Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2010 Mosfellsbær

Mál nr. 6/2010. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2010 Róbert Ásgeirsson, Litlakrika 29, Mosfellsbæ gegn Heilbrigðiseftirliti Kjósasvæðis.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, sem send var úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir þann 7. október 2010, kærði Róbert Ásgeirsson (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Kjósasvæðis (hér eftir nefnt kærði) um að fella niður mál sem Heilbrigðiseftirlitið hafði til meðferðar og varðaði að hundur hefði bitið dóttur kæranda. Kærandi gerir þær kröfur að málið verði tekið upp að nýju hjá kærða og að tryggt verði að viðkomandi hundur geti ekki bitið barn aftur.

II. Málmeðferð

Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 7. október 2010 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 25. október 2010, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Beiðni um greinargerð af hálfu kærða var ítrekuð með bréf, dags. 22. nóvember 2010. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 2. desember 2010, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2010. Að ósk kæranda voru honum með bréfi, dags. 7. janúar 2011, send afrit af þeim gögnum sem fylgdu greinargerð kærða. Þann 5. janúar 2011 bárust athugasemdir frá kæranda við greinargerð kærða. Athugaemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi, dags. 27. janúar 2011. Kom kærði frekari athugasemdum af sinni hálfu á framfæri með bréfi, dags. 8. febrúar 2011 og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dags. 14. febrúar 2011.

III. Málsatvik

Miðvikudaginn 19. ágúst 2010 varð dóttir kæranda fyrir því að vera bitin af hundi. Var hún þá á hjóli á göngustíg en stoppaði til að hleypa krökkum með hunda fram hjá sér, þ. á m. var drengur með hund í taumi. Stúlkan klappaði hundinum sem drengurinn var með, en þegar hún lagði aftur af stað á hjólinu mun hundurinn hafa stokkið á eftir henni, ráðist á hana og bitið ítrekað í lærið áður en drengnum tókst að draga hann burtu. Hundaeftirliti Mosfellsbæjar var tilkynnt um atburðinn en í fyrstu tókst ekki að hafa upp á hundinum sem beit stúlkuna. Föstudagskvöldið 27. ágúst 2010 taldi stúlkan sig bera kennsl hvort tveggja á hundinn sem beit hana og drenginn sem hafði verið með hann. Voru upplýsingar þess efnis veittar Hundaeftirlitinu og í framhaldi af því skrifaði kærði bréf til eiganda hundsins sem stúlkan hafði borið kennsl á og gerði grein fyrir atburðinum. Í bréfinu var enn fremur sett fram krafa kærða um að hundurinn skyldi aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefði fullt vald yfir honum, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. samþykktar um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998, auk þess sem hundurinn skyldi ávallt vera mýldur utan heimilis síns. Um var að ræða hund að nafni Tinni. Eigandi hans dró í efa að kennsl hefðu verið borin á réttan hund og kvað son sinn, 8 ára gamlan, ekki kannast við að hundurinn hefði bitið einhvern þegar hann hefði verið úti með hann. Þá lét eigandi umrædds hunds framkvæma atferlismat á hundinum og segir í niðurstöðu þess að hundurinn sé ekki hættulegur. Af gögnum málsins má ráða að kærði hafi óskað eftir því í símtali við eiganda hundsins að gert yrði atferlismat á hundinum til að kanna hvort hann væri hættulegur. Kærði sendi kæranda bréf, dags. 20. september 2010, þar sem segir að málið sé þannig vaxið að aðeins börn hafi orðið vitni af atburðinum og til frásagnar um hann. Dóttir kæranda telji sig vita hvaða hundur hafi bitið hana en drengurinn sem hafi verið með hundinn kannist ekki við að hafa farið svo langt frá heimili sínu. Þá segir í bréfinu að borist hafi atferlismat vegna hundsins sem stúlkan bar kennsl á og niðurstaða þess sé að umræddur hundur sé ekki hættulegur og ekki líklegur til þess að hafa bitið barn. Síðan segir að komi ekki fram nýjar upplýsingar í málinu muni kærði sjá sig knúinn til að fella úr gildi ákvörðun um að hundurinn skuli ávallt vera mýldur utandyra og aðhafast ekki frekar í málinu. Kærði sendi eiganda umrædds hunds bréf, dags. 30. september 2010, þar sem fram kom að ákvörðun hefði verið tekin um að láta málið falla niður af hálfu kærða.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveður dóttur sína hafa gefið góða lýsingu á hundinum sem beit hana, auk þess sem hún hefði heyrt að nafn hans byrjaði á T. Þá hafi stúlkan einnig borið kennsl á hundinn og drenginn sem var með hann nokkrum dögum eftir að hún var bitin. Áður hafi hún verið búin að lýsa smáatriðum sem kærandi telur útiloka að um annan hund hafi verið að ræða. Kærandi bendir á að staðfest hafi verið að drengurinn, sem dóttir hans hafi borið kennsl á, hafi verið með hundinn, sem dóttir hans bar einnig kennsl á, daginn sem hún var bitin af hundi. Hins vegar hafi ekki verið staðfest að umræddur drengur og umræddur hundur hafi verið á þeim stað sem atburðurinn á að hafa átt sér stað. Hann gagnrýnir að ekki hafi verið kölluð til börn sem gætu staðfest frásögn drengsins og að frásögn stúlkunnar væri dregin í efa. Stúlkan hafi lýst hundinum þannig að séreinkenni hundsins Tinna hafi komið fram og hafi borið kennsl á hann og drenginn saman rúmri viku eftir að hún var bitin. Kærandi gagnrýnir atferlismatið sem hundurinn Tinni var settur í og kveður að í stað þess að fara með hundinn í atferlismat til óháðs aðila hafi eigandi hans farið með hann á Dýralæknamiðstöðina Grafaholti til vinar síns og keypt þar atferlismat. Til staðfestingar á tengslum eiganda hundsins og dýralæknisins hefur kærandi lagt fram í fyrsta lagi upplýsingar um hvaða dýralæknar standi að Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti, í öðru lagi upplýsingar um æskulýðsnefnd hestamannafélagsins Harðar og í þriðja lagi útprentun af ,,Facebook“ síðu eiganda hundsins Tinna. Samkvæmt framlögðum upplýsingum af heimasíðunni www.dyrin.is eru dýralæknar Dýralæknamiðstöðvarinnar Grafarholti fjórir, þ.e. Steinunn Geirsdóttir, Sif Traustadóttir, Ellen Ruth Ingimundardóttir og Dagmar Vala Hjörleifsdóttir. Það var Sif Traustadóttir sem framkvæmdi atferlismat það á hundinum Tinna sem liggur fyrir í kærumáli þessu. Samkvæmt öðrum framlögðum upplýsingum mun starfsfélagi Sifjar og meðeigandi hennar að Dýralæknamiðstöðinni, Ellen Ruth Ingimundardóttir, hafa ásamt eigandi Tinna verið í sjö manna æskulýðsráði hestamannafélagsins Harðar veturinn 2007 ? 2008, auk þess sem þær eru tilgreindar sem vinir á ,,Facebook“. Kærandi gagnrýnir enn fremur að hundurinn hafi verið prófaður á heimili sínu með eiganda sinn sér við hlið og að ekki sé hægt að lesa út úr skýrslu um atferlismatið hvaða áreiti hundurinn hafi orðið fyrir við matið. Kærandi efast mjög um að atferlismatið sem gert var á hundinum Tinna og sem kærði byggði niðurstöðu sína á og kveðst hann telja afgreiðslu málsins vera Heilbrigðiseftirlitinu til skammar. Aldrei hefði átt að móttaka skýrsluna um atferlismatið sem gagn í málinu, hvað þá að taka afstöðu til málsins út frá henni og fella það niður. Að láta hund njóta vafans fram yfir þúsundir barna og unglinga sem sæki opin svæði Mosfellsbæjar sé hneisa. Í athugasemdum sem úrskurðarnefndinni bárust frá kæranda 5. janúar 2011 ítrekar hann athugasemdir sínar við hvernig staðið var að gerð atferlismatsins sem framkvæmt var á hundinum Tinna. Þá fylgdu athugasemdum hans tölvupóstssamskipti milli hans og hundaeftirlitsmanns Mosfellsbæjar. Í tölvupóstsskeyti hundaeftirlitsmannsins til kæranda, dags. 29. desember 2010, segir m.a.: ,,Jú, ég get staðfest það að dóttir þín sagði að hundurinn sem beit sig væri þrílitur og líka þrílitur í framan. Aðallitur hundsins passaði líka alveg við lýsingu hennar (þó hvíti liturinn í hundinum hafi haft minna vægi í lýsingunni hjá dóttur þinni, en raunin er, þar sem Tinni er með stóran hvítan kraga), – en þess má geta að það er heldur ekki skrítið þar sem höfuð hundsins skyggir á hvítan kragann, þegar horft er framan á hundinn. Hún var ekki viss um tegundina, og þess vegna kom ég til ykkar með hundabókina, til að við gætum farið betur yfir, bæði aðallitinn á hundinum og hvaða tegundir kæmu til greina. Þannig að: Hún gat lýst stærð, aðallitunum og hann sagði líka að hann væri þrílitur á snoppunni. Stærðin passaði líka fyrir íslenskan fjárhund.“

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða er atburðum málsins, eins og þeir birtust kærða, lýst í tímaröð. Í niðurstöðum er frá því greint að framburður dóttur kæranda sé trúverðugur, en hins vegar sé sönnunarbyrðin með þeim hætti að ekki sé annað hægt en að fella málið niður og tekið fram að þar vegi nokkuð þungt atferlismatið sem framkvæmt var á hundinum Tinna. Í athugasemdum frá kærða, sem bárust úrskurðarnefndinni í febrúar 2011, segir að kærði leggi áherslu á að umrætt atferlismat hafi verið unnið af til þess hæfum einstaklingi og á hans ábyrgð. Samkvæmt upplýsingum kærða hafi atferlismatið ekki verið unnið af dýralækni hundsins Tinna, en eigandi hundsins hafi þó skipt við dýralæknastofnuna sem dýralæknirinn vinni á. Þá segir í athugasemdunum að það sé mjög mikilvægt að kærði hafi metið framburð dóttur kærða trúverðugan og að það hafi orðið til þess að kærði hafi sett fram þá kröfu að atferlismat færi fram. Eftir að atferlismatið hafi legið fyrir hafi hundurinn verið metinn hættulaus og segi í umsögn að afar ólíklegt sé að atburðurinn geti endurtekið sig. Þar með sé kærði ekki að taka afstöðu til þess hvort atburðurinn hafi gerst eða ekki, heldur telji kærði sig vera búinn að sinna rannsóknarskyldu sinni og tryggja sem best öryggi íbúa. Þá segir að kærði telji að sérfræðinginn, sem framkvæmdi atferlismatið, hafi sett starfsheiður sinn að veði með skýrslu sinni um matið og telur kærði ekki tilefni til að efast um innihald þeirrar skýrslu.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í samþykkt um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998 er að finna ákvæði um hvernig bregðast skuli við ef hundur bítur mann. Þar segir í 2. og 3. málslið 3. mgr. 7. gr.: ,,Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur dýraeftirlitsmaður í samráði við heilbrigðisfulltrúa tekið ákvörðun um að hundur verði aflífaður þegar í stað. Óski hundeigandi þess er heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin.“ Það virðist óumdeilt í máli þessu að dóttir kæranda hafi verið bitin af hundi í Mosfellsbæ í ágúst á síðasta ári. Stúlkan þekkti hvorki hundinn þegar hann beit hana né dreng sem var með hundinn. Hún taldi sig hins vegar bera kennsl hvort tveggja á hundinn og drenginn nokkrum dögum síðar. Var þar um að ræða hundinn Tinna og son eiganda hans. Af framlögðum gögnum má ætla að lýsingar sem stúlkan hafði gefið áður en hún bar sjálf kennsl á hundinn hafi komið heim og saman við hundinn Tinna. Að sögn eiganda Tinna kannast sonur hennar hins vegar ekki við þá atburði sem stúlkan lýsir. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um að rætt hafi verið við son hundeigandans af hálfu starfsmanna kærða, heldur liggur aðeins fyrir frásögn móður hans. Kærði tilkynnti eiganda hundsins Tinna, með bréfi dags. 31. ágúst 2010, að tilkynning hefði borist um að hundur hennar hefði bitið barn. Eins og að framan greinir krafðist kærði þess í bréfinu að hundurinn gengi aldrei laus á almannafæri heldur væri í taumi í fylgd með aðila sem hefði fullt vald yfir honum og jafnframt að hundurinn væri ávallt mýldur utan heimilis síns. Svo virðist sem kærði hafi óskað eftir því í símtali við hundeigandann að atferlismat yrði gert á hundinum. Eigandi hundsins Tinna svaraði bréfi kærða með bréfi, dags. 12. september 2010. Þar kveðst hún m.a. hafa fengið Sif Traustadóttur dýralækni og sérfræðing í atferli dýra til að leggja mat á það hvort Tinni væri líklegur til að bíta. Mat dýralæknisins hafi verið að hundurinn væri ekki líklegur til þess að bíta og hafi ekki sýnt merki um vanlíðan, hræðslu eða annað. Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla Sifjar Traustadóttur dýralæknis sem framkvæmdi atferlismat á hundinum Tinna þann 10. september 2010 á heimili hundsins. Skýrsla hennar um atferlismatið er dags. 15. september 2010 og stíluð á kærða. Í skýrslunni segir að það sé mat dýralæknisins ,,að hundurinn Tinni sé ekki hættulegur og að í raun leiki enn vafi á því að hann sé sá hundur sem beit barn við Varmárskóla þann 19. ágúst sl.“ Á grundvelli þessa mats og þeirrar niðurstöðu að hundurinn Tinni væri ekki hættulegur ákvað kærði að fella niður mál það sem varðaði það er dóttir kæranda var bitin af hundi. Kærandi hefur hins vegar gert margvíslegar athugasemdir við atferlismat það sem kærði byggir ákvörðun sína á, m.a. þær að matið hafi farið fram á heimili hundsins, það hafi verið keypt af eiganda hans og að tengsl séu milli eiganda hundsins og dýralæknisins sem framkvæmdi matið. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um vanhæfisástæður. Ekki er unnt að fella tengsl dýralæknisins og eiganda hundsins Tinna undir ákvæði þeirrar greinar og því verður ekki á því byggt að dýralæknir sá sem framkvæmdi umrætt atferlismat hafi verið vanhæf. Hins vegar telur úrskurðarnefndin rétt með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 7. gr. samþykktar um hundahald í Mosfellsbæ nr. 332/1998, sem veitir heimild til að leita álits héraðsdýralæknis, að heimvísa kærumáli þessu til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sem skal leita álits hjá héraðsdýralækni áður en ákvörðun er tekin um afgreiðslu erindis kæranda til kærða. Getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að kærði byggi ákvörðun sína á atferlismati sem eigandi hundsins leitaði sjálfur eftir frá völdum dýralækni, enda virðist í því mati sem dýralæknirinn hafi horft til efnisþátta þessa máls en ekki eingöngu til þess hvort hundurinn væri hættulegur. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að rétt sé að heimvísa máli þessu til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis til endurskoðunar vegna ágalla á málinu.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað aftur til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                  Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 4/8/11