Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 5/2009, kæra á ákvörðunum hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2009, framsendir umhverfisráðuneytið stjórnsýslukæru Óskars Sigurðssonar hrl. f.h., eigenda Reykjabakka í Hrunamannhreppi, vegna ákvarðana hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda.
Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
Málsatvik: Hinn 5. nóvember 2008 ákvað hreppsnefnd Hrunamannhrepps að taka land í eigu kærenda eignarnámi með stoð í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Var ákvörðunin tekin á grundvelli umsagnar Skipulagsstofnunar frá 18. september 2008, þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemd við fyrirhugað eignarnám. Í kjölfar athugasemda kærenda afturkallaði stofnunin hins vegar umsögn sína með bréfi, dags. 5. desember 2008, þar sem hún taldi ljóst að fyrirhugaðar vegtengingar til norð-vesturs, við heimreið Reykjabakka, væru utan marka deiliskipulagsins.
Með bréfi, dags. 8. janúar 2009, var kærendum tilkynnt að hreppsnefnd hefði ákveðið hinn 7. sama mánaðar að taka það land eignarnámi sem félli innan deiliskipulagsmarka, sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2008. Ekki kom fram hver yrðu afdrif fyrri ákvörðunar frá 5. nóvember 2008. Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 til umhverfisráðherra með bréfi, dags. 20. janúar 2009. Framsendi ráðuneytið erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 27. janúar 2009, svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærandur krefjast þess að greindar ákvarðanir hreppsnefndar Hrunamannahrepps verði felldar úr gildi. Þar sem hreppsnefnd hafi ekki lýst því yfir með formlegum hætti að ákvörðunin frá 5. nóvember sé fallin úr gildi taki kæra þeirra einnig til hennar.
Ákvarðanir þær sem krafist sé ógildingar á séu af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps byggðar á heimild í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segi:
„Sveitarstjórn er heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins:
1. Fasteignir sem sveitarstjórn er samkvæmt skipulaginu nauðsynlegt að fá umráð yfir til almannaþarfa.“
Eins og aðrar ákvarðanir um eignarnám þurfi ákvörðun hreppsnefndar einnig að uppfylla skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, og ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. einnig meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Þá þurfi ákvörðun hreppsnefndar að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 og reglur stjórnsýsluréttarins setji um undirbúning og efni stjórnsýsluákvarðana.
Kærendur byggi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til eignarnáms, hreppsnefnd hafi ekki við ákvarðanir sínar virt meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og gallar séu á undirbúningi og málsmeðferð við ákvarðanir hreppsnefndarinnar. Þá séu ákvarðanirnar ekki byggðar á lögmætum sjónarmiðum.
Á því sé byggt að hreppsnefnd geti ekki reist ákvarðanir sínar um eignarnám á 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Eignarnámsheimild sveitarstjórnar skv. 2. mgr. 32. gr. sé takmörkuð við að þörf sé á eignarnáminu vegna framkvæmdar á deiliskipulagi. Liggja verði fyrir samþykkt og birt deiliskipulag og þurfi eignarnámið að samrýmast því. Auk þess þurfi að uppfylla skilyrði um almannaþörf.
Kærendur telji ljóst að ákvörðunin frá 5. nóvember 2008 hafi ekki verið í samræmi við skipulag svæðisins. Á uppdrætti, þar sem fyrirhugað eignarnám hafi verið nánar skilgreint, hafi verið gert ráð fyrir að umræddur vegur lægi þétt að garðávaxtageymslu í eigu kærenda og jafnframt kæmu tilteknir vegstútar þvert í gegnum land þeirra og aðliggjandi land. Af fyrirliggjandi aðalskipulagi verði ekki séð að gert sé ráð fyrir umræddum vegstútum. Deiliskipulag á landi kærenda verði að samrýmast fyrirliggjandi aðalskipulagi. Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi því ekki verið í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og falli því utan heimildar í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Það felist í skilyrði 2. mgr. 32. gr. að fyrirhugað eignarnám verði að samrýmast gildandi deiliskipulagi. Kærendur hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulaginu. Með bréfi sveitastjóra Hrunamannahrepps, dags. 18. nóvember 2008, hafi verið kynnt þau gögn sem legið hafi að baki ákvörðun hreppsins frá 5. nóvember. Meðfylgjandi þeim gögnum hafi annars vegar verið uppdráttur að breyttu deiliskipulagi frá árinu 2006 og hins vegar uppdráttur að íbúðarsvæði frá 5. mars 2000. Síðarnefndi uppdrátturinn virðist ekki vera hluti af deiliskipulagi, en á honum komi fram að um sé að ræða skýringaruppdrátt sem sýni á myndrænan hátt þær hugmyndir sem liggi að baki þágildandi deiliskipulagi.
Af fyrrnefnda uppdrættinum megi ráða að sú breyting sem þá hafi verið gerð á deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Bakkatúni hafi eingöngu náð til þess að færa til vegstæði um sjö metra til austurs þar sem vegurinn fari meðfram fyrirhugaðri íbúðarbyggð í Bakkatúni. Breytingin hafi ekki náð til svæðis umhverfis fasteign kærenda. Á uppdrættinum séu mörk deiliskipulags skilgreind sérstaklega. Á þessum uppdrætti verði ekki séð að gert sé ráð fyrir vegstútum þvert í gegnum lóð kærenda. Gert sé ráð fyrir einhverri vegtengingu eða vegstút á uppdrættinum, en sú tilhögun falli utan marka gildandi skipulags eins og skýrlega komi fram á uppdrættinum og sé því ekki hluti af gildandi deiliskipulagi.
Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi m.a. falið í sér að tekið yrði eignarnámi land kærenda undir greinda vegstúta án heimildar samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Ákvæði 2. mgr. 32. gr. laganna sé fortakslaust um að eignarnám verði aðeins heimilað vegna framkvæmdar gildandi deiliskipulags. Gæti misræmis í fyrirhugaðri framkvæmd og gildandi deiliskipulagi sé ljóst að ekki séu skilyrði fyrir eignarnámi. Verði í þessu samhengi að líta til þess að eignarétturinn njóti sérstakrar verndar skv. 72. gr. stjórnarskrár. Eignarnám verði ekki heimilað nema á grundvelli skýrrar og ótvíræðar lagaheimildar. Skorti á að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna eignarnámi. Eins og fyrr greini hafi Skipulagsstofnun fallist á athugasemdir kærenda hvað þetta varði.
Af framangreindu leiði að lagaskilyrði fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 séu ekki uppfyllt. Hafi hreppsnefnd með ákvörðun sinni frá 7. janúar 2009 fallist á það, án þess þó að fella hina ólögmætu ákvörðun sína úr gildi. Beri því að ógilda þá ákvörðun.
Ennfremur sé skilyrði 1. tl. 2. mgr. ekki fullnægt og eigi það við um báðar hinar kærðu ákvarðanir. Því hafi verið haldið fram að eignarnámið sé nauðsynlegt til að unnt sé að nýta land undir íbúðarbyggð fyrir aldraða. Ekkert liggi hins vegar nánar fyrir um það. Landið sem haldið sé fram að eigi að nýta til byggingar elliheimilis sé í einkaeigu og ekkert hafi verið lagt fram um heimildir til nýtingar á því í framangreindum tilgangi. Auk þess hafi það ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum. Þá sé algjörlega óvíst hvort og hvenær fyrirhuguð íbúðarbyggð fyrir aldraða rísi. Ekki sé þörf á eignarnámi lands í eigu kærenda í þeim tilgangi að fylgja eftir fyrirliggjandi skipulagi þegar óvíst og óljóst sé hvort yfirhöfuð verði ráðist í framkvæmdir samkvæmt því. Skilyrði 1. tl. 2. mgr. um nauðsynleg umráð til almannaþarfa sé því ekki fullnægt. Það skorti því á að sýnt hafi verið fram á að skilyrði eignarnáms um almannaþörf séu fyrir hendi.
Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að eignarnám á hluta lands kærenda nái því markmiði sem hreppsnefnd virðist stefna að með eignarnáminu. Ljóst sé að hreppsnefnd beri að sýna fram á nauðsyn eignarnámsins og að markmið þess liggi fyrir, þ.e. að það sé nauðsynlegt til þess að tryggja greinda uppbyggingu. Það hafi ekki verið gert.
Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar megi ekki svipta menn eignum sínum nema almenningsþörf krefji, sbr. einnig 1. gr. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé og áréttað í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í ljósi þess sem hér liggi fyrir sé ljóst að ákvarðanir hreppsnefndar um eignarnám á hluta af landi kærenda séu ekki löglegar.
Til viðbótar og fyllingar reglu stjórnarskrárinnar um almenningsþörf gildi hin óskráða meðalhófsregla stjórnskipunarréttarins einnig þegar eignarnám eigi í hlut, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því úrræði að þvinga fram afhendingu á eign með eignarnámi verði ekki beitt ef markmiði því sem ætlunin sé að ná fram með eignarnáminu verði náð með því að beita öðru og vægara úrræði gagnvart eiganda eignarinnar. Fyrirséð sé að aðrar og vægari leiðir í garð kærenda séu tækar.
Ákvörðun um eignarnám á hluta af landi kærenda leiði til þess að húsakostur sem nú sé til staðar verði a.m.k. illnýtanlegur eða ónýtanlegur. Athafnasvæði við húsið takmarkist verulega og einboðið sé að verulegri umferð eigi að beina um lóð kærenda, sem feli í sér verulega röskun og hættu. Samkvæmt mælingum kærenda verði fyrirhugað vegstæði aðeins 6,7 metrum frá horni garðávaxtageymslu, sem sé á lóðinni. Eingöngu séu 2,7 metrar frá veghelgunarsvæði að húshorninu skv. sömu mælingum. Líklegt verði að telja að afstaða vegarins gagnvart húsinu brjóti gegn ákvæði 76. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem mælt sé fyrir um að hús á lóðarmörkum við gatnamót megi aldrei hindra nægjanlegt útsýni fyrir akandi umferð. Þá felist í eignarnáminu veruleg skerðing á ræktuðu landi, þar sem m.a. sé stunduð rófnarækt í atvinnuskyni. Stór hluti þeirrar ræktunar fari undir fyrirhugaðan veg auk þess sem vegalagningin hafi bersýnilega áhrif á nýtingu þeirrar ræktunar sem ekki fari undir veginn en liggi þétt að honum. Skerði þetta framfærslutekjur kærenda. Óljóst sé með öllu hvaða þörf sé á því að taka umrædda spildu undir veginn, þar sem hægt sé með einföldum hætti að leggja hann austan við land kærenda og þar með takmarka skerðinguna.
Óumdeilt sé að hreppsnefnd geti farið aðrar og vægari leiðir við vegalagningu á umræddu svæði. Bent sé á að núverandi Hrunavegur liggi að jörðinni Grafarbakka og megi hæglega ráðast í lagfæringar og endurbætur á þeim vegi og tengja við fyrirhugaða íbúðarbyggð án þess að það raski að nokkru leyti eignarréttindum kærenda eða eigenda aðliggjandi eigna. Vegurinn tengist við þjóðveginn utan við þéttbýlið á Flúðum og nýtist því vel í þeim tilgangi sem nýjum vegi sé ætlaður. Hinar kærðu ákvarðanir brjóti því gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.
Svo virðist sem hreppsnefnd telji að afgreiðsla hennar 7. janúar 2009 geti bætt úr þeim vanköntum sem verið hafi á fyrri ákvörðun hennar frá 5. nóvember 2008. Svo sé hins vegar ekki. Ekki sé nægjanlegt af hálfu hreppsnefndar að afla einungis nýrrar lögmæltrar umsagnar Skipulagsstofnunar og/eða vísa til hennar sjálfstætt. Að auki þurfi hreppsnefnd við undirbúning og töku ákvörðunar um eignarnám að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 setji um undirbúning og málsmeðferð svo íþyngjandi ákvörðunar sem eignarnám sé, sbr. t.d. 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þessa hafi ekki verið gætt af hálfu hreppsnefndar. Undirbúningur ákvörðunar hreppsnefndar frá 7. janúar sl. sé því ófullnægjandi og leiði það til ógildingar hennar. Hér beri að gera mjög ríkar kröfur til undirbúnings ákvörðunarinnar þar sem um sé að ræða inngrip í grundvallarréttindi kærenda.
Ljóst sé að öll málsmeðferð, forsendur og samskipti hreppsnefndar við kærendur hafi miðast við að fyrirhugaðar vegtengingar, sem óumdeilt sé nú að séu utan deiliskipulagsins, væru hluti af hinu fyrirhugaða eignarnámi og framkvæmd.
Kærendur byggi kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar frá 7. janúar 2009 á því, auk fyrrgreindra sjónarmiða, að ekki hafi af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps verið fylgt reglum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls og andmælarétt, sbr. 10. og 13. gr., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sérlega rík skylda hafi hvílt á hreppsnefnd til að gæta þessara réttinda, enda um að ræða inngrip í stjórnarskrárvarinn eignarrétt.
Eins og fyrr greini hafi allur ferill málsins og viðræður við kærendur miðast við að taka eignarnámi hluta af landi þeirra, sem fallið hafi utan gildandi skipulags. Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt formlega að til stæði að fella fyrri ákvörðun hreppsnefndar úr gildi og að ætlunin væri að eignarnámið myndi taka til annars landsvæðis en upphaflega hafi verið áformað. Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum sérstaklega af því tilefni áður en ákvörðun um eignarnám hafi verið tekin hinn 7. janúar 2009. Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hafi borið að leggja fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni og rannsaka málið áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Liður í því hafi verið að gefa eigendum landsins kost á að tjá sig sérstaklega vegna breyttra áforma um eignarnám, þ.e. gæta andmælaréttar síns. Máli hafi skipt að kærendur fengju tækifæri til að tjá sig um hina breyttu framkvæmd, breytingar á vegtengingum, hvort ný áform hefðu áhrif á fjarlægðir, staðsetningu vegstæðis gagnvart húsum og mannvirkjum, o.s.frv.
Áður hafi verið gerð grein fyrir bókun hreppsnefndar um hina kærðu ákvörðun 7. janúar 2009. Engan rökstuðning sé að finna fyrir ákvörðuninni, einungis sé til þess vísað að tekið sé eignarnámi það land „… sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“ og vísað til umsagnar Skipulagsstofnunar án frekari skýringa. Hvorki sé vikið að því hvort fyrri ákvörðun sé felld úr gildi né mælt fyrir um með skýrum hætti eða afmarkað það land sem eignarnámið eigi að taka til eða hvaða áhrif þessar breyttu forsendur varðandi vegtengingarnar hafi fyrir hina fyrirhuguðu framkvæmd. Kærendur hafi ætíð skilið hreppsnefnd þannig að vegtengingarnar væru forsenda fyrir eignarnáminu og hluti af framkvæmdinni. Þá komi ekkert fram í rökstuðningi hreppsnefndar um nánari útfærslur, nú þegar viðurkennt sé að vegtengingarnar séu ekki og hafi aldrei verið hluti af skipulaginu, hvernig og hvort það hafi áhrif á legu vegarins, fjarlægðir og annað. Ekki sé því unnt að átta sig á hvað hreppsnefnd sé að fara fram á og algjörlega óljóst hvað eigi að taka eignarnámi.
Kærendur telji því að ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009 uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar sem gildi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Gera verði sérstaklega strangar kröfur í þessu sambandi þegar um svona viðurhlutamiklar ákvarðanir sé að ræða og inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sbr. 12. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Málsrök Hrunamannahrepps: Af hálfu Hrunamannahrepps er forsaga málsins rakin í ítarlegu máli. Er því haldið fram að í hvívetna hafi verið leitast við að fara að lögum varðandi meðferð málsins og reynt að leita sátta. Það sé örugglega fátítt að hreppsnefndir leggi á sig að halda hreppsnefndarfundi inn á heimilum þegar deilur sem þessar standi yfir, en það hafi verið gert í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Þess skuli getið að umræddur Bakkatúnsvegur sé merktur nr. 31 á uppdrætti Aðalskipulags Hrunamannahrepps 1992-2012 en uppdrátturinn hafi verið undirritaður af skipulagsstjóra, staðfestur af hreppsnefnd 15. mars 1994 og loks staðfestur af umhverfisráðherra 25. apríl 1994.
Fulltrúar hreppsnefndar hafi formlega rætt við umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi vegna umræddrar vegalagningar. Í framhaldi af þeim viðræðum hafi hreppsnefnd ákveðið í samráði við Vegagerðina að sleppa ósk um eignarnám á landi undir þvervegi (stúta) sem annars vegar tengist veitingastaðnum Útlaganum og hins vegar grænmetisgeymslunni við Reykjabakka. Þetta komi vel fram á uppdrætti að fyrirhuguðum vegi svo og í samþykkt hreppsnefndar frá 7. janúar 2009.
Með samþykkt hreppsnefndar hinn 3. febrúar 2010 hafi verið tekin af öll tvímæli um að ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi vikið fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009, en þar komi fram að aðeins sé óskað eignarnáms á því landi er falli innan marka deiliskipulags.
Niðurstaða: Með hinum kærðu ákvörðunum var annar vegar samþykkt „ …að taka umrædda spildu eignarnámi.“ og hins vegar „ …að taka það land eignarnámi sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“ Af málsgögnum verður helst ráðið að eignarnámið hafi annars vegar átt að taka til spildu úr landi eiganda veitingastaðarins Útlagans og hins vegar spildu úr landi Reykjabakka.
Með stjórnsýslukæru til samgönguráðuneytisins, dags 26. nóvember 2008, kærði Klemenz Eggertsson hdl., f.h. eiganda veitingastaðarins Útlagans, þá ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 að taka eignarnámi land í hans eigu til lagningar svonefnds Bakkatúnsvegar.
Gekk úrskurður ráðuneytisins í málinu hinn 25. júní 2009 og segir þar m.a:
„Kærandi gerir þá kröfu að ráðuneytið ógildi ákvörðun sveitarfélagsins um eignarnám sem byggir á skipulags- og byggingarlögum. Til álita kemur því hvort úrskurðarvald ráðuneytisins, samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nær til þess að úrskurða um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.
Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Löggjafinn hefur því ákveðið að ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna skuli kæranlegar til sérstakrar úrskurðarnefndar og skiptir þá ekki máli hvort það er sveitarstjórn eða annað stjórnvald sem tekur viðkomandi ákvörðun. Úrskurðarvald nefndarinnar nær þannig til lokaákvarðana sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, að því leyti sem þær eru ekki teknar af ráðherra, s.s. ákvarðanir um staðfestingu aðalskipulags, sbr. 19. gr. Þegar úrskurðarvald í kærumálum er fært til slíkra nefnda sem settar eru á stofn með lögum er um leið kæruheimild til ráðherra rofin enda er meginreglan að sérstakar kæruheimildir ganga framar almennri kæruheimild (Páll Hreinsson, skýringarrit við Stjórnsýslulögin bls. 260-262).
Þá gildir sú meginregla að þegar sjálfstæðum úrskurðarnefndum er fengið úrskurðarvald í tilteknum málaflokkum tekur viðkomandi nefnd til endurskoðunar alla málsmeðferð sem leiddi til þeirrar ákvörðunar sem kærð er, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4968/2007 og álit í máli nr. 5184/2007. Í þeim báðum var fjallað um úrskurðarvald úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sem er sérstök lögbundin úrskurðarnefnd. Kemur þar fram það álit umboðsmanns að úrskurðarnefndinni sé ætlað að fara með almennt úrskurðarvald á kærustigi um viðkomandi ágreining og geti því, í samræmi við almenn sjónarmið um stjórnsýslukærur, endurskoðað bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana sem bornar eru undir hana.“
Þrátt fyrir framanritað segir síðar í úrskurðinum að úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nái til þess að fjalla um málsmeðferð sveitarfélagsins sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar. Kemst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að engir þeir hnökrar hafi verið á þeirri málsmeðferð sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar frá 5. nóvember 2008, sem valdi því að rétt sé að ógilda hana. Ekki hafi heldur verið efni til að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar frá 7. janúar 2009 þótt betur hefði mátt vanda til undirbúnings hennar. Var það niðurstaða ráðuneytisins að hafna bæri kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Hrunamannahrepps um eignarnám vegna lagningar Bakkatúnsvegar.
Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur æðra stjórnvald með úrskurði hafnað því að fella úr gildi ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu. Er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að endurskoða niðurstöðu ráðuneytisins í málinu og verður málinu því vísað fá nefndinni.
Úrskurðarnefndin áréttar að komi til eignarnáms geta kærendur leitað úrlausnar dómstóla um lögmæti þess, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda kærumála sem úrskurðarnefndin hefur til úrlausnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
______________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson