Ár 2008, þriðjudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 55/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 30. maí 2006 um að veita leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b á Húsavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júní 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Karl Axelsson hrl., f.h. 13 íbúa í nágrenni við Lyngholt 2a og 2b á Húsavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 30. maí 2006 að veita leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b. Var framangreind ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 6. júní 2006.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar. Ekki kom til þess að úrskurðað væri um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar sem fyrir lá að þær höfðu verið stöðvaðar af byggingarfulltrúa Húsavíkurbæjar.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar hinn 30. maí 2006 var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 6. júní sama ár. Á fundi sínum hinn 19. júní 2006 fjallaði nefndin um óánægju nágranna vegna samþykktar leyfisins og var byggingarfulltrúa falið að leita eftir samkomulagi við byggingarleyfishafa. Í bréfi byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa sagði að nefndin vildi nú þegar stöðva framkvæmdir og koma þannig til móts við sjónarmið nágranna. Í kjölfar þessa stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við byggingu húsanna. Síðar voru lóðirnar sameinaðar og nýrri lóð úthlutað undir einbýlishús. Leyfi til byggingar þess var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 1. mars 2008.
Af hálfu kærenda er á því byggt að teikningar að umræddum parhúsum séu í ósamræmi við deiliskipulag svæðisins. Af þessum sökum beri að ógilda hið kærða leyfi.
Niðurstaða: Í máli þessu liggur fyrir að hinn 1. mars 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 2a við Lyngholt en samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa hafði áður náðst samkomulag við byggingarleyfishafa um að falla frá áformum um byggingu parhúss samkvæmt hinu kærða leyfi.
Eiga kærendur af framangreindum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins umdeilda leyfis og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Máli þessu var upphaflega frestað af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem viðræður voru hafnar við byggingarleyfishafa af hálfu byggingaryfirvalda og þótti líklegt að hið kærða byggingarleyfi yrði afturkallað. Var nefndinni ekki tilkynnt um lyktir málsins og dróst uppkvaðning úrskurðar í málinu af þeim sökum.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
______________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson