Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2014 Aðalskipulag Grófin – Berg

Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 66/2014, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 25. júlí 2014.

Málavextir og málsrök: Hinn 3. júní 2014 samþykkti sveitarstjórn Reykjanesbæjar breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 fyrir hafnar og miðsvæði. Jafnframt var gert ráð fyrir að íbúðasvæði á Berginu yrði minnkað og að lóðir Bakkavegar 17 og 19 yrðu á miðsvæði en ekki íbúðarsvæði. Þá var samþykkt breyting á afmörkun sjávar við hafnarsvæði. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 11. s.m. og birtist auglýsing um gildistöku breytinganna í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2014.

Kærendur taka fram að ekkert samráð hafi verið haft við þá vegna breytinganna og ekki hafi verið farið að lögum við auglýsingu þeirra. Séu umræddar breytingar á Bakkavegi verulega íþyngjandi fyrir kærendur. Rekstur hótels að Bakkavegi 17 hafi valdið kærendum miklu ónæði, líkt og þeir hafi margoft bent á. Muni sú mikla stækkun sem áformuð sé á athafnasvæði hótelsins skerða lífsgæði kærenda með ónæði og umferðarhættu og hafa áhrif á verðmæti og sölumöguleika fasteigna þeirra.  

Reykjanesbær krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. sömu laga sæti ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber samkvæmt lögunum að staðfesta ekki kæru til nefndarinnar. Af þessu leiði að umrædd ákvörðun sé ekki kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar staðfest af Skipulagsstofnun 11. júní 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar  og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir