Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2000 Leirvogstunga

Ár 2000, miðvikudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2000; kæra eigenda og íbúa að Leirvogstungu 2, 3, 4, 6 og 7 í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar hesthúss við Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ og krafa kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. ágúst 2000, sem barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hdl., f.h. eigenda og íbúa að Leirvogstungu 2, 3, 4, 6 og 7 í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar hesthúss við Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar 27. ágúst 2000 gera sömu kærendur kröfu um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar hinn 21. júlí 2000.

Eftir að krafa kærenda um stöðvun framkvæmda var komin fram var byggingarleyfishafanum, A, Leirvogstungu 5, Mosfellsbæ, gert viðvart um kröfuna og var honum gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Sama dag var jafnframt leitað afstöðu byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ til kröfunnar og óskað upplýsinga frá honum um atbeina hans að gerð uppdráttar og yfirlýsingar um samþykki íbúa og eigenda í Leirvogstungulandi.  Skriflegar athugasemdir bárust frá byggingarleyfishafa hinn 28. ágúst 2000, en með bréfi hinn 29. ágúst 2000 barst svar frá byggingarfulltrúa við fyrirspurn nefndarinnar.
 

Telur úrskurðarnefndin málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar 

Málsatvik:  Málsatvik verða hér einungis rakin stuttlega og einvörðungu að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn þess hvort fallast beri á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Í ársbyrjun 1999 sótti A, eigandi Leirvogstungu 5, um leyfi til þess að byggja hesthús á lóð sinni.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 27. janúar 1999 og fól nefndin tæknideild bæjarins að vinna frekar að málinu.  Á fundi skipulagsnefndar þann 4. maí 1999 var ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu vegna umsóknarinnar.  Voru kærendum sendar teikningar af fyrirhuguðu hesthúsi að Leirvogstungu 5 og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum.  Kom lögmaður kærenda athugasemdum þeirra á framfæri með bréfi, dagsettu 18. október 1999.  Lögðust kærendur gegn því að leyfi yrði veitt fyrir byggingu hesthússins.  Til vara var þess krafist að leyfisveitingu yrði frestað þar til breytt aðalskipulag Mosfellsbæjar lægi fyrir og deiliskipulag á grundvelli þess.  Til þrautavara að leyfið yrði ekki veitt fyrr en fyrir lægi deiliskipulag jarðarinnar á grundvelli gildandi aðalskipulags og til þrautaþrautavara að húsið yrði minnkað, það yrði á einni hæð með steinsteyptri þró fyrir tað, í því yrði engin atvinnustarfsemi og að það yrði ekki tekið í notkun fyrr en frágangi yrði að fullu lokið.  Þá lýstu kærendur því yfir að þeir teldu sig ekki bundna við undirritanir sínar undir ódagsetta yfirlýsingu um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir og staðsetningu hesthússins samkvæmt uppdrætti, sem þeim hefði verið sýndur, en þessarar yfirlýsingar hafði eigandi Leirvogstungu 5 aflað áður en hann sótti um byggingarleyfi fyrir hesthúsinu.

Eftir þetta var málið til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum í Mosfellsbæ haustið 1999 og fram til vors 2000 en í apríl 2000 var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við nýja tillögu að hesthúsi á suðausturhluta lóðarinnar að Leirvogstungu 5.  Gerði þessi nýja tillaga ráð fyrir minna og lægra húsi en hin fyrri.  Lögmaður kærenda kom athugasemdum þeirra á framfæri með bréfi, dagsettu 2. maí 2000, og voru athugasemdirnar efnislega að mestu hinar sömu og áður höfðu komið fram við fyrri grenndarkynninguna.  Eftir frekari umfjöllun og athugun á málinu ákvað skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum þann 18. júlí 2000 að veita leyfi til byggingarinnar og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar hinn 21. júlí 2000.  Eru það þessar ákvarðanir, sem kærðar eru í málinu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda byggingarleyfi án þess að aflað væri meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Þá telja kærendur að andmælaréttur þeirra hafi verið virtur að vettugi og hafi þeim ekki verið kynnt mikilvæg gögn í málinu, sem ráðið hafi úrslitum um hina kærðu ákvörðun.  Eigi þetta við um bréf byggingarleyfishafa til bæjarverkfræðings Mosfellsbæjar, dags. 24. nóvember 1999, umsögn Skipulagsstofnunar um málsmeðferð og bréf Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., dags. 30. júní 2000.
 
Kærendur byggja einnig á því að við meðferð málsins hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi málið ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því.  Er af hálfu kærenda nánar tilgreint í hverju þeir telja rannsókn málsins áfátt.

Kærendur styðja mál sitt ennfremur þeim rökum að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðun byggingaryfirvalda í málinu og að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða er varða framtíðarskipulag svæðisins.  Einnig hafi ákvörðunin verið tekin á röngum forsendum, þar sem fyrir hafi legið uppdráttur með árituðu samþykki kærenda er sýni aðkomu að hesthúsinu frá reiðvegi, en þennan uppdrátt hafi kærendur aldrei séð eða samþykkt, og hljóti byggingarleyfishafi að hafa ljósritað hann eftirá inn á blað það er kærendur höfðu ritað samþykki sitt á.

Nánar verður gerð grein fyrir málsástæðum kærenda við efnisúrlausn málsins.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er mótmælt staðhæfingum kærenda um að fölsuð gögn hafi verið lögð fyrir byggingarnefnd.  Kveður byggingarleyfishafi uppdrátt þann, sem áritaður er um samþykki kærenda, hafa verið útbúinn af byggingarfulltrúa áður en samþykkis kærenda hafi verið aflað. Þá vísar byggingarleyfishafi á bug staðhæfingum kærenda um að hann hafi haft uppi rangfærslur í málinu og um að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda.  Rétt hafi verið staðið að málinu í alla staði eins og koma muni í ljós við meðferð þess fyrir úrskurðarnefndinni.

Umsögn byggingarfulltrúa:  Í svari byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, sem einskorðað er við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, kemur fram að ekki eru gerðar athugasemdir við þau skjöl, sem kærendur leggja fram og er vísað til fyrirliggjandi gagna málsins.  Varðandi fyrirspurn framkvæmdastjóra úrskurðarnefndar um tilurð uppdráttar, sem áritaður er um samþykki kærenda, kveðst byggingarfulltrúi hafa upplýst byggingarleyfishafa um þá vinnureglu byggingarfulltrúaembættisins að þegar lagðar væru fram áritaðar yfirlýsingar umsagnaraðila vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda, skyldu undirskriftir í öllum tilfellum vera á sama blaði og hin fyrirhugaða framkvæmd væri teiknuð eða skilgreind, svo ekki færi á milli mála hvað fólk skrifaði uppá.  Kveðst byggingarfulltrúi hafa aðstoðað byggingarleyfishafa við að færa inn á afstöðumynd fyrirhugað hús, staðsetningu, auk texta vegna aðkomu frá reiðstíg að lóðinni.  Hafi byggingarleyfishafa verið skýrt frá því að þessi uppdráttur yrði lagður fyrir skipulagsnefnd að fenginni áritun.  Þá kveðst byggingarfulltrúi hafa ljósritað afstöðumyndina, ásamt texta yfirlýsingar, á A3 blað fyrir byggingarleyfishafa.  Sé fullt samræmi milli þess skjals sem þannig var útbúið og þess sem síðar hafi verið lagt fram með áritunum kærenda.

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru framkvæmdir þegar hafnar við byggingu hesthúss samkvæmt byggingarleyfi því, sem ógildingar er krafist á í máli þessu.

Enda þótt ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til málsástæðna kærenda verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við viðeigandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og er ekki augljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin ágöllum er ógildingu varði. Þá verður ekki séð að kærendur eigi ríka hagsmuni af því að framkvæmdir verði stöðvaðar við byggingu tiltölulega lítils mannvirkis í umtalsverðri fjarlægð frá húseignum þeirra. 

Að þessu virtu fellst úrskurðarnefndin ekki á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Eru framkvæmdir því heimilar, en alfarið á ábyrgð byggingarleyfishafa, meðan krafa kærenda um ógildinu hins kærða byggingarleyfis er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu hesthúss að Leirvogstungu 5, Mosfellsbæ, verði stöðvaðar.