Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 13. desember 2006 um deiliskipulag á Suðurströnd, skóla- og íþróttasvæði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. janúar 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 13. desember 2006 um deiliskipulag á Suðurströnd, skóla- og íþróttasvæði.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Í júní árið 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd og m.a. íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum. Í kjölfar niðurstöðu atkvæða-greiðslunnar var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra í maí 2006. Auglýsing um gildistöku þess birtist í B- deild Stjórnartíðinda hinn 5. október s.á. Þá var og unnið deiliskipulag af svæðum þeim er um ræðir og á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 21. september 2006 var samþykkt að vísa tillögu að deiliskipulagi Suðurstrandar, skóla- og íþróttamannvirkja, til bæjarstjórnar, sem á fundi hinn 25. s.m., ákvað að auglýsa tillöguna. Var deilskipulagstillagan auglýst hinn 27. september 2006 og bárust tvær athugasemdir, önnur frá foreldraráði Gunnskóla Seltjarnarness og hin frá íbúum að Melabraut 21. Hinn 13. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag Suðurstrandar, skóla- og íþróttasvæðis, og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. janúar 2007.
Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis fyrir þjónustustofnanir bæjarfélagsins, svo sem grunnskóla, íþróttamiðstöðvar og íþróttasvæðis. Samkvæmt skipulaginu er heimilt að reisa á svæðinu 3.400 fermetra nýbyggingar ofanjarðar og allt að 2.000 fermetra bílageymslur, að hluta neðanjarðar. Nýbyggingar þær sem eru heimilaðar eru m.a. viðbygging íþróttamiðstöðvar og stækkun þjónustuaðstöðu á jarðhæð íbúða eldri borgara. Á íþróttasvæðinu er gert ráð fyrir gervigrasvelli auk æfingavallar og hlaupabrautar. Þá er heimilt að reisa yfirbyggða áhorfendastúku fyrir um 300 áhorfendur. Gert er ráð fyrir flóðlýsingu við völlinn og allt að sex 22 metra háum möstrum.
Framangreindri samþykkt bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag víki í nokkrum grundvallaratriðum frá niðurstöðu kosninga þeirra er haldnar hafi verið á Seltjarnarnesi um skipulag Suðurstrandar og íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel.
Á skipulagsuppdrætti sé gert ráð fyrir byggingu, merktri H1, vestan við sundlaug, sem ekki hafi verið gerð grein fyrir eða sýnd á umræddu svæði á þeirri tillögu sem íbúar hafi kosið um. Hið sama gildi um byggingar merktar Þ1 og ÍÞ sem og byggingu S1, þ.e. búningsklefa ásamt stúku. Í greinargerð með tillögu S, þeirri er hlotið hafi meirihluta atkvæða, hafi komið fram með skýrum hætti að ekki hafi verið gert ráð fyrir nýbyggingum á Suðurströnd. Gert hafi verið ráð fyrir gervigrasvelli, bættri aðkomu við vesturenda sundlaugarinnar, fjölgun bílastæða og hjárein til móts við núverandi innakstur að sundlaug og heilsugæslu. Ekki hafi verið kveðið á um búningsklefa við völl eða stúku. Hið kærða deiliskipulag sé því ekki í samræmi við þá tillögu sem íbúar hafi samþykkt, þrátt fyrir að ljóst sé af gögnum málsins að hún hafi tekið yfir sama svæði og skilgreint sé í hinu kærða deiliskipulagi.
Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir æfingavelli (fótboltavelli), austan gervigrasvallar, sem ekki hafi verið sýndur á tillögunni sem íbúar hafi kosið um og samþykkt. Komi hann í stað bílastæða, sem tillagan hafi gert ráð fyrir.
Fram komi í deiliskipulaginu að á íþróttasvæðinu sé gert ráð fyrir flóðlýsingu og að umhverfis íþróttasvæðið sé heimilt að reisa gegnsæja girðingu allt að 5,5 metra háa við enda vallar en 4 metra á langhliðum. Samkvæmt hinni bindandi tillögu hafi verið ráðgert að umhverfis gervigrasvöllinn yrði 2-3 metra há girðing en á afmörkuðum svæðum við enda vallar yrði hún allt að 5,5 metra há.
Kosið hafi verið um tiltekið heildarbyggingarmagn, sem deiliskipulagið brjóti gegn. Fyrir liggi að á atkvæðaseðli hafi verið skýrt tekið fram að tillaga S, sem samþykkt hafi verið, hafi miðað við að heildarbyggingarmagn yrði 12.400 fermetrar á Hrólfsskálamel þar af 1.000 fermetrar vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar. Óumdeilt sé að í deiliskipulagi Hrólfsskálamels hafi 1.000 fermetrar ekki verið teknir frá vegna stækkunar íþróttamiðstöðvarinnar. Ennfremur sé óumdeilt að heildarbyggingarmagn hafi átt að vera 12.400 fermetrar á Hrólfsskálamel að frádregnum 1.000 fermetrum vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar.
Í deiliskipulagi Suðurstrandar sé ekki einungis gert ráð fyrir auknu byggingarmagni heldur sé þar einnig mælt fyrir um stækkun íþróttamiðstöðvarinnar, sem samþykkt tillaga hafi ekki gert ráð fyrir. Samkvæmt hinu kærða skipulagi sé gert ráð fyrir að þar megi reisa nýbyggingar allt að 3.400 fermetra ofanjarðar en auk þess allt að 2.000 fermetra bílageymslur, að hluta til neðanjarðar. Heildarbyggingarmagn sé því 5.400 fermetrar. Byggingarnar séu nánar skilgreindar svo að um sé að ræða stækkun íþróttamiðstöðvar, annars vegar til vesturs og suðurs í tengslum við sundlaug og hins vegar til austurs í tengslum við fimleikaaðstöðu. Þá sé gert ráð fyrir að reisa megi bílageymslu sunnan íþróttamiðstöðvar. Einnig sé gert ráð fyrir stækkun þjónustuaðstöðu á jarðhæð íbúða aldraðra við Skólabraut og að reisa megi stúku með búningsaðstöðu í tengslum við gervigrasvöll við Suðurströnd.
Byggingarmagn samkvæmt hinu kærða skipulagi sé ekki í samræmi við bindandi niðurstöður kosninga um skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar. Þá sé í skipulagi Suðurstrandar gert ráð fyrir stækkun íþróttamiðstöðvar, sem hafi samkvæmt framangreindu átt að vera ráðgerð á Hrólfsskálamel. Ennfremur séu þar fyrirhugaðar byggingar, sem hin samþykkta tillaga hafi ekki gert ekki ráð fyrir, s.s. bílageymsla, bygging við Skólabraut og stúka með búningsaðstöðu við gervigrasvöll auk þess sem girðing við völlinn sé of há.
Í kærumáli kæranda vegna deiliskipulags Hrólfsskálamels hafi því verið haldið fram af hálfu bæjaryfirvalda að ekki hafi verið gert ráð fyrir stækkun íþróttamiðstöðvar í því deiliskipulagi þar sem það taki ekki til svæðisins sem íþróttamiðstöðin standi á og því sé gert ráð fyrir þessari stækkun í skipulagi Suðurstrandar, þ.e. 1.000 fermetra byggingarmagni. Hér sé um rangfærslu að ræða en þó tekið fram ex tuto að ef úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu, af einhverjum ástæðum, að í skipulagi Hrólfsskálamels hafi ekki átt að skilgreina stækkun íþróttamiðstöðvar þá sé engu að síður ljóst að ætíð hafi verið gert ráð fyrir einungis 1.000 fermetra byggingarmagni fyrir íþróttamiðstöð. Skipulag Suðurstrandar ráðgeri aftur á móti heildarbyggingarmagn 5.400 fermetra.
Bent sé á að kærandi eigi augljósa hagsmuni af meðferð kærumáls þessa fyrir úrskurðarnefndinni. Hann sé búsettur að Steinavör 6, Seltjarnarnesi eða í næsta nágrenni við hið skipulagða svæði. Afgreiðsla skipulagsins sem og fyrirhugaðar framkvæmdir á grundvelli þess geti því augljóslega snert hagsmuni hans, enda teljist hann „nágranni“ í skilningi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hann hafi því lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og verði því að viðurkenna honum kæruaðild.
Á því sé byggt að kosning um skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar, sem haldin hafi verið hinn 25. júní 2005, hafi verið bindandi fyrir sveitarstjórn með vísan til 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Því sé bæjarstjórn skylt að haga tillögugerð um deiliskipulag Suðurstrandar í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið þannig að sú tillaga fengi lögmæta málsmerðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þessu verði ekki almennt breytt nema með nýrri kosningu.
Kærandi hafi kært deiliskipulag Hrólfsskálamels og framkvæmdir við íþróttavöll. Þegar kærumál þessi séu skoðuð í samhengi við deiliskipulag Suðurstrandar og málsmeðferð bæjarstjórnar sé ljóst að vinna hefði þurft heildstætt skipulag fyrir svæðið í samræmi við niðurstöðu hinnar bindandi kosningar í stað þess að gera skipulag fyrir einstaka reiti innan svæðisins.
Hið kærða deiliskipulag taki yfir svæði, sem merkt sé á aðalskipulagi sem íþróttasvæði og svæði fyrir þjónustustofnanir. Hrólfsskálamelur sé merktur að hluta á miðsvæði. Í fyrsta kafla skipulagsreglugerðar segi um skipulagssvæði: „Deiliskipulag nær til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skal jafnan ná til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í þéttbýli skal deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.“ Svokölluð Suðurströnd og fyrirhuguð íbúðabyggð á Hrólfsskálamel myndi tvímælalaust „heildstæða einingu“, sbr. einnig fyrirkomulag við kosningu um skipulag þessara svæða, og hefði deiliskipulag því a.m.k. átt að ná til þess alls.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins og á því byggt að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þeir einir „..geta skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“ Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir. Hafi kærandi ekki gert grein fyrir því hvaða efnislegu sjónarmið eða hagsmunir búi að baki kærunni eða hverjir raunverulegir hagsmunir hans séu. Það hljóti að teljast frumskilyrði þess að slík kæra sé tekin til meðferðar hjá nefndinni.
Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa bæjarins á því að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á auglýsingartíma og með því hafi hann samþykkt tillöguna, sbr. áskilnað þar um í auglýsingum Seltjarnarnesbæjar um skipulagið. Réttur kæranda hafi fallið niður fyrir tómlæti hans um að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á kynningartíma hennar.
Verði ekki fallist á kröfu um frávísun málsins í heild telji Seltjarnarnesbær að vísa beri frá þeirri málsástæðu kæranda að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosningar um tillögur sem nota hafi átt „… sem grunn að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar“ eins og segi í upplýsingabæklingi um tillögurnar. Byggt sé á því að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé ekki til þess bær að fjalla um það hvort deiliskipulag sé í samræmi við þá kosningu eða geti a.m.k. ekki ógilt deiliskipulag á þeirri forsendu. Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ákvarðað valdsvið nefndarinnar. Samkvæmt því sé ljóst að úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Úrskurðarnefndin sé því ekki til þess bær að fjalla um þessa málsástæðu kæranda og beri að vísa henni frá.
Verði ekki fallist á þá frávísunarkröfu Seltjarnarnesbæjar sé á því byggt að deiliskipulagið sé í samræmi við niðurstöður almennra kosninga um skipulag svæðisins. Kosið hafi verið á milli tveggja tillagna sem kallaðar hafi verið S og H. Umræddar tillögur sýni í grófum dráttum drög að skipulagi svæðisins norðan Suðurstrandar, frá grænu svæði vestan sundlaugar að Nesvegi. Sé í tillögunum einkum fjallað um tvo hluta svæðisins þ.e. þann hluta sem sé vestastur og kallaður sé Suðurströnd, þar sem íþróttavöllurinn sé í dag, og þann hluta sem sé austastur og kallaður sé Hrólfsskálamelur. Í tillögum sem kosið hafi verið um sé ekki gerð grein fyrir skipulagi svæðisins þar sem íþróttamiðstöðin standi. Þá séu mörk milli svokallaðs Hrólfsskálamels og Suðurstrandar ekki skilgreind. Í bæklingi sem sendur hafi verið í hvert hús í aðdraganda kosninganna segi: „Bæjarstjórn Seltjarnarness ákvað á fundi sínum þann 25. maí sl. að efna til almennrar atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa um tvær tillögur sem grunn að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar.“ Í umræddum kosningum hafi því verið kosið í meginatriðum um hvort íþróttavöllurinn ætti að vera áfram á Suðurströnd eða flytjast á Hrólfsskálamel og hvort byggja ætti á Suðurströnd eða á Hrólfsskálamel. Kosningarnar hafi því snúist fyrst og fremst um það hvernig landnotkun þessara svæða skyldi háttað í grófum dráttum. Líta verði svo á að kosið hafi verið um megin fyrirkomulag byggðar en nánari útfærsla yrði ákveðin í deiliskipulagi. Umræddar tillögur hafi því verið, eins og ítrekað sé tekið fram í gögnum, grunnur fyrir gerð lögformlegs deiliskipulags fyrir svæðin. Ekki hafi verið kosið um fullfrágengnar deiliskipulagstillögur, enda hafi tillögurnar ekki uppfyllt skilyrði slíkra tillagna. Því hafi verið ljóst að eftir kosningarnar þyrfti að vinna lögformlegar deiliskipulagstillögur, þar sem nánar yrði gerð grein fyrir útfærslu tillagnanna, sem auglýstar yrðu og kynntar á lögformlegan hátt.
Hið kærða deiliskipulag hafi verið unnið á þessum forsendum enda sé það í öllum meginatriðum í samræmi við tillögu S sem meirihluti bæjarbúa hafi samþykkt í kosningunum. Í þessu sambandi sé bent á að allir bæjarbúar virðist þessu sammála enda hafi enginn gert athugasemdir við deiliskipulagið á þeim forsendum að það samræmdist ekki niðurstöðu kosninganna auk þess sem aðeins tvær athugasemdir hafi borist við kynningu deiliskipulagsins. Minnt sé á að kærandi hafi ekki gert athugasemd á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar.
Vakin sé athygli á því að eftir kosningar um tillögu S og H hafi verið lokið vinnu við gerð aðalskipulags bæjarins. Við gerð þess hafi alfarið verið tekið mið af niðurstöðu kosninganna og niðurstaða þeirra fest í sessi sem stefnumörkun bæjaryfirvalda til 2024. Í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um uppbyggingu svæðisins á nokkrum stöðum. Í kafla 3.2 sé fjallað um opin svæði til sérstakra nota, þ.m.t. íþróttasvæðið á Suðurströnd. Þar segi m.a.: „Stefnt er að því að lokið verði við frágang á opnum svæðum í bæjarfélaginu á skipulagstímabilinu. Útfærsla einstakra svæða skal unnin í deiliskipulagi.“ Í kafla 4.4 um svæði fyrir þjónustustofnanir segir m.a. í almennum stefnumarkmiðum í málaflokknum: „Lögð er áhersla á kraftmikið íþrótta- og tómstundastarf, þar sem aðstaða er til fyrirmyndar.“ Um íþróttasvæði þjónustusvæðisins, þ.e. lóð íþróttamiðstöðvarinnar segi: „Markmið Seltjarnarnesbæjar er að stuðla að kraftmiklu íþrótta- og tómstundastarfi með því að bjóða upp á góða aðstöðu til iðkunar. Á skipulagstímabilinu verður lögð áhersla á endurbætur á þeirri aðstöðu sem fyrir er og fjölbreytt framboð. Í því augnamiði er m.a. stefnt að viðbyggingu við núverandi íþróttamiðstöð ásamt endurgerð núverandi íþróttavallar. Sjá einnig kafla 3.2 um stefnu um íþróttavöll við Suðurströnd.“ Í umhverfismati aðalskipulagsins sé áréttað að umfang og eðli framkvæmda á útivistarsvæðum sé háð útfærslu í deiliskipulagi. Jafnframt sé tekið fram að aðalskipulagið kveði á um viðbyggingu við íþróttamiðstöð og endurgerð íþróttavallar en framkvæmd og áhrif séu háð frekari útfærslu í deiliskipulagi. Í forsenduskýrslu sé jafnframt greint frá uppbyggingu íþróttavallarins og að fyrirhugaðar séu viðbyggingar við íþróttahúsið.
Í samræmi við niðurstöður kosninganna sé því kveðið á um það í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024 að íþróttasvæðið á Suðurströnd verði endurgert og að byggt verði við íþróttamiðstöðina. Jafnframt sé kveðið á um að nánari útfærsla endurbóta og uppbyggingar verði ákveðin í deiliskipulagi. Deiliskipulagið sé því í fullkomnu samræmi við niðurstöðu íbúakosningar um svæðið og stefnumörkun aðalskipulags enda sé kveðið á um það í aðalskipulaginu og í gögnum um íbúakosninguna að nánari útfærsla skipulagsins verði ákveðin í deiliskipulagi.
Öll sjónarmiðum kæranda um að annmarkar séu að þessu leyti á deiliskipulaginu eða að það samræmist ekki niðurstöðu íbúakosningarinnar séu því röng. Ljóst hafi verið og ákveðið fyrir kosninguna að útfæra þyrfti tillöguna í deiliskipulagi auk þess sem kosningarnar hafi ekki tekið til lóðar íþróttamiðstöðvarinnar eða annarra hluta svæðisins fyrir þjónustustofnanir sem deiliskipulagið taki til.
Þrátt fyrir að Seltjarnarnesbær hafi og hyggist, hér eftir sem hingað til, fylgja niðurstöðu kosninganna um tillögu S og H til hlítar sé bent á að umræddar kosningar hafi farið fram á síðasta kjörtímabili. Ný sveitarstjórn hafi verið kjörin síðan. Formlega hafi því hin bindandi áhrif kosningarinnar fallið niður í lagalegum skilningi. Það hafi þá þýðingu að jafnvel þó úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagið samræmist ekki niðurstöðu kosninganna væri skipulagið ekki ólögmætt.
Athugasemdum kæranda um afmörkun deiliskipulagssvæðisins sé mótmælt enda afmarkist það að mestu leyti af landnotkunarreit gildandi aðalskipulags bæjarins, þ.e. stofnanasvæði, þó íþróttasvæðið sé tekið með á þeim augljósu forsendum að starfsemi þar tengist beint þeirri íþrótta- og þjónustustarfsemi sem sé á stofnanasvæðinu. Svæðið myndi landfræðilega heild og heildstæða einingu og nái yfir öll helstu skóla-, íþrótta- og tómstundamannvirki bæjarins. Landnotkun Hrólfsskálamels sé hins vegar allt miðsvæði með allt aðrar skipulagsforsendur en það deiliskipulagssvæði sem hér sé til skoðunar.
Jafnframt sé vísað til þess að skipulagsferli deiliskipulags Suðurstrandar hafi alfarið verið í samræmi við gildandi aðalskipulag bæjarins og ákvæði skipulags- og byggingarlaga.
Mótrök kæranda við málsrökum Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann eigi augljósa lögvarða hagsmuni af meðferð þessa máls, enda teljist hann „nágranni“ í skilningi skipulags- og byggingarlaga. Úrskurðarnefndin sé bær til að fjalla um kærumál þetta, enda gangi kæruheimild skipulags- og byggingarlaga framar almennri kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá byggi hann á því að bæjarstjórn hafi verið skylt að haga tillögugerð um deiliskipulag Suðurstrandar í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið í kosningum hinn 25. júní 2005 þannig að sú tillaga gæti fengið lögmæta málsmeðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga. Að lokum sé á því byggt að ljóst sé miðað við gögn málsins og málsmeðferð bæjarstjórnar að vinna hefði þurft heildstætt skipulag fyrir svæðið í samræmi við niðurstöður hinnar bindandi kosningar samkvæmt fyrsta kafla skipulagsreglugerðar í stað þess að gera skipulag fyrir einstaka reiti innan svæðisins.
Niðurstaða: Í máli þessu liggur fyrir að undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var sá að unnin var tillaga að deiliskipulagi Suðurstrandar, skóla- og íþróttamannvirkja. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 21. september 2006 var samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar sem ákvað hinn 25. s.m. að auglýsa hana. Var deilskipulagstillagan auglýst hinn 27. september 2006 og bárust tvær athugasemdir, önnur frá foreldraráði Gunnskóla Seltjarnarness og hin frá íbúum að Melabraut 21. Í auglýsingunni segir eftirfarandi: „Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests, teljast samþykkja tillöguna.“ Hinn 13. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn hið kærða deiliskipulag.
Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni.
Því er haldið fram af hálfu Seltjarnarnesbæjar að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við bæjaryfirvöld athugasemdum sínum þegar tillaga að deiliskipulagi Suðurstrandar var auglýst. Hefur kærandi ekki tjáð sig sérstaklega um þessa málsástæðu.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags þó honum, líkt og öðrum íbúum í bæjarfélaginu, hafi gefist kostur á að tjá sig um tillöguna á kynningartíma hennar.
Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni. Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu. Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar án breytinga er varðað geta hagsmuni hans. Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Geirharður Þorsteinsson