Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2022 Birkimelur

Árið 2022, föstudaginn 7. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skaga­fjarðar frá 9. febrúar 2022 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Birkimel í Varmahlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Víðimels í Varmahlíð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, nú Skagafjarðar, frá 9. febrúar 2022 að samþykkja deiliskipulag fyrir Birkimel í Varmahlíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skagafirði 27. júní 2022.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar 23. júní 2021 voru lögð fram drög að tillögu um deiliskipulag fyrir allt að 50 íbúða byggð í framhaldi af götunni Birkimel í Varmahlíð til suðurs. Uppfærð tillaga að deiliskipulagi og greinargerð fyrir 15 íbúðalóðir við Birkimel í Varmahlíð til suðurs var lögð fram á fundi skipulags- og byggingar­nefndar 9. september 2021. Tillagan gerði ráð fyrir blandaðri byggð einbýlishúsa, parhúsa og raðhúsa með nýtingarhlutfalli lóða á bilinu 0,30 til 0,40. Þá var gert ráð fyrir stækkun íbúða­svæðisins til vesturs og suðurs í endurskoðuðu Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Nefndin samþykkti tillöguna og lagði til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn staðfesti framan­greinda afgreiðslu á fundi sínum 10. september 2021.

Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 29. september til og með 11. nóvember 2021. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. desember 2021 var farið yfir samantekt á innsendum athugasemdum. Frestaði nefndin afgreiðslu málsins og fól skipulagsfulltrúa að fara yfir tillöguna á grundvelli innsendra athugasemda. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 2. febrúar 2022 og bókað að ekki væru gerðar grundvallarbreytingar á deiliskipulags­tillögunni. Lagði nefndin til við sveitar­stjórn að samþykkja tillöguna og senda hana Skipulags­stofnun til yfirferðar. Samþykkti nefndin jafnframt þau viðbrögð sem lögð voru fram við umsögnum og athugasemdum og fól skipulags­fulltrúa að senda svör til þeirra aðila sem sendu inn ábendingar á kynningartíma. Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 9. s.m. framlagða tillögu að deiliskipulagi og að hún yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar. Í bréfi sínu, dags. 31. mars 2022, gerði stofnunin ekki athuga­semdir við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Í auglýsingu um samþykkt skipulagsins, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 26. apríl 2022, var vísað til samþykktar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar á fundi hennar 22. september 2021 um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir íbúðarbyggð við Birkimel í Varmahlíð. Líkt og greinir að framan var samþykkt á fyrrnefndum fundi að auglýsa tillögu að deiliskipulagi til kynningar. Eftir að kæra barst í máli þessu til úrskurðarnefndarinnar var samþykkt deiliskipulagsins auglýst að nýju í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní 2022 þar sem dagsetning samþykktar sveitarstjórnar á deiliskipulaginu hafði verið leiðrétt og breytt í 9. febrúar 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fyrirhuguð sé umfangsmikil uppbygging íbúðar­hverfis þar sem áður hafi verið grasi- og birkigróið opið svæði. Land kæranda sé í næsta nágrenni við hið deiliskipulagða svæði. Um sé að ræða kyrrlátt landbúnaðarsvæði þar sem stundaður sé búskapur af ýmsum toga. Hið kærða deiliskipulag muni hafa umtalsverð neikvæð áhrif á möguleika kæranda til að nýta sér landareign sína. Bæði kunni hin nýja byggð að leiða til þess að minnka þurfi umfang starfsemi kæranda og að honum verði gert ókleift að hefja nýja starfsemi í framtíðinni.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé mynd úr aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 þar sem sérstaklega hafi verið merkt svæðið sem deiliskipulagið taki til. Nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 7. apríl 2022. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skuli gildandi skipulags­áætlanir vera í innbyrðis samræmi. Deiliskipulag verði þannig að vera í fullu samræmi við það aðal­skipulag sem sé í gildi á þeim tíma sem deiliskipulagið sé auglýst. Þegar deiliskipulags­uppdráttur hins kærða deiliskipulags sé borinn saman við þéttbýlisuppdrátt aðalskipulags Skagafjarðar 2020-2035 verði ekki annað séð en að misræmi sé til staðar á milli hins kærða deiliskipulags og hins nýsamþykkta aðalskipulags. Bæði sé stærð og lögun hins nýja íbúðar­svæðis mismunandi og mörk milli íbúðarsvæðisins og lands kæranda mismunandi.

Í skipulagslögum séu ítarleg ákvæði um málsmeðferð við kynningu og afgreiðslu deili­skipulags, sbr. m.a. 41. og 42. gr. laganna, og sé þessum ákvæðum ætlað að tryggja réttaröryggi við meðferð skipulagsmála í samræmi við markmiðsákvæði laganna, sbr. c- og d-liði 1. gr. skipulagslaga. Málsmeðferð sveitarfélagsins við vinnslu deiliskipulagsins hafi ekki samrýmst þessum ákvæðum skipulagslaga. Í svörum skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars 2022, við athuga­semdum kæranda komi fram að búið væri að breikka og opna svæðið fyrir ofan fjárhúsin og minnka lóðir og færa til suðurs til að koma til móts við athugasemdir sem borist hefðu á vinnslu­tíma deiliskipulagsins. Óskað hefði verið eftir nánari upplýsingum og ráða megi af svörum skipulagsfulltrúa að umræddar breytingar hafi verið gerðar haustið 2021 eftir óformlegar viðræður við landeigendur á Víðimel sem leitt hefðu til minniháttar breytinga á áformum sveitarfélagsins á upphafsstigum málsins. Þessi málsmeðferð geti ekki samrýmst 41. gr. skipulagslaga sem kveði skýrlega á um að þær tillögur sem berist á athugasemdatíma skuli teknar til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Sveitarstjórn skuli þannig sérstaklega taka afstöðu til athugasemda sem berist og veita umsögn um þær, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Óformlegar viðræður ótilgreindra einstaklinga í skipulagsnefnd eða sveitarstjórn geti ekki komið í stað formlegrar málsmeðferðar samkvæmt skipulagslögum. Hafi sveitarstjórn og eftir atvikum skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins því borið að taka sérstak­lega afstöðu til athugasemda kæranda sem hafi borist á athugasemdatímanum í samræmi við 41. og 42. gr. skipulagslaga. Athugasemdirnar beri að taka til umræðu í sveitarstjórn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar og þeim svarað með fullnægjandi umsögn sveitarstjórnar. Umsögn sveitarstjórnar frá 1. mars 2022 geti ekki fullnægt skilyrðum 41. og 42. gr. skipulagslaga. Auk þess hafi sveitarstjórn borið að auglýsa niðurstöðu sína í kjölfar athugasemda, sbr. 3. mgr. 41. gr. laganna, en ekki verði séð að slík auglýsing hafi verið birt. Ekki sé útilokað að formlegar athugasemdir kæranda hefðu getað haft frekari áhrif á hið kærða deiliskipulag hefði lögbundinni málsmeðferð verið fylgt. Hefði kærandi þá fengið fullnægjandi umsögn sveitarstjórnar um athugasemdir sínar, en það sé til þess fallið að tryggja samráð og réttar­öryggi á sviði skipulagsmála í sveitarfélaginu. Formannmarkar á málsmeðferð við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið slíkir að fallast verði á ógildingu þess. Þá hafi kærandi boðið verulegt land í skiptum til uppbyggingar sem henti betur en skipulagssvæðið hvað varði svipmót byggðar en sveitarfélagið virðist ekki hafa kannað þann möguleika að nota landið. Sveitar­félaginu hafi borið að taka rökstudda afstöðu til þessa möguleika.

Efnislegur undirbúningur deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Land kæranda sé lögbýli og á svæði sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035. Stundaður sé búskapur á jörðinni. Kærandi hafi staðið að tíma- og fjárfrekum undirbúningi við að koma upp starfsemi á svæðinu tengdri ferðaþjónustu sem styrktur hafi verið af sveitarfélaginu og Nýsköpunarsjóði. Hið kærða deiliskipulag breyti í grundvallaratriðum ásýnd og eðli svæðisins og hafi stórfelld áhrif á hagsmuni kæranda. Nálægð íbúðarbyggðar kunni að leiða til lagalegra takmarka á núverandi og framtíðarnýtingu kæranda á landareign sinni, en ýmis lagafyrirmæli leggi höft á landbúnaðarstarfsemi vegna nálægðar við aðliggjandi íbúðarbyggð. Uppbygging samkvæmt deiliskipulaginu og önnur áformuð uppbygging á svæðinu muni hafa í för með sér útsýnis­skerðingu, hávaðamengun, stóraukna umferð og annað ónæði sem sé til þess fallið að raska hagsmunum kæranda og valda honum fjárhagslegu tjóni. Óljóst sé hvort dýrahald á jörðinni geti verið áfram í núverandi mynd enda séu einungis nokkrir tugir metra á milli lóða austan megin við fyrirhugaða götu og fjárhúss kæranda auk þess sem löng umferðargata sé áætluð rétt fyrir ofan fjárhúsið. Fyrirhuguð uppbygging setji framtíðaráform um ferðaþjónustu á jörðinni í uppnám enda vandséð að sú starfsemi fari saman með íbúðarbyggð í næsta nágrenni. Í ljósi styrkveitingar sveitarfélagsins og nýtingarheimilda eignarinnar hefði kærandi haft réttmætar væntingar um að hægt yrði að ráðast í þessi áform sem nú séu hugsanlega orðin að engu.

Samkvæmt q-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé landbúnaðarsvæði skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengist búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu. Draga verði í efa að kærandi geti nýtt svæðið sem raunverulegt land­bún­aðar­svæði í skilningi skipulagslaga og skipulagsreglugerðar verði hið kærða deiliskipulag að veruleika. Sveitarfélagið hafi ekki undirbúið deiliskipulagið með fullnægjandi hætti hvað varði samspil hins áætlaða íbúðarsvæðis og þess landbúnaðarsvæðis sem fyrir sé. Áður en ráðist hafi verið í slíkar breytingar hefði sveitarfélaginu borið að framkvæma fullnægjandi rannsókn á aðstæðum og áhrifum breytinganna.

Fjallað sé um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð. Mikið skorti upp á mat á áhrifum deiliskipulagstillögunnar á nærliggjandi landbúnaðarsvæði í samræmi við ákvæðið. Í greinargerð deiliskipulagsins komi fram að nálægð íbúðarbyggðarinnar við landbúnaðarstarfsemi sé talin hafa óveruleg eða jákvæð áhrif fyrir íbúa. Þá muni landbúnaðar­starfsemi á svæðinu ekki verða fyrir neikvæðum áhrifum af íbúðabyggð í næsta nágrenni. Engin gögn eða rannsóknir liggi til grundvallar þessum staðhæfingum og lítið sem ekkert faglegt mat á aðstæðum búi þeim að baki. Hafi undirbúningur hins kærða deiliskipulags því ekki verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar.

Málsrök Skagafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kæranda verði hafnað. Áætlanir sveitarfélagsins, og áður Seyluhrepps, um að byggja á Birkimelsreit hafi staðið yfir í a.m.k. fjóra áratugi og hafi tæpast farið fram hjá íbúum í Varmahlíð. Umrætt land hafi verið keypt til þess að fara undir byggingalóðir svo sem sjáist í fundargerðum hrepps­nefndar Seyluhrepps frá árunum 1980-1982. Þær áætlanir hafi komið fram í skipulags­áætlunum, þ.e. Aðalskipulagi Varmahlíðar 1995-2015, Aðalskipulagi Sveitar­félagsins Skaga­fjarðar 2009-2021 og nú Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2022-2035. Kæranda hefði mátt vera ljóst þegar hann keypti jörðina Víðimel á árinu 2018, sem umrætt byggingarland hafi verið tekið út úr árið 1982, að þar risi íbúðabyggð með þeirri landnotkun og byggðamynstri sem nú sé fyrirhuguð. Ætlað tjón og áhætta tengd meintri uppbyggingu hans á svæðinu sé því á hans ábyrgð.

Deiliskipulagið fari ekki gegn Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 en það hafi verið í gildi þegar deiliskipulagsuppdráttur hafi verið sendur til Skipulagsstofnunar til yfirferðar. Þá sé ekki misræmi á milli deiliskipulagsins og hins nýsamþykkta aðalskipulags. Deiliskipulags­uppdrættinum sé ekki ætlað að sýna mörk viðkomandi íbúðarsvæðis og lands kæranda svo sem kærandi virðist gera ráð fyrir.

Það kunni að vera rétt að ekki hafi verið gerðar breytingar á deiliskipulagstillögu í samræmi við athugasemdir kæranda á athugasemdatímabili. Gerðar hafi verið breytingar á upphaflegum drögum að deiliskipulagstillögu til þess að koma til móts við hann. Athugasemdir kæranda og annarra á athugasemdafresti hafi hlotið umræðu og afgreiðslu í samræmi við ákvæði skipulags­laga. Þær hafi verið teknar til umræðu á fundum skipulags- og byggingarnefndar 22. desember 2021 og 2. febrúar 2022 og afstaða tekin til þeirra sem og á fundum sveitarstjórnar 12. janúar 2022 og 9. febrúar s.á. Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi ekki auglýst niðurstöðu sína um afgreiðslu deiliskipulagsins. Þá hafi sveitarfélaginu ekki borið að taka rökstudda afstöðu til þess að skipta á landi kæranda og landi sveitarfélagsins. Kaup sveitarfélaga á jörðum eða jarða­pörtum sé á einkaréttarsviði og gildi reglur stjórnsýsluréttar almennt ekki um slík kaup.

Sveitarfélagið líti ekki svo á að búskapur sé stundaður á jörðinni Víðimel. Þar sé fjárhús en notkun þess fyrir sauðfé og geitur hafi verið bönnuð frá því riða hafi komið upp á bænum fyrir nokkrum árum. Það að óásættanlegur hávaði komi til með að stafa frá lítilli íbúðargötu standist ekki þegar litið sé til þess að íbúðarhús kæranda standi í um 40 m fjarlægð og umrætt fjárhús í rúmlega 100 m fjarlægð frá þjóðvegi 1. Íbúðarhús og fjárhús kæranda standi innan þéttbýlis­marka Varmahlíðar sem skilgreind séu miðað við inntak ákvæðis 24. tl. 2. gr. skipulagslaga. Afmörkunin komi fram á skipulagsuppdráttum sveitarfélagsins, bæði á núgildandi og þágildandi aðalskipulagsuppdrætti. Almennt verði íbúar í þéttbýli að gera ráð fyrir að útsýni geti skerst eða að þeim sé þrengt á annan hátt.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarstjórn hafi samþykkt nýtt Aðalskipulag Skagafjarðar 9. mars 2022 sem hafi öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á. Hið nýja aðalskipulag hefði þar með öðlast gildi áður en deiliskipulag Birkimels hafi verið auglýst 27. júní 2022. Því hafi deiliskipulagið þurft að vera í samræmi við gildandi aðalskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Af gögnum málsins sé ljóst að deiliskipulagið hafi tekið mið af eldra aðalskipulagi og ekki uppfært með hliðsjón af nýja aðalskipulaginu. Samkvæmt skipulagslögum sé það fortakslaus skylda sveitarfélagsins að tryggja samræmi skipulagsáætlana. Þá liggi fyrir að endanleg útfærsla aðalskipulagsins hefði legið fyrir mörgum mánuðum áður en sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um hið kærða deili­skipulag. Sé hið deiliskipulagða svæði borið saman við þéttbýlisuppdrátt af Varmahlíð í núgildandi aðalskipulagi megi sjá að svæðið hafi tekið breytingum frá fyrra aðalskipulagi og nái nú töluvert styttra til suðurs. Þá virðist hið nýja íbúðarsvæði töluvert stærra, en samkvæmt eldra aðalskipulagi var svæði ÍB-5.1 9,75 ha en samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé svæði ÍB-502 19 ha. Þá sé ljóst að svæði deiliskipulagsins sé ekki í samræmi við stærð og lögun íbúðarsvæðis ÍB-502 eins og það sé skilgreint á þéttbýlisuppdrætti Varmahlíðar en skipulags­uppdrátturinn sýni vissulega mörk íbúðarsvæðis ÍB502 og landbúnaðarsvæðis kæranda sem sé á svæði L501.

Þá hafi komið fram í þágildandi aðalskipulagi að skipulagið skuli ekki koma í veg fyrir að bændur á landbúnaðarsvæði byggi og breyti landnotkun á jörðum sínum fyrir ferðaþjónustu. Það sé því ljóst að deiliskipulag geti enn síður komið í veg fyrir slíka notkun landbúnaðarsvæðis líkt og gert sé með hinu kærða deiliskipulagi. Einnig komi fram í aðalskipulagi að gert sé ráð fyrir að heimila fjölbreytta uppbyggingu sem tengist landbúnaði á landbúnaðarsvæðum, þ.á m. í Varmahlíð. Hafi kærandi því mátt gera ráð fyrir því að geta nýtt landbúnaðarjörð sína í bæði uppbyggingu á landbúnaðarstarfsemi sem og ferðaþjónustu og afþreyingu.

Yfirlýsing í greinargerð sveitarfélagsins um að ekki sé stundaður búskapur á jörðinni Víðimel stangist á við það sem fram komi í svörum sem send hefðu verið til kæranda 1. mars 2022 en þar komi fram að ekki verði séð að núverandi búskapur og fyrirhugaðar hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu á landbúnaðarlandinu takmarkist af uppbyggingu íbúða á Birkimel enda ljóst þeim, sem þar búi að landbúnaður sé stundaður í næsta nágrenni. Þá hafi riða, sem sveitarfélagið vísi til, komið upp fyrir 30 árum og hafi kærandi öðlast leyfi til að halda kindur eftir það.

Þrátt fyrir að land kæranda sé innan þéttbýlismarka hafi sveitarfélagið kosið að skilgreina svæðið sem landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Sveitarfélaginu beri að tryggja að samspil fyrirhugaðrar íbúðarbyggðar og þess landbúnaðarsvæðis sem þegar sé til staðar gangi upp fyrir alla aðila. Verði ekki síður að meta hvaða áhrif nýting landbúnaðarsvæðisins kunni að hafa á íbúðarbyggðina, t.d. hvað varði hávaða og lykt. Þessi skylda komi m.a. fram í gr. 5.3.2.13. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem segi að við staðsetningu mannvirkja sem séu óháð búrekstri landbúnaðarsvæðis, svo sem atvinnuhúsnæðis, íbúðar- eða frístundahúsa, skuli þess gætt að notkun þeirra og starfsemi sú sem sé á jörðinni geti farið saman. Þetta mat hafi ekki farið fram við undirbúning og gerð hins kærða deiliskipulags og hafi allar ábendingar kæranda um hugsanleg vandamál tengd samspili landbúnaðarjarðarinnar og hinnar fyrirhuguðu íbúðarbyggðar verið hunsaðar af sveitarfélaginu. Háttsemi sveitarfélagsins fari þvert gegn ákvæðum skipulagslaga og skipulagsreglugerðar og sé í andstöðu við rannsóknarreglu stjórn­sýslu­réttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá hafi kærandi fyrst sumarið 2021 verið meðvitaður um að íbúðarbyggð ætti að rísa svo nálægt landi hans en áður hefði staðið til að byggja kirkju á svæðinu. Þrátt fyrir að svæðið, sem nú sé skilgreint sem ÍB-502, hafi að einhverju leyti verið ætlað íbúðarbyggð sé ljóst að hún hafi verið umfangsminni samkvæmt eldra aðalskipulagi og óvíst hvar byggt yrði. Í núgildandi deili­skipulagi komi fram að stærð og afmörkun íbúðarsvæðisins við Birkimel hafi verið breytt og gert ráð fyrir uppbyggingu til vesturs og fjölgun íbúða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 9. febrúar 2022 að samþykkja deiliskipulag fyrir Birkimel í Varma­hlíð þar sem gert er ráð fyrir 15 íbúðalóðum í framhaldi af núverandi götu Birkimels með einbýlis-, par- og raðhúsum fyrir allt að 24 íbúðir.

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 29. og 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags. Við skipulagsgerð ber að fylgja markmiðum og málsmeðferðarreglum laganna svo og öðrum efnisreglum skipulagsréttar. Sveitarstjórn er einnig bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum, en þar að auki er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis sam­ræmi og er svæðisskipulag rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deili­skipulag. Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2021-2035 tók gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2022. Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 9. febrúar 2022 hið kærða deiliskipulag, en þá var eldra Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2020 í gildi. Í aðalskipulaginu kemur fram að stefna sveitarfélagsins um þéttbýli sé m.a. að íbúafjölgun í sveitarfélaginu verði í samræmi við landsmeðaltal eða meiri, íbúðarsvæði verði á þéttbýlisstöðunum og lóðir til fjölbreyttrar íbúðarbyggðar. Þá er Varmahlíð talin meðal þéttbýlisstaða í sveitarfélaginu. Um íbúðarsvæði í Varmahlíð segir að byggð verði einbýlishús, parhús og raðhús. Svæðið sem hið kærða deiliskipulag tekur til er samkvæmt aðalskipulaginu á íbúðarsvæði ÍB-5.1. Fram kemur í aðalskipulaginu að íbúðarsvæðið sé 9,75 ha að stærð, nýtingarhlutfall sé þar á bilinu 0,20-0,40 og fjöldi íbúða verði á bilinu 5-15 á hektara. Í sérákvæðum deiliskipulagsins segir að gert sé ráð fyrir tíu einbýlishúsalóðum, tveimur raðhúsalóðum og þremur parhúsalóðum með aðkomu frá Birkimel. Samkvæmt deili­skipulagsuppdrætti verður nýtingarhlutfall lóðanna á bilinu 0,30-0,40. Hið kærða deiliskipulag er því í samræmi við þágildandi aðalskipulag og stefnu þess, sbr. áðurgreinda 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þá er deiliskipulagið einnig í samræmi við núgildandi Aðalskipulag Sveitar­félagsins Skagafjarðar 2021-2035 og stefnu þess.

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka skipulagstillögu til umræðu þegar frestur til athugasemda er liðinn að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Skipulagsfulltrúa var falið að vinna úr framkomnum athugasemdum. Í umsögn skipulagsfulltrúa var athugasemdum svarað, hverri fyrir sig, og talið að ekki væri tilefni til að bregðast við framkomnum athugasemdum og færð rök fyrir því. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti umsögnina á fundi 2. febrúar 2022 og sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 9. s.m. Málsmeðferð deiliskipulagsins var því í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði.

Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en í 1. mgr. segir að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangs­miklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deili­skipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulags­reglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1.

Að framangreindu virtu hvílir sú skylda á sveitarstjórnum við gerð deiliskipulags að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt er fyrir um í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð um umhverfismat skipulags. Aftur á móti er ljóst að þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismats deiliskipulags eru breytilegar eftir efni þess og umfangi, enda segir í 1. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis að meta skuli líkleg áhrif af þar tilgreindum atriðum eftir því sem efni skipulags gefur tilefni til. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er gerð nokkur grein fyrir áhrifum skipulagsins á umhverfið. Er það talið hafa óveruleg áhrif á flesta þá umhverfisþætti sem fjallað er um. Þá eru áhrif á samfélagið metin jákvæð. Skipulagið geri ráð fyrir fjölbreyttri íbúðagerð og þéttbýlið sé góð viðbót í búsetumöguleikum í sveitarfélaginu. Nálægð við landbúnaðarstarfsemi sé talin hafa óveruleg eða jákvæð áhrif fyrir íbúa. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðu umhverfismatsins í sérstökum kafla í greinargerð deiliskipulagsins. Þar kemur m.a. fram að helstu umhverfisáhrif af uppbyggingu séu ásýndar­áhrif af byggingum og meiri byggð fylgi aukin umferð. Staðsetningin sé talin hagstæð þar sem svæðið sé í framhaldi af núverandi byggð. Þrátt fyrir að landbúnaðarsvæði sé í næsta nágrenni sé ekkert því til fyrirstöðu að íbúðarbyggð rísi á Birkimel og ætti nálægð við landbúnaðarstarfsemi ekki að koma að óvörum. Ríkja þurfi gagnkvæmur skilningur svo ekki verði hagsmunaárekstrar vegna ólíkra þarfa. Því sé það metið svo að íbúðarbyggðin geti notið góðs af nálægð við landbúnaðarsvæðið og upplifun verði eins og að „búa í sveit með húsdýr í bakgarðinum“. Þá sé það metið svo að landbúnaðarstarfsemin verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum af íbúðar­byggð í næsta nágrenni þar sem aðkoma að svæðunum sé ekki sú sama, tekið hafi verið tillit til nálægðar útihúsa við íbúðarbyggðina og ofan þess sé haft rúmt opið svæði til að auka fjarlægð og rými. Á þennan hátt var gerð grein fyrir umhverfis- og grenndar­áhrifum í greinargerð deili­skipulagsins.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða beri til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags getur hann eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur dómstóla.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 9. febrúar 2022 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Birkimel í Varmahlíð.