Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2005, þriðjudaginn 25. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2004. Ólína Birgisdóttir gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður
I.
Erindi Ólínu Birgisdóttur, hér eftir nefnd kærandi, Klettahrauni 10, 221 Hafnarfirði er dags. 21. júní 2004. Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru. Afrit af kæru var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði, með bréfi dags. 19. júlí 2004. Greinargerð kærða er dags. 28. júlí, 2004. Fyrirliggjandi gögn með greinargerð kærða eru :
1) Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til Ólínu Birgisdóttur, dags. 7. apríl 2004.
2) Afrit af tölvuskeyti kæranda til kærða frá 7. apríl, 2004.
3) Afrit af skráningarskírteini fyrir hund kæranda frá 7. október 1999.
4) Afrit af umsókn kæranda dags. 30. ágúst 1999 um leyfi fyrir hund í Hafnarfirði.
5) Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið námskeið 1995.
6) Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið unghundanámskeið 1995.
7) Dreifibréf til allra eigenda skráðra hunda í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi dags. 29.mars, 2000.
8) Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.05.2000.
9) Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 26.02.2001
10) Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 01.03.2002.
11) Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.03.2003.
12) Gjaldskrá nr. 162/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
13) Gjaldskrá nr. 933/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
14) Gjaldskrá nr. 919/2001 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
15) Gjaldskrá nr. 847/2002 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
16) Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. 6. gr. gjaldskrár nr. 182/2000.
17) Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. gildandi gjaldskrá fyrir hundahald á höfuðborgarsvæðinu nr. 8. mars, 2004.
Afrit gagna kærða voru send kæranda og ítrekað að athugasemdir yrðu sendar, en ekki hafa borist nein svör eða athugasemdir.
II.
Með tilvísun til erindis kæranda er krafa kæranda sú að hún fái endurgreiddan hluta hundaeftirlitsgjalda sem henni hefur verið gert að greiða. Lýsir kærandi því svo að henni hafi verið gert að greiða hundagjald sem við á þegar hundur hefur ekki farið á námskeið, en slíkt eigi ekki við um hund hennar Lottu nr. 471. Kveður kærandi að fallist hafi verið á að hún greiddi lægra gjald fyrir árið 2004 þar eð öll gögn um hundanámskeið liggi fyrir hjá umræddri stofnun. Kveður kærandi að hundurinn hafi flutt til Íslands aftur frá Evrópu á árinu 1999 og hafi þá verið skráður að nýju. Á árinu 2000 hafi kærandi fengið upplýsingar um að unnt væri að greiða lægra gjald ef hundurinn hefði farið á viðurkennd námskeið og voru þá öll gögn send til kærða og þar með talið ljósrit af staðfestingu um að hundurinn hafi farið á námskeið á vegum Hundaræktarfélags Íslands. Hafi því kærandi verið í góðri trú um að hún væri að greiða lægra gjaldið þar til annað kom í ljós og hún hafi uppgötvað að svo hafi ekki verið. Hafi þá kærandi haft samband við skrifstofu kærða og hafi svörin sem hún fékk verið þau að ekki væri unnt að endurgreiða mismun hundagjaldsins aftur í tímann þar sem ekki væri skráð hjá stofnuninni hvenær gögn hafi borist. Vísar kærandi til þess að skv. stjórnsýslulögum skuli ætíð skrá hvernær innsend gögn berist. Telur kærandi að vafi í máli þessu sé túlkaður stofnuninni í hag sem hún geti ekki fallist á og vísi því málinu til nefndarinnar.
III.
Greinargerð kærða er dags. 28. júlí 2004. Málavextir kærða eru þeir að með símtali og síðan tölvuskeyti 7. apríl 2004 hafi kærandi farið fram á leiðréttingu á eftirlitsgjaldi 2004 vegna hunds hennar Lottu. Fallist hafi verið á þann þátt erindisins þar sem öll gögn vegna hundahalds hafi verið í lagi frá skráningu hundsins í september 1999 s.s. ormahreinsunarvottorð, greiðsla eftirlitsgjalda og jafnframt hafi heilbrigðiseftirlitið ekki þurft að hafa afskipti vegna hundahaldsins á þeim tíma. Jafnframt hafi kærandi fengið sent eintak af gildandi heilbrigðissamþykkt um hundahald nr. 154/2000 sbr. bréf kærða frá 7. apríl 2004. Hafnað hafi verið því að lækka eftirlitsgjöld aftur í tímann. Ósk um að metið yrði hvort fullnægt hafi verið skilyrðum um lækkun eftirlitsgjalda hafði ekki borist áður.
Fram kemur í greinargerð kærða að í umsókn um leyfi til hundahalds sem dags. er 30. ágúst 1999, sé hundurinn Lotta sögð fædd 02.09. 1994. Hafi umsókn og gögn verið móttekin á skrifstofu kærða og er móttaka skráð 6. september, 1999. Skráningarskírteini fyrir hund í Hafnarfirði skv. samþykkt um hundahald nr. 515/1991 hafi síðan verið útgefið 7. október 1999. Eftirlitsgjald 2000 vegna hundahalds hafi verið greitt í banka 4. maí 2000. Eftirlitsgjald vegna 2001 hafi verið greitt í banka 26.02. 2001, eftirlitsgjald vegna 2002 hafi verið greitt í banka 01.03. 2002 og eftirlitsgjald vegna 2003 hafi verið greitt í banka 04.03.2003.
Kveður kærði að breyting hafi verið gerð á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000. Gjaldskrá stjtíð. B, nr. 162/2000 hafi verið sett í kjölfarið. Í 6. gr. gjaldskrárinnar hafi heilbrigðisnefnd verið í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því sbr. samþykkt um hundahald nr. 154/2000. Sams konar heimild hafi síðan verið í gjaldskrám vegna hundahalds. Í maí 2000 hafi skilyrði kærða til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið kynnt forsvarsmönnum hundaskóla. Hafi svipaðar reglur verið í gildi í Kópavogi frá 1997 og þá hafi starfsemi hundaskóla verið tekin út. Við sameiningu heilbrigðisnefnda á svæðinu eftir lagabreytingu 1998 hafi reglur verið samræmdar og reglur um hundahald færðar í átt til þess sem gilt hafði í Kópavogi. Þeim sem vildu njóta lækkunar eftirlitsgjalda hafi verið gert að sækja um þá lækkun en málefnaleg rök hafi þótt fyrir því að þeir sem þegar höfðu fengið samþykkta lækkun í Kópavogi hafi ekki þurft að sækja um afslátt að nýju. Nýverið hafi skilyrði til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið endurskoðuð og samræmd fyrir höfuðborgarsvæðið. Sé þar áhersla lögð á að kennt verði um samþykktir um hundahald, ábyrgð hundeigenda, dýravernd og að eigandi hundsins sæki námskeið með hann.
Kærði kveður að ítarleg kynning hafi farið fram vegna breytinga á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000, m.a. með dreifibréfi til allra skráðra eigenda hunda. Hafi starfsmaður kærða síðan kynnt tilgang þennan fyrir hundeigendum þegar hundur er skráður eða aflað er upplýsinga um framkvæmd hundahaldsins. Afsláttur sé þá veittur frá þeim tíma sem gögnum sé skilað. Fyrir árið 2000 hafi hundeigendur í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi ekki verið hvattir til að skila inn gögnum um að þeir hefðu sótt námskeið með hund sinn. Kærði kveður að skráður eigandi hunds hafi undantekningarlaust þurft að óska eftir lækkun gjaldsins og hafi honum um leið verið kynntar reglur um hundahald og áréttað að afslátturinn tengist kröfum um að reglum um hundahald sé fylgt í hvívetna. Kveður kærði að framkvæmd þessa ákvæði sé með þeim hætti að eigandi óski eftir lækkun og sé þá kannað hvernig skráning hundsins hafi gengið fyrir sig og hvort þurft hafi að hafa sérstök afskipti af hundahaldinu, s.s. með því að ganga eftir skráningu, greiðslu gjalda eða vegna kvartana undanliðin ár. Áréttað sé að afslátturinn sé heimilaður sem viðleitni stjórnvalda til að draga úr umfangi og kostnaði við eftirlit með hundahaldi. Ekki hafi verið fallist á að endurgreiða eftirlitsgjöld aftur í tímann með vísun í umrætt ákvæði. Kveður kærði að í máli þessu sé ágreiningur um hvort hundeigandi eigi rétt á afslætti eftirlitsgjalda frá setningu gjaldskrár 162/2000 þar sem gögn höfðu fylgt umsókn 1999, um að “Páll” hafi með “Lottu” lokið tveim námskeiðum í Hundaskóla hundaræktarfélags Íslands á árinu 1995. Gögn um eldri skráningu hundsins í Hafnarfirði frá 1994 sem getið er um í stjórnsýslukærunni fundust ekki.
IV.
Svo sem fram er komið snýst mál þetta um endurgreiðslu eftirlitsgjalda v. hundahalds fyrir árin 2000-2003. Í greinargerð kærða kemur fram að breyting hafi orðið á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000. Gjaldskrá nr. 162/2000 var sett í kjölfarið. Í 6. gr. gjaldskrárinnar var heilbrigðisnefnd í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því. Hundurinn Lotta var skráð í Hafnarfirði árið 1999. Skráningarskírteini fyrir hundinn er dags. 7. október, 1999. Fram kemur í gögnum kærða að gögn um hundaskóla liggi fyrir hjá sér frá og með þeim tíma. Eins og fyrr getur var það á árinu 2000 sem heimildarákvæði um lækkun eftirlitsgjald kom fram. Þar sem um er að ræða heimildarákvæði ber að sækja sérstaklega um lækkun. Kærði sendi sérstakt dreifibréf út á árinu 2000, þar sem kynntar voru nýjar reglur og með dreifibréfinu var send út viðeigandi gjaldskrá. Benda má á að breytingu þá sem varð á eftirlitsgjaldi hefði mátt kynna betur en ekki verður talið að skortur á því sé nægjanlegur til þess að samþykkja endurgreiðslu. Með tilvísan til framangreinds og þess að kærandi gerði ekki gangskör að umsókn um lækkun fyrr en á árinu 2004 verður að fallast á með kæranda að ekki séu rök til lækkunar hundaeftirlitsgjalds áranna 2000-2003. Verður því ekki fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda áranna 2000-2003. Ákvörðun kærða um neitun á niðurfellingu er staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ekki er fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda. Ákvörðun kærða þar að lútandi er staðfest.
Lára G. Hansdóttir
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir
Date: 2/2/05