Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2005 Norðurbakki

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 18. janúar 2005 um að heimila niðurrif nokkurra mannvirkja við Vesturgötu og Norðurbakka Hafnarfirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2005, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2005 að heimila Norðurbakka ehf. Strandgötu 6, Hafnarfirði, niðurrif á húsunum við Vesturgötu 9-13 (áður Bæjarútgerðin), Vesturgötu 15 (áður Norðurstjarnan), Norðurbakka 4a (vigtarhús og vigtarþró), Norðurbakka 8 (áður vöruskemma og hafnarskemma ásamt vélaverkstæði) og Vesturgötu 19 (áður vöruskemma). 

Krefst kærandi þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir við niðurrif húsanna verði stöðvaðar meðan beðið sé niðurstöðu um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu bæjaryfirvalda til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda við niðurrif greindra mannvirkja en athugasemdir eða umsögn af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist en upplýst var, er haft var samband við bæjaryfirvöld vegna stöðvunarkröfunnar, að framkvæmdum við niðurrif hafi þá verið að mestu lokið.  Gögn vegna málsins bárust frá bæjaryfirvöldum hinn 24. maí sl.  Ekki hefur tekist að hafa samband við byggingarleyfishafa.  Verður málið nú tekið til úrskurðar hvað varðar kröfu kæranda um um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Svæði það sem umræddar byggingar standa á mun hafa verið hafnarsvæði en í húsi kæranda að Vesturgötu 4 er rekinn veitingastaðurinn A. Hansen.

Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 sem fólst m.a. í því að meginhluti hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði.  Þá samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005 nýtt deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði er fól í sér breytingu á landnotkun úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði með þjónustu- og stofnanalóð.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí sl.

Á kynningartíma deiliskipulagsins gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu og taldi hana fara of nærrri fasteign hans þar sem færi fram veitingastarfsemi sem færi alls ekki saman við fyrirhugaðar íbúðarblokkir í næsta nágrenni.

Með bréfi, dags. 21. mars 2005, skaut kærandi ákvörðun um fyrirhugaðar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar og öll byggingarleyfi felld úr gildi.  Voru sömu sjónarmið tíunduð til stuðnings kröfunni og sett höfðu verið fram af kæranda við kynningu deiliskipulagsins en til viðbótar bent á að öll bílastæði við veitingastað kæranda ættu að víkja samkvæmt skipulaginu og taldi hann jafnframt ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð skipulagstillögunnar.

Upplýst var á þessum tíma að umdeilt deiliskipulag hafði ekki tekið gildi og engin byggingarleyfi fyrir nýjum byggingum höfðu verið veitt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.

Með bréfi, dags. 10. maí sl., kærði síðan kærandi veitt byggingarleyfi fyrir niðurrifi húsa á Norðurbakka og krefst hann ógildingar byggingarleyfisins og að framkvæmdir verði stöðvaðar við niðurrif umræddra mannvirkja svo sem að framan greinir. 

Bendir kærandi á að athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ en hann eigi beinna hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdirnar.  Byggir kærandi kröfu sína á því að skipulagslegum aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar sé í ýmsu áfátt og brjóti gegn 10., 13., 14. eða 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telur kærandi að umdeilt niðurrif hafi ekki verið grenndarkynnt en hann hafi gert athugasemdir við þá aðgerð, þar sem lagfæringar og frágangur eftir niðurrifið samræmist ekki kröfum hans né kröfum þeim sem miðbæjarsamtök Hafnarfjarðar hafi sett fram.

Niðurstaða:  Með gildistöku aðalskipulagsbreytingar hinn 26. janúar 2005 mun svæði því, sem umdeilt byggingarleyfi tekur til, hafa verið breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði.  Niðurrif atvinnumannvirkja á sér því stoð í gildandi aðalskipulag. 

Er krafa kæranda barst úrskurðarnefndinni munu framkvæmdir við niðurrif umræddra mannvirkja hafa verið nokkuð á veg komnar og hefur í dag verið staðfest af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði að verkinu sé að mestu lokið en unnið er að frágangi og hreinsun svæðisins.

Þar sem verkinu er nú að mestu lokið og framkvæmdin þykir auk þess ekki þess eðlis að varði kæranda miklu eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda er hafnað.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Sesselja Jónsdóttir