Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður í nefndinni.
Fyrir var tekið mál nr. 44/2004, kæra eiganda hússins að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi á synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2004, sem barst nefndinni hinn 3. s.m., kærir B, Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða.
Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hinn 21. júlí 2004.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. júlí 2004 og taki að því búnu til greina kröfu kæranda um að skjólveggir að Sefgörðum 24, sem reistir eru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, skuli rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Málavextir: Kærandi er eigandi einbýlishúss að Sefgörðum 16 á Seltjarnarnesi og mun hafa byggt húsið á árinu 1979. Þannig hagar til að vesturmörk lóðar kæranda liggja að mestu að baklóð hússins nr. 26 við Sefgarða og er lág timburgirðing milli lóðanna. Þar sem lóðir standast ekki á til fulls liggja umrædd lóðamörk einnig að baklóð hússins nr. 24 við Sefgarða á 7,5-8 metra bili til norðurs frá suðvesturhorni lóðar kæranda. Við upphaflegan frágang lóðar sinnar setti eigandi Sefgarða 24 niður nokkrar trjáplöntur á lóðamörkum þar sem lóð hans liggur að lóð kæranda en reisti síðar allháan skjólvegg úr timbri inni á lóð sinni, samsíða mörkum lóðanna, en í um það bil 30 cm fjarlægð frá þeim. Kveður eigandi Sefgarða 24 þennan vegg hafa verið reistan á árinu 1979 en kærandi telur það hafa verið nokkru seinna, líklega einhvern tímann á árabilinu 1982 til 1984. Eftir að umræddur veggur var reistur hefur eigandi Sefgarða 24 ekki getað komist um lóð sína að trjám þeim er hann hafði sett niður á lóðamörkum þar sem skjólveggurinn skilur ræmu þá er þau standa á frá lóðinni. Kærandi kveðst hafa krafist lagfæringar á þessum frágangi fljótlega eftir að skjólveggirnir hafi verið reistir en á þeim tíma hafi hann ekki búið í húsi sínu heldur hafi það verið leigt út. Hann hafi flutt í húsið á árinu 1991 og hafi ári síðar ítrekað kröfur sínar um úrbætur við byggingarfulltrúa. Hafi honum þá verið tjáð að ekkert væri hægt að aðhafast í málinu, en við endurgerð skjólveggjanna skyldu þeir reistir í samræmi við gildandi reglur. Kveðst kærandi hafa sæst á þetta að svo stöddu. Hann kveðst hafa ítrekað kröfur sínar við byggingarfulltrúa á árinu 1994.
Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, til byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar, kom kærandi á framfæri þeirri skoðun sinni að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir væru farnir að sveiflast óeðlilega mikið í hvassviðrum. Með vísan til þessa krafðist kærandi flutnings og rétts frágangs á skjólveggjunum til samræmis við gildandi reglur, ef byggingarnefndin teldi að skjólveggirnir væru ekki reistir í samræmi við lög og reglur, sem hefðu gilt og giltu um slík mannvirki. Ennfremur krafðist hann þess að trén á lóðamörkunum yrðu fjarlægð, svo ganga mætti þannig frá lóðamörkum að möl og annað lauslegt skriði ekki stöðugt inn á lóð hans. Hafa deilur staðið milli eigenda fasteignanna að Sefgörðum 16 og 24 um skjólvegg þennan frá þessum tíma og hefur úrskurðarnefndin m.a. kveðið upp þrjá úrskurði, í málum nr. 23/2000, 18/2002 og 49/2002, vegna þessa ágreinings. Hafa hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi í tveimur þessara mála en hinu þriðja var vísað frá úrskurðarnefndinni.
Eftir að seinni efnisúrskurður úrskurðarnefndarinnar gekk, í byrjun september 2003, var kæranda tilkynnt að skipulags- og mannvirkjanefnd myndi endurupptaka mál hans og að við málsmeðferðina yrði stuðst við upphaflegt erindi hans frá 2. júlí 1999. Jafnframt var eiganda Sefgarða 24 kynnt þessi ákvörðun og honum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum sínum við framkomnar kröfur til skipulags- og mannvirkjanefndar.
Með bréfi til skipulags- og mannvirkjanefndar, dags. 23. febrúar 2004, kom kærandi á framfæri við nefndina athugasemdum við sjónarmið eiganda Sefgarða 24 í málinu og ítrekaði jafnframt kröfur sínar og málsástæður. Áréttaði kærandi í lok bréfs síns að hann krefðist þess sem endranær að skjólveggirnir Sefgörðum 24, sem reistir væru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, yrðu rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá væri þess og krafist að trjágróður á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 yrði fjarlægður.
Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. júlí 2004 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu og eftirfarandi bókað af því tilefni: „Lögð fram greinargerð bæjarlögmanns um Sefgarða. Í samræmi við greinargerðina er það ákvörðun nefndarinnar að hafnað er kröfu eiganda Sefgarða 16 um að eigandi Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja girðingu á mörkum lóðanna Sefgarða 16 og 24. Eiganda Sefgarða 24 ber að fjarlægja gróður á lóðamörkum utan girðingar.“
Kærandi hefur skotið synjun skipulags- og mannvirkjanefndar um að eiganda Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á lóðarmörkum lóðanna nr. 16, 18 og 24 við Sefgarða til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. Af hálfu eiganda Sefgarða 24 hefur komið fram að hann uni ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að fjarlægja skuli gróður á lóðamörkum, utan girðingar, og kemur sá þáttur ákvörðunarinnar því ekki til umfjöllunar í málinu.
Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að hinir umdeildu skjólveggir séu byggingarleyfisskyld mannvirki og hafi verið það á þeim tíma er þeir hafi verið reistir. Fram hafi komið að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir skjólveggjunum eins og skylt hafi verið samkvæmt reglugerð sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem þeir hafi verið reistir, sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 11. nóvember 1999.
Þá heldur kærandi því fram að fullyrðing eiganda Sefgarða 24 um að skjólveggirnir hafi verið reistir á árinu 1979 sé röng. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 14. september 2001, komi fram að skjólveggirnir hafi verið reistir fyrir u.þ.b. 19 árum sem þýði í kringum 1982 en ekki á árinu 1979.
Kærandi leggur á það áherslu að krafa hans beinist að því að allir skjólveggirnir, þ.e. þeir sem snúi að lóðarmörkum hans lóðar sem og lóðar nr. 18, verði fjarlægðir.
Kærandi bendir á að eigandi lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða haldi því ranglega fram að hann hafi ekki vitað um neinar athugasemdir kæranda fyrr en á árinu 2000. Annað komi fram í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa frá 2. júlí 1999. Hið rétta sé að eftir að eigandi lóðarinnar nr. 24 hafi reist skjólveggina hafi hann ítrekað og í leyfisleysi farið inn á lóð kæranda til að annast tré sem hann sjálfur hafi gróðursett á lóðarmörkunum.
Kærandi mótmælir þeim skilningi eiganda lóðarinnar nr. 24 að þá fyrst hafi komið til álita að byggingaryfirvöld fyrirskipuðu niðurrif veggjanna eftir að tjón varð á honum í óveðri hinn 11. desember 2001. Þær aðstæður sem eigandi Sefgarða 24 skírskoti til hafi verið fyrir hendi allt frá því að skjólveggirnir hafi verið reistir. Þegar árið 1999 hafi kærandi vakið athygli byggingarfulltrúa á því að endurgerð skjólveggjanna væri löngu orðin tímabær vegna lélegs frágangs.
Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki fært neinar sönnur á fjárhagslegt óhagræði af því að koma skjólveggjunum í þannig horf að þeir samræmist lögum, annað hvort með endurgerð eða niðurrifi, enda séu þeir hagsmunir aldrei svo miklir að þeir víki til hliðar lögvörðum rétti kæranda.
Kærandi heldur því fram að hin kærða ákvörðun staðfesti í fyrsta lagi að eigandi Sefgarða 24 hafi girt fyrir aðgengi sitt að mörkum lóðar sinnar og kæranda. Ekki sé hægt að leggja annan skilning í ákvörðunina en að kærandi ráði nú einn frágangi lóðarmarkanna að fengnu samþykki byggingaryfirvalda.
Í öðru lagi staðfesti ákvörðunin að eigandi Sefgarða 24 hafi reist skjólveggina án leyfis byggingaryfirvalda og í andstöðu við þágildandi byggingarreglugerð. Rök Seltjarnarnesbæjar fyrir því að veggirnir fái að standa áfram séu þau að kærandi hafi sýnt af sér tómlæti og að mjög vindasamt sé á Nesinu. Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að byggingaryfirvöldum hafi frá upphafi verið rétt að leggja blessun sína yfir mannvirkið.
Í þriðja lagi staðfesti ákvörðunin að skjólveggirnir séu ekki í samræmi við núgildandi byggingarreglugerð en að við endurgerð skuli fylgt ákvæðum hennar. Nefndin taki enga afstöðu til þess fyrir hvaða tíma eða við hvaða aðstæður endurgerð eigi að fara fram. Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að skjólveggirnir, sem reistir hafi verið fyrir rúmlega 20 árum, geti staðið til frambúðar.
Í fjórða lagi staðfesti hin kærða ákvörðun að samþykkt byggingarnefndar frá 24. apríl 2002, þar sem eiganda Sefgarða 24 hafi verið gert að rífa niður eða endurgera þann hluta skjólveggjanna sem snúi að lóð kæranda, hafi verið óþarflega íþyngjandi og fái ekki staðist meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Skoðun nefndarinnar sé svohljóðandi: „Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjarins að lagfæra hann og koma honum í það horf að af honum stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til þess að krefjast þess að veggurinn yrði fjarlægður ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.“ Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að eigandi Sefgarða 24 hafi sinnt áskorunum byggingaryfirvalda og komið skjólveggjunum í ásættanlegt horf.
Í gögnum sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefndina í fyrri kærumálum vegna hinna umdeildu skjólveggja komi fram staðhæfingar hans um að ekkert samráð hafi verið haft við hann þegar skjólveggirnir hafi verið byggðir og að hann hafi mótmælt byggingu þeirra þegar í upphafi. Sjónarmið um friðhelgi einkalífsins hefðu átt að nægja til þess að byggingaryfirvöld hefðu haft afskipti af málinu. Kærandi hafi aftur á móti ákveðið að hafast ekkert að fyrr en að endurbyggingu skjólveggjanna kæmi. Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, hafi hann vakið athygli byggingarnefndar á því að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir sveifluðust mikið í hvassviðrum. Því stæðu einnig öryggissjónarmið til þess að taka ætti kröfu hans til greina.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að skjólveggir þeir sem hér um ræði hafi eigandi Sefgarða 24 reist umhverfis bakgarð sinn á árinu 1979. Lóðir húsanna að Sefgörðum 16 og 24 skarist á 7,5 – 8 metra kafla en að öðru leyti snúi þessir skjólveggir að öðrum aðliggjandi lóðum. Ekki liggi fyrir umboð í málinu frá eiganda Sefgarða 26 til kæranda þess efnis að hann fari með hagsmuni hans í þessu máli og hafi sá aðili ekki óskað eftir samaðild í málinu, og sé ekki unnt að verða við kröfu kæranda varðandi þá eign.
Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki leitað heimildar byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi fyrir skjólveggjunum þegar þeir hafi verið reistir, sem þó hafi verið skylt á þeim tíma, sbr. þágildandi byggingarreglugerð nr. 292/1979, gr. 5.11. Byggingaryfirvöld hafi látið það átölulaust þótt veggurinn risi enda hafi þau alla jafna á þeim tíma heimilað eigendum fasteigna að reisa girðingu umhverfis lóðir sínar, jafnvel þótt hæð þeirra færi yfir þau mörk sem sett hafi verið í þágildandi byggingarreglugerð (einn metri). Ástæða þessa hafi verið sú að á Seltjarnarnesi sé mjög vindasamt sem kunnugt sé og skilningur hafi verið hjá byggingaryfirvöldum á því að íbúarnir reyndu að skapa sér skjól. Þetta hafi þó verið háð því að eigendur aðliggjandi lóða hafi ekki gert við það athugasemdir.
Enginn eigenda aðliggjandi lóða hafi gert athugasemd við umræddan skjólvegg þegar hann hafi verið reistur og aldrei síðan, fyrr en erindi kæranda hafi borist þáverandi byggingarnefnd með bréfi, dags. 2. júlí 1999, um 20 árum eftir að skjólveggurinn hafi verið reistur. Því verði að telja að kærandi hafi á sínum tíma samþykkt skjólvegginn og hann geti ekki svo löngu síðar krafist þess að hann verði fjarlægður af þeirri ástæðu að hann samrýmist ekki ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar. Það sé hins vegar jafn augljóst að þegar komi að endurnýjun skjólveggjarins þá verði það ekki gert nema að gætt verði ákvæða núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. 67. gr., en þar sé mælt fyrir um samþykki byggingarnefndar og eigenda aðliggjandi lóða fyrir girðingu á mörkum lóða.
Með tilliti til þessa, verði að telja að eigandi skjólveggjanna hafi haft heimild til þess að lagfæra veggina eftir tjón sem varð á þeim í hvassviðri aðfararnótt 11. desember 2001. Skipulags- og mannvirkjanefnd telji að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjanna að lagfæra þá og koma í það horf að af þeim stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til að krefjast þess að veggirnir yrðu fjarlægðir ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.
Málsrök eiganda hússins að Sefgörðum 24: Áður en hin kærða ákvörðun var tekin leitaði skipulags- og mannvirkjanefnd eftir afstöðu eiganda hússins að Sefgörðum 24. Af hans hálfu er fyrir úrskurðarnefndinni vísað til þeirra sjónarmiða er koma fram í svari hans til skipulags- og mannvirkjanefndarinnar.
Eigandinn vísar til þess að umræddur veggur hafi staðið í u.þ.b. 21 ár án þess að nokkur maður hafi hreyft athugasemdum vegna hans. Veggurinn hafi verið reistur á árinu 1979 og hafi á þeim tíma verið í fullu samræmi við byggingarreglugerð. Eigandinn leggi á það áherslu, að hann hafi ekki heyrt um neinar athugasemdir frá kæranda varðandi skjólveggina fyrr en á árinu 2000. Hann geti hins vegar ekki vitað um það, hvað kæranda og öðrum mönnum hafi farið á milli, þ.m.t. byggingarfulltrúa eða byggingaryfirvöldum, en honum hafi aldrei verið gert viðvart um neinar kvartanir eða athugasemdir varðandi þennan skjólvegg fyrr en á árinu 2000.
Eftir óveður sem gengið hafi yfir Seltjarnarnes hinn 11. desember 2001, hafi skemmdir orðið á skjólveggnum, og í framhaldi af því hafi byggingarfulltrúi komið á staðinn og skoðað umræddan vegg. Í fundargerð byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002 sé m.a. haft eftir byggingarfulltrúa að hann hafi daginn eftir umrætt óveður skoðað skjólvegginn og að hann hafi lagt að eiganda veggjarins að nota tækifærið og fjarlægja hann. Síðar segi í fundargerðinni: „Ekki féllst eigandinn á það, heldur myndi hann ganga tryggilega frá veggnum til bráðabirgða og rífa hann í sumar og endurbyggja.“ Þessari fullyrðingu sé mótmælt af hálfu eiganda hússins að Sefgörðum 24 enda sé hún í mótsögn við önnur gögn sem fyrir liggi í málinu.
Eigandi hússins nr. 24 við Sefgarða heldur því fram að hann hafi aldrei fengið kröfur eða tilmæli frá byggingaryfirvöldum á Seltjarnarnesi þess efnis að hann breytti umræddum skjólveggjum eða fjarlægði eftir óveðrið í desember 2001. Hann hafi hins vegar látið gera við skemmdir á þeim þannig að ekki væri hætta á að sams konar veður mundi aftur valda tjóni. Þetta hafi hann gert eftir að hafa ráðfært sig við umhverfisverkfræðing.
Því sé harðlega mótmælt að skemmdir á skjólveggjunum hafi orðið slíkar í óveðrinu 11. desember 2001 að skapast hafi skilyrði til þess að skylda eiganda hússins nr. 24 við Sefgarða til að rífa veggina eða gera á þeim breytingar þannig að þeir yrðu í samræmi við skilyrði byggingarreglugerðar sem tekið hafi gildi 19 árum eftir að veggirnir hafi verið byggðir. Gerð veggjanna sé óbreytt frá því þeir fyrst hafi verið reistir að öðru leyti en því að þeir hafi verið styrktir. Gagnvart kæranda séu veggirnir nákvæmlega eins og þeir hafi alltaf verið. Engin skynsamleg ástæða sé því til að hrófla við veggjunum, en slíkum tilfæringum myndi fylgja verulegur kostnaður. Sé þess krafist að við ákvörðun í málinu verði litið til hagsmunamats, þ.e. hverju það varði kæranda að fá veggjunum breytt og hvað slík ákvörðun myndi þýða fyrir eiganda fasteignarinnar nr. 24 við Sefgarða.
Minnt sé á að lóðirnar nr. 16 og 24 við Sefgarða liggi aðeins saman að hluta, en lóðin nr. 24 liggi einnig að lóðunum nr. 18, nr. 22 og nr. 26. Skjólveggirnir umlyki alla baklóð hússins nr. 24. Lengd skjólveggjarins á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 sé aðeins 7,5 m. Enginn eigenda fasteignanna nr. 18, 22 og 26 við Sefgarða hafi nokkru sinni kvartað yfir veggjunum.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi við meðferð fyrra kæumáls um margnefnda skjólveggi.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 verði gert að fjarlægja skjólveggi að Sefgörðum 24, sem hann mun hafa reist við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26. Ágreiningur er í málinu um hvenær umræddir veggir hafi verið reistir en af málsgögnum verður ráðið að það hafi í fyrsta lagi getað verði á árinu 1979 en að kærandi telji það hafa verið á árabilinu 1982 til 1984. Ekki nýtur gagna um það hvenær kærandi gerði fyrst athugasemdir við byggingaryfirvöld eða eiganda skjólveggjanna um byggingu þeirra en formleg krafa um afskipti byggingaryfirvalda af veggjunum kom fyrst fram af hálfu kæranda í bréfi hans til byggingarnefndar, dags. 2. júlí 1999, en þá voru liðin að minnsta kosti full 15 ár frá því veggirnir voru reistir og jafnvel allt að 20.
Af hálfu kæranda hefur aðeins að takmörkuðu leyti verið vísað til réttarheimilda til stuðnings kröfugerð hans en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann telji annars vegar hægt að reisa kröfu um brottnám skjólveggjanna á þeirri forsendu að gerð þeirra hafi verið byggingarleyfisskyld framkvæmd gerð í óleyfi og hins vegar að ástand þeirra hafi verið orðið með þeim hætti að tjón hafi getað hlotist af. Tilvist veggjanna gangi gegn lögvörðum eignarrétti, friðhelgi og grenndarrétti kæranda og eigi hann rétt á að veggirnir verði fjarlægðir eða endurgerðir í samræmi við ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Fallast má á með kæranda að byggingarleyfi hefði þurft fyrir hinum umdeildu skjólveggjum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum, sem í gildi var er veggirnir voru reistir, og að gerð þeirra hafi því verið ólögmæt. Þrátt fyrir þetta verður ekki fallist á að kærandi geti nú krafist brottnáms veggjanna á þeirri forsendu að þeir hafi á sínum tíma verið reistir án heimildar byggingaryfirvalda. Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarnefnd að vísu ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta, en vandséð er að heimildarákvæði þessu verði beitt um minni háttar mannvirki sem reist hefur verið löngu fyrir gildistöku laganna. Koma þar bæði til sjónarmið um tómlæti og þær skorður sem við því eru reistar að lagaheimildum um þvingunarúrræði f þessu tagi verði beitt með afturvirkum hætti. Var og í eldri byggingarlögum gert ráð fyrir því að leitað væri dóms um heimild til að grípa til úrræða vegna óleyfisframkvæmda, en aldrei mun hafa verið leitað atbeina dómstóla til að koma fram kröfu um brottnám skjólveggja þeirra sem um er deilt í málinu. Telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi af framangreindum sökum ekki getað krafist atbeina byggingaryfirvalda á árinu 1999 eða síðar til að fá veggina fjarlægða með vísan til þess að um óleyfisframkvæmd hafi verið að ræða. Þykir að auki mega líta til þess í þessu sambandi að leyfi til byggingar girðinga á lóðamörkum var ekki háð samþykki beggja lóðarhafa á þeim tíma þegar veggirnir voru reistir.
Samkvæmt 4. málsgrein 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta byggingaryfirvöld lagt fyrir eiganda mannvirkis að bæta úr því sem áfátt kann að þykja varðandi ástand mannvirkja eða ef af þeim er talin stafa hætta. Er unnt að grípa til aðgerða samkvæmt 57. grein laganna til að knýja fram úrbætur sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt. Á byggingarfulltrúi, samkvæmt ákvæðinu, mat um það hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi sem í ákvæðinu er lýst. Hefur byggingarfulltrúi metið það svo að ekki stafi hætta af umræddum skjólveggjum. Hefur því mati ekki verið hnekkt og þykir ekki ástæða til endurskoða matið. Verður því lagt til grundvallar að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður er leiða eigi til þess að byggingaryfirvöld knýi á um brottnám eða endurgerð margnefndra veggja. Verður kröfu kæranda um brottnám veggjanna með tilliti til öryggis því hafnað.
Í hinni kærðu samþykkt er ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um brottnám skjólveggja á mörkum lóðanna nr. 18 og 26 við Sefgarða. Má fallast á með skipulags- og mannvirkjanefnd að ekki hafi verið efni til að taka afstöðu til þessara liða í kröfugerð kæranda, enda áttu lóðarhafar nefndra lóða enga aðild að málinu og höfðu ekki heldur veitt kæranda umboð til neinnar kröfugerðar í þessu efni. Verður ekki heldur séð að kærandi hafi átt lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi skjólveggi á mörkum þessara tilgreindu lóða og lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða. Verður það því ekki látið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar þótt ekki hafi verið tekin afstaða til þessara kröfuliða við úrlausn málsins.
Eins og að framan er rakið féllst skipulags- og mannvirkjanefnd á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 yrði gert að fjarlægja trjágróður á lóðamörkum utan skjólveggjanna og unir hann þeirri ákvörðun. Þykir því, með hliðsjón af því sem að framan er rakið, mega staðfesta ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. júlí 2004 í málinu í heild sinni og verður kröfum kæranda um ógildingu tilgreindra þátta hennar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 varðandi skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða á Seltjarnarnesi.
___________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Sesselja Jónsdóttir