Mál nr. 49/2014, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2014, er barst nefndinni 6. s.m., kæra nánar tilgreindir íbúar að Grettisgötu 6, 8, 11, 12, 13, 13b, 13c, 16, 18, 19, 19b og 20b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki gera kærendur þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.
Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 20. júní 2014 og 16. febrúar 2015.
Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi fyrir reit 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu, var samþykkt af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 7. febrúar 2014. Í breytingunni fólst að nýbyggingar á reitnum yrðu í takt við byggðamynstur á svæðinu, rými myndaðist milli húsa og varðveisla núverandi friðaðra húsa. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. mars 2014.
Kærendur benda á að framsetning á skipulagsuppdrætti sé ekki í samræmi við lög. Uppdrátturinn sé svo óskýr að erfitt sé að sjá í hverju breytingin sé fólgin. Þá hafi auglýsing fyrirhugaðra deiliskipulagsbreytinga ekki verið í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki verið til þess fallin að ná fram markmiðum um íbúasamráð. Tillöguna hafi borið að kynna á íbúafundi. Slíkur fundur hafi ekki verið haldinn og leiði sá málsmeðferðarannmarki til ógildingar deiliskipulagsins. Loks gangi deiliskipulagið með ólögmætum hætti gegn verulegum nábýlis- og grenndarhagsmunum kærenda.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sé kæra of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu reits 1.172.2 sem samþykkt var af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 7. febrúar 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Tók breytingin til lóðanna nr. 34A og nr. 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti 18. desember 2014 breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Öðlaðist sú deiliskipulagsbreyting gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. febrúar 2015. Hin kærða ákvörðun, sem varðaði sömu lóðir svo sem áður er lýst, hefur því ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir