Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2022 Steinhella

Árið 2022, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 12. apríl 2022 um að synja beiðni um endurnýjun leyfis fyrir skilti á gafli hússins að Steinhellu 14, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2022, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Geymsla Eitt ehf. þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 12. apríl 2022 að synja beiðni um endurnýjun leyfis fyrir skilti á gafli hússins að Steinhellu 14, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Geymslu eitt ehf. verði veitt leyfi fyrir skiltinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 23. júní 2022.

Málavextir: Árið 2015 sótti kærandi um leyfi til að setja upp skilti á gafli hússins að Steinhellu 14, Hafnarfirði. Var beiðni hans samþykkt til reynslu í eitt ár og rann leyfið út í febrúar 2016. Sótti kærandi um endurnýjun leyfisins með umsókn, dags. 14. febrúar 2022. Umsóknin var tekin til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarráði 25. mars s.á. sem óskaði eftir umsögn umhverfis- og skipulagssviðs. Í umsögn sviðsins, dags. 11. apríl s.á., kom fram að skiltið uppfyllti ekki samþykkt um skilti í lögsögu Hafnarfjarðar, en samkvæmt henni væri hámarks­stærð skilta af þessu tagi 6 m að lengd og 9 m2 að flatarmáli. Þá hefði umhverfis- og skipulagssviði borist kvartanir frá öðrum eigendum hússins þar sem skiltið hefði fokið í óveðri síðasta vetur og lokað fyrir neyðarútganga í húsinu. Mælti sviðið gegn því að leyfið yrði endurnýjað. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 12. apríl 2022 var fyrrnefnd umsókn kæranda tekin fyrir og hafnað með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að rök um að skiltið samræmist ekki stærðarmörkum standist ekki þar sem annað hvert skilti í öllum Hafnarfirði sé mun stærra en 6 m að lengd og 9 m2 að flatarmáli. Þá eigi umrædd stærðartakmörk einungis við um upplýst þjónustuskilti innan lóðar en skiltið sem kærandi hafi sótt um sé ekki upplýst og ekki standskilti innan lóðar, heldur áfast húsi. Þarna sé um sitthvora greinina að ræða í samþykkt um skilti í lögsögu Hafnarfjarðar. Ekki standist skoðun að sama skilti, sem hafi verið samþykkt árið 2015 sem ásættanlegt að stærð, sé núna talið of stórt.

Sú kvörtun sem umhverfis- og skipulagssviði hafi borist frá öðrum eigendum hússins um að skiltið hafi fokið og „blokkerað“ neyðarútganga í húsinu hafi verið röng. Einungis hafi verið um einn neyðarútgang að ræða og hann hafi verið vel nothæfur sem slíkur. Skiltið hafi verið á húsinu sl. sjö ár og einungis einu sinni hafi það fokið niður og lagst að hluta til fyrir neyðarútgang í fortakslausu fárviðri nýliðins vetrar. Kærandi hafi ekki verið upplýstur um kvörtunina og hann hafi einungis frétt af henni þegar ákvörðun um að synja um leyfið hafi legið fyrir. Honum hafi því ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið.

 Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að í samþykkt um skilti í lögsögu Hafnarfjarðar sé tilgreint hvernig skilti sé heimilt að setja upp á athafna-, iðnaðar- og hafnar­svæðum. Þar segi að heimilt sé að setja upplýst þjónustuskilti innan lóðar sem gefi til kynna heiti, starfsemi, vöru, þjónustu og afgreiðslutíma fyrirtækja. Heimilt sé að setja slík skilti á hús en stærð þeirra megi ekki fara yfir 6 m og heildarflatarmál yfir 9 m2. Skiltið sem kærandi hafi sótt um leyfi fyrir sé stærra en heimilt sé samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar. Synjun skipulags- og byggingarráðs og meðferð sveitarfélagsins hafi verið samkvæmt lögum og reglum.

Niðurstaða: Í máli þessu gerir kærandi kröfu um að ákvörðun byggingarfulltrúa verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt leyfi fyrir hinu umþrætta skilti.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnar­atriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur að jafnaði ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þess hvort fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Umsókn kæranda um leyfi fyrir umræddu skilti var synjað á þeim grundvelli að það væri stærra en heimilt væri samkvæmt samþykkt um skilti í lögsögu Hafnarfjarðar. Í 5. gr. samþykktarinnar er fjallað um skilti á athafna-, iðnaðar- og hafnarsvæðum innan sveitarfélagsins og eru þar tilgreindar mismunandi tegundir skilta og þær stærðartakmarkanir sem um hverja tegund gilda. Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að heimilt sé að setja upp upplýst þjónustuskilti innan lóðar sem gefi til kynna heiti, starfsemi, vöru, þjónustu og afgreiðslutíma fyrirtækja. Stærð slíkra skilta megi ekki fara yfir 6 m og heildarflatarmál yfir 9 m2. Þá segir í 3. mgr. 5. gr: „Heimilt er að setja upp upplýst skilti á hús sem auglýsir viðeigandi verslun, fyrirtæki eða þjónustu.“ Engin stærðarmörk eru tilgreind í 3. mgr., en í 2., 4., 5. og 6. mgr. ákvæðisins er það hins vegar gert. Þá verður ekki ráðið af orðalagi nefndrar 5. gr. samþykktarinnar að sú hámarksstærð sem tilgreind er í 2. mgr. um upplýst þjónustuskilti innan lóðar eigi einnig við um skilti á húsum skv. 3. mgr.

Af því sem að framan er rakið verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið svo áfátt að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 12. apríl 2022 um að synja beiðni um endurnýjun á leyfi fyrir skilti á gafli hússins að Steinhellu 14, Hafnarfirði.