Árið 2019, mánudaginn 16. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 50/2019, kæra á umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2019, er barst nefndinni 1. júlí s.á., er kærð umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 11. júlí 2019.
Málavextir: Kærendur sóttu um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með auka íbúð og innbyggðum bílskúr úr CLT krosslímdum timbureiningum á staðsteyptum grunni á lóð nr. 4 við Döllugötu, Reykjavík. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. mars 2019 þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn frá 3. maí s.á. bókaði skipulagsfulltrúi: „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. maí s.á.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda skipulagsfulltrúa. Málinu var aftur frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júní s.á. með vísan til athugasemda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. júlí 2019 var umsókn kærenda samþykkt.
Málsrök kæranda: Kærendur telja, andstætt niðurstöðu skipulagsfulltrúa, að teikningar standist deiliskipulag. Kærendur hafi skilað inn greinargerð og gögnum sem styðji framangreinda afstöðu kærenda. Engin viðbrögð hafi fengist vegna þeirrar greinargerðar. Hvergi í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í reglugerðir máli skipulagsfulltrúa til stuðnings.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og annarra athugasemda sem séu við erindið. Því hafi engin stjórnsýsluákvörðun verið tekin um afgreiðslu erindisins. Þar sem ekki sé um lokaákvörðun að ræða beri að vísa málinu frá nefndinni skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir umsögn skipulagsfulltrúa hefur byggingarfulltrúi samþykkt að veita kærendum byggingarleyfi það er umsögnin snerist um. Hafa kærendur því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um lögmæti umsagnarinnar, sem aukinheldur batt ekki enda á málið eins og áskilið er til að hún verði kærð skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.