Fyrir var tekið mál nr. 45/2017, kæra á ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017, um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu, fastanúmer 210-9850.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir H. J. Sveinsson ehf., Reykjavík, ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017 um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu í Borgarbyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 29. maí 2017.
Málavextir: Álagningarseðlar fasteignagjalda í sveitarfélaginu Borgarbyggð fyrir árið 2017 eru dagsettir 19. janúar 2017. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 37.700 í sorpgjald vegna fasteignar sinnar Sólheimatungu í Borgarbyggð, sem ber fastanúmerið 210-9850. Er það árgjald samkvæmt gjaldskrá vegna hvers heimilis.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að sorpgjald sé þjónustugjald og því geti Borgarbyggð ekki innheimt gjaldið þar sem þjónustan sé ekki innt af hendi. Ekki hafi verið óskað eftir slíkri þjónustu frá sveitarfélaginu og hafi hún loks verið afþökkuð og henni hætt. Þetta sýni tölvubréf sem lagt sé fram í málinu. Borgarbyggð hafi verið beðin um að fjarlægja sorpílát sem komið hafi verið með óumbeðið að Sólheimatungu og hafi ekki verið í notkun, en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni. Allt sorp frá Sólheimatungu sé keyrt til Reykjavíkur og fargað þar á kostnað eiganda fasteignarinnar.
Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá vegna þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi verið lögð fram. Álagningarseðill fasteignagjalda sé dagsettur 19. janúar 2017, en kæran sé dagsett 26. apríl s.á., eða rúmum þremur mánuðum seinna. Í 11. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð komi fram að athugasemdum vegna álagningar eða innheimtu gjalda skuli beina til sveitarfélagsins innan mánaðar. Samskonar upplýsingar komi fram á álagningarseðli. Kærandi hafi aldrei haft samband við sveitarfélagið vegna sorpgjaldsins þrátt fyrir að hafa sannanlega fengið leiðbeiningar þar um.
Í erindi kæranda sé því sjónarmiði haldið á lofti að sorpgjald sé þjónustugjald sem ekki sé hægt að innheimta í ljósi þess að kærandi nýti sér ekki sorphirðu af hálfu sveitarfélagsins. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi og þá beri sveitarstjórn jafnframt ábyrgð á flutningi hans og skuli sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til falli í sveitarfélaginu. Til að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af því að uppfylla framangreindar skyldur innheimti sveitarfélagið sorphirðugjald, sem sé lögboðið gjald, en gjaldið sé innheimt á grundvelli gjaldskrár fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1282/2016. Gjaldskráin sé sett á grundvelli samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 660/2016. Umrædd samþykkt, sem og gjaldskráin, séu settar með fullnægjandi lagastoð og á lögformlega réttan hátt og því sé eðlilegt að á þeim sé byggt við álagningu sorpgjalds í sveitarfélaginu.
Í 11. gr. áðurnefndrar samþykktar nr. 660/2016 komi fram að sveitarstjórn Borgarbyggðar skuli innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Skuli gjaldið standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við áðurnefnd lagaákvæði en gjaldið skuli aldrei vera hærra en sem nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu vegna framangreindrar starfsemi.
Mismunur á álögðum sorpgjöldum og kostnaði sveitarfélagsins af málaflokknum hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:
Ár 2016 2015 2014
Álögð gjöld 6.159.794 11.374.048 7.780.275
Kostnaður v. sorphirðu 17.344.845 19.384.898 12.962.471
Tap 11.185.051 8.010.850 5.182.196
Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að fellt verði niður sorpgjald á fasteign hans þar sem hann nýti sér ekki þá þjónustu sem verið sé að innheimta gjald fyrir. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og teljast leiðbeiningar um að athugasemdum við álagningu skuli beina til sveitarfélagsins ekki uppfylla slíka leiðbeiningarskyldu. Verður því að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið verður því tekið til efnismeðferðar.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Setur sveitarstjórn samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr., sbr. einnig þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna, sbr. lög nr. 66/2017. Borgarbyggð hefur sett sér slíka samþykkt og er hún nr. 660/2016.
Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Ákvæðinu var breytt með 11. gr. laga nr. 63/2014 um breytingu á lögum nr. 55/2003 og var heimild sveitarfélaga til innheimtu gjalds breytt í skyldu. Um nefnda breytingu segir í frumvarpi til laganna að greininni sé breytt til að uppfylla kröfu tilskipunar 2008/98/EB um að svokölluð greiðsluregla skuli vera lögð til grundvallar, en inntak hennar sé að sá borgi sem mengi. Samkvæmt 23. gr. er sveitarfélögum jafnframt heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, sbr. 3. mgr. 23. gr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.
Borgarbyggð setti, með vísan til laga nr. 55/2003, gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1282/2016, sem birt var 4. janúar 2017. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er sveitarstjórn heimilt að leggja á sérstakt sorpgjald vegna söfnunar, förgunar, móttöku og flokkunar á sorpi. Samkvæmt 2. gr. skal gjald á hvert heimili vera kr. 37.700 og skal það innheimt samhliða fasteignagjöldum. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og fullnægir gjaldið því áskilnaði áður tilvitnaðra ákvæða 23. gr. laga nr. 55/2003 og þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 59. gr. Með álagningarseðli, dags. 19. janúar 2017, var kærandi krafinn um sorpgjald fyrir heimili, en í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Sólheimatunga skráð sem jörð þar sem m.a. er að finna íbúðarhús.
Í 11. gr. samþykktar nr. 660/2016 kemur fram að innheimta skuli gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Umrætt gjald, almennt sorphirðu- og sorpeyðingargjald, skuli standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við nánar tilgreind lagaákvæði. Þá er skilgreint í 2. mgr. 2. gr. samþykktarinnar að hirðing almenns heimilsúrgangs teljist til sorpsöfnunar og að til meðhöndlunar úrgangs teljist m.a. söfnun, geymsla, pressun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting eða urðun. Í 3. mgr. 2. gr. er tekið fram að móttökustöð sé í landi Borgarbyggðar við Sólbakka í Borgarnesi og að grenndarstöðvar séu gámaplön sem starfrækt séu utan Sólbakka og sé ætlað að taka á móti úrgangi frá dreifbýli Borgarbyggðar. Loks er fjallað um fyrirkomulag söfnunar á heimilsúrgangi í 5. gr. samþykktarinnar, en samkvæmt henni er eigendum og umráðamönnum íbúðarhúsnæðis í Borgarbyggð skylt að nota þau ílát og þær aðferðir við geymslu og meðferð úrgangs sem sveitarstjórn ákveður. Í gjaldskrá nr. 1282/2016 er tiltekið að íbúar sveitarfélagsins geti komið með allt að 8 m3 af úrgangi frá heimilum á ári, á gámastöðina í Borgarnesi, án þess að þurfa að greiða fyrir.
Af gögnum málsins verður ráðið að til að koma í veg fyrir þungaakstur sorpbifreiða hefur kærandi afþakkað sorphirðu og hefur verið orðið við því af hálfu sveitarfélagsins. Kærandi tekur enn fremur fram að hann flytji sorp frá eign sinni til Reykjavíkur og fargi því þar á sinn kostnað. Hvað sem því líður stendur kæranda til boða að koma með ákveðið magn heimilisúrgangs á gámastöð í Borgarnesi án þess að sérstakt gjald komi fyrir, sem og að nýta sér grenndarstöðvar þær sem starfræktar eru í sveitarfélaginu.
Eins og lögð er áhersla á í lögum nr. 55/2003 er meðhöndlun sorps grunnþjónusta í sveitarfélagi og ber það ríkar skyldur til að tryggja að sú þjónusta sé í föstum skorðum. Þjónustan er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki, enda er sveitarfélagi beinlínis skylt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. áður tilvitnað ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003. Er og að líta til þess að almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar. Hefur Borgarbyggð ekki nýtt sér þá heimild heldur valið þá leið að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, í samræmi við skýra heimild þar um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Var sveitarfélaginu heimilt, með vísan til framangreinds ákvæðis, að haga gjaldtöku svo að um væri að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Að sama skapi gat kærandi ekki komið sér hjá greiðslu sorpgjaldsins með því að afþakka þjónustuna, jafnvel þótt sorphirðu hafi verið hætt að hans beiðni, enda stóð hún honum enn til boða með þeim hætti sem áður hefur verið lýst.
Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun Borgarbyggðar frá 19. janúar 2017, um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2017 á fasteignina Sólheimatungu, fastanúmer 210-9850, verði felld úr gildi.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson