Fyrir var tekið mál nr. 6/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með ábyrgðarbréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2012, og bréfi, dags. 28. janúar 2013, sem barst nefndinni 1. febrúar s.á., kærir Leó E. Löve hrl., f.h. A, Hraunteigi 16, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. febrúar 2013.
Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 27. júní 2012 var tekin fyrir umsókn, dags. 19. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig. Í breytingunni fólst m.a. að verslunarhúsnæði yrði breytt í íbúðarhúsnæði með fjórum íbúðum, einni inndreginni hæð yrði bætt við bygginguna að hluta og heimiluð yrði tveggja hæða viðbygging í stað einnar hæðar. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu og var afgreiðslan staðfest af borgarráði 5. júlí s.á. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 25. s.m. með athugasemdafresti til 5. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 3. október s.á. Hinn 17. s.m. samþykkti skipulagsráð framlagða tillögu sem síðan var staðfest af borgarráði 25. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2012.
Málsrök kærenda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa veruleg áhrif á sólfar á lóð hans við Hraunteig 16, einkum þegar sól sé lágt á lofti. Sé nauðsynlegt að vekja athygli á því að túlkun umhverfis- og skipulagssviðs á skuggavarpi hafi aðeins náð til hálfs árs, þ.e. þess helmings sem sé bjartari, og sé því alröng. Að auki muni breytingin hafa í för með sér lýti á götumyndinni.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæran sé of seint fram komin. Hafi hin kærða breyting verið auglýst endanlega í Stjórnartíðindum 19. desember 2012. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar í Stjórnartíðindum. Hafi kærufrestur því runnið út 19. janúar 2013, en kæran sé hins vegar dagsett 28. s.m., eða níu dögum eftir að kærufrestur hafi runnið út.
Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að það liggi fyrir í málinu að ákvörðun hafi verið tekin og auglýst 19. desember 2012 þegar auglýsing um breytingu á deiliskipulagi við Kirkjuteig hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Hafi kærufrestur því verið liðinn er kæran barst. Bent sé á að sendandi erindisins sé lögfræðingur og vegna þess sé ekki afsakanlegt að erindið hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufrestur hafi verið liðinn. Eigi því ekki að taka erindið til efnislegrar meðferðar.
Leyfishafar hafi verið í góðri trú um að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi gengið í gegn. Gerðar hafi verið ráðstafanir vegna breytinganna, sem eðli máls samkvæmt hafi haft ákveðinn kostnað í för með sér og gæti því leitt til fjárhagslegt tjón verði kæran tekin til efnismeðferðar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs frá 25. október 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Teigahverfi vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig, sem öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember s.á. Kærandi skaut hinni kærðu ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með ábyrgðarbréfi, dags. 19. nóvember 2012. Var honum bent á að kærufrestur teldist frá birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og yrði kærunni því ekki sinnt fyrr en að þeim tíma liðnum. Var kæranda jafnframt bent á að láta úrskurðarnefndina vita þegar birting hefði átt sér stað, sem hann og gerði með tölvubréfi 27. janúar 2013. Ítrekuð kæra, dags. 28. s.m., barst svo nefndinni 1. febrúar sama ár.
Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og lýst hefur verið var ekki tekið við upphaflegri kæru með formlegum hætti en að sama skapi var henni ekki vísað frá nefndinni með úrskurði. Kæranda var leiðbeint um framhald málsins en í ljósi þeirra atvika sem lýst er verður að líta svo á að kæra hafi legið fyrir úrskurðarnefndinni þegar deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um og þar með borist innan kærufrests. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.
Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóðar á íbúðarsvæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er merkt ÍB21, Teigar. Er svæðinu lýst sem hverfi sem sé að mestu fullbyggt og fastmótað og yfirbragð þess sé fjölbreytt. Er þétting byggðar og blönduð landnotkun eitt af yfirlýstum markmiðum aðalskipulagsins. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.
Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Með deiliskipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir hækkun núverandi húss, að hluta um eina inndregna hæð, og tveggja hæða viðbyggingu og mun nýtingarhlutfall lóðarinnar verða 0,99. Í gildandi deiliskipulagi er heimilað nýtingarhlutfall fyrir sambýlishúsalóðir 0,5-0,8. Að auki segir að nýtingarhlutfall margra lóða sé yfir uppgefnum viðmiðum og að almennt sé heimilt að víkja frá því viðmiði, s.s. vegna hækkunar húsa eða viðbygginga. Þá er til þess að líta að lóðin við Kirkjuteig 21 er ekki fullnýtt og er gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu auk kjallara í gildandi deiliskipulagi. Verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið ekki talið að deiliskipulagsbreytingin sé slík, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.
Hin umdeilda breytingartillaga var auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið. Var málsmeðferð því í samræmi við skipulagslög.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.
Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist verulega í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. október 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson