Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2000 Langalág

Ár 2000, miðvikudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2000; kæra nokkurra íbúa og eigenda íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. og 30. september 2000, sem bárust nefndinni hinn 21. september og 5. október 2000, kæra nokkrir íbúar og eigendur íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita Grími Þór Gíslasyni og Sigmari Georgssyni leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 7. september 2000.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda var byggingarleyfishöfum þegar gert viðvart um kæruna eftir að fyrra kærubréfið hafði borist nefndinni og var þeim boðið að neyta andmælaréttar.  Jafnframt var óskað greinargerðar byggingarnefndar um kæruna og nánari upplýsinga um málið.  Bárust andmæli byggingarleyfishafa með bréfi hinn 29. september 2000.  Þá barst nefndinni svar skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 2. október 2000 en fylgiskjöl með erindi bæjaryfirvalda bárust hinn 4. október og nánari skýringar með bréfi hinn 5. október 2000.

Málavextir:  Snemma árs 2000 leituðu byggingarleyfishafar eftir því við bæjarveitur Vestmannaeyja að þeim yrði heimilað að reisa veitinga- og ráðstefnuhús ofan á vatnstank í Löngulág.  Féllst stjórn bæjarveitna á að heimila slíka byggingu fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki Hollustuverndar ríkisins.  Hugmyndir þessar fengu einnig góðar undirtektir bæjaryfirvalda og var ráðist í breytingu á aðalskipulagi bæjarins af þessu tilefni.  Var skilgreindri landnotkun afmarkaðs svæðis, sem umræddur vatnstankur stendur á, breytt á þann veg að á svæðinu mætti vera verslun og þjónusta auk þeirrar starfsemi sem leyfð hafði verið þar fyrir, en svæðið hafði verið verið ætlað undir opinberar stofnanir/félagsheimili.  Skipulagbreyting þessi hlaut lögboðna meðferð sem minni háttar breyting á aðalskipulagi og var breytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 23. maí 2000.

Hinn 21. júní 2000 var íbúum og eigendum fasteigna í nágrenni við vatnstankinn í Löngulág send grenndarkynning á fyrirhuguðu veitinga- og ráðstefnuhúsi á vatnstankinum og var þeim veittur frestur til 19. júlí 2000 til þess að gera athugasemdir við bygginguna.  Bárust allmargar athugasemdir og voru þær teknar til umfjöllunar í skipulags og byggingarnefnd og þeim svarað skriflega.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. september 2000 var samþykkt að veita umsækjendum leyfi til að byggja veitinga- og ráðstefnuhús á vatnstankinum í Löngulág og var samþykkt nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 7. september 2000.  Eru það þessar ákvarðanir, sem kærðar eru í málinu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að ekkert deiliskipulag liggi fyrir á því svæði þar sem umrædd bygging eigi að rísa og sé það andstætt skipulags- og byggingarlögum.  Þá séu byggingaráformin ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag þrátt fyrir þær breytingar, sem gerðar hafi verið á því.  Þannig sé fyrirhuguð matvælaframleiðsla ekki í samræmi við skilgreinda landnotkun, en auk þess megi ráða af fyrirliggjandi gögnum, að aðkomur að húsinu og bílastæði ætluð gestum þess séu að stórum hluta utan þess landnotkunarreits, sem fyrirhuguð bygging eigi að rísa á og séu þess í stað á svæði, sem skilgreint sé sem útivistarsvæði.  Þá telja kærendur að grenndarkynningu hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið gerð grein fyrir afstöðu fyrirhugaðrar byggingar til nærliggjandi byggðar, hæðarlegu eða annarra atriða sem þurft hefði til þess að nágrannar gætu tekið afstöðu til byggingarinnar.  Ennfremur byggja kærendur á því að framkvæmdir hafi verið hafnar við bygginguna án leyfis og án þess að fyrir lægi samþykkt skipulag, grenndarkynning eða byggingarleyfi.  Loks telja kærendur að ef af hinni umdeildu byggingu verði muni það valda verðrýrnun fasteigna í nágrenninu.

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að heimilt sé að lögum að veita byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þó ekki liggi fyrir deiliskipulag, enda fari þá fram grenndarkynning.  Eftir þessum heimildum hafi verið unnið og hafi grenndarkynning í máli þessu fullnægt settum skilyrðum.  Þá hafi kynningargögn verið fullnægjandi en þar hafi verið um að ræða aðaluppdrætti.  Einnig hafi verið sendar tölvuunnar ljósmyndir af  fyrirhuguðu mannvirki til þess að svara athugasemdum.

Um þá málsástæðu kærenda að samþykkt byggingarleyfisins sé ekki  í samræmi við aðalskipulag, eða breytingar sem gerðar hafi verið á því, segir að Vestmannaeyjabær líti svo á að í starfsemi veitinga- og ráðstefnuhúss sé matvælaframleiðsla grunnþáttur slíks reksturs, enda samræmist það þeirri landnotkun sem sé áskilin skv. breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja frá 23. maí 2000.  Varðandi það að ennfremur sé um að ræða byggingu iðnaðarhúss, þá hafi það ekki verið samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd, enda segi landnotkun að svo beri ekki að vera á umræddu svæði.

Sú afstöðumynd, sem fylgt hafi grenndarkynningunni, hafi ekki verið samþykkt og hafi verið gerðar breytingar sem nefndin hafi samþykkt á fundi sínum þann 5. september 2000.  Sú aðkoma sem muni verða að byggingunni sé nú þegar til staðar sem aðkoma að núverandi vatnstanki en hún muni verða breikkuð fyrir tvær akreinar.  Bílastæði séu einnig á því svæði sem nú sé til staðar og samkvæmt þeirri breytingu á aðalskipulagi sem samþykkt hafi verið.

Um þá fullyrðingu kærenda að framkvæmdir hafi verið hafnar án leyfis er tekið fram að leyfi fyrir byggingu lagnakjallara hafi verið veitt á grundvelli staðfests aðalskipulags Vestmannaeyja.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram vegna þessarar framkvæmdar, þar sem skipulags- og byggingarnefnd hafi metið það svo að þar sem um væri að ræða niðurgrafið mannvirki væri þess ekki þörf.

Bent er á að bæjaryfirvöld séu ábyrg fyrir því tjóni sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við skipulagsbreytinguna og eigi kærendur því ekki að skaðast af breytingunni.

Í símbréfi byggingarfulltrúans í Vestmannaeyjum til úrskurðarnefndarinnar hinn 5. október 2000 er nánar lýst einstökum atriðum er varða aðkomu og bílastæði fyrirhugaðs mannvirkis.  Kemur þar m.a. fram að miðað hafi verið við ákvæði skipulagsreglugerðar við ákvörðun um fjölda bílastæða og bæði litið til reglna um fjölda stæða miðað við fjölda fermetra og fjölda gesta.  Hafi skipulags- og byggingarnefnd talið að báðar þessar viðmiðanir gætu átt við um húsið og hafi millivegur verið farinn.  Auk stæða við húsið sé gert ráð fyrir að nýtt verði stæði á lóð í eigu bæjarins í nágrenni hússins, 30 – 35 að tölu.  Séu bílastæði til afnota vegna starfsemi í húsinu því á bilinu 88-93, sem nefndin telji viðunandi.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi byggingarleyfishafa til úrskurðarnefndarinnar, sem barst nefndinni hinn 29. september 2000, er gerð grein fyrir aðdraganda málsins og þeirri umræðu og kynningu, sem átt hefur sér stað vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Mótmælt er fullyrðingum kærenda, m.a. um að ekki hafi verið staðið nægilega vel að undirbúningi málsins og um að reynt hafi verið að gera lítið úr því að matvælaframleiðsla sé áformuð í húsinu.  Þá er á það bent að aðeins fáir af íbúum í nágrenni hússins standi að kærunni enda hafi allmargir íbúar hverfisins hvatt til framkvæmdanna og hafi þeir harmað þá neikvæðu umræðu sem orðið hafi um málið.  Að öðru leyti vísa byggingarleyfishafar til hliðstæðra raka og fram koma í umsögn bæjaryfirvalda.

Niðurstaða:  Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, er ljóst að ýmsir annmarkar eru á hinni kærðu ákvörðun.  Fyrirhuguð bygging á að rísa ofan á steinsteyptum vatnstanki og telur úrskurðarnefndin að ekki liggi fyrir fullnægjandi umsögn heilbrigðisyfirvalda um það hvort tryggt sé að mengun frá byggingunni geti ekki borist í vatnstankinn.  Er ekkert að þessu veigamikla atriði vikið í þeirri umsögn heilbrigðisfulltrúa, sem fyrir liggur í málinu.  Telur úrskurðarnefndin að afla þurfi sérstakrar umsagnar Hollustuverndar ríkisins um þetta áður en afstaða verði tekin til þess hvort byggingarleyfi hússins standist þær kröfur sem gera verður um öryggi með tilliti til hollustuverndar.  Þá liggur fyrir að bílastæði og aðkomuleiðir að fyrirhugaðri byggingu eru á svæði, sem skilgreint er sem útivistarsvæði í gildandi aðalskipulagi bæjarins.  Leikur vafi á um það hvort byggingarleyfið geti talist vera í samræmi við aðalskipulagið svo sem áskilið er í 43. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefur úrskurðarnefndin óskað umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni málsins, m.a. um það hvort byggingarleyfið samrýmist aðalskipulagi.  Þá eru verulegir ágallar á aðaluppdráttum.  Engin lóð er sýnd tilheyrandi húsinu svo sem áskilið er, sbr. 62. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Ekki er heldur gerð grein fyrir nýtingarhlutfalli hússins.  Loks þykir orka tvímælis að fullnægt sé kröfum um fjölda bílastæði fyrir húsið skv. ákvæði 7. mgr. greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt framansögðu eru fjölmörg vafaatriði í málinu sem leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður þó ekki til fulls skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar fyrr en að undangenginni frekari málsrannsókn.  Við þessar aðstæður og með hliðsjón af þeim vafa, sem úrskurðarnefndin telur vera um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis, telur hún óhjákvæmilegt að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar á kærustigi.  Ber bæjarstjórn Vestmannaeyja að hlutast til um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, en jafnframt skal þess gætt að gengið verði þannig frá á byggingarstað að fyllsta öryggi sé tryggt og að ekki hljótist óþarfa tjón af stöðvun framkvæmdanna.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við byggingu veitinga- og ráðstefnuhúss á vatnstanki í Löngulág í Vestmannaeyjum, skulu stöðvaðar meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfis fyrir húsinu er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þess skal gætt að gengið verði þannig frá byggingarstað að fyllsta öryggi sé tryggt og að ekki hljótist óþarfa tjón af stöðvun framkvæmdanna.