágranna eru þau sömu í báðum tilvikum.  Gera verður kröfu um að frárennsli setlauga sé tengt frárennsliskerfi húss þar sem í vatninu geta verið efni sem óæskilegt er að fá í jörð eða regnvatnslagnir.“  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 26. s.m. var bókað að eigendur neðri hæðar hefðu gert frekari grein fyrir málinu, m.a. varðandi vegghæð og frárennsli og hljóð frá setlaug, og var skoðunarmanni falið að skoða málið frekar.  Á fundi embættisins 2. september s.á. var eftirfarandi fært til bókar:  „Með tilvísan til skýringar húseiganda neðri hæðar og skoðunar eftirlitsmanns fellur skipulags- og byggingarfulltrúi frá málinu og telur því lokið.“ 

Framangreint kærðu kærendur til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ástæða þess að þau hafi látið sólpallinn óátalinn í átta ár sé sú að er þau hafi fest kaup á íbúð sinni hafi þáverandi eigendur íbúðar á neðri hæð hússins verið í óreglu og umgengni um lóðina verið slæm.  Næstu eigendur hafi umgengist pallinn og húsið eðlilega.  Aftur á móti sé umgengni núverandi eigenda íbúðarinnar ekki til fyrirmyndar, þau hafi komið fyrir arni á pallinum sem hafi í för með sér reyk og skapi eldhættu.  Heiti potturinn hljóti að vera tengdur affalli og sé umgengni um hann kærendum til ama. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að í kjölfar bókunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 hafi eigandi íbúðar á neðri hæð staðhæft að kærandi hafi grafið jarðveg frá pallinum og hafi veggurinn þá mælst hærri en ella.  Þá hafi eigandi íbúðar á neðri hæð bent á að potturinn væri hvorki tengdur við vatnskerfi hússins né frárennsliskerfi, heldur væri hann laus, fylltur með garðslöngu og tæmt úr honum í baðker íbúðarinnar.  Að þessum upplýsingum fengnum hafi eftirlitsmður farið á staðinn og mælt hæð veggjar við pallinn um 1,80 m frá upphaflegum jarðvegi, og væri pallgólfið u.þ.b. í upphaflegri jarðvegshæð. 

Með vísan til þessa hafi byggingarfulltrúa þótt mikið vafamál hvort framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld þar sem girðing pallsins samræmdist grein 67.1 í byggingarreglugerð og líta mætti á gólf pallsins sem frágang á lóð til jafns við gangstétt, þar sem það væri u.þ.b. í hæð landsins í kring.  Þessa reglu hafi embætti byggingarfulltrúa stuðst við enda væri óðs manns æði að gera athugasemdir við palla sem byggðir hafi verið út um allan bæ og með því að krefjast byggingarleyfis af einum aðila væri hugsanlega verið að ganga á skjön við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Ekki hafi byggingarfulltrúi heldur talið að umræddur heitur pottur félli undir skilyrði gr. 69.1 í byggingarreglugerð um setlaugar. 

Það sé álit byggingarfulltrúa að mál þetta byggist á nágrannaerjum og sé ekki hlutverk  byggingarfulltrúa að leysa það.  Kærendur hafi keypt húseignina árið 2001 og hafi enga athugasemd gert við umræddan sólpall fyrr en 2008 þegar þessar nágrannaerjur hafi hafist. 

———–

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum, sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærendur máls þessa óskuðu eftir því við byggingaryfirvöld í Hafnarfirði að þau beittu sér fyrir því að timburpallur, skjólveggur og heitur pottur við íbúð neðri hæðar hússins að Háabergi 1 yrði fjarlægð og lóðinni komið í það horf sem þinglýst eignaskiptayfirlýsing kvæði á um.  Verður að skilja erindið svo að þar hafi verið gerð krafa um að byggingarvöld beittu þvingunarúrræðum þeim sem þeim eru veitt að lögum.  Með hinni kærðu bókun var beitingu slíkra þvingunarúrræða hafnað.  Umdeild mannvirki munu hafa verið byggð árið 1997 og ekki var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir þeim. 

Þvingunarúrræði þau sem hér koma til álita var að finna í 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í 5. mgr. ákvæðisins var byggingarnefnd m.a. heimilað að knýja fram niðurrif óleyfisbygginga og er ákvörðun um beitingu þess úrræðis háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni, en slíkt mat hlýtur fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum.  Að lokinni rannsókn byggingaryfirvalda á málinu var það mat þeirra að ekki væri tilefni til að beita þvingunarrúrræðum fyrrgreindrar 56. gr. skipulags- og byggingarlaga og telur úrskurðarnefndin engin rök standa til að hnekkja því mati.  Með vísan til þessa er kröfu kærenda hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu synjunar skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. september 2009 á beiðni um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

__________________________
Ómar Stefánsson

_________________________           ________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson