Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Fyrir var tekið mál nr. 50/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar 2018 um að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Hvammsland ehf., eigandi jarðarinnar að Hvammi, Skorradalshreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 23. febrúar s.á. að veita nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Hvamms. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar frestunarkröfu kæranda.
Málsatvik og rök: Í skipulagsskilmálum fyrir hluta frístundasvæðisins í Hvammi kemur fram að stofna skuli félag um frístundabyggðina sem annist sameiginleg hagsmunamál, s.s. rekstur vatnsveitu, viðhald vegar, lýsingu á sameiginlegum svæðum og umhirðu á útivistarsvæði.
Fyrri eigendur landeignarinnar að Hvammi í Skorradal munu hafa boðið sumarhúsaeigendum að taka yfir rekstur vatnsveitu á sínum tíma, en því var hafnað. Þegar kærandi keypti landið, sem er lögbýli, í ágúst 2010 mun vatnsbólið hafa verið skemmt eftir skriðuföll og vatnið mengað af yfirborðsvatni, og mun kærandi hafa lagt talsvert fjármagn í úrbætur á vatnsbólinu.
Hinn 16. nóvember 2017 sótti Félag sumarhúsaeigenda í Hvammi um leyfi til Orkustofnunar til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni úr vatnsbóli í landi Hvamms. Hinn 23. febrúar 2018 samþykkti Orkustofnun umsókn um nýtingarleyfi þess efnis.
Kærandi gerir þá kröfu að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað meðan kæran sé til meðferðar hjá nefndinni með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Frekari aðgerðir Félags sumarhúsaeigenda á grundvelli nýtingarleyfis geti skert hagsmuni kæranda til frambúðar. Þannig sé unnt að krefjast eignarnáms á grundvelli leyfisins takist samningar ekki og gæti leyfishafi jafnframt aðhafst í tengslum við auðlindina í landi kæranda svo hagsmunir hans skerðist. Sé því gerð sú krafa að réttaráhrifum sé frestað. Þá hafi kæranda borist bréf frá leyfishafa þar sem fram komi að hann hafi þegar hafist handa við að beita nýtingarleyfinu án samningaumleitana við kæranda, sem sé skylt samkvæmt X. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og án nokkurs tillits til eignarhalds kæranda á mannvirkjum við vatnsbólið.
Orkustofnun bendir á að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998, m.a. til nýtingar auðlinda í eignarlöndum. Landeigandi, kærandi í þessu máli, hafi ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi. Engu slíku leyfi sé til að dreifa í þessu tilviki en kaupsamningur við landeiganda um eignarlóðir liggi fyrir við einstaklinga í félagi leyfishafa. Hin kærða ákvörðun feli í sér heimild til nýtingar á grunnvatni vegna þarfa vatnsveitu fyrir sumarhúsabyggð á skipulögðu frístundasvæði í landi Hvamms í Skorradalshreppi. Nýtingarleyfið feli í sér heimild til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir séu í framangreindum lögum og Orkustofnun telji nauðsynlega, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þurfi leyfishafi að sækja um sérstakt framkvæmda- og starfsleyfi fyrir vatnsveituna og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar, sbr. 7. gr. laganna, liggi slíkt samkomulag ekki fyrir.
Leyfishafi tekur fram að engin rök séu fyrir því að fresta réttaráhrifum nýtingarleyfisins á meðan kæran sé til umfjöllunar. Rekstur vatnsveitunnar verði áfram með óbreyttu sniði í höndum leyfishafa, eina sem breytist sé að félagsmenn snúi sér nú til stjórnar leyfishafa í stað landeiganda ef bilanir verði og rekstrarkostnaður falli á leyfishafa.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.
Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita leyfi til nýtingar á 0,5 l/s af grunnvatni í landi Hvamms í Skorradal. Vatni er nú þegar veitt, og því hefur verið veitt til sumarhúsabyggðarinnar um nokkurt skeið, úr greindu vatnsbóli. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að áframhaldandi vatnstaka samkvæmt hinu kærða leyfi muni hafa þau áhrif á grunnvatnsauðlindina að hætta sé á slíku óafturkræfu tjóni fyrir kæranda að kæra yrði þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og efnis hins kærða nýtingarleyfis verður þannig ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þess.
Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er hafnað.