Ár 2006, föstudaginn 6. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 65/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 4. júlí 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 16. ágúst 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni að Dimmuhvarfi 17.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir S Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni að Dimmuhvarfi 17. Ekki kemur fram í kærunni til hvaða ákvarðana hún taki en kærandi hefur síðar staðfest að um sé að ræða þær ákvarðanir sem að framan eru nefndar.
Gerir kærandi þær kröfur að ákvarðanir um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu og hið kærða byggingarleyfi verði felldar úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. maí 2006 var tekið fyrir erindi varðandi breytingu deiliskipulags vegna lóðarinnar nr. 17 við Dimmuhvarf. Í breytingunni fólst hækkun á aðkomuhæð um 1,2 metra. Skipulagsnefnd samþykkti að senda málið í kynningu til lóðarhafa Grundarhvarfs 16, 18, 20, Melahvarfs 13 og Dimmuhvarfs 15, 19, og 21. Náði kynningin því ekki til kæranda máls þessa. Á fundi skipulagsnefndar hinn 4. júlí 2006 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemd lóðarhafa að Dimmuhvarfi 21, dags. 19. júní 2006. Skipulagsnefnd frestaði málinu og óskaði eftir því við bæjarskipulag að tekin yrði saman umsögn vegna innsendrar athugasemdar. Með vísan til umsagnar samþykkti skipulagsnefnd breytinguna á fundi sínum hinn 13. júlí 2006 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarráði hinn 10. ágúst 2006. Byggingarfulltrúi samþykkti umsókn um byggingarleyfi hinn 16. ágúst 2006 sem staðfest var í bæjarráði hinn 24. ágúst 2006.
Kærandi krefst ógildingar hinna kærðu ákvarðana með þeim rökum að málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið lögum samkvæmt og því sé hið kærða byggingarleyfi í andstöðu við skipulag svæðisins. Kæranda hafi ekki verið veitt færi á að koma athugasemdum sínum að varðandi hið breytta deiliskipulag vegna lóðarinnar að Dimmuhvarfi 17 ásamt því að skipulagsuppdráttur sé ekki í samræmi við lög og reglugerðir.
Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins. Kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu en samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Í máli því sem hér um ræði ráðist hagsmunir þeirra sem kæruaðild eigi af grenndarsjónarmiðum. Við grenndarkynningu í málinu hafi kæranda ekki verið kynnt breytingin þar sem skipulagsnefnd hafi talið að hann ætti ekki hagsmuna að gæta. Hafi sú ákvörðun verið á því byggð að breytingin hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kæranda þar sem hús hans standi neðar í götu og verði hann því ekki fyrir neinum grenndaráhrifum af breytingunni, auk þess sem hús séu á milli húss kæranda Dimmuhvarfi 23 og Dimmuhvarfi 17.
Kæranda var veitt færi á að tjá sig um frávísunarkröfu Kópavogsbæjar og ítrekaði hann og rökstuddi frekar fyrri sjónarmið sín til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það talið skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra hagmuna að gæta í málinu. Er þessi regla nú áréttuð hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.
Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hinar umdeildu ákvarðanir varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann máltilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að þær séu ekki í samræmi við þau lög og reglugerðir er við eigi.
Þegar litið er til þess að um 80 metrar eru frá húsi kæranda að fyrirhugaðri nýbyggingu og að á bak við hana eru hærri hús séð frá húsi kæranda, svo og þess að nýbyggingin stendur innar í götunni en það, verður að fallast á með Kópavogsbæ að kærandi eigi ekki þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi ekki heldur bent á neina slíka hagmuni og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson