Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

146/2016 Norðurbraut 9

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri. 

Fyrir var tekið mál nr. 146/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 um að synja um byggingarleyfi fyrir stækkun geymslu við húsið að Norðurbraut 9 í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Norðurbraut 9, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 að hafna umsókn hennar til stækkunar  geymslu við húsið að Norðurbraut 9. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2016.

Málavextir:
Kærandi, sem er eigandi eignarhluta 0101 í húsinu við Norðurbraut 9 í Hafnarfirði, sótti 21. júní 2016 um byggingarleyfi til stækkunar á geymslu. Umsókninni fylgdi uppdráttur þar sem tekið er fram í byggingarlýsingu að stækka eigi núverandi geymslu um 5,3 m2, þ.e. úr 19,1 m2 í 24,4 m2. Umsókn kæranda var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 29. júní 2016 og var bókað að erindinu væri synjað. Jafnframt var bókað að húsið væri fjölbýlishús og að ekki væri hægt að stækka núverandi geymslu sem tilheyrði neðri hæð þar sem gera þyrfti ráð fyrir geymslu fyrir hinn eigandann. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 8. júlí 2016.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. október 2016, kom nánar fram að það væri mat byggingarfulltrúa að gera yrði ráð fyrir að eigandi eignarhluta 0201 gæti byggt geymsluskúr í framhaldi af þeim skúr sem fyrir væri. Var m.a. bent á að samkvæmt eignaskiptasamningi hefði eigandi eignarhluta 0201 rétt til byggingar slíks skúrs ef leyfi fyrir því fengjust frá bæjaryfirvöldum. Var einnig vísað til i-liðar í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og tekið fram að hægt væri að byggja 20 m2 geymsluskúr. Kæra í málinu barst 3. nóvember 2016, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi segir ætlun sína að stækka geymsluskúr sinn um einn metra þannig að skúrinn verði 20,6 m2 eftir stækkun. Kveðst kærandi ekki skilja skýringar byggingarfulltrúa á því hvers vegna umsókninni hafi verið synjað.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að 2. tl. i-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 heimili viðbyggingu með flatarmál að hámarki 40 m2. Í gr. 6.7.13. í sömu reglugerð sé gerð krafa um að 6 m2 geymsla fylgi íbúðum sem séu 75 m2 og stærri. Ekki liggi fyrir deiliskipulag en þar sem eigandi eignarhluta 0201 eigi rétt á að byggja geymsluskúr hafi eingöngu verið hægt að heimila kæranda að stækka upp í 20 m2, með möguleika á viðbyggingu. Teikningar að fyrirhuguðum geymsluskúr sýni glugga á vesturgafli sem komi í veg fyrir að hægt sé að byggja við skúrinn. Mikill hraunklettur sé á umræddri lóð og sé því ekki hægt að bæta við byggingu hvar sem er á lóðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa um að synja um byggingarleyfi til að stækka geymsluskúr. Ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir 29. júní 2016 og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. júlí s.á. Í því var hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild eða greint frá kærufresti. Meðal gagna málsins er bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. október 2016, þar sem fram kemur frekari rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun án þess að leiðbeiningar um kæruleið eða -frest séu veittar. Kæra barst í málinu stuttu síðar, eða 3. nóvember s.á. Voru þá um fjórir mánuðir liðnir frá því að hin kærða ákvörðun var tekin, en kærufrestur er einn mánuður skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með hliðsjón af því að kæranda voru ekki veittar leiðbeiningar og hann kærði án ástæðulauss dráttar eftir frekari samskipti við byggingarfulltrúa þykir afsakanlegt að hann hafi ekki komið kæru að í málinu fyrr. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á lóðinni Norðurbraut 9 er tvíbýlishús og geymsla sem fylgir eignarhluta kæranda. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið eru tveir matshlutar í því. Matshluti 01, sem er steinsteypt hús með tveimur íbúðum merktum 0101 og 0201, og matshluti 02 sem er geymsluskúr 19,1 m2 að stærð sem tilheyrir íbúð 0101. Er tekið fram í yfirlýsingunni að eignarhluta 0201 hafi fylgt 7,8 m2 geymsluskúr á lóð sem búið sé að rífa, en réttur til endurbyggingar hans fylgi eigninni áfram fáist leyfi bæjaryfirvalda. Loks kemur fram í yfirlýsingunni að hlutur eignar 0101 í lóð sé alls 44,84% og hlutur eignar 0201 sé 55,16%.

Í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að umsókn um byggingarleyfi skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Í 6. gr. þeirra laga segir að sameign teljist allir þeir hlutar húss og lóðar sem ekki séu ótvírætt í séreign skv. 4. gr., en skv. nefndri 4. gr. er séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Áréttað er í 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 26/1994 að öll lóð húss falli undir sameign fjöleignarhúss. Loks kemur fram í 19. gr. laganna sú meginregla að samþykki allra eigenda þurfi til að ráðstafa sameign. Ekki er tekið fram á hvaða formi slíkt samþykki skuli vera, en gera verður ráð fyrir því að unnt sé á ótvíræðan hátt að sýna fram á að samþykki liggi fyrir til þess að ráðstöfun teljist heimil.

Þinglýstir eigendur að eignarhluta 0201 eru tveir og eiga þeir eignina að jöfnu. Umsókn kæranda fylgdi teikning að fyrirhugaðri stækkun, sem árituð er af rétthafa aðliggjandi lóðar. Þar fyrir neðan er nafnritun annars eigenda eignarhluta 0201 án frekari skýringa, en ekkert liggur fyrir um samþykki hins eigandans. Þótt fallast megi á með kæranda að nokkuð skorti á skýrleika í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir hinni kærðu ákvörðun má þó af rökstuðningnum ráða að tillit til hagsmuna meðeigenda fjöleignarhússins hafi þar ráðið för. Er og ljóst af framangreindu að þar sem á skorti samþykki meðeiganda fyrir hinni umsóttu framkvæmd var byggingarfulltrúa rétt að synja um hana.  

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 29. júní 2016 um að synja um byggingarleyfi fyrir stækkun geymslu við húsið að Norðurbraut 9 í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon