Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2012 Hólaberg

Árið 2013, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2012, kæra á niðurstöðu borgarráðs Reykjavíkur frá 3. maí 2012 um að hafna því að Reykjavíkurborg skuli skylt að útvega tengingu fyrir frárennsli frá mannvirki á lóðinni Hólabergi 84 í Reykjavík inn fyrir lóðarmörk í heppilegri hæð til að skolp geti runnið frá húsinu án dælingar.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2012, sem barst nefndinni sama dag kærir, Garðar Briem hrl., f.h. Félags eldri borgara, Stangarhyl 4, Reykjavík, þá niðurstöðu borgarráðs Reykjavíkur frá 3. maí 2012 að hafna því að Reykjavíkurborg skuli skylt að útvega tengingu fyrir frárennsli frá mannvirki á lóðinni Hólabergi 84 í Reykjavík inn fyrir lóðarmörk í heppilegri hæð til að skolp geti runnið frá húsinu án dælingar.

Málsatvik og rök:  Kærandi fékk úthlutað lóðinni Hólaberg 84 í Reykjavík undir fjölbýlishús fyrir eldri borgara og hófust byggingarframkvæmdir þar á árinu 2011.  Í lok þess árs fór kærandi fram á að Reykjavíkurborg útvegaði tengistút inn fyrir lóðarmörk við nothæfa fráveitulögn.  Borgaryfirvöld höfnuðu hins vegar þeirri beiðni og vísuðu til þess að fyrir hendi væri stofnlögn innan umræddrar lóðar sem unnt væri að tengjast og hefðu skyldur að þessu leyti verið uppfylltar af hálfu borgarinnar.  Nokkrar viðræður áttu sér stað milli aðila um málið en svo fór að kærandi skaut málinu til borgarráðs, með heimild í gr. 1.22 í almennum lóða- og framkvæmdaskilmálum sem tóku til umræddrar lóðar, og gerði kröfu um að Reykjavíkurborg útvegaði tengingu fyrir frárennsli inn fyrir lóðarmörk.  Staðfesti borgarráð fyrirliggjandi álits borgarlögmanns sem taldi að Reykjavíkurborg hefði uppfyllt skyldur sínar gagnvart kæranda til uppbyggingar fráveitulagna og tilkynnti kæranda um þá niðurstöðu. Skaut kærandi þessari afgreiðslu borgarráðs undir úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hann hafi þegar greitt fráveitugjald til borgarinnar við úthlutun umræddrar lóðar og að enginn fyrirvari hafi verið gerður í úthlutunarbréfi um frekari gjaldtöku vegna fráveitu.  Beri borgaryfirvöldum því að sjá til þess að nothæf tenging við fráveitu sé innan lóðar og eigi engu að breyta þótt um sé að ræða lóð í grónu hverfi.  Verðlagning íbúða í fjölbýlishúsinu sem byggt hafi verið á lóðinni hafi tekið mið af þessum forsendum og sé því ljóst að kærandi verði fyrir verulegu tjóni þurfi hann að bera kostnað af tengingunni sem nemi milljónum króna.  Til þess að ná nothæfri fráveitulögn frá húsi kæranda þurfi að tengjast fráveitulögn í um 70 m fjarlægð frá lóðarmörkum þar sem stofnæð sú sem fyrir sé innan lóðar liggi hærra en bílakjallari hússins.  Óásættanlegt sé að kæranda verði gert að koma upp dælubúnaði fyrir vatn og skolp frá húsinu sem nauðsynlegur væri ef notast ætti við stofnlögnina sem fyrir sé innan lóðar.

Sjónarmið Reykjavíkurborgar koma einkum fram í áliti borgarlögmanns, sem borgarráð staðfesti við hina kærðu afgreiðslu.  Kemur þar fram að kæranda hafi verið kunnugt um legu lagna á svæðinu við hönnun húss þess sem reist hafi verið á lóð hans.  Þá hafi blasað við, þar sem um hafi verið að ræða gróið hverfi, að ekki mætti vænta þess að lagnir og möguleikar á tengingum við þær væru með sama hætti og í nýbyggingarhverfum.  Sú stofnæð sem liggi innan lóðar kæranda komi í stað heimæðar sem lögð sé inn fyrir lóðarmörk frá stofnæð þegar stofnæð liggi utan lóðarmarka.  Hafi borgaryfirvöld því uppfyllt skyldur sínar í þessu efni, m.a. í samræmi við 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.  Kjósi lóðarhafi að tengjast fráveitu með öðrum hætti, m.a. vegna hönnunar húss, sé það á hans kostnað.  Með tilliti til aðstæðna hafi þótt rétt að endurgreiða kæranda innheimt gjöld vegna heimæðar, að því marki sem greiðslan næmi hærri fjárhæð en kostnaði við tengingu við fráveitukerfi borgarinnar innan lóðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna bera sveitarstjórnir ábyrgð á uppbyggingu og rekstri þeirra í sínu sveitarfélagi.  Eigandi fráveitu sér um lagningu og viðhald stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga en einstakir fasteingareigendur annast á sinn kostnað lagningu og viðhald heimæða frá húsi að tengingu við fráveitukerfi á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem fráveita tilgreinir, sbr. 12. gr. laganna.  Kostnaður vegna fráveitna er greiddur með álögðum þjónustugjöldum sem ákveðin eru í gjaldskrá, sem taka skal mið af rekstrarkosnaði, sbr. 14. gr. laganna.  Þá gilda almennir lóða- og framkvæmdaskilmála Reykjavíkurborgar frá ágúst 2009 um réttindi og skyldur aðila að þessu leyti en vísað var  til þessara skilmála við úthlutun byggingarréttar kæranda á lóðinni nr. 84 við Hólaberg.

Í gr. 1.22 í nefndra skilmála segir að borgarráð skeri úr um ágreining sem kunni að rísa um túlkun einstakra ákvæða í skilmálunum. Neytti kærandi þessarar heimildar og bar ágreining sinn við borgaryfirvöld undir borgarrráð með bréfi dags. 17. apríl 2012.  Liggur það eitt fyrir í málinu að borgarráð hafi á fundi sínum hinn 3. maí 2012 samþykkt umsögn borgarlögmanns í málinu, þar sem lagt var mat á réttarstöðu aðila.   Ekki liggur hins vegar fyrir nein stjórnvaldsákvörðun sem sætt gat kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson