Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2012 Ofanflóðavarnir

Árið 2014, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Stekkur 23a, Patreksfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust greinargerð og gögn málsins frá Vesturbyggð 8. ágúst 2012 og í nóvember 2014.

Málavextir: Hinn 4. maí 2012 öðlaðist gildi breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 vegna snjóflóðavarna undir Klifi á Patreksfirði og 24. s.m. var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um nýtt deiliskipulag vegna téðra ofanflóðavarna. Á fundi bæjarráðs hinn 29. maí s.á. var tekin fyrir umsókn Vesturbyggðar um framkvæmdaleyfi til gerðar þvergarðs til varnar ofanflóðum og grjóthruni ofan byggðar á svæði á milli Vatneyrar og Geirseyrargils á Patreksfirði. Í umsókn var vísað til framlagðra gagna framkvæmdaaðila þar sem m.a. var tekið fram að varnargarðurinn yrði 10-12 m á hæð og 250 m langur og heildarrúmmál hans yrði um 42.000 m³. Jafnframt var tekið fram að gamlir túngarðar lægju ofan byggðar við Stekka. Þar væri gert ráð fyrir göngustíg og að stígurinn yrði útfærður nánar í verkhönnun í samræmi við Fornleifavernd ríkisins þannig að hann raskaði túngörðum sem minnst. Samþykkti bæjarráð veitingu leyfisins með skilyrðum um framkvæmd, tilhögun framkvæmda, mótvægisaðgerðir og vöktun á verkstað og í nánasta umhverfi. Hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að sveitarfélagið hafi farið út fyrir valdsvið sitt og ekki gætt lögvarinna hagsmuna kæranda með hinu kærða framkvæmdaleyfi. Hafi kærandi, sem sé landeigandi á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, ekki fengið þá kynningu sem honum hafi borið samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi eingöngu staðið fyrir opnum almennum fundum og hafi ekki að fyrra bragði óskað eftir umsögn kæranda um framkvæmdir. Jafnframt hafi sveitarfélagið ekki upplýst kæranda með hnitsettum mælipunktum um hvar það hyggist fara yfir landareign hans þótt þeirra upplýsinga hafi verið óskað. Þá hafi sveitarfélagið breytt gögnum á þann veg að ekki þyrfti að taka tillit til athugasemda kæranda sem afgreiddar hafi verið á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2012, en þar hafi verið samþykkt að færa til göngustíg og setja hann ofanvert við hús kæranda. Í framhaldi þess fundar hafi komið fram ný gögn sem breyti lóðinni þannig að göngustígurinn liggi aftur í gegnum hana miðja. Með skriflegri umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja heimild landeiganda eða lóðarhafa fyrir framkvæmdunum, sé hann annar en umsækjandi, sem og samþykki meðeiganda sé um sameign að ræða. Jafnframt skuli afstöðuuppdráttur er sýni framkvæmdina fylgja umsókn og skuli hnitsetja hana eða málsetja fjarlægð í fast kennileiti.

Málsrök Vesturbyggðar: Skipulagsyfirvöld Vesturbyggðar skírskota til þess að heimilt hafi verið að falla frá skipulagslýsingu við gerð deiliskipulags ofanflóðavarna þar sem allar helstu forsendur fyrir snjóflóðavörnum og megin ástæður fyrir framkvæmdunum hafi verið kynntar í skipulagslýsingu á breytingu aðalskipulags. Tillagan hafi verið kynnt á opnum fundi en ekki hafi verið haldinn íbúafundur vegna nefnds deiliskipulags þar sem sveitar-stjórn sé heimilt lögum samkvæmt að falla frá kynningu á deiliskipulagi fyrir auglýsingu þar sem allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi. Engar athugasemdir hafi borist á kynningartíma aðalskipulagstillögunnar, en athugasemdir sem borist hafi á kynningartíma deiliskipulagsins hafi verið teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. febrúar 2012. Hafi athugasemd kæranda verið afgreidd á eftirfarandi hátt: „Minniháttar breytingar verða gerðar á fyrirhuguðum göngustíg sem nær í gegnum eignarlóð [kæranda]. Með breytingunum nær göngustígurinn ekki inn á lóðina og kemur þá ekki til framkvæmda inná lóð 140191.“

Gerð hafi verið breyting á deiliskipulaginu þar sem stígur hafi verið færður norðar en auglýst tillaga hafi gert ráð fyrir og út fyrir lóðarmörk Stekka 23a miðað við fyrirliggjandi gögn. Einnig hafi komið fram í greinargerð deiliskipulagsins að lega stígsins væri leiðbeinandi og nánari útfærsla háð hönnun. Bæjarstjórn hafi tekið fundargerð nefndarinnar fyrir á fundi 22. febrúar 2012 og vísað athugasemd kæranda til bæjarráðs, sem hafi falið bæjarstjórn að vinna að málinu áfram. Samþykkt deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda í maí 2012. Í júní s.á. hafi síðan verið gerð óveruleg breyting á deiliskipulaginu og stígurinn færður enn norðar, til að hlífa enn frekar minjum á svæðinu, og út fyrir lóðarmörk Stekka 23a, eins og útfærsla og hönnun hafi gefið tilefni til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna gerðar þvergarðs til varnar ofanflóðum og grjóthruni við Klif ofan byggðar á svæði milli Vatneyrar og Geirseyrargils á Patreksfirði. 

Fram er komið að breyting á aðalskipulagi Vesturbyggðar var samþykkt í sveitarstjórn áður en hið kærða framkvæmdaleyfi var veitt. Var landnotkun breytt á nánar afmörkuðu svæði, þ.e. ofan byggðar milli Vatneyrar og Geirseyrar. Samhliða breytingu á aðalskipulagi var unnið að gerð deiliskipulags vegna ofanflóðavarna neðan Klifs. Birtist auglýsing um samþykkt sveitarstjórnar og gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 24. maí 2012 og ákvað bæjarráð hinn 29. s.m. að veita hið kærða framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn við útgáfu fram-kvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir. Nýtt deiliskipulag vegna ofanflóðavarna neðan Klifs á Patreksfirði tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. febrúar 2013. Var eftirfarandi tekið fram í auglýsingunni: „Vegna formgalla er eldra deiliskipulag af svæðinu sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda þann 24. maí 2012 nr. 451/2012 ógilt.“ Verður og ráðið af auglýsingunni að auglýsing sú sem birtist 24. maí 2012 um gildistöku eldra deiliskipulags hafi ekki verið birt innan lögboðins frests skv. þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga og var deiliskipulagstillagan því ógild skv. nefndri lagagrein. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun studdist við ógilt deiliskipulag.

Í 5. mgr. nefndrar 13. gr. skipulagslaga kemur fram að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Hins vegar kemur fram í gr. 4.18.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir varnarvirkjum þar sem þau séu fyrir eða fyrirhuguð, en í umræddri grein var fjallað um svæði undir náttúruvá í skipulagsáætlunum. Þá var kveðið á um í gr. 4.16.2 reglugerðarinnar að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skyldi gera grein fyrir göngustígum, þegar til staðar eða fyrirhuguðum, og að við deiliskipulag svæða í þéttbýli skyldi gera grein fyrir fyrirkomulagi göngustíga eftir því sem við ætti. Er því ekki hægt að líta svo á að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi átt sér stoð í aðalskipulagi Vesturbyggðar þrátt fyrir þær breytingar sem á því voru gerðar.

Samkvæmt framangreindu var hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svo sem nauðsyn bar til, sbr. 4. mgr. 13. skipulagslaga. Verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 um að veita fram-kvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson