Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2001 Þórsgata

Ár 2002, fimmtudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2001, kæra íbúa og eigenda íbúða að Lokastíg 2 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. ágúst 2001 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu að Þórsgötu 1, Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 28. september óskaði Örn Sigurðsson arkitekt f.h. G og S, íbúa og eigenda íbúða að Lokastíg 2 í Reykjavík, eftir því að kærufrestur vegna byggingarleyfis að Þórsgötu 1 í Reykjavík yrði framlengdur um tvær vikur.  Erindinu var hafnað samdægurs með þeim rökum að lagaheimild skorti til lengingar kærufrests.  Síðar sama dag barst kæra, undirrituð af G og S, þar sem þær kæra þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. ágúst 2001 að heimila viðbyggingu við fasteignina að Þórsgötu 1 í Reykjavík.   Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn hinn 6. september 2001.

Skilja verður erindi kærenda á þann veg að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Hinn 27. mars 2001 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn eiganda Þórsgötu 1 um leyfi til að lyfta mæni hússins og og koma þar fyrir tveimur hótelherbergjum o.fl., auk leyfis til að byggja þrjár hæðir ofan á tveggja hæða bakbyggingu.  Var málinu vísað til Borgarskipulags til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Borgarskipulag samþykkti að grenndarkynna umsóknina og var erindið til kynningar frá 8. maí til 5. júní 2001.  Ahugasemdir bárust frá kærendum og nokkrum öðrum nágrönnum.  Málið var tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 22. ágúst 2001.  Var bókað á fundinum að nefndin gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfið yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á  umsóknarblaði.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. ágúst 2001 var samþykkt að veita umrætt byggingarleyfi og var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. september 2001.  Þessari niðurstöðu vildu kærendur ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að nýtingarhlutfall að Þórsgötu 1 verði eftir breytinguna til muna hærra en haft sé til viðmiðunar á svæðinu, skerðing verði á friðhelgi einkalífs kærenda og aukin umferð valdi aukinni mengun.  Meiri hagsmunum hafi verið fórnað fyrir minni og beri því að fella byggingarleyfið úr gildi.

Málsrök borgaryfirvalda:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. september 2002, upplýsti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að byggingarleyfishafi hefði ekki  nýtt sér byggingarleyfið og væri það því fallið úr gildi.  Teldi embættið því ekki efni til umfjöllunar um málið nema til kæmi endurnýjun á leyfinu eða að úrskurðarnefndin tæki ákvörðun um annað.

Niðurstaða:   Samkvæmt fyrirliggjandi staðfestingu byggingarfulltrúans í Reykjavík hafa framkvæmdir ekki hafist á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.  Ákvörðun um útgáfu leyfisins var staðfest í borgarstjórn hinn 6. september 2001 og er því liðið meira en ár frá útgáfu þess.  Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga fellur byggingarleyfi sjálfkrafa úr gildi hafi framkvæmdir á grundvelli þess ekki hafist innan árs frá útgáfu leyfisins.  Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt ágreiningi um útgáfu byggingarleyfis hafi verið vísað til æðra stjórnvalds, enda frestar kæra ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. 

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun úr gildi fallin.  Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hennar.  Verður kæru þeirra því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir