Árið 2022, þriðjudaginn 2. ágúst, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Kristín Benediktsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 57/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Jafnframt er kærð útgáfa byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2022, er bárust nefndinni 9. s.m., kæra eigendur, Vesturgötu 65; eigendur, Vesturgötu 65a; eigendur, Vesturgötu 69; eigendur, Vesturgötu 73; eigendur, Seljavegi 10, öll í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu.
Einnig er kærð útgáfa byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn Félagsbústaða hf. um greint leyfi. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2022.
Málavextir: Lóðin Vesturgata 67 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag milli Seljavegar og Ánanausta, staðgreinireitur 1.133.1, sem samþykkt var í borgarráði 24. janúar 1984 og tók gildi 18. apríl s.á. Með skipulaginu var gert ráð fyrir að reist yrði tveggja og hálfs hæðar íbúðarhús á lóðinni. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 15. apríl 2020 var lögð fram umsókn Félagsbústaða hf. um breytingu á deiliskipulaginu vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst m.a. stækkun lóðarinnar og að á henni yrði heimilt að reisa fjögurra hæða hús með sex íbúðum ásamt sameiginlegum rýmum á jarðhæð. Byggingarmagn færi úr 349 í 606 m². Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningartíma, m.a. frá hluta af kærendum þessa máls, og á fundi skipulags- og samgönguráðs 26. ágúst 2020 var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá sama degi. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 3. september s.á. og var auglýsing um gildistöku breytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. október 2020 var samþykkt að stækka umrædda lóð um 94 m² þannig að hún yrði 309 m². Umsókn um leyfi fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis „sem [yrði] „léttur“ búsetukjarni í notkunarflokki 5“ var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. nóvember s.á. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda, en málinu var einnig frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 10. og 24. s.m. og 1. og 8. desember 2020. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember s.á. Var umsóknin samþykkt og hún talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 27. janúar 2022 gaf byggingarfulltrúi út leyfi fyrir byggingu hússins og munu framkvæmdir hafa byrjað í upphafi marsmánaðar.
Hinn 31. mars 2022 sendi einn af kærendum þessa máls tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí s.á. kom fram að samþykkt byggingarinnar væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykktin væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar að Vesturgötu 65, 65a og 69 hafi gert margvíslegar athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna Vesturgötu 67, m.a. um þakhæð, skuggavarp, útsýnisskerðingu, útlit götuhliðar sem og áhrif á götumynd. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við þeim athugasemdum hafi m.a. komið fram að götuhlið hússins skyldi taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur væri, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Í svari við ábendingum um skuggavarp á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingu hafi komið fram að tillagan sýndi aðeins byggingarreit og að bæði skuggavarp og útsýnisskerðing væri háð útfærslu á þakformi. Ekki alls fyrir löngu hafi íbúar í nágrenninu orðið þess áskynja að á Vesturgötu 67 væri fyrirhugað að reisa byggingu sem tæki ekki tillit til ofangreindra skilmála. Öll aðliggjandi hús og öll hús í nærliggjandi götum séu með mænisþaki, en á Vesturgötu 67 eigi að reisa hús sem sé kassalaga með flötu þaki. Það passi alls ekki inn í götumyndina.
Send hafi verið fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um hvað stæði til og beðið um gögn og skýringar. Ófullnægjandi svar hafi borist um fjórum vikum síðar og því hafi fyrirspurnin verið ítrekuð. Hinn 27. maí 2022 hafi borist svohljóðandi svar frá byggingarfulltrúa: „Í viðhengi er samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar að Vesturgötu 67 og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Samþykkt byggingarleyfi er í samræmi við þessi gögn. Álitamál getur verið hvað fer vel í götumynd hverju sinni og er ekki talin ástæða til að ræða það frekar hér.“ Umrædd tillaga að húsi við Vesturgötu 67 sé hvað varði gluggagerð, form og útlit götuhliðar engan veginn í samræmi við það sem búið hafi verið að fullvissa íbúa í nærliggjandi húsum um. Þau atriði séu heldur ekki í samræmi við gögn frá borgaryfirvöldum eða auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þá sé gerð sérstök athugasemd við síðustu setninguna í fyrrnefndu svari byggingarfulltrúa en með fullyrðingu hans séu orð gerð merkingarlaus. Einnig hafi kvöð um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé enga þýðingu.
Íbúar í nágrenni við Vesturgötu 67 hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að framlagðar teikningar yrðu í samræmi við það sem búið hafi verið að ákveða í skipulagsferlinu. Annað hafi komið á daginn og hafi málið verið endanlega upplýst af hálfu borgarinnar 27. maí 2022. Líti kærendur svo á að kærufrestur teljist frá þeim degi. Jafnframt hafi byggingarfulltrúi bent á í nýlegu svari að samþykkt nýbyggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verði það ekki túlkað öðruvísi en svo að borgin sé samþykk því að nefndin taki málið til meðferðar.
Kærendur að Seljavegi 10 benda á að vegna hinnar umdeildu byggingar muni þau missa útsýni yfir sjóinn, um Akurey og upp á Akranes. Þá sé nú þegar grimmileg barátta um bílastæði í hverfinu og nú skuli enn kreppt að. Hafi þeim aldrei verið kynnt fyrirhugaðar framkvæmdir af borgaryfirvöldum en afar stutt sé á milli lóðar þeirra og Vesturgötu 67.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kröfum verði hafnað.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lúti að. Sé um að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu ákvörðunar. Þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni hafi verið liðnir meira en 18 mánuðir frá upphafi kærufrests deiliskipulagsbreytingarinnar og frestur til að kæra þá ákvörðun löngu liðinn. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 28. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en einnig sé vísað til 27. gr. laganna í þessu sambandi. Þá sé skv. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.
Ekki sé fallist á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, enda um huglægt mat kærenda að ræða. Þvert á móti taki götuhliðar tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Þar sem samþykkt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna kröfu um ógildingu leyfisins enda ekkert komið fram sem valdið geti ógildingu þess.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn vegna beggja hinna kærðu ákvarðana. Þá hafi skipulagsfulltrúi svarað athugasemdum íbúa við kynningu á breyttu deiliskipulagi skilmerkilega.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Einnig er deilt um útgáfu byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.
Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kærð er. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Í máli þessu eru kærendur m.a. eigendur íbúða að Vesturgötu 65, 65a, 69 og 73 en fyrirhuguð bygging að Vesturgötu 65 mun, ásamt Vesturgötu 71 og 75, verða hluti af húsasamstæðu greindra fasteigna. Verður að telja að sú aðstaða og grennd, eins og hér háttar, geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni greindra kærenda. Verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu. Að sama skapi verður kærendum að Seljavegi 10 játuð aðild vegna áhrifa byggingarinnar á útsýni frá lóð þeirra.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga, sem gilda um málsmeðferð Reykjavíkurborgar þegar lögum nr. 130/2011 sleppir, er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Ákvörðun borgarráðs um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020. Kærufrestur var því löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022. Að því virtu og með vísan til sjónarmiða 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður þeim þætti málsins er lýtur að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Sem fyrr greinir telst upphaf hins eins mánaðar kærufrests 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, vegna annarra ákvarðana en þeirra sem sæta opinberri birtingu, vera frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Framkvæmdir við Vesturgötu 67 munu hafa byrjað í upphafi marsmánaðar 2022 og verður því að líta svo á að stuttu eftir það tímamark hafi kærendum öllum mátt vera kunnugt um að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu á umræddri lóð. Var því eins mánaðar kærufrestur vegna hins kærða byggingarleyfis liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022.
Líkt og áður greinir skal skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki en eðli málsins samkvæmt hefur byggingarleyfishafi allajafna ríkra hagsmuna að gæta í kærumálum sem varða leyfi hans.
Svo sem greinir í málavöxtum sendi einn af kærendum þessa máls hinn 31. mars 2022 tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí 2022 kom m.a. fram að samþykktin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykkt byggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og aðsetur og netfang nefndarinnar tilgreint. Með tölvupóstum fyrrnefnds kæranda til byggingarfulltrúa 18. og 25. maí 2022 var enn farið fram á frekari skýringar á því hvers vegna samþykkt hefði verið leyfi fyrir byggingu sem væri í engu samræmi við það sem búið hefði verið að kynna og samþykkja varðandi útlit hennar. Svaraði byggingarfulltrúi erindinu 27. maí 2022 og áréttaði að samþykkt byggingarleyfi væri í samræmi við deiliskipulag. Með svarinu fylgdi í viðhengi samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu skipulagsins.
Á Reykjavíkurborg hvílir rík leiðbeiningarskylda samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart þeim sem ákvörðun um byggingarleyfi beinist að sem og nágrönnum og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta og leita til stjórnvaldsins vegna þess. Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga skal leiðbeina þeim sem eiga beina aðild að málum um kæruheimild og kærufresti. Þegar því ákvæði sleppir ber að leiðbeina öðrum um sömu atriði á grundvelli 7. gr. laganna þegar slíkt á við. Við mat á því hvort skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga, um að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti, séu uppfyllt verður að líta til þess að Reykjavíkurborg sinnti ekki leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga þegar áðurgreindur tölvupóstur frá 31. mars 2022 var móttekinn. Í ljósi þess að óskað var upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi og að framkvæmdir stóðu þá yfir bar borgaryfirvöldum að bregðast skjótt við og leiðbeina um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vegna hins kærða byggingarleyfis og um kærufrest. Fyrir liggur að svar barst frá byggingarfulltrúa meira en fjórum vikum síðar eða 3. maí 2022. Þrátt fyrir að þar hafi verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar var aftur á móti ekki upplýst um kærufrest skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sem er töluvert styttri en almennur kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga. Í ljósi þess að borgaryfirvöld brugðust seint við að leiðbeina um kæruheimild og upplýstu ekki um kærufrest verður að telja afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Að framangreindu virtu verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.
Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því hvort greind lagaskilyrði séu uppfyllt, en kærendur telja að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki skilmálum deiliskipulags milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur er, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Benda þeir á að öll aðliggjandi hús og hús í hverfinu séu með mænisþaki en á Vesturgötu 67 verði reist hús með flötu þaki. Telja kærendur húsið ekki samræmast götumynd.
Samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðar Vesturgötu 67 er gert ráð fyrir að á lóðinni verði heimilt að reisa fjögurra hæða hús. Segir að hámarksvegghæð miðist við vegghæð bakhliðar Vesturgötu 65a ofan á steyptan kant, en þak megi fara upp í sömu hæð og þak Vesturgötu 65a ef húsið að Vesturgötu 67 hafi mænisþak. Á skipulagsuppdrættinum er með myndrænum hætti sýnt hvernig þak Vesturgötu 67 muni líta út miðað við mænisþak annars vegar og flatt þak hins vegar. Er því ljóst að umrætt deiliskipulag gerir ráð fyrir að þak fyrirhugaðrar byggingar geti verið flatt. Hins vegar segir einnig í skipulagsskilmálum lóðarinnar að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Samkvæmt samþykktum byggingaráformun mun hin umþrætta bygging hafa flatt þak og óreglubundna gluggasetningu. Af gögnum þeim sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. útlitsmynd og tölvuteiknuð mynd af Vesturgötu séð frá gatnamótum Ánanausta frá arkitektastofu þeirri sem kom að undirbúningi deiliskipulagsbreytingarinnar, verður að telja að götuhlið Vesturgötu 67 muni stinga verulega í stúf við aðliggjandi hús sem öll eru með mænisþaki og reglubundna gluggasetningu. Verður því ekki séð að við hönnun götuhliðar hússins hafi verið tekið tillit til aðliggjandi húsa eins og kveðið er á um í skilmálum skipulagsins með skýrum hætti, en hvorki Reykjavíkurborg né leyfishafi hafa fært fram rök fyrir því hvort og þá með hvaða hætti það hafi verið gert. Enda þótt játa verði stjórnvöldum svigrúm til mats við útgáfu byggingarleyfis þegar fyrir liggja matskenndir skipulagsskilmálar hvílir sú skylda á þeim að taka afstöðu til þeirra atriða sem þar koma fram og geta sýnt fram á að svo hafi verið gert. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Fellt er úr gildi byggingarleyfi Vesturgötu 67, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.