Árið 2023, fimmtudaginn 27. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjarvík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 07, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Mjódalsvegar 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt á b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.
Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni, eða hlutum hennar, samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008, samhliða byggingu dæluhúss. Byggingarfulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.
Reykjavíkurborg bendir á að fyrir umrætt svæði sé í gildi deiliskipulag, Hómsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í b-deild stjórnartíðinda 14. desember s.á. Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og undirbúningur sé hafinn við að afla framkvæmdaleyfis vegna öryggismanarinnar. Afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum nr. 160/2010 um mannvirki og hafi hann engar heimildir til að gera kröfu um eða samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir. Gæta verði meðalhófs, en ógilding byggingarleyfisins eða stöðvun framkvæmda myndi valda byggingarleyfishafa ómældu óþarfa tjóni.
Leyfishafi vísar til þess að útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við aðal- og deiliskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið þess að fjölga hitaveitugeymum á Reynisvatnsheiði sé að auka afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa höfuðborgarsvæðisins og jafna út sveiflur í rekstri. Mikilvægt sé að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetur. Farið hafi verið í útboð og samið við verktaka um byggingu geymisins. Því geti hlotist af því fjárhagslegt tjón að þurfa að hætta við eða seinka framkvæmdum. Ekki verði séð að knýjandi nauðsyn sé, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.
Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.
Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, en á umræddri lóð standa fyrir þrír sambærilegir hitaveitugeymar. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða með tilliti til hagsmuna kæranda, og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.
Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Mjódalsvegi 16.