Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2009 Láland

Ár 2009, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2009, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júní 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. J, Lálandi 19, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21.  Var afgreiðsla byggingarfulltrúa lögð fram á fundi skipulagsráðs 27. sama mánaðar og samþykkt á fundi borgarráðs 28. sama mánaðar.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en engar framkvæmir hafa hafist á grundvelli hins kærða leyfis og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda. 

Málavextir:  Í gildi er deiliskipulag Fossvogshverfis, einbýlishús, frá árinu 1968.  Í greinargerð þess á uppdrætti segir að á hverri lóð skuli reisa fjögur einnar hæðar einbýlishús sem heimilt sé að aðskilja eins og sýnt sé á mæliblaði, þannig að sérlóðarhluti fylgi hverju húsi.  Bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst því og sé æskileg staðsetning sýnd á mæliblöðum.  Þá segir ennfremur að viðhald á sameiginlegum hluta lóðar greiði lóðarhafar að jöfnu.  Árið 2000 öðlaðist gildi breyting á deiliskipulagi þessu er m.a. fól í sér stækkun byggingarreita og með ákvörðun borgaryfirvalda frá árinu 2007 var nýtingarhlutfall lóða á svæðinu heimilað 0,3. 

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. maí 2009 var eftirfarandi fært til bókar:  „Láland 17-23, nr. 21 breyta og byggja við.  Sótt er um leyfi til að byggja viðbyggingu til suðurs og til að breyta innra fyrirkomulagi og útliti einbýlishússins nr. 21 á lóð nr. 17-21 við Láland. …Stækkun: 130,9 ferm., 502,2 rúmm. … Samþykkt.“

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að húseignin að Lálandi 21 fari eftir stækkun út fyrir byggingarreit samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2000.  Að minnsta kosti sé ljóst að sorptunnugeymsla samkvæmt teikningum sé langt út fyrir byggingarreit.  Ennfremur sé ljóst að hús kæranda sé um 12 metrum vestan við byggingarreit húseignarinnar að Lálandi 21.  Í norðurkanti beggja húsanna, Lálands 19 og 21, séu núna bílskúrar sem snúi austur-vestur og snúi þeir því hvor á móti öðrum og inngangar húsanna einnig hvor á móti öðrum.  Samkvæmt fyrirliggjandi teikningum virðist ætlun byggingarleyfishafa m.a. vera að rífa núverandi bílskúr og byggja nýjan sem verði vestast í byggingarreit og snúi norður-suður í stað austur-vestur eins og nú sé.  Þannig sé verið að hverfa frá því sem fram komi á mæliblöðum um staðsetningu bílskúrs en í skilmálum framangreinds deiliskipulags segi að æskileg staðsetning bifreiðageymsla sé sýnd á mæliblaði.  Þá hafi þessar breytingar ennfremur í för með sér að húsin að Lálandi 19 og 21 muni ekki lengur snúa þannig að aðkoma þeirra sé hvor á móti annarri heldur hafi hús kæranda langhlið hins nýja bílskúrs á móti sinni aðkomu og inngangi.  Þá séu aðrar breytingar fyrirhugaðar samkvæmt teikningum svo sem að setja bílastæði þar sem áður hafi verið gróður og gras.

Framangreindar breytingar nágrannans á húseigninni, og þá einkum bílskúrs- og bílastæðabreytingin, sé kærandi afar ósáttur við þar sem hann hafi bílskúrshlið gengt aðkomu húss síns og inngangi.  Aðkoma kæranda og fjölskyldu að húsi þeirra verði mjög óskemmtileg þar sem búið sé að riðla öllu heildarfyrirkomulagi húseigna á hinni sameiginlegu lóð að Lálandi 17-23 og það orðið annað en á öðrum stöðum í götunni.  Til að mynda séu önnur hús að Lálandi öll byggð með bílskúra í austur-vestur, en ekki norður-suður.

Kærandi bendi á að húseign byggingarleyfishafa, sem og húseign kæranda og tvær aðrar húseignir, Láland 17 og 23, séu samkvæmt lóðarleigusamningum frá árinu 1974 staðsettar á einni og sömu lóðinni og sé uppdráttur viðfestur þeim samningum.  Þannig segi í lóðarleigusamningunum:  „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4342 ferm., skv. viðfestum uppdrætti“.  Leiði af meginreglum eignarréttar um sameign að byggingarleyfishafa hafi borið að óska eftir samþykki kæranda fyrir breytingum þeim sem hann hugðist gera á húseign sinni sem staðsett sé á hinni sameiginlegu lóð, sérstaklega í ljósi þess hve umfangsmiklar þær séu og feli í sér miklar breytingar sem raski hagsmunum hans. 

Ennfremur sé ljóst að hér gildi lög um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 2. mgr. 3. gr. þeirra laga segi:  „Þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri skv. 1. mgr. þá gilda ákvæði laganna eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip ef því er að skipta. Sama gildir einnig ef því er að skipta um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.“  Samkvæmt þessu gildi meginreglur 41. gr. laganna um ákvarðanatöku á hinni sameiginlegu lóð.  Þannig leiði af 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 41. gr. að til ákvarðana um byggingu, framkvæmdir og endurbætur sem hafi í för með sér verulegar breytingar á sameign þurfi samþykki allra eigenda á hinni sameiginlegu lóð, Lálandi 17-23.

Samkvæmt framangreindu skorti á að fullnægt sé lögbundnum skilyrðum um samþykki kæranda og annarra eigenda á lóðinni að Lálandi 17-23 til að framkvæmdir þær sem hér um ræði megi fara fram.  Af þessum ástæðum hafi einnig verið ólögmætt af hálfu byggingafulltrúa að samþykkja þessar breytingar, enda sé ekki fullnægt því skilyrði 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að samþykki meðeiganda liggi fyrir.  Vísist um sambærilega aðstöðu til dóms Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005.  Samþykktin sé því ólögmæt og beri að fella hana úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er hafnað þeim fullyrðum kæranda að atriði í hinni kærðu samþykkt séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu.  Á svæðinu sé í gildi deiliskipulag um Fossvogshverfi, svæði 3, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 6. febrúar 1968.  Sá hluti deiliskipulagsins sem nái yfir einbýlishúsabyggðina neðst í Fossvogi hafi verið endurskoðaður, m.a. vegna stækkunar á byggingarreitum, og öðlast gildi á árinu 2000.  Heildarskilmálum deiliskipulagsins hafi verið breytt þrisvar á síðastliðnum árum; kjallarar hafi verið heimilaðir undir einbýlishúsum á árinu 2006, nýtingarhlutfall hafi verið hækkað úr 0,24 í 0,3 á árinu 2007 og gluggar hafi verið heimilaðir á göflum raðhúsa á árinu 2008.  

Ljóst sé að húsið að Lálandi 21 muni standa að öllu leyti innan byggingarreits og sé sorptunnuskýlið ekki undanskilið.  Afmörkun byggingarreits í gildandi deiliskipulagi sé skýr og augljóst hljóti að vera, ef samþykktir uppdrættir og deiliskipulag séu borin saman, að byggingin standi að öllu leyti innan byggingarreits. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningum frá árinu 1974 sé ljóst að um sé að ræða heildarlóðina fyrir Láland 17-23 (stök nr.).  Sé þetta fyrirkomulag lóðamála ríkjandi í Fossvoginum þar sem gert hafi verið ráð fyrir fjórum einbýlishúsum innan afmarkaðra lóðarhluta auk sameiginlegrar aðkomulóðar.  Í skilmálum gildandi deiliskipulags komi jafnframt fram að heimilt sé að aðgreina lóðir þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi með limgirðingum.  Jafnframt sé nýtingarhlutfall ákvarðað sérstaklega fyrir hvern lóðarhluta og hafi verið ákvarðað 0,3 ofanjarðar með bílgeymslu eftir skilmálabreytingu árið 2007.

Með vísan til ofangreinds sé engan veginn hægt að fallast á þá málsástæðu kæranda að samkvæmt meginreglum eignarréttar um sameign hafi þurft samþykki kæranda fyrir breytingum á húsi byggingarleyfishafa.  Það sé þvert á móti álit Reykjavíkurborgar að meginreglur eignarréttar um séreign leiði til þess að byggingarleyfishafa hafi verið heimilt að ráðast í framkvæmdir sem séu í samræmi við gildandi deiliskipulag innan eigin lóðarhluta, innan byggingarreits, og í samræmi við ákvæði um nýtingarhlutfall innan lóðarhlutans. 

Fallist sé á það með kæranda að ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, þar sem fjallað sé um atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem lóð ef hún sé sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip, eigi við um hluta lóðarinnar að Lálandi 17-23, enda sé sá hluti lóðarinnar sem teljist vera í sameign sérstaklega afmarkaður í deiliskipulagi og á mæliblaði.  Hvergi komi þó fram í ákvæðum laga um fjöleignarhús að leita þurfi samþykkis allra meðeigenda fyrir öllum framkvæmdum innan sameiginlegra lóða, hvað þá innan skilgreindra sérafnotaflata.  Reykjavíkurborg fallist því á að meginreglur laga um fjöleignarhús eigi við í þeim tilfellum þar sem ráðist sé í breytingar á aðkomulóð, þ.e. þeim hluta hennar sem afmarkaður sé í gildandi deiliskipulagi/skýringarmynd sem sameiginlegur flötur, ætlaður fyrir sameiginleg bílastæði og aðkomu.  Því sé vísað á bug með öllu að þessar meginreglur eigi við um byggingarheimildir hvers lóðarhluta fyrir sig þar sem sérstakar heimildir hafi verið veittar fyrir hvern lóðarhluta.  Myndi gagnstæð niðurstaða leiða til óeðlilegrar niðurstöðu þar sem réttur meðlóðarhafa til að hafa áhrif á byggingarrétt nágranna yrði töluvert ríkari en sambærilegur réttur nágranna í fjöleignarhúsum.

Ekki sé fallist á að niðurstaða Hæstaréttar í dómi frá 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005 hafi þýðingu í máli þessu. 
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að fyrirhuguð viðbygging við Láland 21 sé innan skilgreinds byggingarreits og í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Fullyrðingar um hið gagnstæða séu beinlínis rangar.  Byggingarnefndarteikningar sem hlotið hafi samþykki byggingarfulltrúa séu í fullu samræmi við þinglýstar heimildir lóðarhafa við Láland 21 þar sem byggingarreitur sé skýrlega greindur á mæliblöðum.  Kærandi hafi engar forsendur til að fullyrða að þær mælingar séu rangar.  Fyrirhuguð sorpgeymsla sé staðsett u.þ.b. tvo metra inni á lóð þar sem nú sé garður byggingarleyfishafa og steinabeð.

Í kæru séu athugasemdir gerðar við staðsetningu bílskúrs og fundið að því að innkeyrsla í hann samrýmist ekki heildarsvip hverfisins og verði aðkoma að húsi kæranda „óskemmtileg“.  Ekki sé fallist á þetta.  Vissulega sé það algeng staðsetning bílskúra neðst í Fossvogi að inn í þá sé ekið að austan eða vestan.  Frá því séu hins vegar fjölmargar undantekningar  svo sem að Lálandi nr. 12, ein í Kvistalandi, sex í Haðalandi, fjórar í Grundarlandi, sex í Bjarmalandi og tvær í Árlandi.  Allt séu þetta götur neðst í Fossvogi sem liggi eins og Láland.  Samkvæmt þessu sé ekkert óvanalegt við að ekið sé inn í bílskúr frá suðri heldur sé það í ágætu samræmi við heildarsvip húsa á svæðinu. 

Í kæru sé á því byggt að það leiði af meginreglum eignarréttar um sameign að byggingarleyfishafa hafi borið að óska eftir samþykki kæranda um fyrirhugaða breytingu og að slíkt samþykki sé forsenda fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Rökstuðningur og lagatúlkanir kæranda um þessi efni fái ekki staðist.  Lóðin nr. 17-23 við Láland sé ekki sameign byggingarleyfishafa, kæranda og annarra sem þar búi.  Hún sé eign Reykjavíkurborgar og hafi verið leigð húseigendum lóðarinnar til 75 ára.  Í þinglýstum heimildum séu skýrlega tiltekin mörk hverrar lóðar fyrir sig og í upphafi tilgreindur sá byggingarreitur sem tilheyri hverri lóð.  Hver lóðarhafi greiði leigu af sinni lóð samkvæmt sérstökum lóðarleigusamningi.  Þótt lóðin sé óskipt hafi ótvírætt verið tilgreindur aðskilinn réttur fjögurra lóðarhafa til ráðstöfunar á hverri lóð um sig.

Dómur Hæstaréttar sem kærandi vísi til hafi enga þýðingu við úrlausn þessa álitaefnis þar sem ekki sé hér um sameign að ræða.  Af sömu ástæðu sé tilvísun kæranda í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga marklaus. 

Þá vísi kærandi til ákvæða laga um fjöleignarhús og telji að af þeim leiði að leita hafi átt eftir samþykki kæranda fyrir útgáfu byggingarleyfis.  Ekki sé fallist á það með kæranda að lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús eigi við um ágreining þann sem hér sé til úrlausnar.  Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna gildi þau um fjölbýlishús með íbúðum og raðhús og önnur sambyggð eða samtengd hús.  Í 2. mgr. 3. gr. laganna, sem kærandi vísi til, sé gert ráð fyrir því að lögin gildi „… eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru …“.  Þótt ekki sé fallist á það með kæranda að lóðin sé sameign byggingarleyfishafa og annara húseigenda á lóðinni, kunni að vera að fjöleignarhúsalögum verði beitt um tiltekin ágreiningsefni aðila sem upp komi og varði sameiginleg málefni lóðarhafa.  Rétt sé hins vegar að huga að skýru orðalagi tilvitnaðs ákvæðis sem merki að lögin taki til þeirra málefna sem sameiginleg séu og þeirra aðeins.  Í því felist m.a. að leigjendur lóðanna nr. 17-23 við Láland þyrftu að standa sameiginlega að ákvörðun um endurnýjun á skolplögnum sem liggi á sameiginlegu svæði, verða sammála um nýtingu bílastæða á sameiginlegu svæði, kosta lýsingu eða sjómokstur á því og svo framvegis.  Það sé fráleit túlkun á ákvæðum fjöleignarhúsalaga að þau taki almennt til hagnýtingar húseigenda á lóðum undir einbýlishús þeirra.  Það sé beinlínis tilgangurinn með skiptingu lóðarinnar að Lálandi nr. 17-23 og annarra sambærilegra lóða í Fossvogi í tiltekna byggingarreiti að afmarka nýtingarrétt hvers lóðarhafa um sig, þar með talið byggingarrétt.  Af þessu leiði að ákvæði laga um fjöleignarhús taki ekki til lögmætrar hagnýtingar byggingarleyfishafa á lóð sinni innan skilgreinds byggingarreits og staðfest sé með útgefnu byggingarleyfi. 

Andsvör kæranda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa:  Kærandi bendir á að af hálfu Reykjavíkurborgar sé því haldið fram að aðeins hluti af hinni umræddu lóð sé sameiginlegur en aðrir hlutar í séreign.  Þetta sé beinlínis rangt enda segi í lóðarleigusamningum: „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4342 ferm., skv. viðfestum uppdrætti.“  Gildandi deiliskipulag og mæliblað, sem borgin vísi til, breyti nákvæmlega engu um þetta grundvallaratriði enda breyti hvorki skipulag né mæliblað eignarréttindum manna.

Vakin sé sérstök athygli á því að samkvæmt fundargerðum byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar hafi sl. sumar verið veitt leyfi fyrir breytingum í húseignum að Lálandi 8 og Kvistalandi 1.  Í báðum tilvikum hafi fylgt teikningum samþykki meðlóðarhafa.  Þar hafi því verið farið að lögum öndvert við það sem gerst hafi í þessu máli.

Í umsögn byggingarleyfishafa sé fullyrt að það séu fjölmargar undantekningar frá þeirri reglu að bílskúrar neðst í Fossvogi snúi til vesturs eða austurs.  Um þetta sé það að segja að í Fossvogi standi einbýlishús í aftari röð, á sameiginlegri lóð ofan götu, nær hvort öðru en fremri húsin á lóðinni.  Í vestanverðum Fossvogi sé annað skipulag á bílskúrsmálum aftari húsanna ofan götu en í Lálandi, sem sé í austanverðum Fossvogi.  Í vestanverðum Fossvogi snúi bílskúrar beggja húsa eins og opnist til suðurs, en inngangur húsanna sé þá oftast einnig til suðurs og snúi ekki móti bílskúrshlið nágrannans.  Þetta skipulag bílskúrsmála í vestanverðum Fossvogi sé byggingarmálum í Lálandi óviðkomandi.  Í Lálandi hafi öll 24 húsin verið byggð með bílskúra sem snúi móti austri og vestri.  Í algjörum undantekningartilfellum, þó ekki í Lálandi, séu bílskúrar í aftari húsaröð sömu lóðar ofan götu byggðir þannig að annar snúi til suðurs en hinn til austurs eða vesturs.  Í þeim tilfellum sé aðkoma að því húsi sem hafi bílskúr og inngang til austurs eða vesturs mjög óskemmtileg þar sem hún snúi að bílskúrshlið nágrannans.  Hugsanlegt sé að í þessum tilfellum sé ekki um upphaflegar bílskúrsbyggingar að ræða heldur síðari tíma viðbyggingar.

Í umsögn borgarinnar sé ekki fallist á sjónarmið kæranda um að umræddar breytingar séu umfangsmiklar.  Kærandi standi aftur á móti fast á því að breytingarnar séu verulega umfangsmiklar.  Þannig feli byggingarleyfið í sér að hús sem sé fyrir um 150 m² að stærð sé stækkað um 130 m².  Bílskúr sé brotinn niður og byggður nýr með opnun til suðurs.  Sorptunnugeymsla sé byggð utan byggingarreits.  Garðinum, sem snúi að nágrönnum, sé að töluverðum hluta breytt í bílastæði.  Viðbygging sé töluvert hærri en byggt hafi verið í Fossvogi og þakkantur eldri hluta hússins hækkaður til samræmis, en þakkantur hafi aðeins mátt vera að hámarki 50 cm samkvæmt byggingarskilmálum frá 1973.  Þar að auki sé húsið að mestu endurbyggt innanstokks.

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009, sem staðfest var á fundi borgarráðs 28. sama mánaðar, um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21. 

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir einbýlishúsahverfið neðst í Fossvogi.  Samkvæmt því er heimilt að byggja fjögur einbýlishús á hverri lóð.  Með breytingum á deiliskipulaginu á árunum 2000 og 2007 var nýtingarhlutfall hækkað í 0,3 og byggingarreitir stækkaðir.  Í deiliskipulagi þessu segir um bílskúra að æskileg staðsetning þeirra sé sýnd á mæliblöðum.  Verður að skilja orðalag þetta svo að mæliblöðin séu aðeins leiðbeinandi, en ekki bindandi, um staðsetningu bílskúra innan lóðar og er því ekkert í deiliskipulaginu sem kemur í veg fyrir að bílskúr byggingarleyfishafa snúi norður-suður en ekki austur-vestur eins og þó er algengast á svæðinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum rúmast fyrirhuguð viðbygging við húsið að Lálandi 21 innan byggingarreits.  Um sorpskýli á lóðum sérbýlishúsa gilda ákvæði gr. 84.2 og 84.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem gert er ráð fyrir að slík skýli séu umfangslítil mannvirki, staðsett innan lóðar, og verður ekki séð að áskilið sé að staðsetning þeirra að öðru leyti sé ákvörðuð í deiliskipulagi.  Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á að hin kærða samþykkt sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er heimilt að byggja fjögur einbýlishús á hverri lóð.  Í greinargerð deiliskipulagsins sem er á uppdrætti þess, segir og að heimilt sé að aðgreina lóðirnar eins og mæliblað sýni þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi.  Þá segir einnig að standsetningu og viðhald á sameiginlegum hluta lóðar greiði lóðarhafar að jöfnu, svo og gerð gangstíga og lýsingu.  Með breytingu á skilmálum deiliskipulagsins á árinu 2000 var sérstaklega tilgreint að við útreikning nýtingarhlutfalls skyldi miða við að hver lóðarhluti væri einn fjórði af heildarstærð lóðar.  Í samhljóða lóðarleigusamningum fyrir lóðirnar nr. 19 og 21 við Láland frá árinu 1974 segir að um sé að ræða leigusamning um lóð til íbúðarbyggingar og sé hvorum leigutaka leigð ein tilgreind lóð, annars vegar nr. 19 og hins vegar nr. 21.  Í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 19 segir ennfremur:  „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4323 ferm., skv. viðfestum uppdrætti.  Lóðin Láland nr. 19 er hluti af þeirri lóð.“   Samhljóða ákvæði er í samningi um lóðina nr. 21 við Láland.  Verður að skilja tilgreind ákvæði deiliskipulags svæðisins og lóðarleigusamninga á þann veg að ekki hafi verið skylt að afla samþykkis annarra rétthafa hinnar sameiginlegu lóðar til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa. 

Samkvæmt öllu framanrituðu verður hafnað kröfu kæranda um að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________             ________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson