Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.
Fyrir voru tekin mál nr. 59/2007 og 60/2007, kærur á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um afmörkun lands á Hólmsheiði fyrir tímabundna aðstöðu Fisfélags Reykjavíkur. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Árni Ingason, formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur, f.h. félagsins, einnig fyrrgreinda afgreiðslu skipulagsráðs frá 16. maí 2007. Hagsmunir kærenda fara saman og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina síðara kærumálið hinu fyrra, sem er númer 59/2007.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Engar framkvæmdir eru hafnar á svæðinu og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda en málið er nú tekið til úrlausnar um framkomna frávísunarkröfu.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsráðs hinn 6. september 2006 var lagt fram bréf Fisfélags Reykjavíkur varðandi aðstöðu fyrir félagið á Hólmsheiði og var eftirfarandi fært til bókar: „Ráðið gerir ekki athugasemd við tillögu skipulagsfulltrúa um tímabundna aðstöðu fyrir Fisfélagið. Tillögunni er vísað til umsagnar Flugmálastjórnar, umhverfisráðs, Hestamannafélagsins Fáks og hagsmunafélags sumarhúsaeigenda á svæðinu.“ Á fundi skipulagsráðs hinn 16. maí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju ásamt athugasemdum og var eftirfarandi fært til bókar: „Tillaga að tímabundinni afmörkun svæðis samþykkt. Vísað til borgarráðs.“ Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 31. maí 2007.
Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að svæði það er um ræði sé skilgreint samkvæmt aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota. Það að úthluta því undir flugvöll og flugskýli án þess að breyta áður gildandi aðalskipulagi sé óheimilt samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Þá sé svæðið í aðeins 400 metra fjarlægð frá sumarbústöðum þeim er næstir séu og yrði hávaðinn af farartækjunum slíkur að á góðviðrisdögum yrðu bústaðirnir ónothæfir.
Þá sé bent á að Fjáreigendafélag Reykjavíkur hafi haft hluta svæðisins til afnota allt frá árinu 1970 samkvæmt samkomulagi við þáverandi borgarstjóra um notkun á Hólmsheiði. Ljóst sé að staðsetning fisflugvallar í næsta nágrenni muni valda verulegu ónæði ásamt því að geta valdið hestamönnum miska eða jafnvel lífsháska.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Hin kærða afgreiðsla feli í sér leyfi fyrir tímabundnum afnotum af landi. Hvorki liggi fyrir kæranleg skipulagsákvörðun né kæranlegt byggingarleyfi vegna þessara tímabundnu afnota.
Kærendur mótmæla framkominni frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar og halda því fram að búið sé að veita Fisfélaginu framkvæmdaleyfi þrátt fyrir að málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsráðs Reykjavíkur þar sem samþykkt var tillaga að afmörkun landspildu fyrir tímabundna starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. Umrædd spilda er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem opið svæði til sérstakra nota, en helst verður ráðið af uppdrætti þess að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar.
Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 eru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð og eru í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talin er geta fallið undir umrædda landnotkun. Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segir að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl.
Samkvæmt framangreindu ákvæði þarf að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð eru á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar getur komið á svæðinu. Jafnframt þarf, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við á. Hin kærða ákvörðun felur einungis í sér ráðstöfun á landi í eigu Reykjavíkurborgar til tímabundinna afnota fyrir umsækjanda. Er hún fyrst og fremst einkaréttarlegs eðlis en felur hvorki í sér lokaákvörðun um skipulag né heimild til framkvæmda sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Aðalheiður Jóhannsdóttir