Ár 2002, föstudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 46/2000, kæra eigenda íbúða í fasteigninni nr. 20 við Álafossveg, Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi fyrir byggingu göngubrúar yfir Varmá sunnan Álafossvegar 20 og Álafossvegar 22 í Álafosskvos, Mosfellsbæ.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 9. ágúst 2000, sem barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra H og M, eigendur íbúða í fasteigninni að Álafossvegi 20, Mosfellsbæ, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 að veita Mosfellsbæ leyfi til byggingar göngubrúar yfir Varmá sunnan Álafossvegar 20 og Álafossvegar 22 í Álafosskvos í Mosfellsbæ. Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik: Í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar er svæði það sem nefnt er Álafosskvos skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði og er þar gert ráð fyrir smáiðnaðar- og listamiðstöð við Álafossveg. Á árinu 1997 var unnin tillaga að deiliskipulagi fyrir Álafosskvos í Mosfellsbæ. Á deiliskipulagsuppdrættinum og í forsendum skipulagsins var gert ráð fyrir göngubrú sunnan Álafossvegar 20 (Þrúðvangs) og Álafossvegar 22 (svonefndrar sundlaugar). Athugasemdir voru gerðar við skipulagstillöguna, m.a. af hálfu kærenda, og var umrædd brú meðal þess sem athugasemdir voru gerðar við. Var á það bent að göngustígur suðvestan við sundlaug og brú yfir Varmá yrði lífríki tjarnar við sundlaugina og umhverfi hennar til tjóns. Svar bæjaryfirvalda við þessari athugasemd var á þá leið að tilgangurinn með fyrirhugaðri brúargerð í deiliskipulaginu væri að tengja saman bakkana beggja vegna Varmár og dreifa með því gangandi umferð við hátíðarhöld á svæðinu. Með því að færa umferð á tjarnarsvæðinu í ákveðinn farveg væri verið að hlífa því. Deiliskipulagið var samþykkt án breytinga að þessu leyti í desember 1997.
Hinn 18. júlí 2000 var umsókn Mosfellsbæjar um byggingu göngubrúar yfir Varmá sunnan Álafossvegar 20 ásamt byggingu annarar göngubrúar tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar bæjarins. Um staðsetningu brúnna var vísað til samþykkts deiliskipulags Álafosskvosar. Nefndin samþykkti erindið og lagði fyrir að niðurstaðan yrði send hagsmunaaðilum á svæðinu til kynningar.
Kærendur voru ósáttir við lyktir málsins og kærðu ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Í kærubréfi kærenda er vísað til þess að í lóðarleigusamningi sem gerður hafi verið milli þáverandi lóðareiganda og annars kærenda hinn 21. júlí 1994 um lóðina nr. 20 við Álafossveg sé í engu getið heimilda bæjaryfirvalda til að nýta lóðina til umdeildra framkvæmda sem feli í sér að leggja göngustíg og hluta brúar innan lóðarinnar.
Framkvæmdirnar muni hefta eðlilegt aðgengi að neðri hæð hússins að Álafossvegi 20 og aukinn umgangur muni óhjákvæmilega valda eigendum og íbúum beggja húsanna á svæðinu óþarfa ónæði en í báðum húsanna séu samþykktar íbúðir. Framkvæmdin muni rýra notagildi og verðgildi húsanna.
Kærendur benda á að hinn umdeildi göngustígur sé óþarfur og benda einnig á að komin sé brú yfir ána vestan braggabyggðar aðeins nokkrum metrum neðar við fyrirhugaða staðsetningu umdeildrar brúar. Jafnframt sé fyrirhugað að reisa aðra göngubrú framan við húsin að Álafossvegi 20 og 22.
Við auglýsingu deiliskipulagsins frá árinu 1997 hafi kærendur, ásamt ýmsum öðrum húseigendum á svæðinu, sent athugasemdir til tæknideildar Mosfellsbæjar. Hafi þar verið bent á gildandi lóðarsamning og hafi ýmsir lýst áhyggjum sínum vegna viðkvæms lífríkis tjarnar sem þarna er og stafaði hætta af aukinni umferð svo nærri. Hafi verið lagt til við bæjaryfirvöld að göngustígurinn yrði færður upp fyrir tjörnina og niður að bílastæðum er þar eru. Ofan tjarnarinnar sé tvímælalaust besta útsýnið yfir svæðið og tjörnina og nægt rými fyrir bekki, upplýsingaskilti og annað sem styrkt gæti útivistarsvæði bæjarbúa. Bæjaryfirvöld hafi virt þessar athugasemdir að vettugi á þeim tíma og hyggist nú framkvæma fyrsta áfanga deiliskipulagsins á þessu svæði.
Málsrök skipulags- og byggingarnefndar: Krafa Mosfellsbæjar er að hin kærða ákvörðun skipulags- og bygginganefndar verði staðfest með eftirgreindum rökum:
Hús kærenda standi við árbakka. Samkvæmt 25. gr. laga um náttúrurvernd nr. 44/1999 sé óheimilt að setja mannvirki á árbakka þannig að það hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Þar sem kærendur búi við árbakka verði þeir lögum samkvæmt að sæta umferð fólks um nágrenni húss síns og megi hér vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar í skipulags- og byggingamálum frá 29. júní 2000 í máli nr. 50/1999. Engu skipti þótt ekki sé að finna kvöð í lóðarleigusamningi kærenda er geri ráð fyrir umdeildum framkvæmdum en rétt sé að benda á að í lóðarleigusamningi kærenda við Framkvæmdarsjóð frá árinu 1994 komi fram kvöð um umgang á lóðinni.
Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 sé það hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum er varða skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum. Það verði því ekki séð að það heyri undir úrskurðarnefndina að meta hvort húsið muni rýrna að verð- og/eða notagildi. Sönnunarbyrðin um að verðgildi hússins rýrni hvíli á kærendum. Auk þess hafi þeir á engan hátt reynt að rökstyðja þessa fullyrðingu sína nánar, hvorki með matsgerð eða öðru slíku. Fullyrðing þeirra um að húsin hafi rýrnað að verð- og/eða notagildi sé því ósönnuð. Um þetta efni skírskota bæjaryfirvöld til hrd. 1961, bls. 830 og hrd. 1991, bls. 1368.
Samþykkt skipulags- og bygginganefndar sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag fyrir Álafosskvosina frá árinu 1997. Í deiliskipulaginu sé víða rætt um göngubrýr, t.d. í kafla 3.4 og 3.12. Í 12. tl. kafla 2.3 sé gerð grein fyrir því að bæta eigi við göngubrúm innan miðsvæðis til að auðvelda og dreifa gönguumferð á álagstímum. Með því að dreifa gönguumferðinni sé svæðið betur varðveitt en ella væri ef allri umferð væri beint yfir Varmá á 1-2 stöðum. Mosfellsbær meti þörfina á fjölda göngubrúa til að ná því markmiði sínu að dreifa umferð um svæðið. Bæjaryfirvöld hafi síður en svo hag af því að fjölga göngubrúm um of á svæðinu.
Kærendur hafi ekki lagt fram gögn fyrir þeirri fullyrðingu sinni að lífríki tjarnarinnar verði stefnt í hættu með fyrirhuguðum framkvæmdum. Á það er bent að tjörnin sem kærendur vísi til hafi ekki verið friðlýst. Hins vegar sé Varmá á Náttúruminjaskrá Náttúruverndarráðs svo sem fram komi í deiliskipulaginu á bls. 4. Í 5. tl. kafla 2. í deiliskipulaginu komi fram að vernda eigi bakka og lífríki Varmár. Einnig komi fram í 6. tl. í sama kafla að sérstaklega eigi að vernda einstaka umhverfisþætti, s.s. liljutjörnina. Deiliskipulagið miði því að verndun svæðisins.
Með vísan til alls framanritaðs sé ljóst að staðfesta beri ákvörðun skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000.
Niðurstaða: Íbúðir kærenda eru í húsi sem er á svæði sem gildandi aðalskipulag skilgreinir sem verslunar- og þjónustusvæði. Eins og fram er komið var samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið í desember 1997 og var samþykkt þess ekki kærð. Í deiliskipulaginu er kveðið á um hina umdeildu framkvæmd þar sem í því er gert ráð fyrir göngustíg er fer inn á lóð fasteignarinnar að Álafossvegi 20 og tengist fyrirhugaðri göngubrú yfir Varmá við húsið suðaustanvert og liggur síðan áfram handan brúarinnar um suðaustanverða lóð fasteignarinnar að Álafossvegi 22.
Í þinglýstum lóðarleigusamningi annars kærenda frá árinu 1994 vegna fasteignarinnar að Álafossvegi 20 er kvöð þess efnis að lóðarhafi þurfi að þola umferð um lóðina norðan hússins og austan, meðfram Varmá. Umdeild göngubrú liggur yfir Varmá og annar brúarendinn inn á austurjaðar lóðarinnar við árbakkann. Verður að telja umferðarmannvirki þetta falla að greindri umferðarkvöð. Þá er og sveitarstjórnum rétt að leggja á skipulagskvaðir á einstakar lóðir við gerð deiliskipulags samkvæmt 4. mgr. 23. gr., sbr. 10. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Í deiliskipulagi Álafosskvosar eru m.a. tíunduð þau markmið skipulagsins að á svæðinu verði haldnar almennar samkomur og þar verði rekin markaðs- og sýningarstarfsemi. Þar er lögð áhersla á aðgengi almennings að svæðinu og sérstaklega tekið fram að haldið skuli í þá sérstöðu svæðisins að allt útisvæði sé opinbert og almenn umferð fólks hvergi takmörkuð. Jafnframt byggir skipulagið á því að heildarsvipmót svæðisins verði verndað og m.a. tekið fram að vernda skuli lífríki og bakka Varmár auk umhverfisþátta svo sem liljutjörnina. Umdeild brúarframkvæmd þjónar því tilgangi deiliskipulagsins um aðgengi almennings um svæðið og er til þess fallin að takmarka átroðslu á viðkvæmum svæðum með því að beina umferð í ákveðna farvegi.
Það fellur utan verkahrings úrskurðarnefndarinnar að leggja mat á það hvort skipulagsákvarðanir leiði til bótaskyldu sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 8. gr. og. 3. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Verður því ekki tekin afstaða til þess hvort umdeild framkvæmd rýri verðgildi fasteigna kærenda.
Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar þar sem bygging hinnar umdeildu göngubrúar er heimiluð er því í samræmi við gildandi deiliskipulag Álafosskvosar og er liður í að ná fram þargreindum skipulagsmarkmiðum. Miðað við ákvarðaða landnotkun svæðisins í gildandi aðal- og deiliskipulagi og að teknu tilliti til umferðarkvaðarinnar í fyrrgreindum lóðarleigusamningi verður ekki fallist á að framkvæmdin gangi á hagsmuni kærenda umfram það sem þeir máttu búast við. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist verulega vegna anna nefndarinnar sem stafar af miklum málafjölda sem til hennar hefur verið skotið.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita Mosfellsbæ leyfi til byggingar göngubrúar yfir Varmá sunnan Álafossvegar 20 og Álafossvegar 22 í Álafosskvos í Mosfellsbæ.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir