Ár 2000, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 56/2000; kæra nokkurra íbúa og eigenda íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. og 30. september 2000, sem bárust nefndinni hinn 21. september og 5. október 2000, kæra nokkrir íbúar og eigendur íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita Grími Þór Gíslasyni og Sigmari Georgssyni leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 7. september 2000.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.
Málavextir: Snemma árs 2000 leituðu byggingarleyfishafar eftir því við bæjarveitur Vestmannaeyja að þeim yrði heimilað að reisa veitinga- og ráðstefnuhús ofan á vatnstank í Löngulág. Féllst stjórn bæjarveitna á að heimila slíka byggingu fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki Hollustuverndar ríkisins. Hugmyndir þessar fengu einnig góðar undirtektir bæjaryfirvalda og var ráðist í breytingu á aðalskipulagi bæjarins af þessu tilefni. Var skilgreindri landnotkun afmarkaðs svæðis, sem umræddur vatnstankur stendur á, breytt á þann veg að á svæðinu mætti vera verslun og þjónusta auk þeirrar starfsemi sem leyfð hafði verið þar fyrir, en svæðið hafði verið verið ætlað undir opinberar stofnanir/félagsheimili. Skipulasgbreyting þessi hlaut lögboðna meðferð sem minni háttar breyting á aðalskipulagi og var breytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 23. maí 2000.
Hinn 21. júní 2000 var íbúum og eigendum fasteigna í nágrenni við vatnstankinn í Löngulág kynnt fyrirhugað veitinga- og ráðstefnuhús á vatnstankinum og var þeim veittur frestur til 19. júlí 2000 til þess að gera athugasemdir við bygginguna. Bárust allmargar athugasemdir og voru þær teknar til umfjöllunar í skipulags og byggingarnefnd og þeim svarað skriflega.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. september 2000 var samþykkt að veita umsækjendum leyfi til að byggja veitinga- og ráðstefnuhús á vatnstankinum í Löngulág og var samþykkt nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 7. september 2000. Kærendur vildu ekki una þessum ákvörðunum og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Með úrskurði, uppkveðnum hinn 11. október 2000, féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.
Eftir að úrskurður um að stöðva skyldi framkvæmdir hafði verið birtur bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum og byggingarleyfishafa var lögð fram ný umsókn um byggingarleyfi með breytingum, sem tóku mið af fyrirliggjandi bráðabirgðaúrskurði. Var umsókn þessi tekin til meðferðar á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja hinn 31. október 2000 og var hún samþykkt á fundinum, en kærendum hafði áður verið kynnt efni umsóknarinnar. Jafnframt felldi nefndin úr gildi byggingarleyfi það, sem veitt hafði verið á grundvelli samþykktar nefndarinnar frá 5. september 2000. Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 8. nóvember 2000. Hafa úrskurðarnefndinni borist fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja um framangreindar ákvarðanir.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 verið felld úr gildi og eru réttaráhrif hennar fallin niður. Þykja kærendur eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hennar. Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli nágranna um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 að veita leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág í Vestmannaeyjum er vísað frá úrskurðarnefndinni.