Árið 2018, þriðjudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 63/2018, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 23. mars 2018 um að veita neikvætt svar við fyrirspurn um hvort samþykkt yrði umsókn um breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.174.1 vegna lóðanna nr. 100B og 102 við Hverfisgötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hverfisgötu 100B og 102, Reykjavík, þá afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík að veita neikvætt svar við fyrirspurn um hvort samþykkt yrði umsókn um breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.174.1 vegna lóðanna nr. 100B og 102 við Hverfisgötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. maí 2018.
Málavextir: Með umsókn, dags. 17. nóvember 2016, óskuðu kærendur eftir leyfi til að reka gististað í flokki II í fjórum íbúðum í mannvirkjum á lóðunum nr. 100B og 102 við Hverfisgötu. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. apríl 2017 var lögð fram neikvæð umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um umsóknina og umsögnin samþykkt. Var vísað til þess að umræddar lóðir væru á landnotkunarsvæði M1c, blönduð miðborgarbyggð-íbúðarbyggð, og að Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 tæki ótvírætt af skarið hvað varðaði heimildir til reksturs gististaða á svæðinu, en á því skyldi skilgreina sérstaklega í deiliskipulagi þær heimildir um íbúðarhúsnæði sem ætlað væri til útleigu ferðamanna. Engar slíkar heimildir væru í deiliskipulagi svæðisins, staðgreinireit 1.174.1, samþykktu 9. júní 2005.
Hinn 11. júlí 2017 fór fram fundur vegna málsins milli kærenda og fulltrúa borgaryfirvalda. Á þeim fundi var kærendum leiðbeint um að senda inn tillögu til breytingar á gildandi deiliskipulagi og var slík tillaga send til Reykjavíkurborgar 9. nóvember 2017 í formi fyrirspurnar til skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. mars 2018 var tekið neikvætt í hana með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. s.d. Hefur sú afgreiðsla verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að afgreiðsla leyfa sé afar handahófskennd og jafnræðis sé ekki gætt. Bendi þeir á ólíka afgreiðslu á umsókn þeirra og á sambærilegri umsókn sem hafi verið samþykkt, sbr. breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir staðgreinireit 1.181.0 frá 27. janúar 2017 fyrir efri hæð húss nr. 8 við Týsgötu.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 23. mars 2018 að taka neikvætt í fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi.
Af gögnum málsins verður ráðið að 9. nóvember 2017 leggja kærendur fram tillögu að breyttu deiliskipulagi og óska þess að hún fái málsmeðferð skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan þess efnis að skilmálum deiliskipulagsins yrði breytt á þá leið að heimilt yrði að hafa gististað í flokki II í húsunum að Hverfisgötu 100B og 102 í Reykjavík. Tillaga þessi var send sem fyrirspurn í gegnum vefsvæði Reykjavíkurborgar, Mínar síður, Rafræn Reykjavík. Í umsóknarferlinu, hvort sem valið er að senda inn umsókn eða fyrirspurn, koma báðir valmöguleikar upp þar sem útskýrður er munur þessara erinda. Til fyrirspurna eru gerðar vægari kröfur til framlagðra gagna og tekið fram að ef tekið verði jákvætt í fyrirspurn sé hægt að senda inn umsókn. Um umsókn segir að fullnaðargögn þurfi að berast svo hægt sé að taka erindið fyrir og að afgreiðsla skipulagsfulltrúa sé stjórnvaldsákvörðun sem hægt sé að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Þrátt fyrir að erindi kærenda hafi verið í formi fyrirspurnar bera þau gögn er fylgdu erindinu það með sér að um sé að ræða umsókn. Efni erindisins er „Tillaga að breyttu deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.1“ og í erindinu kemur fram að óskað sé, með vísan til 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga, að skilmálum deiliskipulagsins verði breytt. Enn fremur að þess sé óskað að tillagan fái meðferð samkvæmt 43. gr. skipulagslaga og að kærendur telji breytinguna vera óverulega í skilningi 2. mgr. ákvæðisins.
Samkvæmt tilvitnaðri 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga getur landeigandi eða framkvæmdaraðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu að deiliskipulagi á sinn kostnað. Í erindi kærenda er að finna kafla með heitið „Tillaga til breytingar á núverandi deiliskipulagi“ og kemur þar fram að þess sé óskað að skilmálum verði breytt á þá vegu að heimilt verði að hafa gististaði í flokki II í tilgreindum fasteignum þeirra. Að teknu tilliti til þess að eingöngu var um skilmálabreytingu að ræða verður ekki séð að skortur á fullnaðargögnum hafi staðið efnislegri afgreiðslu í vegi. Verður að teknu tilliti til alls framangreinds að líta á erindi kærenda til Reykjavíkurborgar sem umsókn en ekki fyrirspurn. Við málsmeðferðina bar borgaryfirvöldum að lágmarki, með vísan til 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ganga úr skugga um hvort kærendur hefðu ætlað að senda erindi sitt inn sem fyrirspurn eða umsókn og leiðbeina þeim þar um, enda gaf erindi þeirra samkvæmt efni sínu tilefni til þess.
Það verður ekki fram hjá því litið að ekki liggur fyrir lokaákvörðun í máli þessu þar sem umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi hefur hvorki verið synjað né samþykkt. Af því verða kærendur þó ekki látnir bera halla. Verður því að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Svo sem fram hefur komið þá sótti kærandi um skilmálabreytingu á deiliskipulagi 9. nóvember 2017. Ákvörðun hefur ekki verið tekin í málinu en fyrir liggur að borgaryfirvöld telja að málinu sé lokið af sinni hálfu. Með vísan til framangreinds er því lagt fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.
Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að taka umsókn kærenda um breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.174.1 vegna lóðanna nr. 100B og 102 við Hverfisgötu til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.
Nanna Magnadóttir (sign)
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign) Ásgeir Magnússon (sign)