Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 57/2005, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.
Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júlí 2005, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, Holtsgötu 5, Reykjavík, ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2005.
Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Hefur Reykjavíkurborg gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu með ítarlegri greinargerð, dags. 8. ágúst 2005, en jafnframt hafa andmæli borist frá byggingarleyfishafa. Þá hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað gagna um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á skipulagstillögu byggingarsvæðisins og umsagnar Brunamálastofnunar um eldvarnir milli nýbyggingar og húss kæranda. Rannsókn málsins er þó ekki að fullu lokið og á úrskurðarnefndin m.a. eftir að kynna sér aðstæður á vettvangi. Er málið af þeim sökum ekki enn tækt til efnisúrlausnar.
Fyrir liggur að Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti hinn 5. ágúst 2005 takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu og girða af vinnusvæði að Holtsgötu 1. Hefur frá þeim tíma verið unnið í grunni nýbyggingar á grundvelli þess leyfis. Nú nýlega hefur byggingarleyfi hins vegar verið veitt fyrir nýbyggingu á lóðinni og þykir ekki rétt að draga lengur að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Því er málið nú tekið til úrskurðar um það efni.
Málsatvik: Atvikum verður aðeins lýst stuttlega í bráðabirgðaúrskurði þessum. Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar Skipulagsráðs frá 29. júní 2005 um sameiningu lóða og um byggingar að Holtsgötu 1 í Reykjavík. Áður höfðu skipulagsyfirvöld samþykkt deiliskipulag fyrir svonefndan Holtsgötureit, þar sem umræddar framkvæmdir eru hafnar, en á þeim reit stendur jafnframt hús kæranda. Skaut kærandi ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag reitsins til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 17. mars 2005, og er það mál til meðferðar fyrir nefndinni. Hafði kærandi gert athugasemdir við skipulagstillöguna og meðferð málsins hjá borgaryfirvöldum.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit hafi verið ólögmæt. Jafnframt brjóti skipulagið gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskár um vernd eignarréttar. Almannahagsmunir hafi ekki krafist þess að breytt yrði frá upphaflegri tillögu en í henni hafi verið gert ráð fyrir að aflað yrði samþykkis kæranda fyrir byggingu á lóðinni nr. 3 við Holtsgötu. Þá leiði af skipulaginu að kærandi þurfi að þola skuggavarp og skerðingu á útsýni langt umfram það sem búast hafi mátt við. Þá hafi ekki verið gætt jafnræðis þegar ákvörðun hafi verið tekin um nýtingarhlutfall einstakra lóða á svæðinu og hafi nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda verið ákvarðað til muna lægra en lóðin beri og sé það þar að auki stórum mun lægra en á nærliggjandi lóðum. Muni kærandi verða fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni af framangreindum sökum. Nauðsynlegt sé að stöðva framkvæmdir við uppbyggingu á reitnum meðan úrskurðarnefndin fjalli um fyrirliggjandi kæru vegna skipulags svæðisins.
Málsrök borgaryfirvalda: Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Af hálfu borgarinnar er því alfarið hafnað að nokkuð hafi verið við málsmeðferð borgaryfirvalda að athuga við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit. Efnislega sé deiliskipulagið í samræmi við stefnu borgaryfirvalda, sem m.a. komi fram í aðalskipulagi. Skuggavarpi hafi verið haldið í lágmarki og fjarlægð nýbyggingar á lóð nr. 3 við Holtsgötu hafi verið ákvörðuð þrír metrar frá mörkum lóðar kæranda. Hugsanlegar skemmdir á húsi kæranda af völdum framkvæmda séu á ábyrgð framkvæmdaaðila og verði því ekki séð að skipulagið, eða framkvæmdir samkvæmt því, geti haft í för með sér slík óþægindi eða fjarhagstjón fyrir kæranda að varðað geti ógildingu skipulagsins.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt. Er á það bent að komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda, m.a. með því að færa aðkomu að bílageymslu frá Holtsgötu yfir á Bræðraborgarstíg. Athugasemdir kæranda um nýtingarhlutfall hefðu þurft að koma fram á meðan enn hafi verið unnið að gerð skipulagsins en þær hafi ekki komi fram fyrr en síðar.
Aðilar hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Verða þær ekki raktar frekar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið hafa málsaðilar reifað sjónarmið sín í málinu en auk þess hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað nokkurra nýrra gagna. Verður ekki ráðið af málsgögnum sem nú liggja fyrir að á hinni kærðu ákvörðun eða undanfarandi skipulagsgerð séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar ákvarðana þeirra sem liggja til grundvallar þeim framkvæmdum sem hafnar eru að Holtsgötu 1. Framkvæmdirnar eru þar að auki að mestu bundnar við jarðvinnu í grunni. Þykja ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eins og atvikum er nú háttað og með hliðsjón af því að þess er að vænta að meðferð málsins verði lokið af hálfu úrskurðarnefndarinnar áður en langt um líður.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir að Holtsgötu 1 í Reykjavík verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur til meðferðar mál kæranda um gildi skipulags Holtsgötureits og byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Holtsgötu 1.
_____________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir