Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2018 Skotæfingasvæði

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2018, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 um að veita leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka, Húnavatnshreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, sem móttekið var sama dag, kæra A og Blomstra ehf., eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, auk Veiðifélags Laxár á Ásum, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 að veita Skotfélaginu Markviss á Blönduósi leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka. Kærendur krefjast ógildingar starfsleyfisins. Þá var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði formanns úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 17. apríl 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra 16. mars 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 24. september 2017, sótti leyfishafi um starfsleyfi vegna skotíþróttasvæðis í landi jarðarinnar Hjaltabakka. Hjaltabakki er innan hreppsmarka Húnavatnshrepps, en með samningi milli þáverandi landeiganda Hjaltabakka og hreppsnefndar Blönduóshrepps, dags. 21. nóvember 1931, var samið um girðingar milli Hjaltabakka og Blönduóss. Kemur fram í lið II í samningnum að spilda sú sem verði milli girðingarinnar og gildandi landamerkja heimilist Blönduóshreppi til ævarandi nota án sérstaks endurgjalds með tilteknum skilyrðum, sem lúti að því að girðingum sé haldið við. Segir í lið VI að samningurinn gildi um óákveðinn tíma og sé því óuppsegjanlegur.

Var umsóknin tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 26. október 2017 og samþykkt að auglýsa starfsleyfisskilyrði umsóknarinnar. Erindið var auglýst frá 13. nóvember til 10. desember 2017 og bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, m.a. kærendum, með bréfi, dags. 7. desember s.á. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað á fundi heilbrigðisnefndarinnar 20. desember 2017 en umsóknin síðan samþykkt á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2018. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra gaf sama dag út starfsleyfi til að starfrækja skotvöllinn og var kærendum tilkynnt um leyfið með tölvupósti 13. s.m.

Málsrök kærenda:
Á því er byggt að óheimilt hafi verið að gefa út starfsleyfi fyrir skotvellinum, m.a. þar sem leyfi landeigenda til notkunar umrædds landsvæðis fyrir skotvöll liggi ekki fyrir, lögskylt umhverfismat hafi ekki farið fram og að umdeilt sé að deiliskipulag svæðisins heimili slíka starfsemi.

Ákvæði starfsleyfisins um að innra eftirlit með starfseminni skuli vera á hendi leyfishafa sjálfs sé alls ófullnægjandi og óásættanlegt. Skýringar leyfisveitanda um að innra eftirlit snúist um skyldu rekstraraðila til að halda utan um upplýsingar, séu út í hött. Fullnægjandi skilgreiningu og upplýsingar vanti um ábyrgð leyfishafa á slysavörnum þ.á.m. hvernig leyfishafi geti staðið undir skaðabótakröfum vegna hugsanlegra óhappa eða slysa og hvaða ábyrgðartryggingu hann verði að taka. Ákvæði um að huga skuli að skotstefnu, sé ófullnægjandi með hliðsjón af öryggi nágranna og umferð. Gera verði ráð fyrir allt að 3 km skotdrægni riffla og skilgreina verði hvernig forðast eigi slysahættu. Af öryggisástæðum fyrir menn og búfé sé óforsvaranlegt að hafa skotvöll með riffilbraut þar sem skotmark liggi í beina stefnu á þjóðveg í 1.600 m fjarlægð, á veiðihús við Laxá á Ásum í 110 m fjarlægð og á næsta veiðistað við ána í 600 m fjarlægð, auk þess sem umsvifamikil hrossarækt sé í næsta nágrenni. Þá séu ákvæði um takmörkun á útbreiðslu hávaða „eins og kostur er“ ófullnægjandi þar sem ekki sé við að styðjast tiltekin viðmiðunarmörk. Hvorki sé nægjanlegt að vísa almennt og í heild til reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða né að nefna „ónæði í umhverfinu umfram það, sem eðlilegt má teljast.“

Helst komi til greina viðmiðunarmörk fyrir frístundabyggð, þ.e. að hámarki 35 dB, sbr. töflu III í viðauka við reglugerð nr. 724/2008. Jafnframt sé ákvæði um að „starfsleyfishafa er skylt að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og ónæði af völdum hávaða eða truflað umferð“ ófullnægjandi. Krefjast verði ítarlegra hávaðamælinga frá riffilskotum áður en starfsleyfi sé gefið út, sbr. 2. ml. gr. 9.3 í reglugerð nr. 785/1999. Framlögð mæling í skýrslu frá 28. mars 2017 um hávaða frá haglaskotum sé ófullnægjandi, en sýni þó að hávaði í umhverfi skotvallarins í allt að 1.450 m fjarlægð sé í nánast öllum tilvikum langt yfir viðmiðunarmörkum fyrir frístundabyggð, eða 55-85 dB. Skothríð frá rifflum sé 50% háværari en hávaði frá haglabyssum, eins og staðfest sé í áðurnefndri skýrslu.

Umtalsvert ónæði og stórkostleg slysahætta séu fyrirsjáanleg og starfsemin sé í ósátt við nágrannana Veiðifélag Laxár á Ásum og landeiganda. Orðalag um að lágmarka álag á umhverfið og halda góðri sátt við nágranna sé út í hött miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Athygli sé vakin á því að leyfisveitandi svari ekki athugasemdum um öryggismál og kröfu um skilgreiningu á leyfilegri stærð, gerð og búnaði heimilaðra skotvopna á svæðinu. Ekki sé getið um öryggisráðstafanir sem viðhafa beri á svæðinu, sbr. 5. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.

Margvíslegar upplýsingar vanti, sem fylgja skuli umsóknum um starfsleyfi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, t.d. greinargerð um áhrif losunar á umhverfið (hávaði frá starfseminni) og lýsing á mengunarvörnum. Leyfisveitanda hafi borið að vísa umsókninni frá þegar af þessari ástæðu, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Heilbrigðiseftirlitið kveður starfsemi skotvallarins vera í samræmi við gildandi skipulag. Útgefandi starfsleyfis miði við núverandi stöðu málsins, en ekki aðrar mögulegar forsendur sem kunni að breytast þegar allar kæruleiðir stjórnsýslunnar hafi verið til lykta leiddar og niðurstöður komnar í óútkljáð dómsmál.

Athugun í skýrslu, dags. 28. mars 2017, bendi eindregið til þess að ónæði vegna starfsemi skotvallarins verði óverulegt. Skotfélagið hafi haft umrætt svæði til afnota frá árinu 1989 og skotæfingar hafi farið fram í einhverjum mæli frá þeim tíma. Það að félagið fái formlegt starfsleyfi og ramma utan um starfsemina ætti frekar en ella að verða til þess að tekið verði tillit til athugasemda eða kvartana nágranna og þeirra sem telji sig starfsemina varða. Hafa beri í huga að starfsleyfi skuli endurskoða á fjögurra ára fresti og taka skuli þá tillit til þess sé ónæði eða mengun meiri en búast hafi mátt við. Vísað sé til fyrrnefndrar skýrslu varðandi þá þætti sem snúi að hávaða. Aldrei hafi borist kvörtun vegna hávaða eða ónæðis vegna starfseminnar.

Ákveðinn misskilningur komi fram í umfjöllun kærenda um túlkun ákvæða reglugerðar nr. 724/2008, þar sem vitnað sé til hámarkshljóðstyrks 35 dB í töflu III. Með gildinu LAFmax nótt sé átt við hljóðstyrk sem mælist innandyra í frístundabyggð að nóttu til. Sé farið yfir niðurstöður mælinga í áðurnefndri skýrslu frá 28. mars 2017 komi í ljós að af þremur skotum sem hleypt hafi verið af á skotvellinum, hafi tvö þeirra heyrst við veiðihúsið Ásgarð en þriðja skotið hafi ekki heyrst. Hljóðstyrkurinn í skotunum tveimur sem mældust hafi annars vegar reynst vera 37 dB og hins vegar 45 dB og útilokað sé að umrædd hljóð berist inn í veiðihúsið. Hafa beri í huga að umræddur hámarkshljóðstyrkur eigi við að nóttu til, á þeim tíma sem skotvöllurinn verði ekki starfræktur. Í skýrslunni sé fall hljóðstyrks reiknað eftir fjarlægð frá skotsvæði, bæði frá stórum rifflum og haglaskotum. Forsendur útreikninga séu að land sé slétt og hvorki hljóðmanir né niðurgrafin riffilbraut á svæðinu. Niðurstaða mælinga á hljóðstyrk sýni að hann sé lægri en útreikningar skýrslu gefi til kynna, sem skýrist af hæðarmun og að land sé ekki slétt. Reikna megi með að útbreiðsla hávaða á svæðinu muni minnka enn frekar þegar ráðgerðar mengunarvarnir, þ.e. hljóðmanir og niðurgrafin riffilbraut, verði komnar til framkvæmda.

Ekki þekkist að í starfsleyfi sé gerð krafa um ábyrgðartryggingu, enda sé ekki skýr heimild til þess nema hætta sé á mengun sjávar, sbr. lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda. Fullyrðing kæranda um innra eftirlit sé á misskilningi byggð. Ákvæði í reglugerð nr. 785/1999 skilgreini innra eftirlit þannig að það sé eigið eftirlit starfsleyfishafa með sjálfum sér. Það leysi rekstraraðila ekki undan opinberu eftirliti heldur snúist um skyldu rekstraraðila til að halda utan um upplýsingar. Krafa um innra eftirlit sé algengt ákvæði sem fram komi í fjölmörgum starfsleyfisskilyrðum fyrir mengandi- og hollustuháttafyrirtæki.

Heilbrigðiseftirlitið hafi fengið afrit af öryggisreglum skotfélagsins á svæðinu en vísi að öðru leyti til úttektar lögreglunnar um öryggismál og til reglna um meðferð skotvopna. Upplýsingar um hávaðamælingar úr fyrrnefndri skýrslu hafi verið hafðar til hliðsjónar við útgáfu starfsleyfisins. Því hafi engin ástæða verið til að vísa málinu frá á grundvelli 10. gr. reglugerðar  nr. 785/1999.

Samkvæmt lið 9.2 í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 meti leyfisveitandi hjá hverjum leita skuli umsagna. Kærandi hafi komið sínum sjónarmiðum rækilega að í leyfisveitingarferlinu. Skotvellir séu starfræktir um allt land og starfsleyfisskilyrði séu með svipuðu sniði og hið kærða starfsleyfi. Fyrrgreindar mælingar hafi legið fyrir ásamt útreikningi á hávaða frá fyrirhugaðri starfsemi og athugun heilbrigðisfulltrúa á staðháttum. Málið hafi því verið rannsakað í samræmi við 10. gr. laga nr. 37/1993 áður en starfsleyfið hafi verið gefið út.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kröfum kærenda verði vísað frá. Samkvæmt samningi frá 1931 hafi Blönduósbær full yfirráð og skipulagsrétt á umræddu svæði. Núverandi aðal- og deiliskipulag á svæðinu sé samþykkt og yfirfarið af Skipulagsstofnun.

Aldrei hafi verið kvartað yfir ónæði af starfsemi skotfélagsins í þau tæplega 30 ár sem starfsemin hafi verið á umræddu svæði. Tal um stórkostlega slysahættu af starfsemi á svæðinu sé úr lausu lofti gripið. Nægi að benda á að aldrei hafi orðið slys í tengslum við skotsvæði hérlendis í þau 150 ár sem slík svæði hafi verið starfrækt hér á landi. Skotfélagið sé með skaðabóta/ábyrgðartryggingu og svo hafi verið í fjölda ára. Skotstefna sé hvorki í átt að veiðihúsi, ánni sjálfri né jörðinni Hjaltabakka. Skotstefna vísi frá byggð á Blönduósi og ekki sé sjónlína þangað frá Laxá á Ásum.

Að nota frístundabyggð sem viðmið varðandi hljóðvist á svæðinu sé út í hött enda sé allt nærliggjandi land skilgreint sem iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagi. Orðalaginu skothríð úr stórum rifflum sé mótmælt. Hlaup á stærri rifflum hitni hratt sé skotið ört úr þeim og þau eyðileggist. Því sé það ávallt regla hjá notendum slíkra riffla að skjóta hægt og leyfa hlaupi að kólna á milli skota. Notkun hljóðdempara á stærri rifflum sé einnig orðin mjög almenn. Að lokum megi benda á að notkun lítilla riffla 22 Lr sé milli 70-80% af heildarnýtingu riffilsvæða hérlendis og ólíklegt að annað eigi við í Húnavatnssýslu.

Riffilbraut á umræddu skotsvæði sé niðurgrafin og lokuð á alla kanta en lengd hennar sé 300 m. Langdrægni þeirra riffla sem notaðir verði afmarkist af lengd brautar. Manir sem séu 3,5-4 m háar, séu meðfram hliðum brautanna og 5 m fyrir enda. Hvergi á skotsvæðum hérlendis sé jafn afmörkuð riffilbraut eða jafn háar manir. Yfirskotsvörn verði í brautinni sem komi í veg fyrir að hægt sé að skjóta yfir manir. Sambærileg yfirskotsvörn sé t.d. á skotsvæði Skotfélags Húsavíkur. Innra eftirlit leyfishafa sé í engu ólíkt því sem gerist hjá almennum rekstraraðilum þar sem skráning ýmissa efna skuli haldin og hægt eigi að vera að framvísa henni til heilbrigðisfulltrúa, sé eftir því falast.

Niðurstaða: Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur skv. viðauka I-IV hafa gilt starfsleyfi útgefið af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndum. Er í 5. gr. laganna kveðið á um að ráðherra setji reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits og skuli þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft geti í för með sér mengun, sbr. 1. tl. ákvæðisins.

Á þeim tíma er hið kærða starfsleyfi var gefið út var í gildi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en hún var felld brott með reglugerð nr. 550/2018 hinn 30. maí það ár. Var markmið eldri reglugerðar m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum fyrrgreinds atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 og í liðum 6.4-6.6 í I. viðauka með reglugerðinni var talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitti starfsleyfi fyrir. Skal heilbrigðisnefnd vinna tillögur að starfsleyfum og gefa þau út, sbr. lið 9.1 í 9. gr. Í lið 9.2 í sömu grein segir að heilbrigðisnefnd skuli leita, eftir því sem við eigi hverju sinni, umsagnar Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfróðra aðila. Rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið skuli liggja fyrir áður en umsagnar sé leitað, sbr. lið 9.3. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í ákvæðinu eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Áður en hið kærða starfsleyfi var gefið út var gerð breyting á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030, sem tók gildi 24. júlí 2017. Með breytingunni var nýtt svæði skilgreint, O11 – Skotæfingasvæði, og því breytt í opið svæði til sérstakra nota fyrir skotæfingasvæði. Samhliða var gert deiliskipulag fyrir skotæfingasvæðið sem tók gildi 27. júlí 2017. Í deiliskipulaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir að innan svæðisins verði, auk núverandi haglvallabrauta, riffilbraut og bogfimibraut. Öryggisreglur gildi á skotsvæðum Skotsambands Íslands sem séu að mestu sniðnar eftir keppnis- og tæknireglum Alþjóðaskotsambandsins (UIT). Markmið með deiliskipulagsgerðinni sé áhersla á að bæta öryggi og auka gildi svæðisins til skotæfinga. Í 5. kafla deiliskipulagsins er fjallað um umhverfisáhrif og kemur þar fram að lögð verði áhersla á að vandað verði til fyrirkomulags og frágangs skotbrauta svo starfsemin uppfylli viðmiðunargildi fyrir hljóðvist og valdi ekki ónæði í nærliggjandi byggð. Riffilbraut verði grafin niður um 2-2,5 m sunnan haglvallar og uppgröftur nýttur í tvær manir, hvor sínu megin brautarinnar og við austurenda hennar, í því skyni að draga úr hávaða sem berist frá skotsvæðinu. Breyting liggi fyrir á reglugerð þar sem opnað verði á almenna notkun hljóðdeyfa á stærri riffla sem muni hafa veruleg og jákvæð áhrif á það hljóð sem berist frá riffilbrautum. Í fylgiskjali 4 með deiliskipulaginu er fjallað um hljóðvistarkröfur og niðurstöður hljóðmælinga frá 21. mars 2017. Í þeim niðurstöðum kemur fram að við Ásgarð hafi hljóð mælst 45,0 dB frá skotstað 1, 37,0 dB frá skotstað 2, en þriðja skotið hafi ekki heyrst. Við Laxá hafi hljóð mælst 50,0 dB frá fyrsta skotstað en tvö skot hafi ekki heyrst þótt hljóðmæli væri skýlt fyrir árniði. Við Hnitbjörg, dvalarheimili aldraðra, hafi hljóð mælst 46,0 dB frá skotstað 1, 38,0 dB frá skotstað 2 og 40,6 dB frá skotstað 3. Hljóð við kirkju hafi mælst 47,0 dB frá skotstað 1 en umhverfishljóð hafi yfirgnæft skothvellina á hinum skotstöðunum. Verður að gera ráð fyrir að ofangreindar mælingar hafi verið gerðar með A-síun og því séu þær dB(A), sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða.

Viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 eru tilgreind í töflu I-III í viðauka. Í dreifbýli skal hljóð ekki fara yfir Lden 40dB(A), þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir LAeq 55 dB(A). Bent er á að reglugerðin miði við langtímamælingu en engin ákvæði séu um hámarkshögghljóð eins og skothvelli. Sænskar reglur um slík hljóð miði t.d. við 65-70 dB(A) í íbúðarbyggð á virkum dögum milli kl. 07-18, en 55-60 dB(A) virk kvöld, helgar og frídaga. Á útivistarsvæði sé miðað við 60-65 dB(A) virka daga en 55-60 dB(A) virk kvöld, helgar og frídaga.

Í greinargerð deiliskipulags svæðisins kemur fram að niðurstöður hljóðmælinga bendi til þess að raunverulegur hljóðstyrkur frá æfingaskotum sé nokkru minni en áætlað hafi verið og oftast undir viðmiðunarmörkum. Þar sem um högghljóð sé að ræða kunni skothvellir að valda öðruvísi truflun en önnur umhverfishljóð sem fólk sé vant þótt hljóðstyrkur umhverfishljóða sé stundum meiri. Miðað við niðurstöðurnar verði hljóðstyrkur frá skotæfingum ásættanlegur við Ásgarð og Laxá á Ásum þegar hljóðmanir við riffilbraut verði komnar. Æskilegt sé að draga meira úr hávaða frá skothvellum í átt að hesthúsahverfi og byggð á Blönduósi, t.d. með hljóðmön úr jarðvegi eða með trjárækt.

Líkt og bent er á í áðurgreindri skýrslu frá 21. september 2017 miðar reglugerð nr. 784/1998 við langtímamælingu og tekur því ekki sérstaklega á hámarkshögghljóðum eins og skothvellum. Mældist hljóðstig þó í flestum tilfellum innan viðmiðunarmarka samkvæmt töflum I-III í viðauka við greinda reglugerð. Þá eru og uppi í skipulagi áform uppi um að draga frekar úr áhrifum hljóðmengunar með því að grafa riffilbrautina niður og útbúa hljóðmanir. Verður samkvæmt framangreindu ekki annað séð en að skilyrðum um hljóðstyrk samkvæmt reglugerð nr. 784/1998 verði fullnægt.

Samkvæmt áðurnefndum lið 9.2 í 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 skal heilbrigðisnefnd leita umsagnar þeirra sem við á hverju sinni. Þá skal samkvæmt lið 9.3 liggja fyrir rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið áður en umsagna er leitað. Slíkt álit er ekki meðal gagna málsins, en meðal þeirra gagna sem heilbrigðisnefnd studdist við eru öryggisreglur umrædds skotsvæðis, greindar hljóðmælingar sem gerð var 21. september 2017, auk gagna frá lögreglu. Í greinargerð heilbrigðisnefndar er vísað til öryggisúttektar lögreglu en það skjal liggur ekki fyrir meðal gagna málsins. Hins vegar liggur fyrir leyfisbréf embættis lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, dags. 30. janúar 2017, sem viðurkennir æfinga- og keppnissvæði skotfélagsins. Í leyfisbréfinu, sem gildir til tíu ára, kemur fram að svæðið teljist uppfylla skilyrði IV. kafla reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. og að leyfið sé veitt með heimild í 24. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Úrskurðarnefndin hefur ekki það hlutverk að fjalla um eða leggja mat á nefnt leyfi lögreglustjórans. Verður þó ekki framhjá því litið að þar kemur fram afstaða embættisins til umrædds skotvallar sem telur svæðið uppfylla þau skilyrði sem þarf til veitingar slíks leyfis. Þá hefur umræddur skotvöllur verið starfræktur á svæðinu frá árinu 1989.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verða ekki taldir slíkir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar að raski gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 9. febrúar 2018 um að veita leyfi til að starfrækja skotvöll í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi.