Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 52/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. september 2003, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Bergur Guðnason hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, þeirra Ö, Á, K og C þá ákvörðun byggingarfullrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.
Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 27. ágúst 2003 og í borgarstjórn hinn 4. september s.á.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Málavextir: Eigandi Garðastrætis 41, kínverska sendiráðið, lagði fram fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis hvort þörf væri byggingarleyfis vegna gerðar tennisvallar á lóðinni. Í bréfi, dags. 26. mars 2003, taldi byggingarfulltrúi svo ekki vera þar sem landhæð yrði nær óbreytt, völlurinn yrði hvorki upphitaður né komið þar fyrir niðurföllum. Þá yrðu heldur ekki sett upp ljósamöstur eða girðing sem yrði yfir 1,8 m á hæð. Framkvæmdir hófust en þá fóru kærendur fram á það við embætti byggingarfulltrúa að þær yrðu stöðvaðar og með vísan til umfangs framkvæmdanna varð byggingarfulltrúi við þeirri kröfu. Í kjölfarið óskaði húseigandinn að Garðarstræti 41 eftir því að gefið yrði út byggingarleyfi vegna framkvæmdanna. Hinn 26. ágúst 2003 samþykkti byggingarfulltrúi útgáfu byggingarleyfis vegna tennisvallarins og var embættisafgreiðsla hans staðfest á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. ágúst sama ár.
Málsrök kærenda: Kærendur eru verulega ósáttir við framkvæmdir á lóðinni að Garðastræti 41. Þeir halda því fram að miklu magni af fyllingarefni hafi verið ekið inn á lóðina og hún jöfnuð út til norðurs, þ.e. að lóðarmörkum Garðastrætis 39. Hafi fyllingarefnið verið sett upp að millivegg lóðarinnar og lóðar kærenda. Leiði þetta til þess að nú sé horft niður í garðinn hjá kærendum. Þá hafi byggingarleyfishafinn rifið og hent áratuga gömlum trjágróðri, sem áður hafi prýtt lóðina.
Kærendur halda því fram að ein af höfuðástæðum þess að þeir hafi kært umrædda framkvæmd sé sú, að framkoma byggingarleyfishafa gagnvart þeim hafi einkennst af yfirgangi, væntanlega í skjóli úrlendisréttar, sem leyfishafi telji sig varinn af. Aftur á móti sé skýrt tekið fram í 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 að sendimönnunum beri að virða lög og reglur móttökuríkisins, þó þannig að forréttindi þeirra og friðhelgi skerðist ekki. Kærendur álíta að bygging tennisvallar, sem sé óþekkt með öllu hérlendis inni í grónu og gömlu íbúðahverfi, hafi ekkert með friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna að gera. Sú framkvæmd hafi heldur ekki nein áhrif á starfsemi sendiráðs Kína hér á landi.
Kærendur benda á slysahættu sem fylgt geti tennisiðkun því tennisboltar séu mjög harðir viðkomu. Atvinnumenn nái allt að 200 kílómetra hraða á tennisbolta í upphafshöggum sínum. Það sé m.a. af þessari ástæðu sem tennisvellir erlendis, sem séu inni í íbúða- eða hótelbyggðum, hafi 5-10 metra hátt net umhverfis sig. Í því tilfelli sem hér sé til úrlausnar sé gert ráð fyrir því að netið verði 180 sentimetrar sem sé hvergi nægjanlegt til að koma í veg fyrir slysahættu.
Kærendur halda því fram að tennisleik fylgi umtalsverður hávaði. Hann stafi af tíðni högga og hörku boltanna, sem notaðir séu í leiknum. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu sé ljóst að nýting íbúðarlóðar inni í friðsælu hverfi til tennisleiks sé fráleit. Nýting vallarins verði væntanlega að sumri til á þeim tíma, sem nágrannar þeirra nýta sínar lóðir hvað mest.
Kærendur halda því og fram að framkvæmdin kunni að hafa áhrif þegar þeir hyggist selja eignir sínar en það fari þó eftir því hversu mikil tennisiðkunin verði. Megintilgangur úrlendisréttarins felist ekki í því að erindrekarnir geti í skjóli hans valdið þegnum móttökuríkisins fjárhagstjóni með því sem falli undir tómstundaiðju þeirra en ekki skyldustörf.
Kröfu sína um tafarlausa stöðvun framkvæmda styðja kærendur þeim rökum að byggingarleyfishafinn hafi svo einbeittan vilja til að ljúka framkvæmdum, að hann hafi ekki látið deigan síga við framkvæmdina þrátt fyrir að honum og arkitektum hans sé fullkunnugt um megna óánægju kærenda. Nú sé verið að leggja gervigras á lóðina, teikna útlínur vallarins o.s.frv.
Þá telja kærendur að úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. 10/2002, sem fjallað hafi um byggingu tengibyggingar á lóð bandaríska sendiráðsins milli tveggja húseigna í eigu þess, hafi ekkert fordæmisgildi í þessu kærumáli. Þessi skoðun byggist á því, að það mál hafi haft beina þýðingu fyrir daglega starfsemi sendiráðsins og hafi niðurstaðan (frávísun) verið eðlileg. Aftur á móti fjalli þessi kæra um alls óskyldan hlut því tómstundaiðja starfsmanna byggingarleyfishafa falli ekki undir Vínarsáttmálann um stjórnmálasamband ríkja.
Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi krefst frávísunar málsins og bendir á að framkvæmdin sé alfarið innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína, sem sé hluti sendiráðs Kína. Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæði friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins. Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki. Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um leyfi til gerðar tennisvallarins, svo lögmæti framkvæmdarinnar yrði ekki dregið í efa.
Með vísan til reglna úrlendisréttarins hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttarins um stjórnmálasamband.
Verði ekki fallist á frávísun á grundvelli framangreinds krefst byggingarleyfishafi frávísunar þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga. Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til gerðar tennisvallar á lóðinni. Ekki verði sé að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 39 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.
Verði kröfur byggingarleyfishafa um frávísun ekki teknar til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda. Leitast hafi verið við að fara í einu og öllu eftir kröfum byggingaryfirvalda og tennisvöllurinn verði eingöngu notaður til tennisiðkunar í frístundum en ekki sé um eiginlegan íþróttavöll að ræða. Því eigi athugasemdir kærenda um slysahættu og hávaðamengun ekki við.
Byggingarleyfishafinn bendir á að í upphafi hönnunarferlis varðandi útfærslu girðingar umhverfis völlinn hafi verið haft samband við nágranna og hafi all margir þeirra samþykkt að hún yrði sett upp á lóðarmörkum. Þá hafi deildarstjóri Garðyrkjudeildar borgarinnar ekki lagst gegn því að tré á lóðinni yrðu fjarlægð.
Niðurstaða: Í máli þessu kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við gerð umrædds tennisvallar yrðu stöðvaðar. Með hliðsjón af eðli umræddra framkvæmda og því að þeim var að mestu lokið, svo og með tilliti til líklegrar niðurstöðu málsins, þóttu ekki efni til að taka þá kröfu sérstaklega til meðferðar. Málið er hins vegar nú tekið í heild til efnislegrar úrlausnar.
Hið umdeilda byggingarleyfi varðar framkvæmdir á lóðinni nr. 41 við Garðarstæti, en eins og að framan hefur verið rakið er Viðskiptaskrifstofa kínverska sendiráðsins þar til húsa. Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins. Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir byggingarleyfi vegna gerðar tennisvallar á lóðinni og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum. Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð er til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.
Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir