Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2002 Bleikjukvísl

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2002, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 að gefa út byggingarleyfi vegna byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og í bréfi lögmanns kærenda, dags. 27. febrúar 2002, er þess krafist að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 16. júlí 2002.

Málavextir:  Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur neðst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10.  Á milli þeirra er göngustígur.

Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 1982 var gert ráð fyrir dagvistarstarfsemi á lóðinni en með deiliskipulagi samþykktu í skipulagsnefnd hinn 5. júní 1989 og borgarráði 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem fól í sér að á lóðinni skyldi vera gæsluvöllur, 60m² hús, leiktæki og náttúrulegt holt.  Starfrækslu gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og húsið sem stóð á lóðinni flutt í burtu. 

Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla.  Honum var úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002 og var frestað, en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði.  Þá var hönnuði bent á að hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár. 

Að lokinni auglýsingu og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 24. apríl 2002.  Nefndin samþykkti breytingu á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 30. apríl 2002.  Kærendur skutu ákvörðunum þessum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum í dag hefur vísað frá kæru vegna aðalskipulags en fellt úr gildi hið kærða deiliskipulag lóðarinnar .

Hinn 4. júlí 2002 var gefið út byggingarleyfi vegna leikskólabyggingarinnar, en hún er 461,7 m² að stærð.  Leikfangageymsla er stendur á lóðinni er 7 m².  Húsið er finnskt timbureiningahús, klætt að utan með lóðréttri timburklæðningu í ljósgráum lit. 

Framangreinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að kæran þeirra hafi borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests en byggingarleyfi það sem um sé deilt í málinu hafi verið gefið út 4. júlí 2002.  Það hafi verið kært til nefndarinnar með bréfi, dags. 28. nóvember s.á. sem borist hafi nefndinni hinn 29. sama mánaðar.  Kærendur telja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi ólögmætar og gera þeir athugasemd við að ósamræmi sé milli hins nýsamþykkta deiliskipulags og byggingarleyfisins.  Í kærunni segir að kærendum hafi orðið kunnugt um byggingarleyfið um miðjan nóvember er þeim hafi borist í hendur teikningar af leikskólanum og kæran hafi því borist innan kærufrests.  Vísa kærendur til þess að þeir séu ólöglærðir, enda segi í kærunni að þeir hafi talið að ekki mætti gefa út byggingarleyfi á meðan ekki hafi verið úrskurðað í eldri kæru þeirra vegna aðal- og deiliskipulags lóðarinnar.  Þeim hafi því ekki verið kunnugt um að fyrir lægi kæranleg stjórnsýsluákvörðun og framkvæmdir á lóðinni breyti þar engu um.  Með vísan til fyrri samskipta kærenda við borgaryfirvöld sé því haldið fram að þeir hafi mátt ætla að þeim yrði tilkynnt sérstaklega um veitingu byggingarleyfisins.  Kærufrestur teljist almennt ekki byrja að líða þótt óstaðfestar upplýsingar berist aðila á skotspónum og því verði að telja að kæran hafi borist innan kærufrests samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997. 

Verði ekki fallist á ofangreinda röksemdafærslu vísa kærendur til 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segi að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni fari eftir stjórnsýslulögum nr. 73/1993 sem geri lágmarkskröfur til málsmeðferðar.  Ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina víki fyrir settum lögum.  Því sé haldið fram að ef í skipulags- og byggingarlögum eða reglugerð um úrskurðarnefndina felist ákvæði um málsmeðferð sem geri vægari kröfur til málsmeðferðar, þ.e. veiti aðila minna réttaröryggi en samkvæmt stjórnsýslulögum, verði að telja að stjórnsýslulögin gildi. 

Þá er því einnig haldið fram með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki skuli vísa kæru kærenda frá þar sem að afsakanlegt sé að hún hafi ekki borist fyrr.  Einnig sé vísað til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar vegna hinna skýru og alvarlegu ágalla á byggingarleyfinu og vegna þess að byggingarleyfið varði mikilvæga hagsmuni fjölda fólks sem búsett sé í nágrenni við bygginguna. 

Kærendur byggja á því að aðal- og deiliskipulag sem liggi til grundvallar hinu kærða byggingarleyfi séu ógild og þar með sé byggingarleyfið einnig ógilt, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Verði fallist á að aðal- og deiliskipulag lóðarinnar séu gild halda kærendur því fram að slíkir efnislegir annmarkar séu á hinu útgefna byggingarleyfi að ógildingu þess varði.  Samþykktar teikningar og framkvæmdaáform, sem séu hluti af hinu kærða byggingarleyfi, séu ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Í deiliskipulagsskilmálum segi að aðkoma akandi að lóðinni sé um Bleikjukvísl og utan lóðar séu 12 bílastæði við enda götunnar.  Kærendur halda því fram að þetta sé hið bindandi ákvæði deiliskipulagsins sem beri að hlíta, sbr. 11. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þó svo að í greinargerðinni með deiliskipulaginu segi að aðkoma og bílastæði verði frá Streng og að þar verði gerð átta ný bílastæði feli slíkt ekki í sér bindandi ákvæði deiliskipulagsins, heldur einungis lýsingu forsendna þess og skýringu við það, sbr. 4. mgr. 23. leiki gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð.  Því sé óheimilt samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins að hafa bílastæði og aðkomu lóðarinnar annars vegar frá Bleikjukvísl og hins vegar frá Streng eins og fram komi í byggingarleyfinu.  Auk þess komi fram í byggingarleyfinu að aðkoma að leikskólanum verði ekki frá Bleikjukvísl og Streng heldur annars vegar frá Bleikjukvísl og þaðan eftir göngustíg að vestanverðu og hins vegar frá Streng að sunnanverðu og eftir göngustíg að vestan.  Deiliskipulagið heimili ekki að aðkoma sé um göngustíga heldur einungis frá Bleikjukvísl og hugsanlega Streng verði ekki fallist á sjónarmið kærenda um að það sé óheimilt samkvæmt deiliskipulaginu.  Byggingarleyfið sé því í ósamræmi við deiliskipulagið og beri af þeim sökum að ógilda það.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að krafan sé of seint fram komin.

Þá heldur Reykjavíkurborg því fram að aðkomur að leikskólanum, samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, séu í fullu samræmi við deiliskipulagið.  Kveðið sé á um aðkomu bíla frá Bleikjukvísl og Streng og ekkert banni það að gengið sé inn á lóðina frá göngustígnum milli lóðanna.  Þá hafi hliðið inn á lóðina verið fært að Streng og hafi verið sótt um þá breytingu.  Engu breyti um gildi byggingarleyfisins þótt lóðarhafar hafi vikið frá því enda muni byggingaryfirvöld bregðast við þeim framkvæmdum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2002, lýsa byggingarleyfishafar sjónarmiðum sínum varðandi framkomna kæru.  Þeir benda á að framkvæmdum við leikskólann sé að mestu lokið og að börn hafi þegar hafið skólagöngu í leikskólanum.  Byggingarleyfishafar telji sig hafa farið að leikreglum enda þótt um misskilning af þeirra hálfu hafi verið um að ræða þegar þau hafi farið út fyrir lóðarmörk.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 29. nóvember 2002, en hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út hinn 4. júlí s.á.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt ákvæðinu er kærufrestur einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á samþykkt, sem hann hyggst kæra til úrskurðarnefndarinnar. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að í september árið 2002 var kærendum kunnugt um að framkvæmdir við bygginguna væru hafnar, enda segir í bréfi þeirra til úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2002, að vinna við sökkla leikskólabyggingarinnar sé vel á veg komin.  Kærendum var ekki formlega kynnt leyfi skipulags- og byggingarnefndar fyrir byggingunni en á móti verður til þess að líta að þeir búa örskammt frá byggingarstað.  Það er álit úrskurðarnefndar að ætlast verði til þess að þeir sem kæra vilji framkvæmdir, sem þeir telja andstæðar hagsmunum sínum, leiti sér upplýsinga um heimildir fyrir þeim.  Kærendur kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember 2002 og var þá vinna við gerð sökkla vel á veg komin.  Með vísan til þessa verður að telja að kærufrestur vegna útgáfu byggingarleyfisins sé einn mánuður frá því að kærendum hafi mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar við bygginguna og hafi því byrjað að líða í síðasta lagi 30. september 2002 er kærendur rituðu úrskurðarnefndinni áðurnefnt bréf.  Því verður að telja að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt framansögðu ber, með vísan til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu leyfis fyrir byggingu leikskóla við Bleikjukvísl 10 í Reykjavík, samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. júlí 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________   ____________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Ingibjörg Ingvadóttir