Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2010 Steðji

Ár 2010, þriðjudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2010, kæra á ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Jón Ögmundsson hrl., f.h. A, eiganda jarðarinnar Runna í Borgarbyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010 að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja. 

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka megi það til efnisúrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til úrlausnar.

Málavextir:  Hinn 28. júní 2010 sótti eigandi jarðarinnar Steðja um framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi jarðarinnar.  Var áformað að nota brautina á unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram á að fara dagana 30. júlí til 1. ágúst 2010.  Var umsóknin samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 30. júní 2010 með svohljóðandi bókun:  „D[..] f.h. landeigenda sækir um leyfi til framkvæmda við gerð mótorcrossbrautar í landi Steðja.  Samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir mótorcrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.“

Afgreiðsla umhverfis- og skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 15. júlí 2010 og var svohljóðandi bókun gerð í málinu:  „Framlögð fundargerð frá 1. fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar dags. 30. júní 2010.  Jafnframt framlagt bréf frá Jóni Ögmundssyni hrl. þar sem þess er krafist að framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut í landi Steðja verði fellt niður og framkvæmdir stöðvaðar.  Byggðarráð tekur undir með umhverfis- og skipulagsnefnd og samþykkir framkvæmdaleyfi fyrir motorkrossbraut til notkunar á unglingalandsmóti, enda sé framkvæmdin á röskuðu landi og afturkræf.  Byggðarráð ítrekar að þetta leyfi er tímabundið og stendur til lokadags unglingalandsmóts sem er 2. ágúst nk.“ 

Kærandi, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta sem eigandi jarðar í nágrenni við framkvæmdastað, vildi ekki una þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 20. júlí 2010, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur aðfinnsluvert að byggðarráð gefi út tímabundið framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem í eðli sínu sé varanleg gerð kappakstursbrautar fyrir motorcrosshjól.  Ekki sé gert ráð fyrir útgáfu tímabundinna framkvæmdaleyfa í skipulags- og byggingarlögum.  Hvergi komi fram í bókun byggðarráðs að land það sem notað verði undir brautina verði fært til fyrra horfs eftir unglingalandsmótið, og þá innan tiltekins tíma, svo ekki verði um varanlega framkvæmd að ræða.  Eingöngu sé tilgreint að framkvæmdin sé á röskuðu landi og afturkræf. 

Það gefi auga leið að starfsemi sem þessi eigi alls ekki heima á þessu svæði.  Á aðliggjandi jörðum sé hrossahald og tamningastöðvar.  Þá sé frístundabyggð á nálægum jörðum.  Það geti komið sér afar illa fyrir eigendur hrossa á svæðinu að fá motorcrossbraut í nágrennið með þeim gífurlega hávaða sem því fylgi og mögulegri olíumengun sem henni sé samfara.  Svæðið sé skipulagt sem landbúnaðarsvæði og samrýmist framkvæmdin því ekki gildandi skipulagi.  Ekki verði séð hvernig heimild fyrir motorcrossbraut verði felld að núverandi landnotkun á svæðinu, en motorcrossakstri fylgi hávaðamengun. 

Einnig megi telja að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. a lið 11. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, enda komi ekkert fram í bókun umhverfis- og skipulagsnefndar eða byggðarráðs um að afmá eigi brautina að loknu unglingalandsmóti.  Hér vísist því aftur til þess sem fram hafi komið um hávaða- og umhverfismengun sem af slíkri braut stafi. 

Kærandi telji að ekki hafi verið rétt staðið að útgáfu þessa leyfis þar sem hvorki hafi verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingalaga, né heldur til þess hvort framkvæmdin eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. 

Þá sé á það bent að á svæðinu sé stofn blesgæsa sem haldi til í Reykholtsdal á haustin, en hún sé alfriðuð.  Allar framkvæmdir sem áhrif kynnu að hafa á lífríki svæðisins séu háðar mati á umhverfisáhrifum og óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi án þess að slíkt mat hafi farið fram. 

Reyndar virðist framkvæmdin fremur vera byggingarleyfisskyld en framkvæmdaleyfisskyld, enda séu vegir aðeins undanþegnir byggingaleyfi séu þeir lagðir af opinberum aðilum, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingalaga.  Það hefði því átt að grenndarkynna tillöguna áður en afstaða var tekin til leyfisumsóknarinnar. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að framkvæmdin sé afturkræf en hún sé á röskuðu landi í gamalli námu.  Leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi einungis í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ.  Í samþykki byggðaráðs sé áréttað að leyfið sé tímabundið og gildi til lokadags unglingalandsmóts, sem er 2. ágúst.  Því megi reikna með að brautin verði notuð í 4 klst., meðan á sjálfri keppninni standi, en reiknað sé með að 30-40 manns muni keppa í þessari grein.  Af öryggisástæðum gæti þó mögulega þurft að reyna brautina skömmu fyrir mót áður en endanlega verði gengið frá keppnissvæðinu. 

Sveitarfélagið telji það ekki rök í málinu að brautin verði áfram notuð eftir unglingalandsmót UMFÍ því leyfi sveitarfélagsins fyrir notkun brautarinnar gildi ekki nema til 2. ágústs.  Umsækjandi og landeigandi að Steðja sé vel meðvitaður um hvað í samþykki sveitarfélagsins felist. 

Sveitarfélagið telji að mikið hefði verið í lagt fyrir 4 klst. mót að vinna sérstakt deiliskipulag vegna brautarinnar, breyta landnotkun aðalskipulags og meta umhverfisáhrif skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.  Hins vegar taki sveitarfélagið undir að slíkt bæri að gera væri um framtíðarbraut að ræða á þessum stað. 

Ekki sé að mati sveitarfélagsins ljóst hvort sveitarfélaginu hafi borið skylda til að sækja um leyfi fyrir þessari framkvæmd, þar sem um tímabundna notkun hafi verið að ræða, en engu að síður hafi það verið gert þar sem sveitarfélagið átti hlut að máli sem mótshaldari unglingalandsmóts UMFÍ. 

Um stöðu skipulagsmála á svæðinu sé það að segja að sveitarstjórn hafi samþykkt til auglýsingar aðalskipulagstillögu fyrir allt sveitarfélagið, sem ekki hafi verið fyrir hendi áður.  Skipulagsstofnun hafi gefið jákvæða umsögn með auglýsingu tillögunnar og hafi hún verið kynnt íbúum sveitarfélagsins á almennum kynningarfundum. 

Í þeirri tillögu, sem senn verði auglýst, sé umrædd náma sérstaklega tilgreind nr. E 79.  Náman sé því í samræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins og landnotkunarflokkur hennar sé „efnistökusvæði“.  Landnotkun svæðisins í kring sé landbúnaðarland en skammt frá sé svæði, skilgreint sem athafnasvæði (A 3) í aðalskipulagstillögu, þar sem m.a. sé flugbraut og nokkur flugskýli. 

Málsrök framkvæmdaleyfishafa:  Framkvæmdaleyfishafi, sem er ábúandi og eigandi jarðarinnar Steðja, kveður sér ekki kunnugt að sést hafi til blesgæsar á landareigninni eða í nágrenni hennar. 

Hvað varði hávaða verði að minni á að þarna rétt hjá sé mikið notaður flugvöllur og yrði hljóðmengun frá brautinni ekki nálægt því eins mikil og þegar sé frá flugvellinum. 

Umrætt svæði sé skipulagt sem malarnáma í aðalskipulagi og hafi Vegagerðin tekið þarna töluvert efni.  Þarna sé því ekki verið að raska óafturkræfu svæði. 

Loks sé á það bent að fyrihugað mót muni einungis standa í 4 klst.

Ungmennafélagi Íslands var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en engin andsvör hafa borist frá félaginu. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Í 2.-7. mgr. 27. gr. er nánar kveðið á um gerð og undirbúning framkvæmdaleyfa og kemur þar m.a. fram að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja nauðsynleg gögn sem nánar skuli kveðið á um í reglugerð og að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er ekki í gildi aðalskipulaga fyrir umrætt svæði.  Þar sem svo stendur á getur sveitarstjórn leyft einstakar leyfisskyldar framkvæmdir sem um kann að verða sótt að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Að þessu var ekki gætt við afgreiðslu leyfisins og var meðferð málsins að þessu leyti verulega ábótavant. 

Í gr. 9.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um gögn vegna framkvæmdaleyfisumsókna.  Segir þar að meðal nauðsynlegra gagna sé uppdráttur í tilgreindum mælikvarða er sýni framkvæmd og afstöðu hennar í landi, þar sem fram komi mörk viðkomandi svæðis, tenging þess við þjóðveg, hæðarlínur og mannvirki sem fyrir séu á svæðinu.  Auk þess skuli leggja fram fylgigögn þar sem fram komi lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum ásamt öðrum upplýsingum sem skipulagsnefnd telji nauðsynlegar. 

Ekki verður séð að nein af þeim gögnum sem áskilin eru í tilvitnuðu ákvæði hafi legið fyrir við samþykkt hins umdeilda leyfis.  Eru upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd raunar svo takmarkaðar í máli þessu að ógerlegt er að leggja mat á það hvort um sé að ræða meiri háttar framkvæmd, sem háð sé framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, en líta verður til þess að framkvæmdin er á röskuðu svæði.  Þá er hið kærða leyfi tímabundið en tímaskilyrði leyfisins virðist aðeins eiga við um notkun mannvirkisins og hefur það skilyrði því litla þýðingu við mat því hvort umrædd framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar stórlega áfátt og þykja þeir annmarkar sem á málmeðferð voru eiga að leiða til ógildingar hennar.  Verður hún því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggðarráðs Borgarbyggðar frá 15. júlí 2010, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir motorcrossbraut í landi Steðja í Borgarbyggð, er felld úr gildi. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Aðalheiður Jóhannsdóttir