Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2004 Vatnsendablettur

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingaverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 55/2004, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b, Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 11. október 2004, kærir G, eigandi mannvirkja á lóðinni að Vatnsendabletti 167b og leigutaki hennar þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir hann að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b í Kópavogi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum verði frestað. 

Málavextir:  Á lóðinni að Vatnendabletti 167b í Kópavogi hefur til margra ára staðið u.þ.b. 30 m² sumarhús, byggt árið 1946, ásamt 6-8 m² skúrbyggingu.  Var sumarhúsið skráð í fasteignaskrá en ekki skúrbyggingin.  Munu byggingar þessar hafa verið í talsverðri niðurníðslu. 

Hinn 8. og 16. desember 1999 ritaði byggingarfulltrúinn í Kópavogi kæranda máls þessa bréf þar sem fram kom að á eftirlitsferð hans um Vatnsendaland hinn 18. nóvember sama ár hafi orðið vart við óheimilar framkvæmdir á Vatnsendabletti nr. 167b.  Krafðist byggingarfulltrúi þess að jarðrask yrði afmáð ásamt því að fyllt yrði í grunn sem grafinn hefði verið á lóðinni. 

Hinn 2. ágúst 2002 ritaði tæknifræðingur hjá embætti byggingarfulltrúa kæranda bréf þar sem sagði að við skoðun að Vatnsendabletti 167b hafi komið í ljós að miklar framkvæmdir ættu þar sér stað, án heimildar byggingaryfirvalda.  Verið væri að breyta útliti hússins, setja niður rotþrær án þess að skilað hafi verið inn teikningum til byggingarfulltrúa og vinna að vega- og jarðvegsframkvæmdum.  Sagði enn fremur í fyrrgreindu bréfi að krafist væri stöðvunar framkvæmda strax þar til málin væru lagfærð.  Þrátt fyrir þetta var framkvæmdum haldið áfram og u.þ.b. 12 m² viðbygging reist við húsið ásamt því að skúrbygging sú sem á lóðinni stóð var rifin og ný u.þ.b. 8 m² byggð í hennar stað.  Í gögnum málsins kemur fram að viðbyggingin stendur ekki á sökklum heldur hvílir á grúsarfyllingu og er tengd við húsið með tengibyggingu. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2002, til kæranda var honum tilkynnt að byggingarnefnd liti svo á að um ólöglegar framkvæmdir á lóð hans væri að ræða sem bæri að fjarlægja.  Var kæranda veittur frestur til 25. september 2002 til að koma að andmælum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Með bréfi, dags. 17. september 2002, lagði kærandi fram greinargerð þar sem gerð var grein fyrir framkvæmdunum ásamt því að teikningar af húsunum voru lagðar fram.  Á fundi byggingarnefndar hinn 2. október 2002 krafðist nefndin þess að kærandi fjarlægði óleyfilegar framkvæmdir fyrir 1. desember 2002.  Yrði því ekki sinnt myndi byggingarnefnd hlutast til um að þær yrðu fjarlægðar á kostnað kæranda. 

Á fundi bæjarráðs hinn 17. október 2002 var lögð fram beiðni kæranda, dags. 16. október sama ár, um að byggingar á lóðinni fengju að standa þar til Kópavogsbær þyrfti á landinu að halda og óskaði bæjarráð eftir umsögn byggingarnefndar um málið.  Á fundi byggingarnefndar hinn 6. nóvember sama ár var lagt fram bréf kæranda þar sem hann m.a. tók fram að hann óskaði ekki eftir því við bæjaryfirvöld að kofinn sem rifinn hefði verið verði skráður í fasteignamatsskrár.  Á fundi þessum bókaði byggingarnefnd að nefndin gerði ekki athugasemd við að skúrinn stæði á lóðinni innan þess frests sem bæjarráð setti, enda yrði hann ekki skráður í Landskrá fasteigna.  Þar með félli nefndin að sinni frá kröfu sinni um að skúrinn yrði fjarlægður. 

Á fundi bæjarráðs hinn 8. nóvember sama ár var afgreiðslu framangreindrar bókunar byggingarnefndar frestað og óskað umsagnar byggingarfulltrúa um málið.  Á fundi bæjarráðs hinn 28. nóvember 2002 var lögð fram umsögn byggingarfulltrúa vegna málsins og var eftirfarandi bókað:  „Frá byggingarfulltrúa, dags. 27/11, umsögn vegna erindis, sem óskað var eftir á fundi bæjarráðs 8/11, vegna ólöglegra framkvæmda að Vatnsendabletti 167b . Talið er eðlilegt að viðbótarfrestur verði veittur til að fjarlægja bygginguna og með tilliti til þess að vetur er að ganga í garð að það verði a.m.k. til vors.  Vísað til umsagnar bæjarlögmanns.“

Á fundi bæjarráðs hinn 24. júlí 2003 var eftirfarandi fært til bókar:  „Frá bæjarlögmanni, dags. 11/12 2002, umsögn vegna Vatnsendabletts 167b, ekki er talið ráðlegt að horfið verði frá ákvörðun bygginganefndar um að hin ólöglegu mannvirki verði fjarlægð og þá eigi síðar en næsta vor.  Bæjarráð felur bæjarlögmanni og byggingarfulltrúa að sjá til þess að ólögleg mannvirki á svæðinu verði fjarlægð.“  Var kæranda tilkynnt um framangreint með bréfi, dags. 28. sama mánaðar, ásamt umsögn bæjarlögmanns, dags. 11. desember 2002.

 Á fundi bæjarráðs hinn 5. september 2003 var lagt fram bréf kæranda, dags. 30. ágúst 2003, þar sem fram kemur m.a. að kæranda hafi borist bréf frá bæjaryfirvöldum þess efnis að honum bæri að fjarlægja viðbygginguna fyrir vorið 2004.  Bókaði bæjarráð af þessu tilefni eftirfarandi:  „Frá Guðmundi Sigurjónssyni, dags. 30/8, vegna lóðamála.  Bæjarráð vísar til bókunar sinnar þann 24/7 sl. og óskar eftir umsögn bæjarlögmanns og byggingarfulltrúa.“  Á fundi bæjarráðs hinn 13. maí 2004 var byggingarfulltrúa falið að framfylgja ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2003 og hinn 17. september sama ár var eftirfarandi fært til bókar:  „Vatnsendablettur 167b, bæjarráð samþykkir að eiganda verði gefinn frestur í 2 vikur til að fjarlægja ólöglega viðbyggingu og nýjan svefnkofa á lóðinni. Byggingarfulltrúa verði falin framkvæmd á niðurrifi bygginga ef þurfa þykir, á kostnað eigenda.“ 

Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi mótmælir kröfu Kópavogsbæjar og fer fram á að viðbyggingin við húsið á lóðinni fái að standa áfram.  Snyrtilega hafi verið frá henni gengið og sé hún varla sjáanleg þar sem hún sé niðurgrafin og á bak við sumarhúsið.  Í þessari viðbyggingu sé svefnherbergi kæranda. 

Vísar kærandi til þess að hann hafi alltaf langað til að búa á svona fallegu svæði með ótrúlegu útsýni.  Þess vegna hafi hann flutt í húsið og langi hann til að búa þar áfram.  Þegar kæran hafi verið sett fram hafi hann verið búinn að halda heimili sitt í tvö ár í húsinu.  Þar sé rafmagn, sími og rotþró ásamt því að sorpið sé hirt frá honum. 

Þá setur og kærandi fram athugasemdir við þá ætlan bæjaryfirvalda að fjarlægja litla kofann á lóðinni sem sé í u.þ.b. 19 metra fjarlægð frá húsinu.  Þarna hafi verið kofi fyrir sem hafi legið undir skemmdum.  Hafi kærandi gert við kofann. 

Kærandi vonist eftir skilningi og vægð frá Kópavogsbæ því í Kópavogi sé gott að búa. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er kröfum kæranda mótmælt og þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfu um að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað.  Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin viðurkenni lögmæti ákvörðunar um niðurrif. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að í nóvember árið 1999 hafi lóðarhafi að Vatnsendabletti 167b verið staðinn að leyfislausum framkvæmdum á lóð sinni.  Með bréfum, dags. 30. nóvember 1999 og 8. desember sama ár, hafi lóðarhafa verið bent á að umræddar framkvæmdir væru leyfisskyldar og vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga þess efnis.  Með bréfi, dags. 16. desember 1999, hafi þess verið krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og grindur og jarðrask afmáð. 

Árið 2002 hafi lóðarhafi verið staðinn að leyfislausum framkvæmdum á lóð sinni að nýju.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. ágúst 2002, hafi þess verið krafist að framkvæmdir yrðu strax stöðvaðar enda hafi útliti fasteignar Vatnsendabletts 167b verið breytt án leyfis byggingaryfirvalda.  Miklar jarð- og vegaframkvæmdir hafi verið unnar og rotþrær settar niður án teikninga.  Framkvæmdir lóðarhafa við byggingar hafi m.a. falist í því að byggð hafi verið 15,4 m² viðbygging við það hús sem fyrir hafi verið á lóðinni ásamt því að byggður hafi verið 6 m² kofi úti á lóð. 

Ákvörðun um stöðvun framkvæmda hafi verið lögð fyrir byggingarnefnd hinn 4. september 2002 og hún samþykkt.  Lóðarhafa hafi verið gefinn kostur á að gæta andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Andmæli hans hafi borist með bréfi, dags. 17. september 2002.  Í ljósi þess að umræddar framkvæmdir hafi verið andstæðar skipulagi og án leyfis hafi byggingarnefnd verið skylt að hlutast til um að þeim yrði hætt og þær afmáðar.  Á fundi byggingarnefndar hinn 2. október 2002 hafi lóðarhafa verið gefinn frestur til 1. desember 2002 til þess að fjarlægja óleyfilegar framkvæmdir, ellegar yrði það gert á kostnað hans. 

Lóðarhafi hafi, sem fyrr, hvorki orðið við kröfum byggingarfulltrúa né byggingarnefndar um að fjarlægja mannvirkin. 

Á fundi bæjarráðs hinn 10. júlí 2003 hafi bæjarráð óskað eftir tillögum frá byggingarfulltrúa varðandi hinar óleyfilegu framkvæmdir.  Á fundi ráðsins hinn 28. júlí 2003 hafi byggingarfulltrúa og bæjarlögmanni verið falið að hlutast til um að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Andmæli kæranda hafi borist vegna þeirrar ákvörðunar hinn 8. september sama ár. 

Á fundi bæjarráðs hinn 17. september 2004 hafi lóðarhafa endanlega verið gefinn frestur í tvær vikur til að fjarlægja ólöglega viðbyggingu og nýjan kofa á lóðinni. 

Vísað sé til þess að Kópavogsbær hafi sýnt mikið umburðarlyndi gagnvart kæranda vegna þessa máls.  Því sé mótmælt að vegna slíks umburðarlyndis hafi kærandi áunnið sér einhvers konar rétt.  Umræddar byggingar brjóti í bága við skipulag- og séu án byggingarleyfis.  Með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 sé bæjaryfirvöldum skylt að fjarlægja framangreindar byggingar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs að leggja fyrir kæranda að fjarlægja annars vegar um það bil 15,4 m² viðbyggingu við húsið að Vatnsendabletti 167b og hins vegar 6-8 m² skúr sem reistur var á lóðinni í stað eldri skúrs sem hafði verið rifinn. 

Kærandi hóf framkvæmdir við viðbyggingu húss þess er stendur á Vatnsendabletti 167b ásamt því að reisa skúr á lóðinni án þess að hafa fengið leyfi fyrir þeim framkvæmdum, en þær eru háðar byggingarleyfi skv. 1. mgr. 43. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 11. grein byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þessum framkvæmdum virðist kærandi hafa haldið áfram eftir að byggingarfulltrúi hafði fyrirskipað stöðvun þeirra.  Allar þessar athafnir kæranda stríddu gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun bæjarráðs Kópavogs hafi verið lögmæt og beri því að hafna kröfu kæranda um ógildingu hennar.  Með tilliti til málskotsréttar kæranda ber bæjaryfirvöldum þó að ákvarða að nýju frest til þeirra aðgerða sem í hinni kærðu ákvörðun fólust, sbr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Ekki kom til þess að úrskurðarnefndin kvæði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar svo sem kærandi krafðist enda kom fram af hálfu byggingaryfirvalda í Kópavogi að þau myndu ekki fylgja málinu eftir á meðan það væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um að ógilt verði ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b í Kópavogi.  

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                     _____________________________
         Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson