Fyrir var tekið mál nr. 65/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa hundinn X.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir M, þá ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 að aflífa þegar í stað hund hennar X. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst kærandi þess að fá afhent hræið af hundinum sem og að honum verði úrskurðaðar bætur.
Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 24. september 2013.
Málavextir: Hinn 13. mars 2013 barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning frá leikskóla í Reykjanesbæ þess efnis að þar væri þýskur fjárhundur laus. Hundurinn hefði verið ógnandi og því hefði leikskólabörnum verið haldið innandyra. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti málið til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Við árangurslausa tilraun til þess að koma ól á hundinn var eftirlitsmaðurinn bitinn í hendi og hlaut vegna þess aðhlynningu á heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann sama dag.
Frekari tilraunir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins til að fanga hundinn mistókust og mun í framhaldi hafa verið ákveðið að stugga við hundinum í þeim tilgangi að koma honum heim til sín. Þar náði kærandi síðan að koma hálsól og múl á hundinn og var hann í kjölfarið tekinn í vörslu heilbrigðiseftirlitsins.
Ekið var með hundinn á hundahótel en þegar þangað var komið ákvað framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins að ekki væri rétt að setja hundinn í geymslu heldur bæri að aflífa dýrið. Var það gert og hræið brennt.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að hafi hundurinn bitið fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins hafi það verið gert í varnarskyni og af hræðslu við ókunnuga eftir að þeir hefðu stuggað við dýrinu. Sömu ástæður hafi legið að baki hegðun hundarins þegar hann hafi verið færður á hundahótelið til geymslu. Hundurinn hafi almennt verið vinalegur, án skapgerðabresta, og hvorki verið árásargjarn gagnvart fjölskyldumeðlimum né gestum á heimili fjölskyldunnar. Í skapgerðamati dýrasálfræðings, dags. 16. apríl 2010, sem á sínum tíma hafi verið grundvöllur þess að innflutningsleyfi hafi fengist fyrir hundinn, komi fram að hundurinn hafi verið skapgóður. Í niðurlagi matsins komi fram að hundurinn hafi haft jafnaðargeð, verið vinalegur og ekki sýnt einkenni árásargirni.
Ekki hafi verið rétt staðið að aflífuninni. Í samþykkt um hundahald á Suðurnesjum sé ekki kveðið með skýrum hætti á um það hvernig staðið skuli að ákvörðunartöku um aflífun hunda. Slíkt verði aftur á móti ekki gert nema að undangenginni afturköllun á leyfi til hundahalds. Ákvörðun um að afturkalla slíkt leyfi sé í höndum sveitarstjórnar, sbr. 3. og 4. gr. samþykktarinnar. Þá sé á heimasíðu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að finna greinina „Fræðsla fyrir hundaeigendur“ þar sem sérstaklega sé vikið að málum varðandi hundsbit. Þar segi í undirkafla 4.6 að heimilt sé að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bíti. Hins vegar sé hundaeiganda þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun sé tekin.
Hvort sem litið sé til samþykktarinnar eða upplýsinga á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins sé það mat kæranda að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun um aflífun hundsins. Ákvörðunin hafi verið íþyngjandi geðþóttaákvörðun sem tekin hafi verið í skyndi. Hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið virt að vettugi, og þá sérstaklega rannsóknarregla 10. gr., meðalhófsregla 12. gr. og regla 13. gr. um andmælarétt.
Málsrök heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er skírskotað til þess að hundurinn hafi verið óskráður og sé það brot á samþykkt um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi. Heimilt sé skv. 3. gr. samþykktarinnar að aflífa óskráða hunda. Þó svo að hundurinn hefði verið skráður og um hann hefðu gilt ákvæði samþykktarinnar hefði það engu breytt um afdrif hans.
Bent sé á að hundurinn hafi áður fundist í lausagöngu án taums og verið fangaður af dýraeftirlitsmanni. Við það tækifæri hafi kærandi fengið munnlega áminningu. Hundurinn hafi verið stórhættulegur umhverfi sínu og þegar hann hafi verið færður á hundahótelið hafi hann verið hamslaus. Ekki hafi verið talið forsvaranlegt að setja hundinn í geymslu þar sem starfsfólk yrði í hættu. Þá hafi ekki heldur verið hægt að afhenda hundinn aftur til kæranda, enda hafi kærandi ekki virst geta komið veg fyrir að hundurinn gengi laus. Kæranda hafi verið ljóst hversu hættulegur hundurinn var utan heimilisins. Hundurinn hafi lengi haldið hverfi sínu í gíslingu með lausagöngu og ógnandi atferli, en kærandi hefði lítið gert til að koma í veg fyrir það. Bent sé á að eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar hafi varað við hegðun hundsins í bréfi frá 8. júlí 2010. Sé með ólíkindum að um sama hund sé að ræða og fjallað sé um í skapgerðamati frá 16. apríl 2010.
Heilbrigðiseftirlitið hafni ásökunum um brot á stjórnsýslulögum. Nægar upplýsingar hafi legið að baki stjórnvaldsákvörðuninni. Ákvörðun um aflífun hafi verið tekin með hagsmuni íbúa og þá sérstaklega barna í huga.
Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að aflífa hund kæranda. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður einungis krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því aðeins tekin hér til úrlausnar enda fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að að fjalla um bótakröfu hans. Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður og hræi hans eytt. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, með hliðsjón af bótakröfu kærenda og eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.
Í 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa til að knýja á um framkvæmdir samkvæmt lögunum, reglugerð og samþykktum sveitarfélaga með ákveðnum þvingunarúrræðum. Hins vegar geymir lagagreinin ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi gildir samþykkt nr. 428/1987, með síðari breytingum. Samþykktin var sett með stoð í lögum nr. 109/1984 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nú lög sama efnis nr. 7/1998, sbr. lög nr. 7/1953 um hundahald og varnir gegn sullaveiki. Er sveitarstjórnum heimilt að veita undanþágu til hundahalds með ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr. Eitt þeirra skilyrða er skráning hunds hjá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og skal árlega greiða leyfisgjald. Þá skal hundur aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar má taka hund úr umferð ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum og koma honum fyrir í geymslu sé um minniháttar brot að ræða. Þá er tekið fram að sé um að ræða ítrekað og alvarlegt brot afturkallist viðkomandi undanþága til hundahalds. Í 2. mgr. sömu greinar segir að veitist hundur að fólki, glefsi eða bíti sé það alvarlegt brot og í 3. mgr. segir að heimilt sé að aflífa leyfislausa hunda. Í 4. gr. er svo tekið fram að sveitarstjórnum sé heimilt að afturkalla leyfi og þegar um það sé að ræða vegna vanrækslu eiganda skuli veittur vikufrestur til að ráðstafa hundinum annað, en að öðrum kosti sé heimilt að aflífa hundinn.
Ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja byggðist á því að hundurinn hefði verið óskráður. Af fyrirliggjandi gögnum er hins vegar ljóst að hundurinn var örmerktur. Hundaleyfisgjald hafði verið greitt vegna ársins 2012 og þegar hundurinn var aflífaður hafði reikningur fyrir leyfisgjaldi verið sendur eiginmanni kæranda en hvorki var komið að gjalddaga eða eindaga. Verður því ekki annað ráðið en að hundurinn hafi verið skráður hjá heilbrigðiseftirlitinu og hin kærða ákvörðun að því leyti byggst á röngum forsendum. Fyrir liggur að ákvörðunin var tekin með mjög stuttum aðdraganda. Hins vegar verður ekki annað séð en að starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins hefði, þrátt fyrir aðstæður, verið í lófa lagið að kanna skráningu hundsins enda stöfuðu þau gögn sem áður er vísað til, s.s. greiðsluseðill vegna leyfisgjalds, frá stjórnvaldinu. Var því einnig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð, með hliðsjón af því að ól og munngrímu hafði verið komið á hundinn, að svo bráð hætta hafi stafað af honum að hundinn þyrfti að aflífa fyrirvaralaust. Skorti þannig á að meðalhófs væri gætt, sbr. 12. gr. nefndra laga, og að andmælaréttur væri veittur kæranda áður en ákvörðun var tekin um aflífun, sbr. 13. gr. laganna.
Eins og áður er rakið nær heimild til aflífunar samkvæmt samþykkt nr. 428/1987 einungis til hunda án leyfis. Með vísan til þess að lagastoð skorti fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins og að verulegir annmarkar voru á meðferð málsins verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa skuli hundinn X.
Nanna Magnadóttir
________________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson