Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2017 Skólavegur Fáskrúðsfirði

Árið 2017, fimmtudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að eigendum verði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmd við sólpall innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Skólavegar 12, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 16. maí 2017 að óleyfisframkvæmd á lóð þeirra verði fjarlægð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðarbyggð 29. og 30. nóvember 2017.

Málavextir:
Umsókn eins kærenda um byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á lóðinni við Skólaveg 12 á Fáskrúðsfirði var móttekin af skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar hinn 13. júní 2016. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum á aðliggjandi lóð að Skólavegi 14 með athugasemdafrest frá 20. júní til 18. júlí 2016.

Í bréfi, dags. 16. júní 2016, sem sent var út í tilefni grenndarkynningarinnar, kemur fram að sótt sé um leyfi til byggingar 40 m2 sólpalls með 1,4 m hárri skjólgirðingu á austur-, vestur- og suðurhlið hans. Pallurinn verði staðsettur syðst og vestast á lóð Skólavegar 12 og standi 0,5 m frá mörkum lóðarinnar í vestri og 1,5 m í suðri. Hæð pallsins verði rétt yfir hæð lóðar. Nefndin tók umsóknina fyrir að lokinni grenndarkynningu hinn 21. júlí 2016 og lágu þá fyrir athugasemdir frá eiganda Skólavegar 14 er borist höfðu og umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa um þær. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefði verið greidd.

Eigandi Skólavegar 14 spurðist fyrir um hvort framkvæmdin samræmdist samþykktu byggingarleyfi með bréfi, dags. 13. september 2016. Fyrirspurnin var tekin fyrir hinn 19. s.m. á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og bókað að nefndin teldi framkvæmdirnar ekki samræmast samþykktu leyfi. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að fylgja ákvörðun nefndarinnar eftir. Hann ritaði bréf til kærenda, dags. 19. janúar 2017, þar sem gefinn var kostur á að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um að þeim yrði gert að fjarlægja þann hluta framkvæmda sem samræmdust ekki útgefnu byggingarleyfi. Það skyldi gert að viðlögðum dagsektum, eða eftir atvikum á kostnað lóðarhafa. Vísað var til mannvirkjalaga nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 til grundvallar ákvörðuninni. Kærendur andmæltu fyrirhugaðri ákvörðun með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Töldu þeir framkvæmdina vera innan veittra heimilda og að boðuð þvingunarráðstöfun myndi vega að eignarrétti þeirra sem verndaður væri í stjórnarskrá.

Með bréfi, dags. 16. maí 2017, að undangengnum allnokkrum bréfaskiptum og óformlegum samskiptum við eigendur Skólavegar 12 og 14, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum um þá ákvörðun að fjarlægja bæri pallaefni á milli skjólveggjar og grindverks á mörkum lóðanna Skólavegar 12 og 14 innan tiltekins frests. Ákvörðun um dagsektir eða niðurrif á kostnað lóðarhafa væri frestað þar til kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri liðinn. Vísað var í gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, X. kafla mannvirkjalaga og X. kafla skipulagslaga til stuðnings þeirri ályktun að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Þessari ákvörðun hafa kærendur vísað til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun brjóti gegn eignarrétti þeirra sem varinn sé af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Andmælum þeirra hafi ekki verið svarað af framkvæmdasviði Fjarðarbyggðar sem brjóti gegn góðum stjórnsýsluháttum auk þess sem ekki sé vikið að málsástæðum og rökstuðningi kærenda í hinni kærðu ákvörðun. Látið sé nægja að vísa til bréfaskipta í málinu. Útfærslu á endanlegum frágangi sólpallsins hafi verið ætlað að koma til móts við athugasemdir sem komu fram við grenndarkynningu frá eiganda aðliggjandi lóðar. Því hafi bil milli sólpalls og girðingar á lóðarmörkum verið klætt af með snyrtilegum hætti til að koma í veg fyrir uppsöfnun laufs og rusls. Þessi útfærsla hafi verið kostnaðarsamari en upphafleg útfærsla og hafi verið gerð af tillitssemi við eiganda aðliggjandi lóðar. Það skjóti því skökku við að kærendum sé nú gert að fjarlægja þessa viðbót að undirlagi þessa sama nágranna. Frágangurinn sé ekki í andstöðu við fyrirliggjandi byggingarleyfi og það væri á skjön við sanngirnissjónarmið að gera kærendum að fjarlægja og breyta snyrtilegum frágangi pallsins sem engum sé til ama.

———-

Yfirvöldum Fjarðarbyggðar var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en þau hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar um að eigendur lóðarinnar að Skólavegi 12 fjarlægi þann hluta sólpalls við mörk aðliggjandi lóðar að Skólavegi 14 sem fólst í framlengingu pallsins frá skjólgirðingu að lóðamörkum. Ákvörðunin byggir á því að nefndur frágangur sólpallsins hafi ekki verið í samræmi við samþykkt byggingarleyfi og sé því óhjákvæmilegt að krefjast þess að honum verði komið í lögmætt horf, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010 og X. kafla skipulagslaga nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúa er í 56. gr. mannvirkjalaga heimilað að leggja fyrir eiganda byggingarleyfisskylds mannvirkis að koma því í lögmætt horf samkvæmt samþykktum teikningum og byggingarlýsingu að viðlögðum dagsektum, eða að öðrum kosti að slíkt sé gert á kostnað eiganda, sbr. einnig 55. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð. Skilyrði þess að nefndum þvingunarráðstörfunum sé beitt, er að um sé að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sem sé ekki í samræmi við útgefið byggingarleyfi.

Fyrir liggur að einn kærenda sótti um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls með 140 cm hárri skjólgirðingu á lóð sinni. Við grenndarkynningu var við það miðað að pallurinn stæði 1,5 m frá suðurmörkum lóðarinnar og 0,5 m frá vesturmörkum hennar. Fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa að lokinni grenndarkynningu, dags. 18. júlí 2016, að sökum þess að fyrirhuguð framkvæmd væri nær lóðamörkum en 1 m og að fyrirhuguð girðing væri hærri en sem næmi fjarlægð hennar frá lóðarmörkum, félli hún ekki undir undanþágu byggingarreglugerðar frá leyfisskyldu vegna minniháttar framkvæmda og væri því byggingarleyfisskyld. Styðst sú ályktun við grenndarkynningargögn.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af endanlegum frágangi pallsins bera með sér að hann nær alveg að mörkum aðliggjandi lóðar í vestri. Einnig liggur fyrir að kærendur hafi að eigin frumkvæði breytt hönnun pallsins eftir að upphafleg umsókn um byggingarleyfi var lögð fram með það fyrir augum að bregðast við athugasemd sem fram kom við grenndarkynningu. Endanlegur frágangur pallsins á lóðamörkunum er því ekki í samræmi við hina grenndarkynntu umsókn og samþykkt byggingarleyfi. Fyrir liggur í málinu að ekki hefur verið gefið út byggingarleyfi vegna viðbótarinnar sérstaklega. Með hliðsjón af framangreindu voru því fullnægjandi skilyrði til þess að skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar væri heimilt að taka hina kærðu ákvörðun, sbr. 55. og 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð.

Hin kærða ákvörðun var tekin af skipulags- og byggingarfulltrúa í kjölfar ábendingar nágranna og með bréfi hans, dags. 19. janúar 2017, var kærendum veittur andmælaréttur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann rétt nýttu kærendur sér og komu á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Í tilkynningu til kærenda um hina kærðu ákvörðun voru færð fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda. Var því áskilnaði 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvörðunar gætt.

Eðli máls samkvæmt er hagnýtingu fasteigna settar skorður í ýmsum lögum með tilliti til almannahagsmuna. Skipulagslög og mannvirkjalög hafa m.a. það hlutverk að setja slíkar almennar skorður. Í 15. gr. mannvirkjalaga kemur fram að lóðarhafi og byggingarleyfishafi beri ábyrgð á að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið eftir ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Óleyfisframkvæmd í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar getur þannig ekki orðið andlag eignarréttinda sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu að hin kærða ákvörðun brjóti gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kærenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmd innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________                      ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson