Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2003 Litli-Botn

Ár 2004, föstudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2003; kæra P, á þeirri ákvörðun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 að synja erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2003, sem nefndinni barst hinn 29. sama mánaðar, kærir Guðmundur H. Pétursson hdl., f.h. P, Egilsgötu 16, Borgarnesi, synjun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 á erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Eru þær kröfur gerðar að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felli úr gildi annars vegar útgáfu framangreinds byggingarleyfis og hins vegar synjun byggingarfulltrúa að stöðva byggingarframkvæmdirnar.

Málavextir og málatilbúnaður kæranda:  Að sögn kæranda er jörðin Litli-Botn í Hvalfjarðarstrandarhreppi í óskiptri sameign 9 einstaklinga í tilteknum hlutföllum.  Ágreiningur er m.a. uppi í máli þessu um ráðstöfun eins eigendanna á lóð úr landi jarðarinnar fyrir sumarbústað þann sem hinar kærðu ákvarðanir varða.  Er því haldið fram af hálfu kæranda að þurft hafi samþykki sameigendanna fyrir ráðstöfun umræddrar lóðar og meðan það hafi ekki legið fyrir hafi byggingarnefnd og hreppsnefnd verið óheimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Af  sömu ástæðum hafi byggingarfulltrúa verið skylt að stöðva framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi, enda hafi þær verið ólögmætar.  Að auki hafi skort á að hinar kærðu ákvarðanir væru rökstuddar með fullnægjandi hætti.

Kærandi krafðist þess að hreppsnefnd felldi hið umdeilda byggingarleyfi, og aðrar ákvarðanir er tengdust framangreindri ráðstöfun, úr gildi eftir að Héraðsdómur Vesturlands hafði, með úrskurði hinn 23. október 2002, fallist á kröfu kæranda um að leggja fyrir þinglýsingarstjóra að afmá lóðarleigusamning um umrædda lóð úr þinglýsingarbókum.  Hafnaði hreppsnefnd því erindi á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003.

Kærandi vildi ekki una niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu og vísaði hann því til félagsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 3. apríl 2003, á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.  Kærunni var vísað frá með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. apríl 2003.  Var í bréfinu á það bent að hinar umdeildu ákvarðanir sættu að hluta kæru til landbúnaðarráðuneytisins og að hluta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Væri kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda væri kunnugt um ákvörðun þá er hann kærði, sbr. 2. gr. reglug. nr. 621/1997.  Þar sem kærufrestur væri liðinn teldi ráðuneytið hins vegar ekki rétt að framsenda  erindið til áðurgreindra stjórnvalda.

Við þetta vildi kærandi ekki una þar eð hann taldi frávísun málsins byggjast á röngum forsendum og óskaði eftir því með bréfi, dags. 22. maí 2003, að ráðuneytið endurskoðaði fyrri ákvörðun sína.  Því hafnaði ráðuneytið með bréfi, dags. 4. júní 2003.  

Með bréfi, dags. 27. júní 2003, óskaði lögmaður kæranda álits umboðsmanns Alþingis á meðferð hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps og félagsmálaráðuneytisins á málinu.  Í áliti umboðsmanns, dags. 3. júlí 2003, kemur fram að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins að vísa máli kæranda frá, enda hafi þau úrlausnarefni sem stjórnsýslukæran hafi tekið til verið falin öðrum stjórnvöldum að lögum.  Ekki séu lagaskilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar enda hafi umræddar ákvarðanir hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps hvorki sætt umfjöllun landbúnaðarráðuneytisisns né úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Að fengnu áliti umboðsmanns Alþingis vísaði kærandi málinu til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags 31. júlí 2003.  Þeirri kæru vísaði ráðuneytið frá með bréfi, dags. 22. ágúst 2003, með þeim rökum að kærufrestur í málinu væri löngu liðinn, sbr. 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem að framan greinir vísaði lögmaður kæranda málinu loks til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 25. september 2003.  Kemur fram í erindinu að kæranda sé kunnugt um að kærufrestur skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sé einn mánuður.  Þess beri hins vegar að geta að í ákvörðun sveitarfélagsins frá 12. febrúar 2003 hafi hvorki verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti né hvert kærunni skyldi beint, eins og stjórnsýslulög kveði skýrt á um, sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. l. nr. 37/1993.  Þessi upplýsingaskortur hafi haft í för með sér keðjuverkandi áhrif og hafi málinu verið vísað frá einni ríkisstofnun til annarrar.  Í því ljósi telji kærandi að beita eigi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um kærufrestinn.  Telji kærandi reyndar að reglugerðarákvæðið sem kveði á um lengd kærufrestsins hafi ekki lagastoð þar sem ekkert sé minnst á lengd kærufrests í skipulags- og byggingarlögum.  Beri því að taka kæruna til efnislegrar úrlausnar.

Andmæli hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps:  Úrskurðarnefndin leitaði afstöðu hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps til kæruefnis máls þessa.  Í svari oddvita f.h. hreppsnefndar, sem úrskurðarnefndinni barst 2. desember 2003, kemur fram að hreppsnefndin vísi til fyrri afgreiðslu í málinu sem fram komi í málsgögnum.  Einnig sé staðfest að afstaða hreppsnefndar sé óbreytt.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir hefur úrskurðanefndin ákveðið að taka sérstaklega til úrlausnar hvort vísa eigi málinu frá nefndinni með vísan til ákvæðis 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að framan er því lýst að kærandi leitaði eftir því við hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps að felld yrði úr gildi útgáfa byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.   Erindi þessu hafnaði hreppsnefnd á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Eins og kröfugerð kæranda er háttað verður jafnframt að skilja málatilbúnað hans á þann veg að einnig sé krafist ógildingar á útgáfu umrædds byggingarleyfis og á synjun byggingarfulltrúa á kröfu um stöðvun framkvæmda frá 30. september 2002. 

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Er á því byggt af hálfu kæranda að afsakanlegt sé að kæran hafi borist of seint og að auki skorti lagastoð fyrir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um eins mánaðar kærufrest.  Verði því að miða við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um þriggja mánaða kærufrest, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur á ákvörðunum byggingarnefnda og sveitarstjórna samkvæmt lögunum einn mánuður.  Felst í ákvæði þessu fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindu reglugerðarákvæði og er staðhæfingum kæranda um hið gagnstæða hafnað.  Verður við það að miða að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður en fallast má á að miða beri upphaf kærufrestsins við það tímamark þegar ætla verður að kæranda hafi verið orðið kunnugt um kærustjórnvald og kærufrest, enda skorti á að upplýsingar þar að lútandi kæmu fram í tilkynningum hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps um ákvarðanir hennar í málinu.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til lögmanns kæranda, dags. 23. apríl 2003, er skilmerkilega gerð grein fyrir kæruheimildum í máli þessu, kærustjórnvöldum og kærufresti hvað úrskurðarnefndina varðar.  Verður við það að miða að kæranda hafi allt frá móttöku nefnds bréfs verið kunnugt um kæruheimildir sínar og annað er máli skipti varðandi þær og því beri að miða upphaf kærufrestsins við það tímamark.  Kærandi vísaði málin fyrst til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 23. september 2003, eða um fimm mánuðum eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir því sem máli skipti um málskotsréttinn.  Var kærufrestur þá löngu liðinn og verður ekki fallist á að afsakanlegt sé að kæran hafi borist svo seint sem raunin varð.  Gildir einu þótt kærandi hafi leitað álits umboðsmanns Alþingis, enda lá það fyrir hinn 3. júlí 2003 og var kærufrestur því einnig liðinn þótt upphaf hans yrði miðað við það tímamark þegar álitið kom fram.  Loks verður það ekki talið hafa áhrif á upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar þótt kærandi hafi, að fengnu áliti umboðsmanns, beint kæru til landbúnaðarráðuneytisins, enda varðaði sú kæra afmarkaðan þátt, sem ekki átti undir úrskurðarnefndina og var kæranda í lófa lagið að kæra samhliða til nefndarinnar þau úrlausnarefni sem undir hana gátu átt.  Réttlætti bið eftir niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins því ekki þann drátt sem varð á kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögboðinn kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni og að ekki hafi verið fyrir hendi þau atvik er leiða eigi til þess að beitt verði undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri því, skv. meginreglu ákvæðisins, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir