Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/1999 Efnistaka

Ár 1999, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/1999; kæra Náttúruverndar ríkisins á ákvörðun sveitarstjórnar Eyrarsveitar frá 21. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 29. október 1999, sendir Náttúruvernd ríkisins nefndinni  erindi er varðar framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn Eyrarsveitar veitti Vegagerðinni til efnistöku úr malarrifi skammt austan Grundarfjarðar hinn 21. október 1999.  Telur Náttúruvernd ríkisins að fella beri umrætt framkvæmdaleyfi úr gildi.

Málavextir:  Vegagerðin í Borgarnesi sótti um leyfi til efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar vegna vegaframkvæmda við Búlandshöfða.  Sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi til efnistökunnar hinn 21. október 1999 og hefur sveitarstjóri upplýst að athugun hafði áður farið fram á efnistökustaðnum.  Kveður sveitarstjóri efnistökuna hafa verið nauðsynlega þar sem efnistökustaðir, sem samþykktir hafi verið við mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmdanna, hafi ekki reynst fullnægjandi fyrir verkið.  Í kæru Náttúruverndar ríkisins kemur fram að í gildi sé staðfest aðalskipulag fyrir þéttbýli Grundarfjarðar frá árinu 1985 en ekki hafi verið staðfest aðalskipulag fyrir dreifbýli Eyrarsveitar.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu leitar Náttúruvernd ríkisins úrlausnar um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar.  Eru málsástæður kæranda þær, að óheimilt hafi verið að veita umrætt framkvæmdaleyfi fyrr en að fenginni umsögn stofnunarinnar, sbr. 47. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.  Hafi því ekki verið staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfisins og beri því að fella það úr gildi.

Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til úrlausnar hvort vísa beri því frá úrskurðarnefndinni. Þykir hvorki ljóst að það sé á valdsviði nefndarinnar að fella úrskurð um kæruefni málsins né að kærandi geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni.

Samkvæmt 74. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd verður ágreiningi um ákvörðun er varðar framkvæmd þeirra laga skotið til umhverfisráðherra. Verður ekki séð að mál er varða framkvæmd náttúruverndarlaga eða brot gegn þeim geti með beinum hætti komið til úrlausnar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Eftir stendur þó, að í málinu er kærð útgáfa framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn veitti.  Á það undir nefndina að úrskurða um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, þar á meðal um undirbúning ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis, komi fram krafa um það frá aðila, sem telja verður að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga.

Náttúruvernd ríkisins er opinber stofnun sem hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laga um náttúruvernd.  Er það og meðal verkefna hennar að láta í té umsagnir samkvæmt lögunum.  Ekki þykir leiða af eftirlitshlutverki stofnunarinnar að hún teljist eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Það, að ekki var leitað lögbundinnar umsagnar kæranda í máli þessu, þykir ekki heldur eiga að leiða til þess að stofnunin eigi slíkra hagsmuna að gæta að játa beri henni málskotsrétt af þeirri ástæðu einni.  Þá nýtur stofnunin ekki lögfestrar kæruheimildar.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá nefndinni vegna aðildarskorts kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfu Náttúruverndar ríkisins um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Eyrarsveitar frá 21. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar er vísað frá úrskurðarnefndinni.