Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/1999 Fjarðargata

Ár 2000, mánudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/1999; kæra nágranna á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og á ákvörðunum byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 21. júlí, 22 júlí og 6. ágúst 1999 um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 1999, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra 16 íbúar og eigendur fasteigna við Austurgötu, Fjarðargötu og Strandgötu í Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar varðandi lóðina nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði.  Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 1999, reifa kærendur kröfur sínar og málsástæður nánar og krefjast þess að hin kærða samþykkt, um breytingu á deiliskipulagi, verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess í sama bréfi að byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19, sem byggingarfulltrúi veitti í umboði byggingarnefndar hinn hinn 22. júlí 1999, verði fellt úr gildi.  Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. september 1999, gerir S, Austurgötu 42, Hafnarfirði þá kröfu f.h. kærenda að framkvæmdir við byggingu hússins að Fjarðargötu 19 verði stöðvaðar.  Um kæruheimild vísast til 8. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Hinar kærðu ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19 voru staðfestar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar hinn 19. ágúst 1999.

Málavextir:  Hinn 9. apríl 1999 birtist auglýsing í Lögbirtingablaðinu um tillögu að breytingu á deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær, hvað varðar Fjarðargötu 19.  Vísað var til 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 37/1997 og tekið fram að breytingin fælist í því að grunnflötur (og lögun) fyrirhugaðrar byggingar á Fjarðargötu 19 stækkaði úr 420m² í 600m² og húshæð væri breytt úr 2 hæðum og risi í 3 hæðir.  Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að tillaga þessi hafi hlotið lögboðna meðferð og var deiliskipulagsbreytingin samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 20. júlí 1999.  Hinn 22. júlí 1999 veitti byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði, í umboði byggingarnefndar samkvæmt samþykkt nefndarinnar hinn 21. júlí 1999, leyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19 samkvæmt teikningum sem gerðar höfðu verið á grundvelli hins breytta deiliskipulags.  Var leyfisveiting byggingarfulltrúa staðfest í byggingarnefnd hinn 6. ágúst 1999.  Hófust framkvæmdir við jarðvinnu á lóðinni í framhaldi af útgáfu leyfisins. 

Þegar krafa kærenda um stöðvun framkvæmda kom fram, var leitað afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar, en jafnframt var byggingarleyfishafa gefinn kostur á að koma að andmælum við kröfunni.  Að lokinni gagnaöflun um þann þátt málsins var kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað með úrskurði, uppkveðnum hinn 29. september 1999.

Eftir uppkvaðningu úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hefur úrskurðarnefndinni borist greinargerð skipulagsstjórans í Hafnarfirði þar sem svarað er efnisatriðum kærunnar.  Þá hefur nefndin aflað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja kröfur sínar um ógildingu hinna kærðu ákvarðana á eftirtöldum málsástæðum:

Í fyrsta lagi telja kærendur að grenndarkynningu í málinu hafi verið áfátt.  Kynningarbréf, sem hagsmunaaðilum hafi verið sent, hafi ekki borist öllum þeim sem með réttu hefðu átt að fá slíkt bréf.  Ekki hafi legið fyrir öll byggingarleyfisgögn á kynningarfundi hinn 10. maí 1999.  Hæð hússins hafi verið sögð óákveðin.  Einnig hafi vantað gögn um skuggamyndun og hæðarafstöðu byggingarinnar samkvæmt deiliskipulagi fyrir og eftir breytingu.  Verulega hafi því skort á að fullnægt hafi verið kröfum um grenndarkynningu og hafi með þessu verið brotið gegn ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í öðru lagi telja kærendur að ekki hafi verið fullnægt kröfum um bílastæði fyrir nýbygginguna að Fjarðargötu 19.  Könnun, sem gerð hafi verið á notkun bílastæða í miðbæ Hafnarfjarðar og bæjaryfirvöld vitni til, sé meingölluð.  Bæði hefði þurft að gera könnunina alla daga vikunnar og einnig hefði hún þurft að taka yfir lengra tímabil.  Kærendur benda á að fjöldi bílastæða á umræddu svæði (reit 2 og 3) fullnægi ekki kröfum núgildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, grein 3.1.4., um lágmarksfjölda bílastæða.  Því hafi ekki verið hægt að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu að án þess að farið væri langt yfir lágmarksfjölda bílastæða á þessu svæði samkvæmt núgildandi reglugerð.  Kærendur telja að sérstaklega þurfi að skoða þörf íbúðarhúsnæðis á svæðinu fyrir bílastæði samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, grein 3.1.4., og byggingarreglugerð nr. 441/1998, grein 64.3. og þörf þjónustu- og verslunarhúsnæðis samkvæmt viðeigandi ákvæðum sömu reglugerða.  Beri að fella byggingarleyfi fyrir nýbyggingunni að Fjarðargötu 19 úr gildi þar til sýnt verði hvernig byggingaryfirvöld ætli að útvega bílastæði fyrir þjónustuhluta hússins.

Í þriðja lagi telja kærendur að formaður skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðar hafi verið vanhæfur við meðferð málsins í nefndinni, svo og að um vanhæfi nefndarmanns í byggingarnefnd hafi verið að ræða.  Eigi formaður skipulags- og umhverfisnefndar hlut í fyrirtæki því sem hannað hafi hina umdeildu nýbyggingu.  Auk þess sitji byggingarstjóri hússins í byggingarnefnd og sé jafnframt annar tveggja verktaka við byggingu þess.  Telja kærendur þetta algerlega óviðunandi enda þótt umræddir nefndarmenn hafi vikið af fundum meðan mál er vörðuðu Fjarðargötu 19 hafi verið til umfjöllunar í nefndunum.

Málsrök byggingarnefndar og skipulagsstjóra:  Af hálfu byggingarnefndar er vísað til þess að hin kærða ákvörðun nefndarinnar sé í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins svo sem því hafi verið breytt með ákvörðun bæjarstjórnar 29. júní 1999.  Deiliskipulag svæðisins sé að stofni til frá 1983 og sé í skipulaginu gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 60 fermetra í verslunar- og þjónustuhúsnæði, og einu stæði fyrir hverja íbúð.  Vísar byggingarnefnd til greinar 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem segi að um fjölda bílastæða sé kveðið á í deiliskipulagi.

Í greinargerð skipulagsstjórans í Hafnarfirði um kæruefni málsins er á það bent að tillaga að hinni umdeildu breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Því hafi ekki verið um grenndarkynningu að ræða og eigi 7. mgr. 43. gr. laganna því ekki við í málinu.  Tillagan hafi verið rækilega auglýst og kynnt á kynningarfundi og hafi kynningargögn verið fullnægjandi.  Þá séu bílastæðakröfur í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins, sem staðfest hafi verið af félagsmálaráðherra 19. september 1983, breytt 30. júní 1994.  Í greinargerð með því komi fram að gera skuli ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð og hverja 60m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis.  Gert sé ráð fyrir samnýtingu bílastæða á svæðinu og sé því við útreikning bílastæða miðað við byggingarmagn á svæðinu í heild en ekki á einstökum lóðum.  Fjöldi bílastæða á svæðinu verði talsvert umfram það sem áskilið er í deiliskipulaginu eftir byggingu fyrirhugaðs húss að Fjarðargötu 19, en 16 ný bílastæði verði gerð neðanjarðar og á lóð hússins við byggingu þess.  Loks tekur skipulagsstjóri fram að formaður skipulags- og umferðarnefndar hafi ávallt vikið sæti við meðferð málsins í nefndinni og hafi varamaður hans ávallt tekið við fundarstjórn þegar Fjarðargata 19 hafi verið til umfjöllunar í nefndinni.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að efnisatriði kærunnar beinist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði og sé þeim svarað af þeirra hálfu.  Hafi byggingarleyfishafi farið í öllu eftir gildandi skipulags- og byggingarreglugerðum við undirbúning og hönnun hússins að Fjarðargötu 19.  Um meint vanhæfi annars byggingaraðila hússins, sem sæti á í byggingarnefnd Hafnarfjarðar, er tekið fram að hann hafi vikið sæti þegar fjallað hafi verið um umsókn um byggingarleyfi að Fjarðargötu 19 í nefndinni.

Umsögn skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar segir m.a:

Kæran skiptist í þrjá hluta og verður tekin afstaða til þeirra í sömu röð og þeir koma fyrir í kærunni.

Kæra:
Kærendur benda á að grenndarkynning samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi ekki farið fram og óska þess að ný grenndarkynning fari fram þar sem öll gögn verði sýnd sem eigi að liggja frammi við slíka kynningu.

Umsögn:
Deiliskipulagsbreyting sú sem hér er deilt um var auglýst sem breyting skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og afgreidd í samræmi við það hjá Skipulagsstofnun. Samkvæmt þeirri grein skal fara með breytingu á deiliskipulagi sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða en um kynningu á tillögu að deiliskipulagi er fjallað í 25. gr. laganna, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. sömu laga.  Í fyrrgreindum ákvæðum er ekki kveðið á um að grenndarkynning skuli fara fram vegna breytingar á deiliskipulagi heldur gerð grein fyrir ferli því sem fylgja verður við kynningu tillagna til slíkra breytinga.  Skipulagsstofnun bendir á að fyrirmæli 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningar eigi aðeins við þegar um er að ræða veitingu byggingarleyfis í þegar byggðu hverfi þar sem ekki er fyrir hendi deiliskipulag eða vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., og eigi því ekki við í þessu máli.  Verði því ekki krafist grenndarkynningar samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Kæra:
Gerðar eru ítarlegar athugasemdir þess efnis að bílastæðaþörf fyrirhugaðs húss að Fjarðargötu 19 sé ekki fullnægt og því beri að fella úr gildi byggingarleyfi það sem gefið hefur verið út af byggingaryfirvöldum Hafnarfjarðar.  Vísa kærendur m.a. til greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en þar segir að eitt bílastæði skuli vera á hverja 35 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis.

Umsögn:
Gildandi deiliskipulag fyrir miðbæ Hafnarfjarðar var staðfest af ráðherra þann 19. september 1983, en á því gerðar nokkrar breytingar með endurskoðuðum uppdrætti dags. 30. júní 1994. Á endurskoðaða uppdrættinum segir: „Þar sem þessi endurskoðaði uppdráttur og skýringar við hann víkja frá fyrirliggjandi uppdrætti dags. 17.04.1982 og sérskilmálum fyrir reiti 1-5 í greinargerðinni HAFNARFJÖRÐUR MIÐBÆR 1981, gildir nýi uppdrátturinn ásamt skýringum.” Þar sem ekkert kemur fram á endurskoðaða uppdrættinum eða í skýringum hans um fjölda bílastæða verður að líta svo á að upprunalegi uppdrátturinn sem staðfestur var árið 1983, ásamt greinargerð sem honum fylgir, geymi gildandi fyrirmæli um bílastæðafjölda á umræddu miðbæjarsvæði. Sú breyting sem gerð var á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, og er grundvöllur byggingarleyfis þess sem hér er deilt um, breytti í engu skilmálum gildandi  skipulags heldur einskorðaðist breytingin við byggingarreitinn við Fjarðargötu 19.

Í greinargerðinni HAFNARFJÖRÐUR MIÐBÆR 1981 segir um bílastæði á bls. 131: „Bílastæði skulu vera eitt á hverja 60 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis…” Skipulagsstofnun telur að skipulagsyfirvöldum Hafnarfjarðar hafi verið heimilt að mæla svo fyrir með hliðsjón af 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um gerð skipulagsáætlana nr. 217/1966 en sú reglugerð var í gildi þegar deiliskipulag miðbæjarins var staðfest 1983. Í greininni segir: „Ef ekki er sérstaklega ákveðið á annan veg í aðalskipulagi eða deiliskipulagi skal miðað við eftirfarandi: … b. að á lóð húss, sem ætlað er til atvinnurekstrar komi eitt stæði, […] , á hverja 25 gólfflatarmetra í húsinu.”  Í ljósi þessa verði ekki lögð sú skylda á skipulagsyfirvöld Hafnarfjarðar að sýna fram á að fyrir hendi sé eitt bílastæði á hverja 35 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis á hinu umdeilda svæði skv. núgildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem staðfest var árið 1983, er sú stefna mörkuð af skipulagsyfirvöldum bæjarins að svæðið verði  metið í heilu lagi m.t.t. bílastæðafjölda. Kærendur gera í kæru sinni kröfu um að fjallað verði um bílastæðafjölda hvers húss út af fyrir sig. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 42/1999 frá 29. september sl. var fjallað um stöðvun framkvæmda við húsið að Fjarðargötu 19 sem er grundvöllur þess deilumáls sem hér er til umfjöllunar. Þar segir eftirfarandi um þetta fyrirkomulag:  „Við mat á því hverjar kröfur um bílastæði eigi að gera vegna hinnar umdeildu nýbyggingar verður að líta til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er almennt ekki gert ráð fyrir því að bílastæðum sé ætlaður staður á lóðum einstakra húsa á svæðinu norðan Lækjargötu og vestan Strandgötu heldur er þeim komið fyrir á opnum svæðum í eigu bæjarins. Slíkt fyrirkomulag er heimilt að ákveða í deiliskipulagi og verður ekki talið að með samþykkt umdeildrar nýbyggingar hafi, svo augljóst sé, verið gengið gegn ákvæðum skipulagsreglugerðar eða skilmálum gildandi deiliskipulags.” Í ljósi þessarar tilvitnunar telur Skipulagsstofnun að skipulagsyfirvöldum Hafnarfjarðar hafi verið heimilt að meta fjölda bílastæða á öllu því svæði sem deiliskipulag miðbæjarins tekur til í heild en séu ekki bundin af því að mæta lágmarkskröfum um bílastæðafjölda á hverri lóð fyrir sig.

Kæra:
Kærendur gera athugasemd við að formaður skipulags- og umhverfisnefndar Hafnarfjarðar sé meðeigandi í fyrirtæki því sem hannaði húsið að Fjarðargötu 19. Þá er einnig bent á að verktaki sá sem reisi húsið sitji í byggingarnefnd bæjarins. Telja kærendur að þessir tveir aðilar séu vanhæfir til að sinna þessum störfum fyrir bæjarfélagið.

Umsögn:
Skipulagsstofnun telur sig ekki eiga að veita umsögn um önnur álitaefni en þau sem eru á sviði skipulags- og byggingarmála og tekur því ekki afstöðu til þessa kæruatriðis.

Eftir yfirferð kæru og gagna sem henni fylgdu telur Skipulagsstofnun að hafna beri kröfum kærenda um endurtekna grenndarkynningu og ógildingu byggingarleyfis vegna byggingar að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.”

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var í apríl 1999 auglýst breyting á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar og tók breytingin til lóðarinnar nr. 19 við Fjarðargötu.  Breytingin var auglýst og kynnt í samræmi við ákvæði 1. mgr. 26. greinar laga nr. 73/1997, en sætti ekki meðferð samkvæmt 7. mgr. 43. gr. sbr. 2. mgr. 26. greinar sömu laga, sem fjalla um minniháttar breytingu á deiliskipulagi að undangenginni grenndarkynningu.  Sú málsástæða kærenda að grenndarkynningu hafi verið áfátt á því ekki við í málinu en í kynningu á tillögunni, sem fram fór samkvæmt auglýsingu, voru m.a. sýndir deiliskipulagsuppdrættir svæðisins fyrir og eftir auglýsta breytingu.  Kynningarfundur með nágrönnum var haldinn umfram það sem lögskylt er og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins hvaða gögn voru kynnt sérstaklega á þeim fundi.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að kynning umræddrar breytingar á deiliskipulagi hafi fullnægt ákvæðum greinar 5.5. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um form og efni.  Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun yfirfór tillöguna og samþykkti að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda með tilteknum lagfæringum á uppdráttum, sem gerðar voru.  Verða hinar kærðu samþykktir því ekki ógiltar á þeim grundvelli að undirbúningi þeirra hafi verið áfátt að því er kynningu varðar.
Samkvæmt staðfestu deiliskipulag fyrir miðbæ Hafnarfjarðar, að stofni til frá árinu 1983, er almennt ekki gert ráð fyrir því að bílastæðum sé ætlaður staður á lóðum einstakra húsa á svæðinu norðan Lækjargötu og vestan Strandgötu heldur er þeim komið fyrir á opnum svæðum í eigu bæjarins.  Á umræddu svæði er aðallega gert ráð fyrir miðbæjarstarfsemi svo sem verslun, þjónustu og stofnunum, en minna er um íbúðarrými.  Krafa er um eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og hverja 60m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis á svæðinu.  Heimilt var að ákveða í deiliskipulagi þær kröfur um fjölda bílastæða og það fyrirkomulag sem nú var rakið og var deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði Hafnarfjarðar með framangreindum ákvæðum staðfest af félagsmálaráðherra hinn 19. september 1983.  Verður ekki fallist á þau sjónarmið kærenda að endurskoða hefði þurft ákvæði deiliskipulagsins um bílastæði á svæðinu í heild, með hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, áður en unnt hefði verið að veita byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19.

Tillaga sú að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar varðandi Fjarðargötu 19, sem um er deilt í málinu, fól í sér gerð skipulagsáætlunar.  Bar skipulagsnefnd við gerð tillögunnar að gæta ákvæða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sbr. gr. 1.2 og 6. mgr. gr. 2.4. í nefndri reglugerð, að því marki sem tillagan fól í sér áform um aukið byggingarmagn eða breytta landnotkun fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni, enda fólust í tillögunni ný skipulagsáform að þessu leyti.  Í áritun á skipulagsuppdrátt, er sýnir hinar umdeildu breytingar, segir m.a. að í breytingartillögunni felist breyting á legu og stærð byggingarreits úr 420m² í 600m² grunnflöt, breyting úr 2 hæðum og risi í þriggja hæða byggingu og að gert sé ráð fyrir íbúðum á efri hæðum.  Í samræmi við hið breytta skipulag verða 8 íbúðir á 2. og 3. hæð nýbyggingarinnar að Fjarðargötu 19 en ekki verður séð að gert hafi verið ráð fyrir íbúðum þessum í eldra deiliskipulagi.  Íbúðir þessar eru allar rúmlega 100m² að flatarmáli og skal því reikna hverri þeirra tvö bílastæði í samræmi við ákvæði 7. mgr. greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, enda hefur ekki verið sýnt fram á að færri bílastæða sé þörf fyrir þessar íbúðir.

Fyrir breytingu deiliskipulagsins var byggingarreitur á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu 420m². Þurfti því 7 bílastæði til þess að fullnægja kröfum eldra skipulags um bílastæði fyrir 1. hæð nýbyggingar á lóðinni miðað við fullnýttan byggingarreit.  Grunnflötur nýbyggingar eftir hinu breytta skipulagi má vera allt að 600m² en er í raun 575,4m² samkvæmt samþykktum teikningum.  Fyrsta hæð hússins er því 155,4m² stærri en óbreytt deiliskipulag gerði ráð fyrir. Ber að reikna eitt bílastæði fyrir hverja 35m² þessarar stækkunar, enda um byggingarmagn að ræða sem ekki var ráðgert í eldra skipulagi.  Er bílastæðaþörf vegna stækkunarinnar 4 stæði, reiknað í heilum stæðum. 

Samkvæmt framansögðu þarf að sjá fyrir 16 stæðum vegna íbúðanna í húsinu og 11 stæðum vegna verslunar- og þjónusturýmis á 1. hæð.  Í bílakjallara og á lóð hússins eru 16 bílastæði, sem samsvarar kröfu um fjölda bílastæða vegna íbúða í húsinu.  Í samræmi við skilmála deiliskipulags svæðisins er heimilt að leysa þörf fyrir þau 11 bílastæði sem á vantar með því að ætla þeim stað á sameiginlegum bílastæðum á svæðinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er þegar fyrir hendi nægur fjöldi bílastæða á svæðinu til þess að fullnægja kröfum um fjölda stæða fyrir nýbygginguna að Fjarðargötu 19 miðað við framangreindar forsendur sem úrskurðarnefndin telur að leggja beri til grundvallar við útreikning á fjölda bílastæða vegna byggingarinnar.  Eru því ekki efni til þess að ógilda hinar kærðu ákvarðanir um byggingarleyfi fyrir nýbyggingunni að Fjarðargötu 19 á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulagsreglugerðar um fjölda bílastæða vegna hennar.  Þá verður ekki heldur fallist á að byggingarleyfið fari í bága við ákvæði greinar 64.3. og 64.5. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda eiga ákvæði þessi því aðeins við að ekki sé annað ákveðið í deiliskipulagi, sbr. greinar 64.1. og 64.2. í sömu reglugerð.

Fallist er á það með kærendum að bæði formaður skipulags- og umferðarnefndar og einn af föstum fulltrúum í byggingarnefnd, hafi báðir verið vanhæfir til setu í nefndunum þegar fjallað var um tillögu að breyttu skipulagi og byggingarmál vegna Fjarðagötu 19, en um hæfi nefndarmannanna gilda ákvæði 19. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 47. grein þeirra laga og 4. mgr. 6. greinar og 3. málsl. 1. mgr. 39 greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Hins vegar liggur fyrir að báðir þessir nefndarmenn viku sæti, hvor í sinni nefnd, þegar fjallað var þar um málefni tengd Fjarðargötu 19.  Var þannig gætt ákvæða 19. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 við meðferð málsins í báðum nefndunum og leiðir vanhæfi nefndarmanna því ekki til ógildingar hinna kærðu ákvarðana í málinu.

Samkvæmt framansögðu er kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna aukins málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og ákvarðanir byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 21. júlí, 22. júlí og 6. ágúst 1999 um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði.